Er náttúruvend í stöðu lítilsmagnans?

D6E82D31-D10F-4C5A-BB1C-76B4EBA26A63

Frekja og yfirgangur   

Eg hef verið að reyna að slíta mig út úr andrúmslofti Sturlungu sem ég hafnaði í í friðsældinni á Flúðum (sjá fyrra blogg þar um). Það er ekki svo létt, atburðir í nútímanum kalla stöðugt fram  hliðstæður.

Ég hef um langt skeið fylgst með samskiptum virkjanasinna og náttúruverndarsinna, allt síðan í Kárahnjúkadeilunni.   Ég taldi mig ekki vera andvirkjunarsinna.

Síðan hefur margt breyst í heimi hér. Nú er vísindalega sannað að stefnubreytingar er þörf, hún er lífsspursmál.

Nú stendur deilan  um tiltölulega litla virkjun, Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. Ég hef sjálf gengið þar um slóðir, þekki til og á góðar minningar þaðan. Jafnvel draum um að endurnýja kynni mín.

En og aftur að Sturlungu.

Þegar ég var barn lærði ég  setningar utanbókar og þær sitja enn.  „Um 1120 bjó á Breiðabólsstað í Húnaþingi Hafliði Másson en Þorgils Oddason  á Staðarhóli í Dalasý. Þeir voru þá einna mestu höfðingjar í landinu“ (Íslandssaga 2. bindi, höf. Jónas Jónsson). Ekki vissi ég þá að ég ætti efir að ánetjast bókinni sem Jóna sótti þennan efnivið í.

Skjólstæðingar þeirra Hafliða og Þorgils voru Ólafur Hildisson og Már Bergþórsson. Þá greindi á,  en með þeim var lítið jafnræði. Annars vegar var lítilmagninn Ólafur Hildisson sem verið hafði fjórðungsómagi (merkilegt hugtak) eftir að faðir hans var dæmdur  skóggangsmaður.  Þá var Ólafur enn barn að aldri. Hins vegar var Már, frændi Hafliða Mássonar. Már virðist hafa verið siðlaus fantur en hann komst upp með það í skjóli þessa valdamikla frænda síns. Ólafur hallaði  sér að höfðingjanum Þorgilsi og fór, fyrir hans orð, í Ávík á Ströndum til að leita fyrir sér um vinnu.

Í Ávík bjó Hneitir bóndi ásamt konu, vinnufólki og börnum. Þetta virðist hafa verið friðsemdarfólk. Hneitir sá um reka fyrir Hafliða Másson.

Nú ætla ég að gera langa sögu stutta.  Vandræðagepillinn Már treður sér upp á þetta vammlausa fólk, greinilega valdaður af frændanum. Hann hefur keypt sér bát og vill gera út frá Ströndum. Ólafur, sem er í atvinnuleit  ræður sig á skip hjá honum. Veiðarnar gengu vel en Ólafur er hýrudreginn í lok vertíðar. Auk þessa rænir Már hann því litla sem hann átti af götum og vopnum.

Ólafur reyndi seinna að sækja mál sitt, var til þess hvattur af Þorgilsi. En eftir að vera bæði  smánaður og hunsaður af Má slæmir hann til hans öxi og særir hann, þó ekki meira en svo að delinn Már,  gat haldið áfram yfirgangi sínum.

Í framhaldi af þessu drepur hann Þorstein vinnumann Hneitis og veldur dauða Hneitis sjálfs. Áður hefur hann tekið konu og dóttur Hneitis frillutaki.

Að leita réttar síns

Eftir þessi ósköp finnst ekkjunni erfitt að leita réttar síns hjá Hafliða sem henni bar, Már var heimamaður hans og hún veigraði sér við að hitta hann fyrir.  Svo úr varð, að hún leitar til Þorgils og hann velur að borga henni bæturnar sjálfur úr eigin vasa. Vill ekki koma illu af stað. Við þetta firrtist höfðinginn Hafliði og fer af stað með málsókn út af áverka Más og vinnur málið.

Æ, æ, það er ekki hægt að endursegja Sturlungu. Ég bendi lesendum mínum á að kíkja í bókina.

Sýnidæmi

Það sem ég ætlaði að ná fram með þessu sýnidæmi, var að ef fólk er valdað af höfðingjum, kemst það upp með hvaða óþokkaskap og vitleysu sem það vill og ætlar sér.

Það er merkilegt að fylgjast með því hvernig mál hafa runnið í gegn hjá aðstandendum Hvalárvirkjunar og undarlegt að framkvæmdir skuli vera hafnar þótt enn sé mörgum málum ólokið.

Hverjum ber að valda náttúrufegurð?

Náttúruvernd á Íslandi á sér marga góða talsmenn. En þegar kemur að því að taka ákvarðanir um nýtingu auðlinda mega þeir sér oft lítils, þá er eins og rödd gróðans heyrist betur en rödd gróandans. Lengi vel var hægt að treysta því að VG gætti hagsmuna landverndar. Nú er eins og fallið hafi á þá herfjötur.

Er náttúruvend í stöðu lítilmagnans?

Myndin er af síðu í stóru kortabókinni  Ísenskur Atlas


90 sýni úr minni mínu og Tvöfalt gler:Halldóra Thoroddsen

F19C07A0-2DD9-4DAF-B0E2-E977A2CA6D49

Það er ekki ekki allskostar rétt að ég hafi einungöis lesið Sturlungu í sumarbústaðnum á Flúðum eins og ég ræddi um í síðasta pistli, ég hafði líka gripið með mér bók Halldóru Thoroddsen, 90 sýni úr minni mínu. Áður hafði ég lesið/hlustað á Tvöfalt gler efir sama höfund. Já og þar þar áður á Katrínu. Allt í öfugri röð.

Af hverju las ég þær ekki jafn óðum og þær komu út?

Fyrst nokkur orð um tvöfalt gler. 

Heillandi bók og full af visku.Hvernig geta svona mikil sannindi rúmast í svo þunnri bók? Jafnaldra mín (eða þar um bil) ályktar um lífið sem var, sem er og um framtíðina. Allt er þettta saman komið í einum punkti í huga jafnöldru minnar í sögunni. Þessi bók er heimspekileg og pólitísk um leið. Hnitmiðuð, lágstemmd og lúmskt glettin.

Ég held ég viti núna hvers vegna ég las hana ekki fyrr, bækur koma til manns þegar maður hefur þörf og þroska til að lesa þær.  

90 sýni úr minni mínu.

Þesssi bók hefur ekki verið lesin inn sem hljóðbók og þess vegna fór ég bónleið að bónda mínum og hann las hana í í litlum skömmtum. Hann les vel og það sem best var að ég held að hann hafi ekki síður notið þessara litlu frásagna sem hún kallar sýni. Mér fannst ég vera að hlusta á ljóð. Alveg ótrúlega skemmtileg bók og gefandi því hún er full af speki. Ef ég ætti sð  búa til lista yfir þjóðskáld Íslands væri Halldóra Thoroddsen ofarlega á þeim lista ásamt nöfnu sinni og ömmu.  


Sturlungaöld í uppsveitum Árnessýslu

FCD3E35C-A9EE-44BC-85E2-077F4CE1F7C6

Sturlungaöld í uppsveitum Árnessýslu

 

Síðastliðna viku dvaldi ég í sumarbústað í Árnessýslu. Nánar til tekið á Flúðum. Bústaðurinn var í eigu Verslunarmannafélagsins og ég átti mér ekki annars von en að hann væri nútímalegur í einu og öllu. Og það var, nema í einu tilliti. Það skorti nettengingu.

Og þar með var lífi mínu umturnað. Nettenging er nefnilega lífæð mín . Tengir mig  við umheiminn og að hluta til við sjálfa mig. Ég  get ekki lengur lesið bækur, ég hlusta og ég get ekki lengur lesið blöð nema á netinu.

Ég var sem sagt ekki undir það búin að vera vikulangt bóka- og fjölmiðlalaus.

Það vildi mér til happs að ég  hafði hlaðið inn nokkrum bókum fyrir ferð mína til Egyptalands í vetur og átti eina bók ólesna, Sturlungu,  öll þrjú bindin.

Bók sem endist og stenst tímans tönn

Reyndar er ekki alls kostar rétt að ég hafi ekki lesið hana áður, en þetta er bók sem maður þarf að lesa oft.

Bók Hljóðbókasafnsins er ritstýrt af Guðna Jónssyn og það er hann sem skrifar formála. Ólafur Jensson les. Hann gerir það vel. Vísur eru lesnar eins og þær standa í textanum, auk þess eru þær færðar til nútímamáls þegar þurfa þykir. Ég finn að ég sakna Svart á hvítu útgáfunnar, sem ég á heima í hillu og get ekki lengur nýtt mér. Frábær útgáfa með kortum og margvíslegum skýringum.

Með Sturlungu í eyrunum

Þessa viku í sumarbústaðnum sofnaði ég  og vaknaði við Sturlungu. Þetta er voðaleg bók og það sem gerir  hana enn hræðilegri er að maður trúir henni. Veit að svona hafi þetta verið í raunveruleikanum. Flokkar manna undir stjórn svokallaðra höfðingja þeistu um landið, drápu fólk og brenndu bæi, stálu og misþyrmdu. Höfundur eða höfundar sviðsetja viðburði og upplifun mín þarna í blómaskrúðinu og sumarnóttinni var eins og að vera á endalausri Hamlet sýningu. Kannski væri nær að tala um Macbeth.  Lúsmýið truflar ekki konu sem er að hlusta á Sturlungu.

Það sem mér finnst erfiðast að þola í bókum  og tek endalaust  inn á mig, eru misþyrmingarnar á fólki. Ég veit eki hvort reiði eða fyrirlitning skorar hærra á tilfinningaskalanum gagnvart mönnunum, sem stýra þessu. Þeir eru í senn grimmir og ómerkilegir karakterar. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hvarflar hugur minn til hrunverja okkar tíma, því allt snýst þettta um völd og peninga. Um leið finn ég til örlítils léttis, það hafa orðið framfarir hugsa ég. Á Íslandi tíðkast ekki lengur að drepa fólk eð limlesta, hvað þá nota dætur sínar sem skiptimynt við samningagerð.  Nei, ekki á Íslandi.

Það passar betur að máta hugarheim Sturlunga við alþjóðastjórnmálin. Þar bregður svo sannarlega fyrir ruddum og tuddum. Það bregst ekki að við sjáum einn eða fleiri í hverjum sjónvarpsfréttatíma.

Reyndar erum við í slagtogi með þjóð sem valdar þjóðríki, sem svífst einskis við að sölsa undir sig land annarra og þar hafa mörg börn bæði dáið og misst limi sína. Fólk er ekki aflimað handvirkt nú til dags, tæknin hefur tekið stakkaskiptum.

Svona fer hugurinn út um víðan völl eftir að hafa lesið Sturlungu  í viku.

Lokaorð

Það er alltaf  erfitt að lesa bækur þegar allir karakterar eru jafn vondir og ómerkilegir, maður finnur engan til að standa með. Þykja vænt um. Dást að. Einna helst að Guðmundur góði komi til greina eða Hálfdán á Keldum sem neitaði að fara í stríð þótt kona hans hæddi hann.  

 

 


Katrínarsaga: Halldóra Thoroddsen

F19C07A0-2DD9-4DAF-B0E2-E977A2CA6D49

Katrínarsaga

Ég var nokkurn tíma að átta mig á að ég hafði búist við allt öðru vísu sögu. Og ætla að byrja á að segja frá hvernig saga það var. Forhugmyndir eru nefnilega  merkilegt fyrirbæri og  þær  ráða oft meiru um hvað manni finnst um hitt og þetta. Stundum kallaðar fordómar.

Ég hafði búist við  minningatengdri sögu hippatímans, ef til vill uppgjöri við hann, jafnvel einhvers konar afsökun á því að hafa lifað hann, tekið þátt og verið sannfærð.

 

En Katrínarsaga er annað og meira. Vissulega er þetta saga, byggð á minningum og sagt frá lífi Katrínar og nokkurra vina hennar á tímum blómabarnanna. Sagan er sögð út frá sjónarhorni Katrínar og ósjálfrátt lokkast lesandinn  til að trúa  því að Katrín sé nátengd höfundi, jafnvel höfundurinn sjálfur.  

Ég upplifði sjálf þessa  tíma og stóð mig að því að leita að fólki sem ég þekkti meðal vina Katrínar. En það gekk ekki. Ég fann engan.Myndir af fólki birtist eins og flöktandi skuggar á vegg, einungis hugur Katrínar var skýr. 

 

Það var ekki fyrr en ég gerði mér grein fyrir því að þetta er ekki saga einstakra persóna. Ekki  harmræn ástarsaga eða saga um biturleika, þar sem fólk hefur látist blekkjast til að veðja á skakkan pólitískan hest.

Þetta er saga hugmynda. Þá fyrst þegar ég  hafði fattað þetta, naut ég lestursins .

Já,ég meira en naut, ég varð yfir mig hrifin. Saga Katrínar er sem sagt hugmyndasaga með pólitísku ívafi. Ég las og kinkaði kolli í huganum. Já svona var þetta. Já og er.

 

Það sem gerir þessa bók svo skemmtilega, er að höfundurinn er svo glögg á hvað það er sem einkennir hugmyndir og hvernig þær umbreytast í tíðaranda. Hún er svo hnitmiðuð og oft fyndin þegar hún sendir hárfín pólitísk skeyti.

Og það er ekki bara fortíðin sem fær pillur. Þær eru flestar ætlaðar okkur í samtímanum. Nú.

 

Í dag fór ég, sem þetta skrifar, á mótmælafund. Það var verið að mótmæla meðferð Íslands á börnum á flótta. Fundurinn í dag var á  vissan hátt neyðarfundur vegna fjögurra barna sem hafa dvalið hér og slegið rótum en nú hefur verið ákveðið að senda þau úr landi.  

Katrín fylgdi mér á fundinn, ég heyrði rödd hennar. Það er ekkert óvanalegt að persónur bóka dvelji með með mér nokkra hríð eftir lestur.

Í dag rifjaðist upp hugleiðingar Katrínar sem vísuðu beint inn í það sem var að gerast á fundinum.

Katrín segir að Vesturlandabúar séu í raun allir á sömu siglingunni. Á sama skemmtiferðaskipinu. Fargjöldin séu dýr og þægindin mikil . Rekstur  svona skipa er umsvifamikið verkefni.  Það þarf að nýta sér þrælavinnu í öðrum fátækari löndum í öðrum heimsálfum þar sem fólk  kann að vera fátækt. Og það þarf halda uppi hernaði.  Líka í öðrum  heimsálfum. Hernaður er svo peningaskapandi. (Þetta sem hér er haft eftir

Katrínu,  er allt rakið samkvæmt minni. Ókosturinn við hljóðbækur er að það er svo erfitt að finna tilvitnanir í textanum. Ég  biðst forláts ef rangt er með farið).

 

Saga Katrínar er perla, ég á eftir að hlusta oft á hana.

Það er Ásdís Thoroddsen sem les, hún er frábær lesari.

Katrín aðalpersóna sögunnar á eftir að ferðast með mér út ævina.  Held ég.

Það er gott að þurfa ekki að borga fargjaldið fyrir hana.  

 

 

 

 

 

 


List, haf og gróður

F364733A-270E-42D4-8B99-A35BFEFA0BBA

Það er minna en vika síðan ég hlustaði á þátt í útvarpinu um listamanninn Samúel Jónsson í Selárdal og hvernig hópur listunnenda hefur stofnað félag um viðgerð og varðveislu verkanna hans. Ég sá þessi verk fyrir löngu , þegar allt leit út fyrir að þau myndu falla fyrir tímans tönn. Og ég er innilega þakklát þeim sem hafa komið þeim til bjargar.

Mér varð hugsað til þessa í dag á göngu minni í Laugarnesinu þegar ég virti fyrir mér listaverkin við bústað Hrafns Gunnlaugssonar.  Það er eins og þau séu  að veðrast burt. Gætu ekki unnendur  frumlegra lista sameinast um að bjarga verkunum og gera þau aðgengileg.   Auðvitað  í samvinnu við listamanninn?  Það þarf að sjá til þess  að þau hverfi ekki.

Hrafn er frægur fyrir framlag sitt til kvikmyndagerðar, sú frægð kom að einhverju leyti að utan eins og frægð ýmissa annarra sem list stunda, Íslendingar eru oft hikandi í dómum sínum þegar kemur að því að meta list  og hættir til að blanda saman manninum og verkum hans. Framlag Hrafns til myndlistar er vanmetið, kannski veit hann ekki einu sinni sjálfur hversu góð verk hans eru.  

Ég vona að það sé ekki of seint að koma þeim   til bjargar.

En kannski er auðveldara að bjarga verkum dauðra listamann en þeirra sem enn lifa.

Eftirmáli með efasemdum.

En hvað veit ég um listir í Laugarnesinu. Ég er bara gömul hrifnæm kona, sem læt heillast af samspili veðurs, náttúru og manngerðra forma. Kannski er veðrun og eyðilegging hluti af fegurðunni?   


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2019
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband