Eitraða barnið: Guðmundur Brynjólfsson

929D7BFB-5AF5-425D-B7F2-4E41FCCF2140

Eitraða barnið

Titillinn er sláandi. Þetta er lítil bók sem gerist á Eyrarbakka. Ísland er enn konungsveldi og umhverfið minnir  meira á 19. öldina en þá 20. 

Ég er ekki alveg ókunnug á Eyrarbakka, tengdamóðir mín blessuð, Lilja Þórarinsdóttir var fædd þar 1921 og ólst þar upp. Þess vegna finnst mér ég eiga svolítið í þessu þorpi. Ég veit að höfundur hefur bara fengið það að láni til sviðsetningar á glæpasögu. Meðan ég les lít ég í kring um mig eftir fólki sem ég þekki af afspurn og vonast til að sjá það ekki. 

Söguþráður

Þegar ungi sýslumaðurinn, Eyjólfur Jónsson, tekur við embætti, gamli sýslumaðurinn hafði látist óvænt, beið hans leiðindamál. Kornung stúlka, nánast barn,  hafði fyrirkomið barni sínu. Þar að auki var hún bæði fáráðlingur og vitstola, að því er virtist, og því ekki viðræðuhæf. Ungi sýslumaðurinn er óreyndur. Það hafði tekið hann 10 ár að ljúka lögfræðinni í Kaupmannahöfn, hann er drykkfelldur og þunglyndur en faðir hans og tengdafaðir hafa séð til þess að honum tekst ekki áform sitt að halda drykkjunni áfram í höfuðborg Íslendinga, Kaupmannahöfn. Og svo á hann þessa fallegu og góðu konu, sem passar ekki bara upp á hann, heldur lítur hún líka til með honum í embættisfærslum hans. Það sem gerir sýslumanni starfið enn erfiðara, er að hann treystir ekki undirmanni sínum, óberminu Kár Ketilssyni.

Glæpir eru fyrst og fremst ljótir

Þetta er spennandi saga. Glæpurinn er ljótur og viðbjóðslegur og höfundurinn er ekkert að skafa utan af óhugnaðinum. Mynd hans af umkomuleysi og vonleysi fórnarlambsins er ekki síður vel dregin.

Það sem ræður miklu um karakter þessarar bókar, er að höfundi lætur vel að lýsa þessum horfna tíma sem er svo ólíkur okkar, þó sum húsin standi enn. Andrúmsloft og allar aðstæður voru sannfærandi og trúferðugar. Meira að segja ég, sem rýni mikið í smáatriði sögunnar, fann ekkert aðfinnsluvert, nema ef vera skyldi að klæða mann í lopapeysu. Það var ekki prjónað úr lopa um aldamótin 1900. Ekki mér vitanlega.

Þetta er góð bók og ekki spillir að hún bíður upp á framhald. Þannig ræð  ég endirinn.

Eftirþanki

Höfundur les sjálfur bókina og gerir það prýðisvel, eins og tryggir lesendur pistla minna vita, les ég ekki,ég hlusta. 


Sjö bræður eftir Aleksis Kivi

 6C8AD3B0-6D6B-4A10-9739-0EC1C7845DC5

Auðvitað les ég góðar bækur. Ég vel þær sjálf. Alltaf er einhver ástæða fyrir valinu, ég renni aldrei blint í sjóinn. Nú síðast var valið óvenjulegt, ég hafði verið að lesa ævisögu Ástu Sigurbrandsdóttur, Hin hljóðu tár. Þar sagði hún frá því að kennari hennar í finnsku hefði viljað að láta hana lesa Sjö bræður eftir Alexis Kivi sem kom fyrst út 1870. En það leist henni ekki á og sagði honum upp. Nú langaði mig sem sérfræðingi í lestri (ef ég er sérfræðingur í einhverju, er það lestur) að meta hvernig þessi bók væri. 

Ég hafði heyrt um bókina vegna myndarinnar sem var sýnd, þekkti hana aðallega í gegnum Spaugstofuna.

Bókin kom út hér 1987 í þýðingu Aðalsteins Davíðssonar. Ég hlustaði á hana sem hljóðbók,lesinni af Sigurði Karlssyni. Frábær lestur. En ég fékk hana líka lánaða í bókasafninu, til að átta mig á uppsetningunni og til að skoða myndirnar. Þær eru eftir Akseli Gallen- Kallela sem er þekktur í listamaður í Finnlandi. 

Hvað á manni að finnast um slíka bók?

Bókin segir frá frá Jukola- fólkinu en þó aðallega bræðrunum, því þegar hin eiginlega saga hefst eru foreldrar þeirra dánir. Þeir heita Juhani, Tuomas, Aapo, Simeon, Timo, Lauri og Eeroo. Sá elsti er tuttugu og fimm ára og sá yngsti er 18 ára. Þeir eru hraustir og kraftmiklir og hafa sínar hugmyndir um heiminn. Þegar móðir þeirra deyr og þeir taka við býlinu Jukola, er það í niðurníðslu, þeir hafa ekki góða fyrirmynd í búrekstri því faðir þeirra hafði meiri áhuga á veiðum en búrekstri. Það má því segja að þetta sé þroskasaga þessara pilta. En sá þroski kemur ekki átakalaust, því það er ýmislegt sem gengur á í lífi þeirra. Margt fer úrskeiðis í lífi þeirra og þeir geta oft sjálfum sér um kennt. Þá setjast þeir á rökstóla og ræða málin.

Lesandinn veit ekkert hvernig hann á að skilja þessa orðræðu, sem er í senn barnaleg og háheimspekileg. Þetta er spriklandi skemmtileg bók. Stíllinn er dálítið eins og í Íslendingasögunum, öllu lýst utanfrá  í stuttum meitluðum setningum. Við þetta bætast undurfagrar náttúrulýsingar og þjóðsögur og kvæði. Ég gerði mér fljótlega grein fyrir að bókin lumaði á margþættum sannindum og það væri betra að lesa hana oft. Núna í mínum fyrsta lestri einsetti ég mér að  og hafa fyrst og fremst gaman af henni, læra nöfnin á bræðrunum og átta mig á karakter hvers um sig.

Þarna er sem sagt komin ein af þessum stóru skáldverkum sem maður getur lesið aftur og aftur eins og Íslendingasögurnar, bækur Laxness, Tolstoy, Lagerlöf og fleiri og fleiri. Ég er strax farin að hlakka til næsta lesturs. Það er ótrúlegt að þetta skuli vera bók sem er skrifuð 1870 hún virkar frekar eins og nútíma framúrstefna fyrir mig.

Léttlestrarbók?

Það sem kemur á óvart, er að það er létt að lesa þessa bók. Setningar eru stuttar og frásögnin ljós og atburðarásin án útúrdúra.

 Myndin er úr bókinni


Listaskáldin góðu

4E861081-BDE1-4F56-9E50-087995EFFB80

Listaskáldin góðð

Í dag er dagur íslenskrar tungu. Stundum eru búnir til dagar þessa eða hins til að selja okkur eitthvað. Í dag þurfum við ekki að kaupa eitt eða neitt, við erum að fagna því sem við eigum öll, fagna móðurmálinu.

Ég hef verið að lesa bókina Sjö bræður  í þýðingu Aðalsteins  Davíðssonar. En ég ætla ekki að skrifa um bókina nú, heldur höfundinn, finnska skáldið Alekis Kivi (fæddur 1834, dáinn 1872). Allt í einu slær það mig að hann og afmælisbarnið Jónas Hallgrímsson(fæddur 1807, dáinn 1845)  eiga margt sameiginlegt.

Kivi er nú þekktur fyrir að vera brautryðjandi í að rita bókmenntir á finnskri tungu, Jónas fyrir að reisa íslenskuna til vegs og virðingar.

Þeir komust báðir til mennta þrátt fyrir lítil efni í háskólum þar sem móðurmál þeirra var óbrúklegt. Hvorugur lauk námi. Þeir dóu báðir í blóma lífsins, 38 ára gamlir. Við andlát þeirra var ekki til af þeim nein mynd og þá var teiknuð  af þeim látnum. Í báðum tilvikum var síðan listamaður fenginn til að gera mynd eftir þeim  í mynd, helgrímunni.

Afmælisdagur Jónasar 16. nóvember haldinn hátíðlegur sem dagur íslenskrar tungu og 10. október, sem er fæðingardagur Kivi er haldinn hátíðlegur í Finnlandi sem dagur finnskra bókmennta.  Það munar bara nokkrum dögum.

Báðir þessir menn höfðu orð á sér fyrir að vera vínhneigðir, þrátt fyrir það komu þeir miklu í verk.

Á morgun ætla ég að segja örstutt frá bókinni Sjö bræður. Mér fannst ég ekki geta skrifað um útlenda bók á þessum merka degi, jafnvel þótt þýðingin sé afbragð. Svona setur maður sig ósjálfrátt í stellingar.

Fróðleikur minn um Aleksis Kivi er sótt í formála þýðanda að Sjö bræður og á netið. 

Myndin er eftir minn fyrrverandi mann Magnús Þór Jónsson (Megas). Þetta er skissa, unnin í sambandi við fyrstu bókina hans.


Demantstorgið: Mercé Rodoreda

19C5B733-A736-4523-A091-97302037A460

Demantstorgið kom  út 1962 á frummálinu, katalónsku, en hér kom bókin út 1987 í  þýðingu Guðbergs Bergssonar úr. Það er líka hann sem skrifar eftirmála bókarinnar. Bókin er eftir Mercé Rodoreda  (fædd 1908, dó 1983). Sagan og gerist í Barcelona í aðdraganda spænsku borgarastyrjaldarinnar og á árunum sem sem við tóku eftir að Francostjórnin tók við. 

Aðalpersóna sögunnar er ung alþýðustúlka, hún er lífsglöð og á lífið framundan. Hún verður ástfangin, hittir mannsefnið sitt á Demantstorginu, sem bókin heitir eftir.  Hann byggir handa henni hús og þau eignast tvö börn. Hann kallar hana gælunafninu Dúfa og er hugfanginn af dúfum. Hann byggir líka gús handa Dúfu num. En stríðið breytir framgangi lífsins. Maður hennar fellur í stríðinu og hið unga lýðveldi er brotið á bak aftur. Lífið verður óbærilega erfitt. Fólkið í Barcelona lifir við hungurmörk.

Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn frekar. Þess í stað ætla ég að reyna að gera grein fyrir því sem gerir þessa bók svo sérstaka, það er frásagnarmátinn, stíllinn. Það er erfitt að lýsa stíl, og ekki öruggt að mér takist það.

Lifandi hugur

Það er eins og höfundur sé staddur inn í höfði ungu konunnar og lýsi  straum hugsana um leið og þar flæða fram. Oftast kvikna þær af einhverju áþreifanlegu en svo veit maður ekki alltaf hvað gerist í raun og hvað gerist í hugarheimi. Hvernig mætast hugur og veruleiki? Frásögnin er myndræn og lýsandi.

Við upphaf bókarinnar er Natalía, aðalpersónan, ung og óþroskuð. Allt of snemma mætir hún mótlæti sem hún ræður ekki við, hún fær því ekki tækifæri til að þroskast, að vaxa með aukinni ábyrgð sem fylgir lífinu. Stundum veit maður ekki hvað í frásögninni er tilbúningur hugsana og hvað er veruleiki. Niðurstaða mín var því sú að kannski gerum við raunveruleika raunheimsins of hátt undir höfði, kannski er hugarheimur það sem lífið ræðst af.

Hvað er veruleiki?

Veruleikinn, huglægur eða hlutlægur, sem þessi bók lýsir er nístandi. Hvernig líður manneskju sem horfir upp á að börnin hennar eru hungruð og að veslast upp?

Mér fannst bókin góð, þó ég sé ekki  viss um að ég hafi skilið hana til fulls.

Ég hef sjálf tvisvar verið í Barcelona. Ég hélt upp á jólin þar í fyrra. Það er erfitt í velsæld að hugsa sér veruleikann sem bókin lýsir. En við  vitum samt að allt of víða eru sveltandi börn og mæður sem hafa engin ráð til að metta þau. 

Eftirþanki: Það rifjaðist upp mér bók sem ég las fyrr á þessu ári. Hún er eftir Carmen Laforet (f.1922, d. 2004), Nada og gerist líka í Barcelona. 

Myndinar sótti ég á netið. Hún er af styttu á Demantstorginum sem vísar til Dúfu.


Smásögur heimsins, Rómanska -Ameríka

 871F20E6-31D4-4E87-A49F-09EF20A3555A

Þegar ég var að skrifa um bókina Soralegi Havanaþríleikurinn, rifjaðist upp fyrir mér, að ég var ekki enn búin að skrifa um hina ágætu bók, Smásögur heimsins, Rómanska-Ameríka (En ég hef það fyrir ásetning að skrifa um hverja bók sem ég les).Sagan sem rifjaðist upp var Eyrnalokkarnir sem vantar á tunglið eftir Ángel  Santiesteban.

En fyrst um, Smásögur heimsins, Rómanska-Ameríka.

Ástæðan fyrir því að ég hafði dregið að skrifa um bókina,  var að verkefnið er svo stórt  og erfitt að ná utan um það  í stuttum pistli eins og ég er vön að skrifa. Bókin er númer tvö í ritröð sem ber yfirskriftina Smásögur heimsins. Fyrst  kom  út Smásögur heimsins Norður-Ameríka og þá eru eftir smásögur frá Evrópu, Asíu, Eyjaálfu og Afríku.

Eftir að hafa lesið tvær fyrstu bækurnar, finnst mér merkilegt hvað svona söfn skilja eftir magnaða tilfinningu, allt öðru vísi en þegar maður les eina og eina sögu á  stangli eða stök smásagnasöfn. Hér fær maður  á tilfinninguna að maður hafi kynnst heilli heimsálfu.  Samtímis  gerir maður sér grein fyrir  fyrir fjölbreytileikamum sem er í algjörri mótsögn við  þá hugmynd.

Vandað til verka

Það er mikið lagt upp úr vali sagnanna. Ekki bara bókmenntalegu gildi þeirra, það er einnig leitast við að höfundar, sem valdir eru, spegli sem flesta þjóðfélags­- og menningarhópa. 

Hvað þessa bók varðar, setur þessi fjölbreytni svo sannarlega svip á bókina, mér finnst sú Rómanska-Ameríka sem ég geng með í kollinum hafa breyst.

Í bókinni eru 22 sögur. Þær eru hver annarri betri og það er ógjörningur að gera upp á milli þeirra. Auk þess er örstutt umfjöllun um hvern höfund, sem er afar fróðleg.  

Ástæðan fyrir því að sagan um Eyrnalokkana sem vantar á tunglið ýtti við mér,  var umfjöllun um vændi í Soralega Havanaþríleiknum. Í frásögn sögumanns,  lítur út fyrir að þetta sé eins og hver önnur vinna sem gefst. Í smásögunni Eyrnalokkarnir sem vantar á tunglið er sýnt inn í nöturlegan  heim  ungrar konu sem vinnur þannig fyrir sér og fjölskyldu sinni. Maðurinn hennar er skilningsríkur  og hjálpsamur. Alveg til fyrirmyndar þangað  til að því kemur, að kúnninn er í raun að falast eftir honum sjálfum.

Ég er svo þakklát

Ég er svo þakklát og um leið stolt af því að svona framtak skuli eiga sér stað í okkar fámenna landi. Þjóðarstoltið bærir á sér.

Nú er þriðja bókin, Smásögur heimsins – Asía, að koma út, eða komin út. Það er því ekki seinna vænna tjá þakklæti sitt fyrir þetta frábæra framtak.

Hljóðbókin

Ég er í þeirri sérstöðu að ég þarf að hlusta á bækur í stað þess að lesa. Bókin  sem ég naut, var því  lesin inn á vegum Hljóðbókasafns Íslands. Enn er  mer þakklæti í huga, hversu vel er að verki staðið.  Hver upplesarinn öðrum betri.  En ég viðurkenni að mér fannst biðin eftir því að hún kæmi út sem hljóðbók löng.  

Bækur til að eiga

Þegar ég les bækur á borð við Smásögur heimsins, hugsa ég, svona bók ætti að vera til á hverju heimili. Um leið verður mér hugsað til vina minna, sem stöðugt eru að lýsa áhyggjum sínum yfir allt of mikilli bókaeign, þeim finnst að bækurnar séu fyrir sér og hafa áhyggjur út af því hversu erfitt það verði fyrir afkomendur þeirra að sitja uppi með  draslið.

Mér sem er hálfblind, finnst unun af því að hafa bækur nærri mér og nýt fulltingis eiginmannsins sem er með safnaraáráyyu og fulla sjón. Mér finnst mikilvægt að handleika bækur sem ég hlusta á. Ég sé nægilega til að  átta mig betur á útliti þeirra og skipulagi.

Á sænsku er til orðið att dödstäda, sem þýðir að taka til fyrir dauða sinn. Mér finnst þetta óþarft og mikilvægara að nota tímann til að lifa.


Soralegi Havannaþríleikurinn : Mig langar ekki til Kúbu.

 

5212F7E0-D900-4C89-89A1-4517D8913A7DMig langar ekki til Kúbu.

Ég hef verið að lesa Soralega Havanna þríleikurinn  eftir Pedro Juan Gutierrez, hann er þýddur af Kristni  R. Ólafssyni.

Um langt skeið hafa bækur frá hinum spænskumælandi heimi heillað mig og ég sit um hverja bók. Það var því ekkert eðlilegra en að grípa tækifærið og lesa bókina um leið og búið var að þýða hana og lesa hana inn hjá Hljóðbókasafninu. Það er Sigurður H. Pálsson sem les og hann gerir það vel. Ég vissi ekkert um bókina nema það sem titillinn segir til um.

Frásagan er lögð í munn nafna höfundar, hann er líka jafnaldri hans og á  margt sameiginlegt með honum. Hann er hvítur og hefur verið blaðamaður og fæst af og til við skriftir. Hann lifir frá degi til dags, býr stúlkum sem sjá fyrir sér með vændi. Eins og ekkert sé eðlilegra en að láta þessar stúlkur sjá fyrir sér. 

Sagan er gerð úr mörgum mislöngum frásögnum og hefst árið 1994. Fall Sovétríkjanna var farið að segja til sín, Kúba gat ekki lengur reitt sig á viðskipti við þá eða stuðning. Það var atvinnuleysi, vöruskortur og fólk var svangt. Það ríkti vonleysi.

Allar frásagnirnar fjalla um það sem sögumaður telur að einkenni líf örvæntingar og vonleysis, þ.e. kynlíf, romm og dóp. Hvað annað? Skítur, drulla og ofbeldi eru reyndar hluti af pakkanum.

Ég er skítahrærari, er heiti eins kaflans. Þar lýsir sögumaður því yfir að það sé hlutverk hans að hræra í skít. Sumir haldi að hann sé að leita að einhverju verðmæti en svo sé ekki. Honum líki einfaldlega við skítinn, hann sé  sjálfur tilgangurinn. Yfirlýsing eins og þessi verður til að ég hætti að taka hann bókstaflega, trúa honum. En einmitt í þessum kafla er ein af mörgum perlum bókarinnar.  Þar lýsir hann eðli skáldskapar. Það felst einfaldlega í því að grípa sannleikann, hver svo sem hann er og láta hann falla niður á autt blaðið. Í hans tilviki er þetta skítur.

Ekki beinlínis bók fyrir mig

Mér fellur illa að lesa grófyrði og klám og ég hef enga ánægju af kynlífslýsingum. Mér finnst ég því vera svolítið í hlutverki skítahrærarans þegar ég legg á mig að lesa þessa bók en ég er að leita að  perlum. Það er einfaldlega  fullt af þeim í þessum texta. Flestar tengjast þær  heimspekilegri afstöðu höfundar til lífsins, sprottnar af því að lifa á heljarþröm.

Meira um klámið

Það sem slær mig í síendurteknum frásögnum höfundar af bríma (ég kann betur við það orð en greddu), er dýrkunin. Hún nær hæstum hæðum í   lýsingunum á getnaðarlimnum, brundurinn sem úr honum kemur er líka hálfheilagur. Allt er magngert, besefinn er mældur í tommum, brundurinn í  bollum (minnir mig) en fullnægingar konunnar eru einfaldlega taldar.

Me too

Me too byltingin á greinilega langt í land á Kúbu. Sögumaður gerir greinilega ráð fyrir því að stúlkum finnist afar gaman að horfa á menn veifa sköndlinum og sömuleiðis gerir hann ráð fyrir því að þeim finnist ofbeldi gott - innst inni.

Ekki bók fyrir mig?

Afstaða mín til þessarar bókar er svo tvíbent að ég á erfitt með að segja frá henni. En ég ætla að reyna að draga það  saman.

Það sem er jákvætt er að þetta er bók um umhverfi sem er  gjörólíkt okkar.   Það er verið að lýsa lífi og viðhorfum fólks sem lifir á ystu nöf. Það hefur orðið rof, gömul gildi eru ógild.  Reisn er ekki lengur hluti af lífi þessa fólks. Bókin lýsir veruleika sem maður vonar að þurfa   aldrei sjálfur að kynnast.

Það sem er neikvætt er skíturinn, ólyktin, klámið og ofbeldið. Það er erfitt að vera í þessum heimi, þótt það sé bara í þykjustunni. Það er fjölmargt sem ég hef ekki sagt um það sem gerir þessa bók sérstaka. Eitt er að lesandinn, alla vega ég vissi oft ekki hvað mér átti að finnast. Ýkjurnar eru oft slíkar að mann langar til að hlæja en á bágt með það, því það sem í henni felst er svo voðalegt. Samfélagið er gegnsýrt af ofbeldi og mannfyrirlitningu.

Auðvitað er ég búin að lesa mér svolítið til um bókina. Einverjir gagnrýnar hafa leikið  sér með að kalla stíl höfundar soraraunsæi. Sú flokkun kallast á við töfraraunsæi sem  einkennir sumar bækur Suður- Ameríku.    

Að lokum langar mig að tala um þýðinguna. Ég get reyndar ekkert sagt um hversu nákvæm hún er, því ég les ekki spænsku. Ég ætla einungis að tala um textann sem ég las. Hann er framúrskarandi, lifandi, spennandi, fjarstæðukenndur og kaldhæðinn eftir því hvað við á. Oft dáðist ég að þýðanda hversu ríkan orðaforða hann hafði yfir þetta fyrirbæri sem við í daglegu tali köllum tilla.  Í eitt skipti held ég að hann hafi komið með nýyrði. Það er orðið hreðjafeykir sama sem maður sem veifar á sér skaufanum og fær fé fyrir. 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2018
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband