Auður Ava Ólafsdóttir: Eden

 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1EEden

Ég hef ákveðið það með sjálfri mér, að hugsa og tala um bækur eins og þær séu fólk, lofa þær ekki né lasta , hvað þá afgreiða þær með innihaldslausum stigbeygðum lýsingarorðum. Ég hugsaði um þetta meðan ég var að lesa Eden, bók  Auðar Övu. Hún yljaði mér um hjartaræturnar og fann að frumurnar í heilaberkinum  stungu sér kollhnís.

Sagan er um  konu í sem er hálærð í málvísindum.  Hún hefur sótt  fyrirlestra og ráðstefnur víðsvegar í heiminum um tungumál í útrýmingarhættu. Hún kennir við Háskólann en hefur misstigið sig á framabrautinni. Átti í of nánu sambandi við nemanda sinn. Á leiðinni heim eftir ráðstefnu  um tunguál í útrýmingarhættu opnast henni ný sýn á heiminn og á lífið.  Það sem hún sjái jörðina frá geimnum og hún sér hvernig allt tengist. Fyrir  tilviljun sér auglýsingu um land og hús til sölu. Hún tekur eftir auglýsingunni af því í henni eru þrjár stafsetningavillur.

Hún þekkir til eigandans, glæpasagnadrottningarinnar, af því hún hefur lesið yfir bækurnar hennar fyrir forlagið sem hún vinnur fyrir. Þarna kemur fram þetta séríslenska fyrirbæri, allt spyrst út og allir þekkja til allra.

 Í framhaldi af þessu segir hún upp stöðu sinni í Háskólanum og hefst handa við að gera við húsið og  rækta  upp þetta hrjóstruguga land sem hún er eigandi að. Það er eins og hún hugi ekki Þetta bara gerist bara.

Þessi litla saga segir frá svo mörgu.

Við fáum að kynnast fjölskyldu hennar, móður sem er dáin og föður sem er lifandi og nágranna hans Hlyn. Hún kynnist fólkinu í nálægu þorpi og fær hlutverk við að kenna innflytjendum. Píparaarnir sem gera við lögnina hjá henni er líka útlendingar í leit að betra lífi.

Það er þó ekki þessi litla hetjusaga sem gerir þessa bók dásamlega, það er hvernig hún leikur sér með tungumálið, með orðin. Það er eins og merking fyrstu málsgreinar Jóhannesarguðspjalls,“í upphafi var orðið,“ ljúkist upp fyrir mér.

Það er furðulegt hvað rúmast í þessari litlu bók. Hún er aðeins 226 bls. og tekur 4.kls. og 43 mínútur í hlustun.

Bókin er eins og ljóð, það má lesa hana oft. Ég hef þegar lesið/hlustað á hana tvisvar.

Það er eins og að vinna stóra vinninginn í happdrætti lífsins að lesa slíka bók.


Hamingja þessa heims

3A9E38F0-98F7-4C7A-B643-57484DC71EDAHamingja þessa heims: Riddarasaga

Ég las/hlustaði á þessa bók full tilhlökkunar. Minnug síðustu Sigríðar Hagalín, Eldarnir,  vissi ég að Sigríður hefur mátt til þess að flytja lesendur milli heima. Reyndar alls ekki til betri heima .

Ekki skaðaði  að heimur/heimar  þessarar bókar eru tveir. Annars vegar sá sem  við þekkjum hér og nú, hins vegar heimur 15. aldar. Sá síðari passaði mér vel, því það er öldin sem tekur nokkurn veginn  við af Sturlungu. En Sturlunga er og hefur verið mér, nú um nokkurt skeið, bók bókanna.  

Hamingja þessa heims fjallar annars vegar um sagnfræðiprófessor á miðjum aldri,  sem hefur enn ekki tekið mark á þeim veruleika, að konur og karlar eru jafngildar persónur. Það er sem sagt mælst til þess að hann taki sér tímabundið leyfi frá störfum og honum er jafnframt útvegað  verkefni. Það er að vinna  að undirbúa stofnum fræðaseturs í Dalasýslu.Fyrir tilviljun finnur hann gamalt handrit,

skrifað af manni, Sveini Þórðarsyni,   sem tengdist hefðarfólki síns tíma, Vatnsfirðingum og Skarðsverjum. Hans saga hefst á Reynistað í Skagafirði, þar ólst hann upp hjá nunnunum eftir að hafa misst foreldra sína og systur í drepsótt. Bók Sigríðar  er að vissu leyti byggð upp eins og sagnfræðibók. Henni fylgir ættartré Skarðsverja og Vatnsfirðinga. Eins og ég áður sagði, gerist sagan á  tveim tímaplönum, í nútímanum og á 15. öld, öldinni sem svo lítið hefur verið skrifað um. Ekki vegna þess að fátt var frásagnarvert, kannski af því að það var svo mikið um að vera. Ég skoða mér til skemmtunar það sem mér var kennt í barnaskóla. Ég er  svo heppin að  eiga Íslandssögu Jónasar Jónsonar annað bindi.  Það er sagt nokkuð ítarlega frá einmitt því sem Hamingja þessa heims fjallar um, þ.e. átökum 15. aldar. Sigríður dregur þó mun meira fram  áhrif kvenna á söguna.

Mikið fæst ekki fyrir lítið

Það var talsvert verk að lesa þessa bók, e.t.v. má segja að hún sé tyrfin. Sigríður leitast við að nota málfar þessa tíma með tilheyrandi titlatogi og vísana til heilagrar Maríu og sonar hennar.Það var á vissan hátt þreytandi en sýnir vel tíðarandann.  Ég þykist vita að það verði framhald.

 Það var ekki vanþörf á fræðslu um fimmtándu öldina. Lesturinn ýtti af stað upprifjunum, hvað veit ég eiginlega um þennan tíma? Mér varð hugsað til hinnar vanmetnu Torfhildar Hólm, sem, ég las ekki fyrr en ég var komin á efri ár. Ég rifjaði einnig upp það sem ég hef lesið af bókum

Jan Guillou. Hann hefur skrifað skáldsögur um þessa tíma og um krossferðir.

Lokaorð

Ég veit ekki hvort það sé til þess ætlast af höfundi að lesandinn álykti eittvað um tímana tvo, nú og þá í þessari bók. En ég geri það alla vega. Okkur hefur farið fram. Það er meiri jöfnuður og friður nú en þá. Ég er auðvitað bara að tala um Ísland.

 

 


Gleðilegt nýtt ár


FCBB093D-1C8C-4289-AF4A-B9AE29670368Snjór

Það er drembilæti að láta sem maður geti ráðið við náttúruöflin. Einhvern veginn hefur þetta prentast inn í mig. Innst inni trúi ég því að það sé varasamt, jafnvel hættulegt að tala óvarlega  um náttúruöflin. Mér gæti hefnst fyrir það.

Ég er þó engin trúkona. Amma mín Sigurbjörg, botnaði oft ræðu sína   með setningunni,“Ef Guð lofar“.

Þess vegna  hrökk ég við þegar ég nýlega heyrði mann (ég man ekki hvern)  segja „Þetta skal ekki koma fyrir aftur“.  Umræðan snerist um færð á vegum og þó sérstaklega á Reykjanes brautinni. Stundum engu líkara en það hafi gleymst að við búum á Íslandi.

Sama gildir í umræðunni um færðina á götum Reykjavíkur að viðbættum gangstígum og hjólastígum. Færðin er nokkurn veginn í lagi fyrir venjulegt fólk en fyrir fatlaða og fólk með barnavagna er hún ómöguleg.

Þó hef ég enn ekki séð nokkurn mann með skóflu að moka.

Þetta var nöldur.

En mér tókst að stöðva mig áður en ég fór út í „Í gamla daga þegar ég var ung.“

Það finnast bækur, þar sem baráttunni við náttúruöflin er vel lýst. Þar er fyrst að telja, Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Ég man líka eftir góðum snjóköflum í bókum Jóns Kalmanns, sérstaklega í bókaflokknum sem hefst á bókinni Himinn og Helvíti.

Snjór hleypir af stað röð minninga. Já og tilfinninga. Ég hugsa um Reynistaðabræður, Harðskafa Arnaldar Indriðasonar og um afa minn Björgvin, sem beið af sér blindbyl, næturlangt upp á Reindalsheiði.

Snjórinn í Reykjavík er öðru vísi en snjór bernskunnar. Hann er ekki hreinn. Það stafar engin ógn af honum. Hann er bara fyrir. Hálkan er verri. Hún er hættuleg.

Ég fer samt daglega í gönguferðir, nota brodda og göngustafi til að auðvelda mér gönguna.

Gleðilegt ár

Þetta er fyrsti pistill minn á nýju ári. Ég vona að það verði gott en það eru blikur á lofti.


Sturlunga: Ekki jólalestur?

D893FA04-A674-4203-A84C-D66C1175F984Jólalestur?

Maður getur lesið hana oft og öðlast stöðugt nýja sýn á efni hennar. Þessari útgáfu, sem kom út 1948, stýrir Guðni Jónsson. Hún er í þremur bindum og  Guðni  skrifar einnig formála að þeim öllum.

Ég hlustaði reyndar, las ekki. Bókin,  bækurnar eru eru lesnar af Ólafi Jenssyni, ekki veit ég hvort það er læknirinn Ólafur Jensson en hann er áheyrilegur lesari. Þetta er ótrúleg bók og engin jólalesning. Hún segir annars vegar frá átökum  íslenskra „höfðingja“ og hins vegar frá þreifingum norskra konunga um að „eignast“ Ísland. Þetta vita víst allir og ekki þörf á að orðlengja það hér. En það sem mér finnst merkilegast við Sturlungu eru samskipti Íslenginga og þá fyrst og fremst valdastéttarinnar. Samkvæmt Sturlungu takast á nokkrar ættir. Þessar ættir tengjast reyndar allar.En það kemur ekki í veg fyrir ósætti og hefndaraðgerðir. Sögupersónur Sturlungu eru flestar karlkyns. Þær
konur sem nefndar eru til sögunnar fara þó með býsna stórt hlutverk ef að er gáð, svo sem Valgerður á Keldum og Þórdís Snorradóttir. Þegar ég les sögu sem þessa, finn ég þó nokkuð til fötlunar minnar, það er sjónskerðingarinnar en ákveð með sjálfri mér að velta mér ekki upp úr því að vera leshömluð á gamals aldri.

Samtímasaga?

Þegar ég les Sturlungu trúi ég hverju orði. Reyndar geri það oftast þegar ég les, það er forsenda þess að njóta bóka, held ég. Höfundur nýtir sér ýmis triks til að sagan verði trúverðug. Hann nefnir nöfn, jafnvel þótt persónan komi lítið við sögu og lýsir smáatriðum , þótt þau skipti litlu máli , samanber síðustu orð Snorra Sturlusonar, „Eigi skal höggva.“

Jólaannir

Þessi pistill ber þess merki að hann er ekki nýr. Ég hóf að skrifa hann fyrir jól en lauk honum ekki því jólaannirnar hvolfdust yfir mig.

Nú er ég að lesa jólabækur. Var að ljúka við að lesa, Hamingja þessa heims:Riddarasaga; eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Þetta er svolítið tyrfin saga, dálítið í ætt við Sturlungu. Mér fellur hún vel. Meira um hana síðar.

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Jan. 2023
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 14
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 78
  • Frá upphafi: 187192

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 64
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband