Undirferli: Oddný Eir Ævarsdóttir

93A5EABB-D4D6-412F-998B-230B87FB2984

Stundum fæ ég samviskubit yfir því að vanrækja nýja höfunda. Þá tek ég mér tak og les nokkrar bækur í röð. Ég verð yfirleitt ekki fyrir vonbrigðum en svo sækir í sama farið, ég leggst í gamlar bækur. Ég er strax farin að gæla við að næsta bók verði Eyrbyggja. 

Eg hef lengi ætlað að lesa bækur eftir Oddnýju Eir, hef fylgst með henni. Ég held að kveikjan að því að ég lét verða af lestrinum, sé kápan á bókinni Undirferli, síðustu bók hennar. Mikið óskaplega er bókin falleg. En fyrst las ég Blátt blóð (2015) og Jarðnæði (2011). Ég ætla að segja frá þeim í öfugri röð, skrifa fyrst um Undirferli. 

Þetta er stutt bók, tekur aðeins 4 klukkustundir í hlustun, höfundur les bókina sjálfur og gerir það vel. Bókin er að forminu til glæpasaga og rammi frásagnarinnar er annars vegar skýrsla sem er gerð á Lögreglustöðinni í Vestmannaeyjum og hins vegar skýrsla sálfræðings í Reykjavík, sem hjálpar vísindakonunni Írisi  og Smára sem vinnur sem aðstoðarmaður hennar, að vinna úr áföllum sínum, en það tekur á að vera botin röngum sakargiftum, ég tala nú ekki um þegar ákæran kemur frá þeim sem maður treystir. 

Málið snýst um rannsóknir á veiru sem hefur fundist í Surtsey og um hvernig maður umgengst verðmæti, sem tengjast náttúrunni og því að því að bera ábyrgð á einstakri náttúru. Þótt sagan hverfist um “glæp” er sú framvinda aðalatriði þessarar bókar. Aðalatriði hennar fjölmargt og ég ætla að nefna nokkir málefni. Bókin fjallar um samskipti fólks, hvernig manneskjan getur verið heiðarleg við sig og aðra. Hvernig maður umgengst náttúruna og hvernig fólk deilir verðmætum og síðast en ekki síst hvernig við umgöngumst jörðina. Öll frásagan er með ævintýrablæ. Við sögu kemur mælitæki sem Smári eðlisfræðingur er að þróa og bilið á illi yfirskilvitslegra hluta og jarðbundinna er hverfandi. Það er eiginlega merkilegt að ég, þessi jarðbundna kona skuli hafa gaman af þessu. En það sem heillar mig er leikur skáldsins með málið, hvernig hún hoppar á milli þess hversdagslega í núinu yfir í gamlar mýtur og bókmenntalegar og trúarlegar vísanir. Og svo hefur hún lúmskan kittlandi húmor. Ég gleðst oft yfir fundvíst hennar. En þetta er ekki bara saga um glæp, þetta er líka ástarsaga. 

En af því að bókin er byggð upp eins og sakamálasagna, bjóst ég alveg eins við að í lolin kæmi einhvers konar twist eða brella þar sem öllu yrðisnúiða hvolf. En svo varð ekki. Í staðinn verður frásagan en ævintýralegri. Stundum fannst mér ég vera að lesa unglingabók í ætt við Harry Potter. 

Þessi bók gladdi mig. 

Næst ætla ég að segja frá bók Oddnýjar, Blátt blóð, sem fjallar um þrá konu eftir því að verða móðir.


Glansmyndasafnararnir: Færeysk snilld

BD59ED05-25A0-4A01-81AB-FA7105881297

Ég veit ekki hvar ég var þegar Glansmyndasafnararnir komu út. Það var árið 2013 og ég tók ekki eftir því. Þó hef ég sérstakt dálæti á færeyskum bókum, hef reyndar lesið nokkrar á frummálinu með hjálp orðabókar. Það var meðan augun voru enn í lagi. Þetta get ég ekki lengur og ég skil ekki talaða færeysku og get því ekki nýtt mér hljóðbækur. Ergilegt. Kannski vantar mig bara þjálfun.

Ég rakst á Glansmyndasafnararana fyrir heppni. Lestrarfélagið mitt hafði ákveðið að hafa færeyskt þema. Allir lásu færeyska bók að eigin vali. Þá allt í einu blasti við mér þessi undarlega bók (sjá mynd).

Strax í upphafi sögunnar er manni dempt inn í óhugnanlega atburðarás. Sögumaður gerir grein fyrir  efni bókarinnar. Hún fjallar um örlög sex drengja sem allir gengu í kaþólskan einkaskóla í Þórshöfn. Þeir voru fæddir 1952 og allir dánir þegar sagan er sögð. Að loknum þessum inngangi hefst hin eiginlega frásögn. Hún grípur mann strax. Ég fór meira að segja að velta því fyrir mér hvort sagan sé sönn, að hún  byggi á raunverulegu fólki og raunverulegum atburðum. Ekki veit ég hvernig því er háttað en það er ekki ný upplifun fyrir mig, ef mér finnst bók góð, trúi ég hverju orði. 

En sagan segir ekki bara sögu þessara sex einstaklinga, heldur  sögu fjölda fólks sem tengdist þeim. Bókin er í raun mögnuð aldarfarslýsing. Örlög þessara drengja og seinna ungu manna, sem ná að komast á legg, snertu mig djúpt. 

Höfundurinn Jóanes Nielsen er fæddur 1953. Hann er þekktur fyrir ritstörf sín í Færeyjum, þetta er þriðja skáldsaga hanns, en hann hefur einnig skrifað ljóð og leikverk. Ég hef sem sagt ekki verið með á nótunum. Bókin er þýdd af Kristínu Svanhildi Ólafsdóttur og hljóðbókin er lesin af Sigurði Skúlasyni, sem er frábær lesari. Þetta var sem sagt veisla fyrir bókelskandi konu eins og mig. En efnið var nístandi svo samlíkingin um veislu er e.t.v. ekki vel valin.

Þessi bók er svo vel skrifuð að oft langaði mig til að muna orðin og setningarnar. Þetta er þriðji Færeyingurinn í röð sem ég les, sem hefur snilligáfu. Ber af. Hinir eru Heinesen og Carl Jóhan Jensen. Hvað er með þetta litla land að það skuli ala af sér svona marga snillinga?


Bækurnar sem ég les

 

7750F8BE-7846-4B2F-A40F-0E65C23A0081

Fyrir allmörgum árum ásetti ég mér að skrifa um bækur sem ég les og gera upp hug minn um lesturinn. Tilgangur skrifanna var að glöggva mig á því hvað bókin gaf mér, gera upp hug minn. Rökstyðja fyrir sjálfri mér hvers vegna mér fannst si eða so. Ástæðan fyrir því  að ég ákvað að setja þessar hugleiðingar á netið, var að ég vildi veita sjálfri mér aðhald. Seinna þróaðist þetta í þá átt, að mér fannst ég eiga í samtali við lesendur mína. 

Ég tók eftir því í gær að ég hef ekki staðið við þennan ásetning minn, það hefur safnast upp langur hali bóka sem ég ekki gert formlega upp við. En loforð er loforð, jafnvel það sé gefið sjálfum sig. Ég ætla að taka mér tak.

Fyrsta langar mig til að segja frá tveimur bókum eftir Jón Orm Halldórsson, báðar eru þær mikil  gersemar. 

Islam - Saga pólitískra trúarbragða

Bókin kom út 1991. Hún greinir frá tilurð Islam, sögulegum  og félagslegum aðstæðum, jarðveginum sem trúbrögðin spruttu úr. Þar er sagt frá spámanninum Múhameð, Kóraninum og kenningum um hvernig hann varð til . En Kóraninn lýsir ekki bara trúarhugmyndum, í  honum koma einnig fram veraldlegar hugmyndir um rétta og ranga breytni enda er hann um leið undirstaða laga þeirra sem játa þessa trú. Í bókinni er rakið hvernig trúin breiddist út og samspili trúarbragða og því sem við köllum stjórnmál. Auk þess gerir hann lauslega grein fyrir öðrum trúarbrögðum, til samanburðar og lýsir muni þeirra og hvað er sem ber á milli og aðgreinir þau. 

Bókin er fræðileg og vitnað í fjölda rannsókna, jafnvel að stundum fannst mér einum um of. Það er öðru vísi að heyra þetta lesið í samfelldum texta en að fá það í bók, þar sem maður fer gjarnan fljótt yfir sögu þegar kemur að tilvitnunum í heimildir.

Það er mikill fróðleikur í þessari bók, jafnvel svo að maður er ekki fyrr búinn þegar maður fær þá tilfinningu, að maður þurfi að endurlesa til að glöggva sig betur.

Breyttur heimur

Bókin kom út 2015. Þetta er löng bók (tekur um 20 klst í hlustun). En hún skiptist í marga kafla sem hver um sig fjallar um ákveðið afmarkað efni svo hún er auðlesin og síður en svo leiðigjörn. Ég hef tekið hana í áföngum og er enn að. Bókin er í raun eins og röð fréttaskýringa, sem maður hefði átt að fá, svarar ótal spurningum sem maður hefur spurt sig eftir fréttalestur og talar beint inn í pólitíska umræðu dagsins í dag.

Það sem gerir bókina einstaka er hið mikla vald sem höfundur hefur á að halda utan um flókið og  víðfemt samspil stjórnmála, viðskipta og hugmyndaheima í tíma og rúmi. Ég hef ekki lesið skemmtilegri bók síðan ég las bók Einars Más Jónssonar, Örlagaborgin, þótt þær séu ólíkar. 

Eins og fram hefur komið hef ég ekki enn lokið bókinni. Engu að síður þori ég að fullyrða að þessi bók ætti að vera til á hverju heimili, hún er létt, fræðandi og uppbyggileg lesning. Það er mikill fengur í þessari bók einmitt núna þegar svo margir hafa áhyggjur af stöðu lýðræðis í henni veröld. 


Framlengjum Borgarlínu í Íslandslínu

EAE98597-E474-4C32-8F91-81A0C2D9A7AA

Almenningssamgöngur eru mannréttindi.Við þurfum ekki bara borgarlínu við þurfum líka Íslandslínu. Með Íslandslínu á ég við samgöngur hringinn í kringum landið. Áætlunarferðir sem hægt er að treysta. Ég man þá tíð að almenningssamgöngur voru sjálfsagt mál, það er langt síðan. Þetta var fyrir mörgum árum, áður en einkabíllinn tók völdin af fólkinu. Nú er ekki hægt að hreyfa sig út fyrir þéttbýli án þess að kvabba í fólki. 

Ef ég ætla að heimsækja æskustöðvarnar austur í Breiðdal er um tvennt að velja. Fara með strætó á Höfn eða fljúga í Egilsstaði. Í báðum tilvikum vantar tengingu við áfangastaðinn, Breiðdal. 

Þegar ég yfirgaf æskustöðvarnar á sínum tíma, voru ýmsir kostir í boði, hægt var að velja á milli þess að fara landleiðina með áætlanabíl eða (norður fyrir) sjóleiðina, sem var algengast eða taka flug frá Höfn eða Egilsstöðum.

 

Þetta var í gamla daga og ég er ekki að velta fyrir mér að fara baka til fortíðar, heldur hvað ætti að koma nýtt, sem uppfyllir kröfur tímans.  Við þurfum umhverfisvæna þjóðbraut í kringum landið, vel undirbúna, þar sem hugað er að þörfum bæði innfæddra og ferðamanna. Fyrst þyrfti að vinna að tengingum, skynsamlegum lausnum út frá þörfum fólksins. Almenningssamgöngur eru mannréttindi eins og fyrr sagði. Hugsum fram í tímann. 

Í gær horfði ég á frétt um tengingu strætó við Grímseyjarferjuna. Hann stoppaði svo langt frá ferjunni að farþegar misstu iðulega af henni og stóðu eftir sem strandaglópar. Það var ekki hægt að breyta þessu, það rúmast ekki innan fjáhagsrammans. Þarna held ég að vanti hugsun og S eygja leika en ekki krónur og aura.

Við þurfum stórhuga fólk á landsvísu sem hugsar fram í tímann og kann að sjá fyrir sér breytingar sem taka mið af framtíð, ekki bar rýna í kosningaspár.

Við þurfum líka kjósendur sem sem ætla sér að móta stefnu sem býr í haginn fyrir hag barna og barnabarna. Við kjósendur erum samábyrg í öllu sem gert er. 

Eg vil sem sagt sjá samgönguráðherra sem lýsir því yfir að hann sé að undirbúa Íslandslínu  ekki ráðherra sem finnst það í lagi að miða umbætur á hringveginum við Suðurland austur að  Kirkjubæjarklaustri (hér er vísað í sjónvarpsviðtal við ráðherra frá því í vetur  eftir slys sem höfðu orðið í hálku).

Og helst af öllu ætti að hafa það sem vinnureglu við uppbygginguna að leggja reiðhjólastíg meðfram öllum hringveginum jafnóðum og unnið er að umbótunum.

Hugsum til framtíðar.


Nada: Meira um spænskar bækur

 F6DC77C8-3625-426D-BB09-D4D60537D32E

Lesendum mínum fer fækkandi. Þeir sem lesa bloggið mitt vita að ég er með æði fyrir spænskum bókum. Kannski er það ástæðan.

Í framhaldi af af hinni dásamlegu Ana María Matute, rakst ég á Carmen Laforet (f.1921 d.2004) aðra spænska skáldkonu frá sama tíma. Bókin sem ég las heitir Hljómkviðan eilífa og er þýdd af Sigurði Sigmundssyni. Á spænsku heitir hún Nada, sem þýðir ekkert.

Mitt bókasafn er hbs.is,(Hljóðbókasafn Íslands),ég hlusta, les ekki. Í þetta sinn, skipti það máli, því að um gamla upptöku er að ræða og hún er ekki eins vönd og þær sem gerðar eru núna. Þetta er sem sagt útvarpsupptaka frá því bókin var lesin í útvarp 1986 og það er þýðandinn sem les. 

Sagan fjallar um ungu stúlkuna, Andreu, sem kemur til Barcelona til að mennta sig. Stríðið (borgarastyrjöldin 1936 - 1939) er nýlega búið. Andrehlakkar til að koma til borgarinnar sem hún þekkti sem barn. Hún er 17 ára og full af þrá eftir lífinu og að mennta sig.  

En borgin er ekki sú sem hún var og ættingjar hennar eru ekki það heldur. Eða er það hún sem hefur breyst? Við henni blasir við fátækt, borg í niðurníðslu og soltið fólk. Fólkið hennar, amma, föðurbræður og föðursystir eru óútreiknanleg. Þarna er líka konan annars bróðurins, Gloría   og lítill drengur. Bræðurnir tæta hvor annan í sig, systirin vill ráðskast, Gloría, er ofsótt af mágkonu sinni og lamin af eiginmanni. Öll orka fólksins fer í að rífa hvert annað niður, þau hirða ekki um eigið hreinlæti, hvað þá heimilisins. Aðeins amman er góð en hún er bara orðin svo gömul að hún getur ekki stýrt neinu.  

Þetta er mín lauslega samantekt en sagan er sögð út frá sjónarhorni Andreu, 17 ára heimsspekistúdents. Þetta eru ósamhangandi frásagnir af atvikum, nánast eins og stakar tifinningaþrungnar dagbókarfærslur. Í forgrunni eru vonir, vonbrigði og kvíði. Andrea er ein og veit ekki hvernig hún á haga sér til að vera tekin inn í hópinn. Mest af öllu langar hana þó til að eignast vinkonu. Það tekst.

Mér fannst erfitt að henda reiður á frásögninni, fannst hún tætingsleg. Oft velti  ég því fyrir mér hvort rétt væri þýtt eða  hvort ég hefði hlaupið yfir, misst af einhverju. 

Eftir lesturinn las ég mér til um höfundinn. Þar kom fram, að með útkomu þessarar bókar hefði verið brotið blað í skáldsagnagerð á Spáni, sagan var tímamótaverk en bókin kom út 1944, þá var Carmen Laforet 23 ára.

Gamlar bækur eiga sér sögu , sem oft á tíðum er líka merkileg. Hér vekur athygli hvað höfundurinn er ungur og að bókin kom út í upphafi Francótímans.  

En það er þýðandinn sem stelur senunni. Sigurður Sigurmundsson var sjálfmenntaður í spænsku. Hann hófst fyrst handa að þýða spænsk enska orðabók á íslensku svo tók hann til við námið. Hann var bóndi  og þekktur fyrir skrif um margvísleg málefni. Sérstaklega er hann þekktur fyrir skrif sín um Njálu. Það er merkilegt að hann falli fyrir bók eftir þessa ungu spænsku konu, en hann er 71 árs þegar hún kemur út ( ég miða við árið sem hann  las hana í útvarpið).

Ég hef tvisvar dvalið sem ferðamaður í Barcelóna og nú langar mig að fara þangað í þriðja sinn á söguslóðir þessar sögu. 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júní 2018
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 64
  • Frá upphafi: 187117

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 61
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband