Skyndilokun á skotelda

3AB1F49E-9B96-424A-AA8A-5BAA1B279666Ekki eru allar hefðir eða siðvenjur góðar, sumar eru siðferðilega vafasamar eða rangar. Það er t.d. ekki lengur sjálfsagt skemmta sér við að horfa á dýr kveljast í hanaati og nautaati. Íslendingar eru löngu hættir að leiða saman hesta sína. Kötturinn er þó enn sleginn úr tunnunni á Akureyri, aðallega til að gleðja börn, sem vita ekki að þessi gamla hefð fól í sér  að kvelja ketti.

Ég tók þessi dæmi um dýrin til að sýna fram á hliðstæðu í nútímanum þar sem “hefð” stuðlar að vanlíðan og flýtir fyrir dauða fólks. Ég er að tala um þá tiltölulega nýju hefð, að skjóta upp flugeldum. Þegar ég segi nýjú, er ég að tala um Ísland, en hefðin á sér langa sögu í Kína og fleiri löndum.

Það hafa ekki allir gaman af flugeldaskothríðinni, sumum leiðist hún og halda sig innan dyra. Öllu alvarlegra er þó, að margt fólk þolir illa mengunina sem þeir valda. Mest er talað um veikt fólk og gamalmenni en nú hefur komið í ljós að mengun frá skoteldum er slæm fyrir alla, það gera þungmálmar sem fara út í andrúmsloftið. Slík mengun safnast fyrir í líkamanum. Það eru sem sagt engin skynsamleg rök fyrir að því að skjóta. Nema sú skemmtilega mótsögn að þessi sala, einu sinni á ári, er alveg lífsnauðsynleg fyrir björgunarsveitirnar. Segja menn.  

En þessi rök duga ekki einu sinni á mig, sem á þó björgunarsveit lífið að launa. Hef reynslu af því að veikjast skyndilega á gönguferð á Hornströndum og bíða eftir þyrlunni. Kemur hún? Getur hún lent? Já, hún kom og ég lifi. Ég hef aldrei fyrr eða síðar keypt flugelda, það má styrkja björgunarsveitirnar á annan veg. 

Ég get vel unnt fólki þess að gleðjast svo fremi sem það skaðar ekki sjálft sig eða aðra. Og nú á dögum þurfum við að hugsa enn lengra, við þurfum að hugsa um náttúruna og framtíðina. Þess vegna finnst mér að það ætti að finna aðra aðferð til að kveðja árið.

Í fiskveiðistjórnunarkerfinu tíðkast það að setja skyndilokun á veiðar á svæðum ef grunur vaknar um að veiðarnar gangi út yfir náttúrleg mörk. Allt í einu er barasta bannað að veiða á Berufjarðargrunni, svo ég taki dæmi. Væri ekki hægt að taka sér þetta til fyrirmyndar í stjórnun loftgæða? Væru ekki eðlilegt að setja skyndibann á skotelda í Reykjavík þegar mengun fer yfir leyfileg heilsuviðmið?

Eitthvað þarf að gera.

En gleðilegt nýtt ár kæru lesendur og takk fyrir árið sem senn er liðið. Og látið ykkur líða vel í kvöld. Ég ætla að vera inni með kisu þegar nýja árið gengur í garð. Okkur líður best þannig. 

Eftirþanki.

Væri ekki upplagt að skapa þá nýju hefð að slökkva öll ljós og horfa á stjörnuhimininn?

Myndin er tekin í Marakkó. Blóm eða stjarna málað á skáphurð

 

 


Föðurlandsstríðiðið mikla: Ótrúlega góð bók

C928477B-1C12-464F-9FC2-1C683690FE32

Föðurlandsstríðið mikla og María Mitrofanova eftir G. Jökul Gíslason er ótrúlega góð bók. Ég ætla í þessum stutta pistli að gera grein fyrir því af hverju mér finnst hún góð. Ég valdi bókina eftir að hafa hlustað á viðtal við höfundinn, þar sem hann rakti aðdraganda þess að hann ákvað að skrifa hana. Sá aðdragandi er langur. 

Sem lítill drengur hafði hann heillast af því að leika sér með dót sem einu sinni var kallað tindátar en er trúlega núna úr plasti, ég þekki ekki þennan heim. Þá geta börn, aðallega drengir (held ég) stillt upp heilu orustunum og barist. Þannig fá þeir betri innsýn í það sem gerðist. Þetta er sama hugmyndin og liggur að baki prjónaverkefninu mínu að prjóna allar  helstu persónur Sturlungu en það er seinlegt. Höfundur hefur aldrei hætt að leika sér en notar “leikinn” núna til að rannsaka það sem gerðist og skilja betur gang styrjaldarinnar. 

Fyrri hluti titils bókarinnar vísar til þess, að í Rússlandi er síðari heimstyrjöldin kölluð Föðurlandsstríðið mikla en síðari hluti titilsins vísar til Maríu Mitrofanovu, sem var hermaður í síðari heimstyrjöldinni en býr nú á Íslandi. Jökull kynntist þessari konu af tilviljun, hún sagði honum sögu sína en Jökull fékk leyfi til að nota sögu hennar og flétta hana inn í frásögnina. 

Þetta er ekki fyrsta bókin sem ég les um þessa styrjöld. Ég hef m.a. lesið bók Svetlönu Alexievich Nóbelsverðlaunahafa (2015) Stríð hefur enga kvenlega ásjónu. Sú bók byggir á viðtölum Svetlönu við fjölda kvenna sem börðust og fóru flestar kornungar í stríðið, eins og María. Þótt þessar bækur séu ólíkar stemmir frásögn Jökuls vel við bók Svetlönu. Jökull er með herfræðina á hreinu og notar hana til að skilja gang styrjaldarinnar. Hann er ekki lengur barn, hann rannsakar. Hann lýsir herbúnaði, nefnir hershöfðingja og gangi einstakra orrusta. Hann segir líka frá mannfalli, sulti og stríðsglæpum. Konurnar sem Svetlana talar við tala meira um tilfinningar og líðan. Hvernig það er að hafa ekki sokka eða leppa í stígvélunum, hvernig er að horfa á vini sína deyja og af hverju þær þola ekki rauða litinn, lit blóðsins. 

En Jölull er ekki bara góður að lýsa gangi styrjaldarinnar, hann er einkar góður í að kryfja pólitískt ástand, sem leiddi til stríðsins og afleiðingum styrjaldar sem ekki sér fyrir endann á. 

Bókin er vel uppbyggð, í raun er hún eins og kennslubók með tímaás og skýringamyndum. Það sem skiptir þó mestu máli, er tónninn. Bókin er manneskjuleg og hlý.

Þessi bók er snilld. 

 


Til hvers les ég? Og áramótaheit verður til

35625BA7-46C5-4AF0-AFD2-3B65CF0AF51AAf hverju les ég?

Ég les reyndar ekki, ég hlusta af því ég er sjónskert, en ég tala um að lesa.


Í þessum pistli ætla ég að reyna að finna út til hvers ég er að lesa bækur. Auðvitað er ég að gera þetta fyrir mig, en mér finnst það viðeigandi að velta þessu fyrir mér, ég skipulegg tíma minn sjálf og ég ver verulegum hluta hans í lestur.
Ég ætla að reyna að komast að þessu með því að búa mér til lista yfir allar ástæður sem mér koma í hug í fljótu bragði

 

Listinn

  • Mér til ánægju
  • Af forvitni
  • Til að fræðast
  • Til að fylgjast með
  • Til að róa hugann fyrir svefninn
  • Vegna þess að bókaklúbburinn hefur ákveðið það
  • Til að hafa ofan af fyrir mér
  • Til að halda mér við í tungumálum sem ég hef lært
  • Af því einhver bendir mér á bókina og mér finnst ég skuldbundin
  • Til að stækka heiminn
  • Til að dýpka minn eiginn veruleika
  • Til að flýja raunveruleikann


Ég hafði í hugsunarleysi gert ráð fyrir því að fyrsta ástæðan, sem mér kom í hug vægi þyngst, að ég læsi bækur ánægjunnar vegna. En þegar ég renndi yfir bókavalið síðustu mánuðina, fann ég að flestar bækur sem ég hafði lesið tóku mjög á mig. Þær færðu mér ekki gleði heldur kvíða, depurð en þó stundum einhverja von um betri heim. Þessar bækur fjölluðu nær allar um ýmsar birtingarmyndir ofbeldis og um kúgun. Ég ætla að nefna nokkrar:


Heimför (Yaa Gyasi) fjallar um þrælahald og nær allar tegundir ofbeldis.
Með lífið veði (Yeonmi Park) segir frá unglingsstúlku sem flýr heimaland sitt vegna pólitískrar kúgunar.
Medan han lever (Elaine Eksvärd) fjallar um misnotkun föður á dóttur.
Die Frauen der Rosenvilla (Teresa Simon)segir frá ungri stúlku sem erfir hús og ætlar að koma sér upp og reka súkkulaðiveitingastað. Fortíðin vitjar hennar og hún leggst í grúsk. Öllum smáatriðum er vendilega lýst,hvort sem er í útliti fólks, áferð á sjölum, kjólum eða í bragði súkkulaðisins sem hún er að þróa framleiðslu á. Í bókinni er lítið sem ekkert um ofbeldi nema sagt er frá tveimur heimsstyrjöldum svona í forbífarten.
Þessar ólíku bækur eru misvel skrifaðar og ekki get ég sagt að ég hafi lesið þær mér til ánægju en ég fræddist. Þýska bókin gerði sitt gagn, tosaði einhverri þýsku upp á yfirborðið. Eftir að hafa lesið dulitla bók um raðmorð Ósýnilegi verndarinn eftir Dolores Redonde,sem ég þegar hef skrifað um, hóf ég lestur á bókinni Föðurlandsstríðið mikla eftir Gísla Jökul Gíslason. Þetta er stórmerkileg bók,ég ætla að um fjalla hana í næsta bloggi.


Lokaorð
Ég veit ekki hvort ég hef komist nokkuð nær því að vita af hverju ég les. Mér finnst líklegt að svarið sé blandaðar ástæður. Það olli mér vonbrigðum að komast að því hvað ánægjan ein og sér virðist léttvæg í því sambandi. Ég sé líka að ljóðabækur komast ekki á blað en áður fyrr voru þær minn allra besti yndislestur. Ég veit hver ástæðan er. Ég hef sætt mig við að hlusta á bækur, neyðin kennir. Það á við allar bækur nema ljóðabækur, ég kann ekki að láta aðra lesa þær fyrir mig. S
 Ég finn að ég fæ kökk í hálsinn þegar ég segi þetta. Ég verð að taka mér tak, finna leið.
Loksins urðu þessar vangaveltur mínar til einhver gagns. Mér hefur fæðst áramótaheit. Þrjú ljóð á dag næsta árið.


Spænskur krimmi: Ósýnilegi verndarinn

DF9467B0-1C58-41F8-A8D4-986825489FD9

Eftir að hafa lesið þrjár bækur um ofbeldi í röð, langaði mig að lesa eitthvað léttara og valdi nýútkomna glæpasögu eftir spænskan höfund. Mér finnst í augnablikinum að allt sem ég les eftir spænskumælandi höfunda gott, en ég get því miður ekki lesið spænsku.  

Bókin er eftir Dólores Redonde (f. 1969) og gerist á Norður Spáni í héraði sem kennt er við Baztán-ána í Baskalandi. Í kynningu, kom fram að bókin er fyrsta bók af þrem. 

Aðalpersóna sögunnar duglegi lögregluvarðstjórinn Amaia Salazar, þarf að rannsaka morð í fyrrum heimabæ sínum. Unglingsstúlka hefur fundist látin. Málið á eftir að vinda upp á sig, þegar kemur í ljós að fleiri stúlkur finnast látnar og að ummerkin eru öll þau sömu.

Amaia dvelur hjá frænku sinni meðan hún vinnur að rannsókn málanna og það kemur í ljós það var ekki að ástæðulausu sem Amaia yfirgaf heimabæ sinn kornung og sneri um leið baki við fjölskyldu sinni og fyrirtæki, gamalgrónu bakaríi. Þegar samskipti hefjast að nýju, rifjast upp erfiðar minningar og á tímabilili mátti ekki á milli sjá hvort væri mikilvægari þáttur sögunnar,  að komast til botns í sálarlífi lögregluvarðstjórans eða að finna morðingann. 

Þetta virtist sem sagt alls ekki vera bók fyrir mig, því ég hef lýst því yfir að ég þoli ekki raðmorð og þaðan af síður bækur með yfirskilvitlegu ívafi. En það var samt eitthvað við þessa bók sem hreif mig,hún er nefnilega vel skrifuð.

Bók sem flytur mann úr stað í tíma og rúmi og lætur manni finnast eins og maður myndi þekkja  persónurnar á götu, ef maður mætti þeim, er vel skrifuð. Ég sá aðstæður ljóslifandi fyrir mér og fannst ég vera stödd þarna í þessu litla sveitaþorpi að leggja tarrotspil með Amaju, frænku hennar og systur. Ég fékk brennandi áhuga á kökunni chanchigorri, sem komið var fyrir á  vettvangi glæps og eyddi hálfum degi við að reyna að finna uppskrift á netinu. En uppskriftirnar stönguðust allar á og ég gafst upp.

Í kynningu á bókinni er hún kölluð “svört” glæpasaga. Það er  meðvitaður tilgangur höfundar að kynna sagnaarf alþýðufólks í Baskalandi. Það er sem sagt engin tilviljun að aðstoðarmaður lögreglukonunnar er með háskólapróf bæði í  mannfræði og fornleifafræði. Þetta eru gagnleg fræði í landi þar sem ókennd dulmögnuð náttúruöfl eru enn á sveimi. Í miðjum lestri ákvað ég að gleyma því hvað mér finnst um raðmorðsbækur og yfirskilvitlegar bækur og fór í staðinn að hugsa um Jordskott, sænska sjónvarpsseríu sem mér fannst alveg frábær.

Það var gaman að lesa  þessa bók og ég bíð spennt eftir hinum tveimur sem á eftir koma. Ég veit að það er búið að gefa þær út.

Þýðandi bókarinnar er Sigrún Ástríður Eiríksdóttir.

Ég hlustaði á bókina sem hljóðbók. Hún er lesin af Helgu Elínborgu Jónsdóttur sem er frábær lesari og augljóslega góð að skila frá sér nöfnum á fólki og stöðum með með spænskum framburði. Mér fannst það setja punktinn yfir i-ið. 

Myndin er af höfundi. Hún er fengin að láni á netinu.

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Des. 2017
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 186944

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband