Skólaus á öðrum fæti: Ana María Matute

image

Bóklestur minn stýrist af hughrifum. Ekki dintum. Stundum langar langar mig einungis til að  lesa bækur úr hinum spöskuumælandi heimi. Þeim fylgja einhverjir töfrar sem ég kann ekki skil á. Fyrir nokkru setti ég inn leitarorðið spænskar bókmenntir á hbs.is. Ég fékk langan girnilegan lista. Fyrir valinu varð Skólaus á öðrum fæti eftir Ana María Matute. Umsögn hbs.is segir:”Áhrifamikil en um leið falleg saga um litla stúlku, Gabríelu, sem höfð er útundan og hvernig hún í einmannaleika sínum býr til sinn ævintýraheim. Frábærlega skrifuð og margræð saga sem á erindi til fólks á öllum aldri. Ana María Matute er á meðal þekktustu og áhugaverðustu núlifandi rithöfunda Spánar.”

Þetta er dásamleg bók, sem flytur lesanda á vit ævintýra eins og þau gerast best en jafnframt segir hún sögu litlu stúlkunnar sem var alls staðar fyrir og enginn vildi leika við.

Gabríela sögupersóna þessarar sögu er yngst í systkinahópnum, faðir hennar er fjarverandi vegna vinnu sinnar em móðirin á greinilega ekkert afgangs fyrir barnið. Hún finnur huggun í að fylgjast með þjónustufólkinu, sem á í mörg horn að líta. Og svo býr hún sér til ævintýraheim og heimur ævintýranna og veruleikans renna saman. Það er sagt að það sé erfitt að flokka bækur Matute, setja þær í ákveðið bókmenntahólf. Talað hefur verið um ljóðrænt raunsæi. Hljómar vel. Í þessari sögu bregður fyrir mörgum kunnuglegum ævintýraminnum. Það gerir ánægjuna við lesturinn enn meirI. 

Það sem gerir útgáfu þessarar bókar enn meira spennandi er að hún er tvímála, þ.e.a.s. önnur hver blaðsíða er á spænsku. Þetta get ég því miður ekki nýtt mér vegna þverrandi sjónar, eins mikið og mig langar til að læra spænsku. Ég verð að láta mér nægja að hlusta á hljóðbókina. En það get ég þó þökk sé tækninni. Bókin er listavel lesin af Jóni B. Guðlaugssyni. 

 Ana María Matute (f. 1925 d. 2014) er margverðlaunaður höfundur. Hún byrjaði að skrifa kornung og gerði útgáfusamning við forlag áður en hún varð myndug. Faðir hennar undirritaði fyrir hennar hönd. Næsta samning um útgáfu bókar undirritaði eiginmaður hennar, því þá var einræðisstjórn Francos búin að svipta konur lögræði. Þetta voru umbrotatímar. 

Skólaus á öðrum fæti,  (kom út 2013) er gefin út í minningu Kristínar Baldursdóttur, sem ætlaði að gera þýðingu bókarinnar að útskriftarverkefni sínu í þýðingar fræðum. Hún er styrkt af foreldrum hennar og mig langar til að þakka þeim. Þýðinguna annast Kristinn R. Ólafsson en eftirmáli og fræðileg umfjöllun um Matute er eftir Erlu Erlendsdóttur.

Þetta var bókin sem ég var að leita að. Ég veit ekki hvað það er við spænskar bókmenntir sem heillar mig. Þær eru einhverskonar djúpnæring fyrir sálina, snerta við tilfinningum sem ég þekki ekki einu sinni sjálf. Eins og jóga sem þjálfar alla litlu vöðvana sem þú veist ekki um.


Bréf úr myllunni minni: Alfonse Dautet

image

Hef verið að lesa bók efti Alphonse  Daudet (f. 1840 d. 1897). Hafði aldrei heyrt hann nefndan, rakst á hann af tilviljun. Tilviljanir eru merkilegar og ég hef tekið þá afstöðu, að grípa þær og láta þær stýra lífinu. Var að leita að bók eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur en þá kom upp Bréf úr myllunni minni sem hún les.

Þetta er 19. aldar saga, full af rómantík. Bókin hefst á frásögn af því þegar rithöfundurinn kaupir gamla myllu í Provence, þar sem hann hyggst skrifa, fjarri skarkala heimsins. Takið eftir að jafnvel þá er kvartað yfir skarkala. Svo koma frásagnirnar hver af annarri. Sögur af fólki, dýrum, ljóð, ævintýri, þjóðsögur. Samhengislaust. Ég var stöðugt að búast við samhengi, að þær mynduðu heild.  En af hverju ættu sögur alltaf að tengjast og mynda heild? Lífið gerir það ekki. Samhengi hlutanna, heildarmynd er oftar en ekki tilbúningur hugans.

Þessar frásagnir eru eins og nosturlega unnin málverk, gæti verið eftir Eggert Pétursson. Að viðbættum fuglasöng, gróðurilm, hughrifum. Öllu því sem hugurinn skynjar í þessari dásamlegu náttúru Suður Frakklands. Meira að segja fólkið og fortíðin verða eins og partur af náttúrunni. 

Þetta er unaðsleg lesning. Helgi Jónsson hefur þýtt bókina sem kom út á íslensku 1965. Ég kann því miður ekki deili á þýðanda, en bókin er á fallegu og blæbrigðaríku máli. 

Ég tek til baka það sem ég sagði í upphafi, um að ég þekkti ekkert til Daudet. Þegar ég fór  að lesa mér til um hann rifjaðist upp fyrir mér að ég las sögu eftir hann á frönsku hjá kennara mínum Friðriki Þorvaldssyni í MÁ. Sagan heitir Síðasta kennlustundin. Mikið hefur mér farið aftur í því fagra máli. 

  


Hnattvæðing, Jón Ormur og kóngabrúðkaup

 EFEC8D0A-8F5B-477B-8DF9-6531921932E2

 “Samtími okkar einkennist  af víðtækum og djúpstæðum breytingum í heiminum í pólitískum, efnahagslegum, lýðfræðilegum og menningarlegum skilningi. Um leið hefur heimsvæðingin séð til þess að það sem áður var fjarlægt er komið í návígi og mótar aðstæður fólks og möguleika. Ný stórveldi eflast, sum stórkostlega eins og Kína og brátt Indland, en önnur eru að missa mátt sinn til áhrifa. Sagan sýnir að breytingum á valdahlutföllum hafa jafnan fylgt sérstakar hættur og alvarleg átök. Við lifum því viðsjárverða tíma þegar miklu skiptir að skilja hagsmuni, styrk, veikleika og fyrirætlanir ríkja og stórvelda. Bókin Breyttur heimur varpar ljósi á ýmsar óraflóknar og hnattrænar átakalínur okkar tíma og sýnir þær sem samhangandi og skiljanlega heild.”

Sem sjá má er þessi klausa innan gæsalappa og því ekki mín. Ég er að lesa/hlusta á bók Jóns Orms Halldórssonar, Breyttur heimur og tekin úr innihaldslýsingu á vef Hljóðbókasafnsins Íslands. Þetta er merkileg bók, Jón Ormur gerir nákvæmlega það sem segir í titlinum, hann dregur upp mynd af nýjum oh breyttum heimi. Valdahlutföllin hafa kannski ekki breyst enn, en efnahagsleg staða er allt önnur. Það þarf að huga að mörgu. Hvaða hagkerfi, stjórnkerfi, menningarherrar, standa best? Fyrirtækjaheimurinn liggur þvert á landamæri. Lýðræði og lífskjör fara ekki endilega saman. Það er eins og tími og rúm hafi skroppið saman, fjarlægðir hafa minnkað og allt gerist hraðar. 

Ein af stóru breytingunum sem Jón Ormur lýsir er dvínandi áhrif breska heimsveldisins. Nú eru áhrif þeirra frekar menningarleg en heimsvaldaleg. Næstum því upp á punt. Og það er einmitt það sem er að gerast í, þegar heimurinn skemmtir sér við að horfa á konunglegt brúðkaup. Það gerði ég ekki. Þess í stað las ég vænan skammt í Breyttur heimur. Þetta er löng bók, sem rétt er að taka í áföngum. 

Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, er hugurinn er stilltur inn á hvað skiptir máli hér og nú. Hversu mikil áhrif einstaklingur getur haft með atkvæði sínu. Ég fyllist ugg um að fólk sé leitt á pólitík, sérstaklega þegar kemur að því að hinu stóra samhengi. Kannski getur eitt lítið vel heppnað kóngabrúðkaup lífgað upp á pólitíska hugsun. Eða svæft hana. 

 


Pólitísk sjálfshjálparbók fyrir lýðræðið: Timothy Snyder. Harðstjórn

F19C07A0-2DD9-4DAF-B0E2-E977A2CA6D49

Í stofum landsmanna ríkir linnulaust stríðsástand, við blasa hrunin hús og fólk á flótta.  Margir fyllast vonleysi og viðbrögð er ýmist þau, að menn ýmist vilja sem minnst af þessu vita eða þeir skipta um rás. Það er bæði eðlilegt og mannlegt að taka bágindum annarra nærri sér og það er í raun mannskemmandi að sitja uppi með tilfinninguna um að geta ekkert gert. 

Það var því kærkomið tækifæri fyrir mig að rekast á bók eftir þekktan fræðimann, sem talar beint til fólks og ráðleggur því hvað hver og einn geti gert til að gera skyldu sína sem borgari. Hann setur hluti í samhengi og tekur dæmi úr sögunni af því þegar viðbrögð einstaklinga hafa skipt sköpun um hvernig mál ráðast.

Bókin er stutt, tekur 2 tíma í aflestri. Hún skiptist í 20 kafla, sem hrista: Nokkur kaflaheiti: Ekki hlýða fyrirfram: Takið ábyrgð á ásýnd heimsins: Skerðu þig úr: Trúið á sannleikann: Rannsakið:

Ég hafði sérstaklega gaman af kaflanum þar sem höfundur hvatti menn til að lesa bækur, ekki bara fræðibækur, heldur líka skáldsögur og nefndi meira að segja Karamazóbræðurna uppáhaldið mitt. 

Þessi lestur kom sér alveg sérstaklega vel í gær, var að koma af mótmælafundi vegna ástandsins í Palestínu. Ég var hrygg. Réttara sagt miður mín. Miður mín út af því að ríkisstjórnin hefur ekki enn brugðist við og fordæmt voðaverkin eða bent á að það hvernig Ísrael hundsar lög. 

Ræða Ögmundar Jónasson var góð og það var næstum eins og hann hefði verið að lesa bók Snyders, kaflann þar sem hann fjallar um hvernig harðstjórar vinna markvisst að því að fá almenning til að fá fólk sitt til að líta á glæpi sína sem normalt ástand. Það er þarna sem rödd okkar skiptir máli. Við eigum að leita sannleikans. Rannsaka. 

Þetta var stutt bók og þess vegna á þessi pistill að vera stuttur. Þetta er sannkölluð sjálfshjálpar, bók til að eiga og grípa til. Handbók og upplögð gjöf til að gefa vinumvinum, ættingjum og barnabörnum.

 

 

 

 

 

 


Feðgar á ferð eftir Heðin Brú

 

9A37B6E0-92BE-47FD-A0DC-974505D89B49

Líklega hefði ég aldrei ratað á þessa bók nema af því bókaklúbburinn minn ákvað að vinna með færeyskt þema. Bókin er skrifuð 1940 og kom út á íslensku 1941 í þýðingu Aðalsteins Sigmundssonar. Þetta er lítil bók, tekur 5 klukkustundir í aflestri.

Þegar ég leit yfir hvað til var að færeyskum bókum á Hljóðbókasafni Íslands varð hún fyrir valinu eftir að ég hafði lesið á WikipediuHeðin Brú væri einn merkasti rithöfundurinn í Færeyjum á fyrri hluta síðustu aldar. Þetta var aðdragandinn.

Sagan segir frá gömlum hjónum í afskekktu byggðarlagi. Hjá þeim býr fullvaxa sonur þeirra, hann gengur til verka með föður sínum. Búskapurinn er allur með gamla laginu og lífsbaráttan er hörð. Í upphafi sögunnar er sagt frá því þegar feðgarnir Ketill og Kálfur fara til grindadráps. Þetta er mögnuð lýsing. Ketill finnur að kraftar hans til að takast á við erfiðið eru ekki samir og fyrr. Ekki bætir úr skák, að með þátttökunni steypir hann sér í skuld, sem hann er ekki viss um að ráða við. Veiðunum fylgir skattur, sem rennur til stýra veiðunum og leggja til báta.  Grindin er góð búbót til heimilisins en ekki endilega söluvara til að afla peninga. Hann hefur miklar áhyggjur af því hvernig hann geti staðið við þessar skuldbindingar. Það sem á eftir kemur í þessari sögu, fjallar um stríð hans við að standa í skilum.

Þetta er skrítin saga. Höfundur er spar á nöfn, aðeins örfáar persónur hafa nafn og einungis karlmenn. Konan er nefnd Ketilskona og ekkert barna þeirra hjóna sem kemur við sögu eru nefnt með nafni nema Kálfur, þau eru nefnd synir dætur og tengdadætur og viðlíka.

Þótt lífsbarátta gömlu hjónanna sé í forgrunni sögunnar, fjallar hún ekki síður um breytta tíma og átök á milli kynslóða. Nýir búskaparhættir eru að ryðja sér til rúms í Færeyjum svo kynslóðabilið verður að gjá. Húsakynni gamla fólksins, Ketils og Ketilskonu eru sóðaleg enda þakið farið að leka. Híbýli yngri kynslóðarinnar skína af hreinlæti  og lykta af sápu. Gamla fólkið þusar um tepruskap og Ketilskonu liggur afskaplega illt orð til tengdadætra sinna. Gjáin milli kynslóðanna er þó ekki dýpri en svo að gömlu hjónin þiggja hjálp þegar á reynir. Kálfur, yngsti sonurinn  og eina barnið sem er nefnt með nafni, er greinilega ekki í lagi. Það er ekki sagt beint út en lesandinn getur sér  þess til af textanumÞessi.Þessi saga er greinilega full af táknum og líkist um margt þjóðsögu eða dæmisögu.

Höfundur sögunnar er fæddur 1901 í Skálavík  á Sandey og  líklega tekur sagan mið af aðstæðum þar. Hann heitir í raun Hans Jacob Jacobsen. Hann fór á lýðháskóla í Færeyjum og seinna til náms í Landbúnarskóla í Danmörku og vann síðar sem ráðunautur í Færeyjum jafnframt því að vinna að ritstörfum. Það er margt sem minnir á íslenskan veruleika í þessari bók og ósjálfrátt vaknar hjá mér spurningin, hvaða íslensku skáldi hann líkist mest. Tilfinning mín er sú að hann líkist meira Gunnari Gunnarssyni en Guðmundi Friðjónssyni. Hvorugur passar þó alveg.

Ég hef þrisvar komið til Færeyja og er heilluð af landinu. Við þetta bætist að nú í vetur hef ég lesið og endurlesið bækur eftir þrjá færeyska höfunda sem mér finnast frábærir. Þeir eru Heinesen, Carl Jóhan Jensen og Jóanes Nielsen.

Þegar ég les Heðin Brú hugsa ég til hans sem brautryðjanda.


Saga Ástu: Jóm Kalman

F6DC77C8-3625-426D-BB09-D4D60537D32E

Jón Kalman er einn þeirra höfunda sem ég hef hvað mest dálæti á. Í fyrstu bókunum hreifst ég af tærum stíl hans, það var eins og að lesa ljóð. Fáir höfundar lýsa betur tilfinningum,von,  þrá og æðruleysi. Hann notar allan skalann, litróf tilfinninga, án væmni. Bækurnar eru sprottnar úríslenskum veruleika og ég tók eftir hversu vel honum lætur að lýsa venjulegu fólki. Fólkið hans á einmitt vonir og þrár sem eru ofar hversdagslegu striti, tilgangi lífsins.  

Ég hlakkaði til að lesa  Sögu Ástu, nú er hún búin enfólkið úr sögunni býr enn með mér. Þótt bókin fjalli um liðinn tíma, eru ekki á ferð svipir fortíðar, heldur sprelllifandi manneskjur. Þannig upplifi ég lesturinn. Eins og stundum áður tengist fólkið höfundi, sumt þeirra hef ég hitt áður í öðrum bókum. Bókin er sem  sagt að hluta til  byggð á fólki sem var til í raunveruleikanum, ekki uppdiktuð. Ég veit hver konan á bak við Ástu er. Nöfnum er breytt, atburðum hnikað til, en engu að síður get ég sem lesandi alltaf tengt. Bókin segir frá mínum samtíma, mínu samtíðarfólki.

Hugurinn þeytist milli sögunnar sem ég er að lesa og sögunnar sem ég hef sjálf búið til úrfrásögnum og því sem ég þekki sjálf til. Þetta truflar mig. Hvorri sögunni á ég að trúa, þeirri sem ég hef púslað saman eða þeirri sem birtist hér? Ég reyni að minna mig á að bókin er skáldskapur en fletti samt upp minningargreinum um fólkið sem ég veit að frásögnin byggir á.

Bókin er um Ástu, litlu stúlkuna, sem móðirin fór frá agnarsmárri, meðan faðirinn var á sjónum. Það var fyrir tilviljun að eldri koma heyrir barnsgrát og kemur til bjargar. Bókin fjallar  um móður hennar, Helgu sem er lífsglöð en gefst upp og fer. Og um föðurinn hinn sívinnandi Sigvalda,gæðablóðið, sem skilur ekki hvað er að gerast. Ásta dafnar eins og fífill í túni hjá fóstru sinni þangað til hún kemst á unglingsár, þá lendir hún í vandræðum með að fóta sig, hún skammast sín fyrir fátæklegt umhverfi sitt og fóstru sína. Hún er bráðgreind,uppreisnargjörn og leitandi. Hún er send í afskekkta sveit. Það er eins og nýr heimur gleypi hana. Þar kynnist hún ungum manni sem á eftir að hafa mikil áhrif á líf hennar.Frásagan um sveitardvölina er snilld.

Ásta á eftir að menntast í mörgum löndum, einnig hún er lífsþyrst. 

Þetta er sterk saga og hún rígheldur í mann. Ég ætla ekki að rekja hana frekar hér  en víkja að vandkvæðum mínum við lesturinn.

Eftir að hafa nýlokið við að lesa Min kamp eftir Karl Ove Knausgård ætti ekki að standa í mér að lesa opinskáa frásögn sem byggir á lifandi  fólki. En þetta eru ólíkar frásagnir. Bók Knausgårds er um hann sjálfan, aðrir eru aukapersónur sem hann lýsir utanfrá. Í Sögu Ástu gerir höfundur fólki upp hugsanir, tilfinningar og athafnir. Í þessu tilviki fer höfundur hvað eftir annað með fólkið út fyrir þann velsæmisramma sem tíðkast hjá fólki, að minnsta kosti mér. Ég á erfitt með að lesa lýsingar á kynlífi, nema ef vera skyldi fræðsluefni. Auk þess breyta þessar frásagnir oftast litlu um atburðarás og hvað manni finnst um persónur. Og í raun eru jafnvel vönduðustu ástalífslýsingar jafn ófullkomnar í að skapa unaðkynlífsins og mataruppskriftir eru í að lýsa bragði .  En auðvitað er þetta hluti mannlegrar tilveru og ekki lítill.

Meðan ég gat enn lesið bækur í bókarformi, þurfti ekki að hlusta, fletti ég hratt í gegnum þessar lýsingar. Nú sit ég uppi með þær í fullri lengd. Auk þess skammast ég mín fyrir að vera svona pempíuleg. Nú hef ég sagt það.

Eins og lesendur mínir, sem lesa pistla mína um bækur vita, fjalla þeir um samband mitt við bækurnar sem ég les, þeir eru ekki ritdómar.

Sambönd er alltaf gagnkvæm.

Mér finnst Sögu Ástu ekki vera lokið og bíð eftir næstu bók

 

 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2018
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 186944

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband