Ég vildi að ég þekkti einhvern á Lynghaga

070Ég vildi að ég þekkti einhvern á Lynghaga þá gæti ég þakkað honum fyrir hvað fólkið á Lynghaga gerðu mikið fyrir mig í dag þegar ég var að hlaupa götuna hans í hálfmaraþoninu. Það var dásamlegt. Nákvæmlega það sem ég þurfti í undirbúningi þess sem koma skyldi. Ég er nokkuð viss að fleiri en mér er þakklæti í huga. Það streymdi til okkar gleði og kraftur.

Reyndar langar mig að þakka öllum sem voru á hliðarlínunni og hvöttu, ég vissi það ekki fyrir að hvað það gefur mikið að fá slíkar kveðjur. Mér fannst líka gaman að hlaupa fram hjá skemmtistöðvunum, þær voru skemmtilegar.

Leiðinlegasti og um leið erfiðasti kafli hlaupsins var krókurinn niður að Sundahöfn og inn að Kleppi. Þar var ekki nokkur lifandi sála á hliðarlínunni og vöruhótelin ótrúlega ljót og óspennandi. Af hverju kalla menn þetta HÓTEL en ekki vörugeymslur eða lagera? Ég þráði svo að það væri þarna einhver skemmtistöð. Reyndar var allra fyrsti spottinn af þessum krók ánægjulegur því lyktin af kerflinum var svo góð, nokkurs konar anísylmur. Maður er svo lyktnæmur þegar maður hleypur.

Svo ég dragi saman hvað ég er að segja. Ég vildi að allar götur væru eins og Lynghaga þegar ég er að hlaupa.


Stórmerkilegt rit um hænsnarækt frá 1915

HænaFyrir tilviljun barst mér upp í hendurnar stórmerkilegt rit um hænsnarækt frá 1915 eftir Einar Helgason. ég las það af stakri ánægju enda hef ég alltaf verið áhugamanneskja um hænsnarækt enda alin upp við að bera virðingu fyrir hænum rétt eins og öðrum dýrum sem þjóna manninum. Mín heimsmynd var á þessum tíma, nokkur veginn þessi; Maðurinn ber sömu ábyrgð á húsdýrunum og Guð ber á mönnunum, hann á að vera þeim góður og sjá til þess að líf þeirra verði hamingjuríkt.

M.a þess vegna var þessi bók er gersemi fyrir mig. Hún segir frá:

Kynflokkum hænsna

Uppeldi

Hirðingu

Undir þetta fellur flest það sem máli skiptir í hænsnarækt. Strax í upphafi ritsins kemur fram "að bændur vilja engin hænsn hafa og höfðu allt á hornum sér á móti þeim; en venjulega er hér öðru máli að gegna um konurnar. Víða halda þær hlífiskildi fyrir hænsnunum." Um aðbúnaðinn segir þetta: "Hænsnin þurfa að hafa rúmgóða, bjarta og þurra bústaði; hlýinda þarfnast þau líka, allra helst á nóttinni:" Og síðar segir:" Hænsnin eru þrifin að náttúrufari, Þau langar til að halda sér hreinum." Og áfram segir um eðli hænsnfugla: Hænsnin eru einstaklega reglusöm að náttúrufari; en auðvitað er hægt að níða úr þeim þann  eiginleika." Og síðar segir:"Eftirtektarsamur maður á að geta séð það á hænsnum hvernig þeim líður." Og enn: Mönnum ætti að vera það fullljóst, að þeir sem halda hænsni, hafa sömu skyldur við þau eins og við aðrar skepnur, sem þeir hafa undir höndum, þær, að reyna að láta þeim líða vel."

Mér fannst það einstakt happ að fá þessa bók upp í hendurnar núna þegar svo mikil umræða er um aðbúnað dýra og þó sérstaklega þeirra sem eru sett inn í nokkurs konar verksmiðjuumhverfi. Hvað eigum við að gera og hvað getum við gert? Þar að auki rifjuðust upp gamlar minningar frá því ég var barn, allt stemmir. Konur sáu um hænurnar, karlar fyrirlitu þær en tóku samt eggjunum fagnandi. Hænur voru persónuleikar og þeir sem um þær hirtu þekktu þær og skildu þarfir þeirra. Sumar hænur voru hreint og beint skemmtilegar með sínar sérviskur. Í gamla daga, þegar ég var ung var það ekki til siðs að borða hænsnakjöt en mamma mín sem hafði verið í vist sunnanlands matreiddi þær og okkur fannst kjötið gott en við lærðum fljótlega að það var ekki okkur til framdráttar að ræða um hænsnakjötsátið á öðum bæjum. En mikið var unghanakjöt gott, ég man það enn.

Kveikjan að þessari grein voru feisbókarskrif ágætrar vinkonu Ólafar Erlu, þeim laust saman við lestur minn á þessu sérstaka kveri um hænsnarækt. Og nú spyr ég enn og aftur: HVAÐ GETUM VIÐ GERT TIL AÐ STUÐLA AÐ MANNÚÐLEGRI MEÐFERÐ Á DÝRUM?

Það er reyndar fjölmargt fleira áhugavert í þessari litlu bók sem gaman er að gaumgæfa, stundum, allt of oft, hugsa ég að hin svokallaða framþróun er afturför.

Skoðið þetta

http://www.filmsforaction.org/watch/without_saying_a_word_this_6_minute_short_film_will_make_you_speechless/#.Ug3yOpi-8ta.facebook

 

 


Íslendingar mega ekkert aumt sjá, þá skjóta þeir það

kanínurEinu sinni ætlaði ég að halda út bloggskrifum sem bæru yfirskriftina VANDLÆTING DAGSINS en gafst upp. Ég veit ekki hvort ástæðan var að ég sé svo margt aðfinnsluvert eða vegna þess að ég er einfaldlega ekki nógu mikill vandlætari.

Í dag þegar ég hjólaði fram hjá litlu fallegu, friðsælu kanínunum í Elliðaárdalnum gat ég ekki orða bundist.

Íslendingar mega ekkert aumt sjá, þá skjóta þeir það, eins og kanínurnar. Eða drekkja því eins og minkunum. En þó eru þeir einnig haldnir þeirri merkilegu mótsögn að ef einhver jurt skarar fram úr og er dugleg, þá skal eitrað fyrir hana eða að hún er höggvin. Þannig er að minnsta kosti talað um lúpínuna, kerfilinn og öspina.

Getur ástæðan fyrir þessum ofsóknum, útrýmingaráráttu stafað af því að þessar lífverur eru af erlendum uppruna? 


Land míns föður; stórbrotin þýsk saga

220px-Wibke_Bruhns_001bruhnsLands míns föður, landið mitt, laugað bláum straumi, kvað Hulda og hjá mér kvikna hlýjar hugsanir í hvert sinn sem ég heyri þessar fallegu línur. MEINES VATERS LAND: Saga þýskrar fjölskyldur, skrifar Wibke Bruhns. Þetta er bók um land föður hennar, fjölskyldu hennar, full af ólýsanlegum hörmungum og voðaverkum.

Það er búið að taka tímann sinn fyrir mig að lesa þessa bók en hún er svo sannarlega þess virði. Í henni reynir blaða- og sjónvarpskonan Wibke Bruhns að kynnast föður sem hún þekkti í raun aldrei, því þegar hún fæddist 1938 var hann á kafi í að sinna verkefnum fyrir föðurlandið og oftast fjarverandi. Þegar hann dó, var tekinn af lífi, var hún ekki orðin sex ára. Hann og tengdasonur hans voru ásamt 3 öðrum  líflátnir vegna misheppnaðs tilræðis við Hitler (20. júlí samsærið). Eftir það var stöðug þöggun í gangi um þennan mann, fyrst vegna svika hans við landið og eftir fall Þýskalands vegna alls þess sem hann var þátttakandi í áður en hann sveik.

Wibke tekur ákvörðun um að nálgast þennan föður þegar hún verður fyrir því óviðbúin að horfa á mynd frá aftöku hans og með rannsóknarvinnu blaðamanns vinnur hún sig í gegn um skjöl hans og ættar sinnar Klamrothanna í Halberstadt sem voru voldugir kaupsýslumenn og iðnjöfrar. Bæði faðir hennar og afi tengdust einnig hernum og börðust báðir í fyrri heimstyrjöldinni. Um leið og hún vinnur sig í gegn um skjöl Klamroth ættarinnar kynnist hún einnig móður sinni upp á nýtt, hinnar sterku og úrræðagóðu danskættuðu Else.

Þetta er merkileg lesning. Lesandinn fær þarna í einum pakka sögu Þýskalands allt frá því það var keisaradæmi, atburðarás tveggja styrjalda og hina undarlegu sögu millistríðsáranna sem í raun voru svo stutt. Um leið og höfundurinn rekur sögu fjölskyldu sinnar reynir hún að greina afstöðu þeirra og/eða þátttöku í voðaverkum stríðsins. Hvað vissu þau? Hvað eftir annað talar hún um hvað hana langar að þau hafi ekki verið þátttakendur og að þau hafi ekki raun gert sér grein fyrir voðaverkum nasista. En gagnrýnin athugun blaðamannsins leiðir annað í ljós. Þau hljóta að hafa vitað, foreldrar hennar og systur voru vel upplýst fólk með aðgang að fréttum innanlands og utan. Wibke lætur sögunni ljúka við aftöku föður síns og mágs og þá eftirmála sem urðu.

Þetta er hrífandi saga. Wibke hefur eignast föður, hann er e.t.v. ekki sá faðir sem hún þráði en hún ákveður að hafa samúð með honum, þrátt fyrir allt.

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Ágúst 2013
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 14
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 65
  • Frá upphafi: 190446

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband