Spámaður í föðurlandi

 

IMG_0529

Síðast liðinn fimmtudag hlustaði ég á lærðan fyrirlestur hjá Miðaldastofu um einstakt framtak Guðmundar góða Arasonar við að vígja vatn. Ég þekki lítið til Guðmundar góða fram yfir það sem ég hef lesið í Sturlungu og fannst spennandi að læra um trúarlegu hliðina á starfi hans, sem Sturlunga fjallar lítið um, að minnsta kosti ekki með þeim hætti að ég skildi. Ég hef oft velt fyrir mér hvað lá á bak við auknefnið góði.

Margaret Cormack prófessor emerita í Háskólanum í Charlottesville í Suður Dakóta hélt fyrirlestur um hvaða hugmyndir lágu að baki starfi Guðmundar góða við að vígja vatn. Hún hélt því fram að þetta framtak hans væri einstakt og ætti sér ekki hliðstæðu í öðrum löndum. Eins og allir á vita er fjöldi vatnsbóla á Íslandi kennd við Guðmund góða og fylgir saga um að hann hafi blessað þau.

Margaret Cormack sagði frá hugmyndum Guðmundar sjálfs eins og sagan segir að þau birtast í varnarræðu sem hann flutti yfir erkibiskupi í Þrándheimi. Guðmundur taldi þyrfti að verja verja gjörðir sínar, því það hafði verið fundið að því, að vígslur hans og fyrirbænir  brytu í bága við það sem kirkjan taldi rétt og viðeigandi.

Hugmyndir Guðmundar eru merkilegar. Hann heldur því fram að í raun sé allt vatn heilagt, það hafi helgast af því er  Jesús Kristur steig niður í ána Jórdan þegar hann var skírður af Jóhannesi skírara. Hann segir að með með blessun sinni sé hann einungis að sýna fram á þessa staðreynd.Heillagleikinn komi frá þeim sem honum séu æðri. Það er Jesús sjálfur.

Það var gaman fyrir mig, sem alin er upp í Lúthersku,að hlusta á tungutak Kaþólskunnar, sem er full af mystik. Það er eitthvað heillandi við kraftaverk.

Verst finnst mér þó, að ég er ekki viss um að ég hafi skilið fræðikonuna nógu vel, trúarlegt fræðimál er ekki mín sterka hlið, hvað þá á ensku. Þó er ég sannfærð um að við þurfum á þessum skilningi að halda ef við ætlum að skilja fortíð okkar, sem er mikilvægt.

Reyndar er vert að geta þess að allt efni sem Margaret Cormack hafði rannsakað var ritað löngu eftir dauða Guðmundar en það er samt hluti af okkar sögu og því merkilegt fyrir okkur Íslendinga.

Að lokum langar mig til að þakka Miðaldastofu fyrir skipulagið og efnisvalið á fimmtudags- fyrirlestrunum, sem eru opnir öllum og ég hef nú notið að sækja í fjögur ár, held ég, en er ekki viss. Tíminn líður hratt.  

Að lokum. Ég heft það á tilfinningunni að við kunnum ekki nógsamlega að meta Guðmund góða og allt þetta vatn sem hann blessaði handa okkur. Ég hugsaði því til máltækisins:Enginn er spámaður í eigin föðurlandi.

Myndin tengist ekki efninu, aðeins leikur með liti.Tekin af pistlahöfundi


Óvinur fólksins. Sannleikurinn og lýðræðið

IMG_0941

Í fyrradag fór ég í leikhús, sá Óvin fólksins eftir Henrik Ibsen. Hef ekki séð þetta verk áður en líklega hlustað á það í útvarpi. Í leikgerð Þjóðleikhússins er það flutt í einni lotu, ekkerkt hlé. Ekki einu sinni pissustopp.

Nútíminn og ég

Þegar maður er kominn á minn aldur, er ýmislegt í Nútímanum sem manni fellur ekki við.  Nútíminn er líka búinn að skóla mann til, svo maður er ekki stöðugt að tala um hvað manni finnst innst inni. En í þessum pistli ætla ég að segja sannleikann. Það er í anda verksins, sem fjallar um sannleikann og hugrekki til að láta ekki kúga sig til að segja ósatt.

Það sem mér fellur ekki við nútímaleikhús er tilhneigingin til að laga leikritin til, matreiða þau svo allir skilji örugglega hvernig þau vísa inn í samtímann. Mig langar til að vinna það verk sjálf, skoða hvernig 19. aldar fólkið sá sinn raunveruleika, túlka það og bera saman við pólitík dagsins í dag.  En eins og ég sagði fyrr, er Nútíminn búinn að skóla mig til, hver vill endalaust fá á sig,að hún eða hann, hafi alist upp í torfbæ og skilji ekki nýja tíma.

En mér finnst gaman að fara leikhús og hef það fyrir prinsipp að láta mér ekki leiðast. Tími ekki að borga  fyrir það að láta mér leiðast.

Sýningin

Mér fannst gaman, leikararnir stóðu sig vel og sumir frábærlega. Í leikritinu er fjallað um sannleikann, ábyrgð einstaklingsins og tjáningarfrelsi. Og síðast en ekki síst, er fjallað um hvað gerist þegar árekstrar verða á milli þess sem sannleikurinn leiðir í ljós og  hagsmuna, einstaklinga og samfélags.

Ég tók strax eftir að aðstandendur verksins hafa lagt mikið á sig til að leikritið tali beint inn í okkar tíma.

Mér féll ekki leikmyndin, fannst  hún stela senunni og um leið trufla frásögnina um fólkið í þessu þorpi sem vildi umfram allt græða á heilsulindinni sinni þótt hún væri eitruð. Mér fannst líka afkáralegt  að fylgjast með Stockmann fjölskyldunni í endalausum pikknikk undir verksmiðjuvegg eða raflínumastri. En ég skildi alveg hvert var verið að fara. Í nútímaleikhúsi er það líka í tísku að flysja burt allan „óþarfa“ og tálga fram hinn eiginlega boðskap verksins, að mati leikstjóra.  Það virðist þurfa að lagfæra orðræðuna til þess að ekki fari fram hjá neinum hvernig hún samsvarar orðræðu dagsins í dag. Þetta var vel gert en passaði mér ekki. Mér finnst eins og það sé verið að stappa ofan í mig matinn. En  ég er ekki barn lengur, heldur komin á seinna og kannski seinasta mótþróaskeið.

Sumt var þó greinilega til bóta og að mínu skapi, til dæmis var skemmtilegra að fjölga kvenhlutverkum. 

Efni verksins

Aftur að innihaldi verksins. Tómas Stockmann læknir hefur komist að því að vatnið heilsulindunum er eitrað, óhæft innvortis sem útvortis. En það eru einmitt þessar heilsulindir sem fólkið í bænum bindur vonir sínar um bætt líf, bættan fjárhag, við. Það sem verra er, er  að mengunin stafar af úrgangi frá verksmiðjunni sem lengi hefur verið undirstaða atvinnu margra bæjarbúa.Bæjarstjórinn Petra Stockmann systir læknisins, en er jafnframt forstjóri heilsubaðanna, vill þagga málið niður. Þetta yrði reiðarslag fyrir bæinn, allt of dýrt. Í fyrstu bindur Tómas vonir við að „Blaðið“ birti greinargerð hans um málið en sú von bregst, þegar kemur í ljós að útgefandi blaðsins frú Aslaksen treystir sér ekki að fjalla um mál sem er dæmt til að verða óvinsælt af fólkinu.Það er haldinn fjöldafundur og Tómas lýsir yfir efasemdum sínum um lýðræðið og segir að hann þurfi ekki á  stuðningi fólksins að halda, hann sé sterkastur einn.

Niðurstaðan er þannig frekar dapurleg miðað við okkar tíma, sérstaklega fyrir það fólk sem treystir á lýðræði. En þá er gott að hverfa aftur til upphafsins og muna að þarna talar 19. aldar rithöfundur, sem er samtímamaður Nietzsches, á tímum þegar hugmyndin um ofurmennið svifu yfir vötnunum og þóttu boðlegar. Henrik Ibsem var fæddur 1828 og verkið En folkefiende kom út 1882. Nietzsche fæddist 1844 og verkið Also sprach Zarathustra kom út á árunum 1883 til 1886.  

Ég veit ekki hvort ég er tilbúin til að fyrirgefa Ibsen neikvæðni hans gagnvart lýðræðinu. Þetta eru varasamar skoðanir.Það hefur sýnt sig. En í fyrrakvöld í leikhúsinu  kaus ég að einbeita mér að því sem ég tel aðalatriði verksins, hinni eilífu klemmu sem sannleikurinn er í vegna hagsmunaárekstra við einstaklinga,almenning og við þá sem bara vilja græða.

Það var gaman að horfa á þetta verk af því það var svo vel leikið, við eigum frábæra leikara. Ég saknaði þess að hafa ekki hlé. Af hverju eru allir alltaf að flýta sér? Leikhús er rammi um það sem fram fer á sviðinu og inn í þeim ramma eru samskipti leikhúsgesta og að dekra svolítið við sjálfan sig. Meltingin byrjar þar.

Myndina tók ég traustataki á netinu. 


Umkringd af fíflum

IMG_0500

Ég hef þýtt Omgiven av idioter með umkringd að fíflum en það má svo sem þýða idioter með hvaða niðrandi orði um gáfur fólks menn kjósa sér.

Í leit minni af nýjum krimma, ég er alltaf með spennubók til hliðar við annars konar  lesningu, rakst ég á nafnið Thomas Eriksson ofarlega á vinsældalista. En þegar til átti að taka, var hann frægastur fyrir bókina, Omgiven av idioter. Það er ekki krimmi, heldur handbók um samskipti, einkum á vinnustað. Ég ákvað að lesa hana fyrst.

Í upphafi bókar lofar hann því að hún færi lesandanum lykilinn að því að skilja þann  sem hann  skilur ekki og auðveldi þannig samskipti.

Þessi lykill er flokkunarkerfi, sem byggir á rannsóknum. Og þótt ég sé í prinsippinu á móti því að flokka fólk, les ég áfram.

Það er sem sagt hægt að flokka fólk í fjóra flokka út frá því hvað sé virkasta aflið á bak við gerðir þess.

  1. Rautt: Keppnisfólk sem er fljótt að hugsa og taka ákvarðanir og sækist fyrst og fremst eftir því að vera í fremstu röð. Komast til áhrifa.
  2. Gult: Hugmyndaríkt, skapandi og fljóthuga fólk sem nærist á því glansa, baða sig í aðdáun annarra.
  3. Grænt: Félagslynda fólkið, sem nærist af því að vera gagnlegt og eiga góð samskipti. Að vera vinsælt.
  4. Blátt: Fólk sem vill gera rétt á grundvelli röklegrar greiningar á málavöxtum. Vinsældir, keppni eða aðdáun annarra er aukaatriði. Fyrir bláan einstakling skiptir tíminn sem það tekur að taka ákvörðun, ekki máli.

 

Þótt ég sé, eins og fyrr sagði, á móti því að flokka fólk,  eru svona flokkunarkerfi ótrúlega áhrifarík. Fyrr en maður veit af, er maður byrjaður að skella fólki í ákveðinn flokk, í þessu tilviki er þetta spurning um lit. Þetta stemmir ekki hugsa ég, Bjarni Benediktsson er ekki blár heldur rauður. Ég kann því illa, ég er svo vön að hugsa út frá öðru flokkunarkerfi, litum flokkakerfisins.

Mig langar til að útskýra hvers vegna mér finnst rangt að flokka fólk. Í mínum huga er manneskjan eitthvað svo miklu meira en það sem nokkurt flokkunarkerfi nær til og umfram allt er hún gædd sjálfstæðum vilja og ræður gjörðum sínum. Ekki eins og epli eða appelsínur sem ráða engu um hver þau eru. Í hvert skipti sem ég stend mig að því að afgreiða fólk út frá kategoríum, slæ ég á fingurinn á mér.

Það er þó eitt sem er gott við flokkunarkerfi Thomas Erikssons, hann skoðar hvaða gildismat liggur að baki ákvarðanatöku fólks, á hverju nærist það.

Mér fannst bókin ekki standa undir því loforði höfundar að lestur hennar hjálpaði mér til að skilja fólk sem ég á erfitt með að skilja. Líklega hef ég aldrei trúað því.

Nú er ég samt komin á rétta slóð, farin að lesa  spennusögu eftir þennan sama höfund, Vanmakt. Hún lofar góðu og það var gott að ég var búin að setja mig inn í „fræðin“, ein af aðalpersónum bókarinnar er „hegðunarfræðingur“ sem leggur litakerfið, rauður, gulur, grænn og blár, til grundvallar við að leysa  mál. 

Meira um þá bók síðar.


Er plastumræðan platumræða?

IMG_0054

Ég flokka rusl og tel það ekki eftir mér. Mér finnst ekki nema sjálfsagt að gera það litla sem ég get til að vernda náttúruna. Ég hef í mörg ár ýmist tekið með mér innkaupapoka eða bakpoka þegar ég kaupi inn. 

Ég þori ekki annað en taka þetta fram vegna þess sem hér fer á eftir. 

Ég hef engar efasemdir um að það á að takmarka plast, rökin fyrir skaðsemi þess hafa rækilega verið sönnuð. En er það nóg að við sniðgöngum plastpoka? Nær öll vara sem ég kaupi er innpökkuð í plast og sumt svo rækilega að kaupandinn getur ekki einu sinni fengið að skoða vöruna. Þetta segi ég vegna uppsafnaðrar gremju þegar ég þarf að kaupa mér "earphones."Þetta var útúrdúr. Sjampóið er í plastbrúsum og uppþvottalögurinn sömuleiðis. Leikföngin eru úr plasti og pökkuð inn í enn meira plast. Meira að segja ryksugan er úr plasti en ég fékk hana óinnpakkaða. Þetta voru bara dæmi, ég hef meira að segja átt bíl úr plasti. En af hverju er ég að telja þetta upp? Það geri ég vegna þess að í flestum tilfellum finnst ekkert val og þess vegna er ég sem neytandi í erfiðri stöðu ef ég ætla að beita mér sem þrýstiaðli. 

Neytendur vilja gjarnan forðast vöru sem er skaðleg náttúrunni, það sýna viðbrögðin gegn gegndarlausri plastpokanotkun. En við virðumst sitja föst þar. Hvergi hef ég séð merki þess að framleiðendur séu að endurskoða framleiðslu sína og bjóði vörur í umhverfisvænni umbúðum eða náttúruvænu efni. En ég fylgist náttúrlega ekki með öllu og það myndi bara gleðja mig, ef ég hef á röngu að standa. Horfið bara í kring um ykkur á heimili ykkar.

Mín skoðun er sú að það eigi að fara með plast eins og öll önnur eiturefni. Stjórnvöld þurfa að setja reglur, banna eða a.m.k. takmarka sölu á því sem er hættulegt. Þetta er stórt mál og því enn brýnna að setja sér markmið og finna leið. Sem betur fer eigum við mikið af vel menntuðu fólki sem er fært um að vinna að slíkum málum. 

Auðvitað kostar þetta eitthvað en er hægt að verja peningunum betur en nýta þá í þágu náttúruverndar? Baráttan gegn plasti á sem sagt ekki bara að vera neytendamál, hún á líka að vera  pólitísk og þannig fyrst og fremst kosningamál. 

Það er verst hvað stjórnmálamenn og þar af leiðandi stjórnmálaflokkar hugsa skammt. Þeir þurfa að læra að hugsa í öldum og árþúsundum í stað fjögurra ára. 

Myndin er af höfundi

Hana tók E.Ó. 

 


Sveitin kvödd

 

IMG_0900

Að minnsta kosti einu sinni á ári heimsæki ég æskustöðvarnar, Norðurdal í Breiðdal. Ég heimsæki ættingjana, landslagið og eigin minningar. Í þetta skipti var veðrið gott, flesta daga skein sólin en þegar þokan læddist inn var veður svo milt að hún var næstum heit. En það var samt einhver skuggi yfir þessari heimsókn, í öllum fréttum var fjallað um framtíð bænda, sem í mín eyru hljómar frekar sem fortíð, a.m.k. sumra bænda. 

Ég er reyndar ekkert óvön þessari umræðu, hef fylgst með henni eins lengi og ég man eftir mér. En í þetta skipti var það öðru vísi, bæði vegna þess hvar ég var stödd og vegna þess að nú blasir við að gamla sveitin mín, sem er fjárræktarsvæði fari úr byggð. Það eru nefnilega takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að grisja byggð svo hún lifi af.

Mig langar að rifja upp umræðuna um framtíð bænda. Þegar ég man fyrst eftir mér var enn sjálfsþurftarbúskapur í Breiðdal. Búskapur var blandaður, sem þýðir að það alls staðar voru kýr,sauðfé, hestar, hænur, að ógleymdum hundum og köttum. Heima hjá mér voru líka gæsir. Stór hluti afurðanna var nýttur til heimabrúks, einungis sauðfjárafurðir voru seldar á markaði. Auk þessa voru ræktaðar bæði rófur og kartöflur. Innleggið frá sláturtíðinni þurfti að nægja fyrir því sem var keypt. En nútíminn kom til okkar hægum skrefum.

Faðir minn fylgdist vel með framförum í landbúnaði sagði að eina leiðin til að halda í við aðra væri að stækka búið. Í nokkur ár gekk lífið út á vinnu við nýræktun. Tæknin kom hægt, fyrsta heyvinnsluvélin var hestasláttuvél, því næst kom rakstrarvél. Pabbi fór hægt í þetta,næst kom minnsta dráttarvél á markaði, Farmal Cup, sem hann keypti í samvinnu við annan bónda. Þetta var eins og að elta endann á regnboganum. Hið auðvelda og góða líf var rétt í augsýn, alltaf kom ný tækni sem átti að létta manni þrældóminn.

Kjör sauðfjárbænda bötnuðu hægt. Athugulir bændur tóku eftir að væerðlag búvara var þannig að miklu betra vara að framleiða mjólk og það gerðu þeir. Um það leyti sem ég hleypti heimdraganum var þó enn enginn uggur í fólki, það var meira að segja farið að tala um að leiðrétta það misrétti sem landsbyggðarbörn bjuggu við og gera þeim kleyft að ljúka námi í heimabyggð. 

Það hefur þó ýmislegt verið reynt og oftar en ekki bæði lán og ráðgjöf í boði frá "ábyrgum" aðilum. Verst af öllu var þó refa- og minkaræktin. Ég var sem betur fer svo heppin að engir nákomnir bitu á það agn. 

En til hvers er ég að skrifa þetta? Undirstrikar það ekki bara að landbúnaður á Íslandi er vonlaus? Ég veit það ekki, ekki kann ég lausn. Mér sem einu sinni sveitakonu, sem kaupi mat í verslunum sem áður var unninn heima, finnst að það hafi meira verið hugsað um magn en gæði. Ég kenni milliliðum um sem kunna ekki með mat að fara. 

Auk þess hugsa ég, höfum við efni á að hafa landið ekki í byggð. Ef það er eitthvað sem okkur vantar ekki, þá eru það fleiri eyðibýli.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Sept. 2017
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 65
  • Frá upphafi: 187118

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband