Bönd ovg Grikkur: Donenico Starnone

EDE6228B-0D31-4163-9C86-185409133F6B
Vandinn að velja bók

Ég hlýt að hafa verið utan við mig þegar bækurnar í leshópnum mínum  voru valdar. Allt í einu tók ég eftir því að Við ætluðum að lesa tvær bækur eftir ítalskan höfund sem ég hafði aldrei heyrt um,Domenico Starnone. Bækurnar heita Grikkur og Bönd. Þær eru báðar þýddar af Höllu Kjartansdóttur og það er Siðar Eggertsson sem les. Hann er pottþéttur lesari.

Bönd

Fyrst las/hlustaði ég á Bönd. Bókin hefst á   bréfum eiginkonu til mannsins síns sem hefur yfirgefið hana. Bréfin eru full  örvæntingar. Ýmist skammir eða yfirlýsingar um hversu mikið hún og börnin, sem hann hefur svikið sakna hans. Þau geta ekki lifað án hans. Maðurinn sem er háskólakennari hefur fundið nýja og yngri konu sem er falleg  og ljúf.  Skammast ekki. Engu að síður hlýðir hann kalli eiginkonu sinnar. Kemur heim. Fljótlega tekur hann þó upp fyrri lífsmáta, heldur  framhjá en nú á laun. Seinna í bókinni kemur fram að börnin elska ekki foreldra sína, þeim finnst þau ömurleg.  Öll ógæfa sem hendir þau í lífinu er foreldrunum að kenna. Dóttirin er beinlínis hatursfull.

Bókin hreif mig ekki, líklega mest vegna þess að ég trúði henni ekki. Flestum sem ég þekki þykir vænt um foreldra sína. Ég man þó eftir fólki sem var gagnrýnið á foreldrana  á unglingsárunum meðan það var að finna sig, en það eltist af þeim .          Mér leiddist bókin.

Grikkur

Grikkur segir frá gömlum listamanni, sem tekur að sér að gæta fjögurra ára dóttursonar síns, meðan foreldrarnir fara á stærðfræðiráðstefnu. Hann hefur nýlega gengið í gegnum erfið veikindi og treystir sér naumast í að passa. En þegar dóttirin  leggur að honum, höfðar til samvisku hans, lætur hann undan. Afinn virðist þekkja barnið lítið, býr í annarri borg. Hann ræður illa við verkefnið. Drengurinn  er kotroskinn  og tekur honum vel. Barnið er sterkari  aðilinn. Þeir leika þykjustu leiki og allt í einu fer leikurinn úr böndunum. Afinn kemst í klípu. Yfir og allt um kring grillir í beyg gamla mannsins ýmist í fortíð eða í framtíð. Hann hefur áhyggjur af heilsu sinni og af dóttur sinni. Hann hefur skynjað að það eru erfiðleikar í hjónabandinu. Auk þess hefur hann áhyggjur af verkefni sem hann hefur tekið að sér.

Þessar bækur segja mér að það hafi orðið einhvers konar gliðnun í sambandi , tengslum fjölskyldna á Ítalíu. Hvað hefur orðið af háværu stórfjölskyldunni sem borðar saman, þar sem hver talar ofan í annan?  

Höfundur bókarinnar er Domenico Starnone fæddur 1943. Þegar ég fór að lesa mér til um hann, sá ég frétt, þar sem talað er um hann sem  mögulegt púsl í púsluspilinu sem er að verða til í leitinni að höfundinum á bak við dulnefnið Elena Ferrante. Domenico er nefnilega giftur  Anita Raja en því hefur verið slegið föstu að hún sé konan á bak við dulnefnið. Ég sá bækurnar í nýju ljósi eftir að hafa meðtekið þessa frétt. Áður hafði ég hugsað að bókin Bönd væri merkilega lík síðustu bókinni sem ég las eftir Ferrante; Lygalíf fullorðinna. Það skyldi þó ekki vera að Ferranti – bækurnar séu samvinnuverkefni þeirra hjóna ?

Lokaorð

Og núna þegar ég lýk við þessi skrif er ég næstum orðin jákvæð og þakklát. Kannski þarf ég að líta mér nær  í sambandi við hvort fölskylduböndin séu í lagi?


Ofurstynjan: Rosa Liksom

FC50DC82-AF9E-45AE-A8D6-34B3F30AF9D0
Ofurstynjan
Rosa Liksom (raunverulegt nafn Anni Ylavaara, fædd 1958).

Líklega enginn yndislestur, hugsaði ég, en góð samt. Ég hafði áður lesið bók eftir sama höfund, Klefi nr. 6. Ógleymanleg bók. Ef ég ætti að velja orð til að lýsa efnistökum Liksom myndi ég velja hrá og beinskeytt.

Sagan

Sagan er lögð í munn gamallar konu í Lapplandi, sem rifjar upp ævi sína. Fyrirmynd höfundar er Annikki Kariniemi sem var fædd 1913, dáin 1984. Hún var kennari og rithöfundur. Hún var gift 30 árum eldri manni sem var ofursti og nazisti. Hún skrifaði fjölda bóka fyrir börn og fullorðna. Ein af þeim heitir Ett äktenskaps anatomi sem kom út 1958. Þá bók hef ég ekki lesið og þekki einungis af afspurn, þ.e. af netinu.

Ofurstynjan ólst upp á tímum þar sem viðhorf fólks litaðist af sjálfstæðisbaráttu Finna og í framhaldi þjóðernishyggju og nazisma. Faðir hennar var nazisti og eiginmaður hennar ofurstinn og hún líka.  Hún var ógagnrýnin, viðurkennir að hún vissi allt um það sem nazistar voru að gera. En hún dáðist samt að þeim. Það hafði verið kreppa og þeir voru með lausnirnar. Á einum stað í bókinni er sagt frá samtali hennar við stöllu sína og jafnöldru. Þær voru enn unglingar.  Vinkonan trúði jafn gagnrýnislaust á Sovét og var á leið þangað. Þegar stríðinu lauk tók við sálarstríð þeirra sem höfðu veðjað á rangan hest.  Ofurstinn fer að verða vondur við ofurstynjuna sem hafði dáð hann og elskað alla tíð. Hjónabandinu lauk eftir að hann hafði ítrekað  misþyrmt henni og drepið barnið sem hún gekk með. Hún var illa leikin bæði andlega og líkamlega en tókst að rísa upp og skapa sér nýtt líf.

Eftirþankar

Ég fræddist heilmikið um Finnland við að lesa þessa bók. Og stundum fannst mér þó  að ég væri svo illa að mér að ég gæti ekki nýtt mér kennsluna.

Það sem mér fannst þó merkilegast,  var þegar ég komst að því að bókin sjálf kom ekki fyrst út á finnsku, hún kom út á máli sem heitir Meänkieli. Þetta mál er talað  beggja vegna  landamæra  Svíþjóðar og Finnlands.

Hvað vakir fyrir höfundi?

Mér er alls ekki ljóst hvað vakir fyrir höfundi. Enginn skrifar bók út í bláinn. Mér dettur í hug að hún vilji með bókinni kenna okkur að Nazistar voru ekki skrímsli, þeir voru fólk eins og við. Og það er alltaf  full þörf á að ígrunda vel hvaða skoðanir maður aðhyllist. Það lúrir kannski eitthvað í okkar samtíð sem vert er að rýna vel í. Hvað um flóttafólk og hvað um skiptingu auðsins? Já og hvað um dekur okkar við moldríka?

Það er kominn kosningahugur í mig.    


Fjarvera þin er myrkur:Jón Kalman Stefánsson

7CAAF6DD-5B43-421E-9582-0D1119554488
Fjarvera þín er  myrkur

Fjarvera þín er  myrkur eftir Jón Kalman Stefánsson er bók til að lesa oft. Það þarf að hafa dálítið fyrir því að lesa hana, ég er búin að lesa /hlusta á hana tvisvar og  mér finnst ég enn ekki  fyllilega búin að raða henni saman. Frásögnin fer fram og til baka í tíma, persónur eru margar og ættfræðin skiptir máli. Þetta var svolítið eins og að lesa Eyrbyggju . Þetta eru margar sögur, sem tengjast og til samans mynda þær heild. Sögusviðið er líka nokkurn veginn það sama og Eyrbyggju, Snæfellsnes, Dalir og Strandir.

Góðar bækur eru til að lesa þær oft.

Ég tek það fram að ég tel það ekki eftir mér að þurfa að hafa fyrir því að lesa bók. Ég hef nógan tíma og ég ræð honum. Auk þess er stíllinn á þessari bók þannig að það er ljúft að lesa. Það eru margar fallegar setningar og heimspekilegar vangaveltur sem mann langar til að muna.

En um hvað er bókin?

 Þetta er saga um líf alþýðufólks, um drauma þess og þrá. Já, og um ástríður. Það er greinilegt að allt þetta, draumar, þrá og ástríður er nokkuð sem manneskjan fær í sinn hlut án þess að biðja um það. Hún  ræður sér ekki fyllilega sjálf, og lendir í  basli. Þetta barasta  hellist yfir mann. Sest að í sálinni eða í kroppnum.

Segulnál hjartans

Það væri rangt að kalla fólkið í bók Jóns Kalmans, homo sapiens, sem þýðir hinn viti borni maður. Persónur hans er fólk tilfinninga og skynjana. Ég kann ekki latínuheitið á því. Hjartað ræður meiru en skynsemin. Já, og fortíðin lifir í núinu. Ég þekki þetta ástand. Stundum talar afi minn á Veturhúsum í gegnum mig.

 Lokaorð

Nóg að sinni um Fjarvera þín er myrkur. Meira þegar ég hef lesið hana betur og gert nafnaskrá og ættatal.  


Álabókin:Patrik Svensson

IMG_0953
Álabókin

Eftir að hafa hlustað á umfjöllun um Álabókina í Kiljunni, var ég ákveðin í að  þessa bók skyldi ég lesa.  Ég hef kynnst álum og fannst þeir vera dularfullar skepnur. Meira um það seinna.

Hugmyndasaga

Álabókin, saga um heimsins  furðulegasta fisk, er eftir Svíann Patrik Svensson (fædddur 1972). Þetta er fyrsta bók höfundar, sem kom út í heimalandinu  2019 og  sló algjörlega í gegn. Hún fékk Augustpriset (helstu bókmenntaverðlaun Svía) og nú er búið að selja þýðingarrétt á bókinni á 33 tungumál.

Bókin er á vissan hátt ævisöguleg, höfundur fléttar frásögnina um álinn saman við eigið líf.  Hann segir  frá veiðiferðum  sem hann fór í með föður sínum sem lítill drengur. Um leið og hann rifjar upp samveru þeirra feðga, ræðir hann um breytingarnar sem hafa orðið á lífi fólksins. Já og álsins. Rauði þráðurinn sem hlykkjast í gegnum þessa bók er állinn. Állinn kemur víða við  sögu og hugmyndir um þessa skepnu hafa tekið breytingum í tímans  rás.

Bókin er í senn hugmyndasaga og  saga um þekkingarleit mannsins . Allt var þetta vegna þess að lengi vel vissi enginn hvernig álar juku kyn sitt. Þetta er lágstemmd bók um  virðingu fyrir lífríkinu og og um aðdáun og væntumþykju.

Höfundur rekur sögu álsins allt aftur til Egypta til forna og til   Aristótelesar.  Hann hélt því  fram að líf álsins kviknaði í botnleðju. Sigmund Freud fékk  sem ungur  vísindamaður að kryfja ála, til að finna eistu þeirra. Hann fann þau ekki. Eftir það hætti hann við náttúruvísindin og sneri sér að læknisfræði. Það var danskur maður, Johannes Schmidt( f. 1877 dáinn 1933) náttúrufræðingur á vegum rannsóknarstofu Carlsberg sem að lokum setti fram kenningu sem svaraði spurningunni um hvernig állinn fjölgar sér. Þá hafði hann rannsakað hegðun álsins í meira en 20 ár.    

Bókin heitir Ålevangeliet á sænsku sem sem myndi útleggjast Áláaguðspjallið á íslensku. Þessi titill segir mér að höfundur vill undirstrika að bókinni er ætlað að flytja okkur boðskap. Ég er hissa á að titillinn skuli ekki vera þýddur beint, en það á sér sjálfsagt skýringar sem ég þekki ekki.

Kynni mín af álnum

Sumarið 1965 eða 66 bjó ég sumarlangt á Djúpavogi hjá systur minni og mági . Hann hafði sótt um að taka þátt í verkefni sem var stýrt að sunnan. Hugmyndin á bak við verkefnið var að nýta betur þær auðlindir sem landið gaf. T.d. veiða ál og koma honum á markað. Mágur minn Sigurður V. Kristinsson, hafði fengið

álagildrur að láni frá þeim sem sá um verkefnið. Hans hlutverk  var að koma þeim fyrir þar sem líklegt væri að állinn héldi sig. Þetta var seinnipart sumars og við fórum oft öll fjölskyldan saman til að skoða í gildrurnar. Veiðin var góð og næstum daglega bættust álar við í tunnuna sem állinn var geymdur í þar til nóg væri komið í sendinguna suður. Við höfðum meira að segja  tekið einn vænan ál frá til að borða sjálf. Matreiðslan kom í hlut systur minnar, hún dró fram matreiðslubók og sauð álinn í kryddlegi. Það tókst vel en henni fannst állinn  viðbjóðslegur  viðkomu og það voru aldrei prófaðar fleiri uppskriftir. Einhvern tíma í lok álavertíðarinnar gekk í mikla rigningu. Hellirigningu eins og hellt væri úr fötu. Þegar mágur minn gáði í tunnuna til að vita hvernig álunum leið, var engan ál að sjá.

Vatnsborðið í tunnunni hafði hækkað í rigningunni nægilega mikið til að álarnir gátu flúið. Þeir höfðu greinilega líka fundið sér leið  burt, því hvergi var ál að sjá. Væntanlega hafa þeir ratað á sínar heimaslóðir fleiri kílómetra leið.

Nú er állinn flokkaður sem dýr í útrýmingarhættu og allar veiðar bannaðar.  


Uppreisn Jóns Arasonar: Ásgeir Jónsson

DB6044EB-A899-4979-9F4F-CC0CE67036BE
Uppreisn Jóns Arasonar

Það vakti forvitni mína þegar ég frétti að Ásgeir Jónsson Seðlabankastjórinn okkar hefði skrifað bók um Jón Arason biskup. Og ég gladdist þegar ég sá að búið var að lesa hann inn hjá Hljóðbókasafni Íslands. Nú hef ég lokið henni og varð ekki fyrir vonbrigðum. Áður hef ég lesið þrjár bækur um þennan sögufræga mann. Þær eru eftir Torfhildi Hólm, Gunnar Gunnarsson og Ólaf Gunnarsson. Bók Ásgeirs fjallar um síðustu ár Jóns, þ. e. árin sem hann er í uppreisn gegn yfirvöldunum.Hann hafði tekið Martein Einarsson Skálholtsbiskup til fanga og taldi að þar með væri hann biskup allra landsmanna. En átökin um siðskiptin voru ekki bara um trúmál, þeim tengdust átök um verslun og jarðakaup. Ásgeir Jónsson hefur frásögn sína á að segja frá  áhlaupi Daða Guðmundssonar á Jón og menn hans í kirkjugarðinum á Sauðafelli. Jón hafði bannfært Daða fyrir hórdóm og Ari sonur hans deildi við Daða um eignarhald á jörðinni Sauðafell. Daði tók þá feðga Jón, Ara og Björn fangna   og afhenti þá síðan Kristjáni skrifara umboðsmanni Danakonungs.

Stór áform

En það var annað og meira sem vakti fyrir Jóni Arasyni. Hér á Íslandi ríkti stríðsástand, það var tekist á um verslun. Danir vildu ná versluninni af Þjóðverjum sem voru stórtækir  í verslun. Ásger færir lýkur að því að hann hefði haft uppi áform um að styðja verslun Þjóðverja  og fá um leið stuðning  við að halda landinu kaþólsku.

Heimsmynd  Jóns Arasonar

En Ásgeir fræðir lesundur ekki bara um átök á tímum trúarbragðastyrjalda, hann veltir fyrir sér heimsmynd  Jóns í ljósi kvæða hans og nefnir til sögunnar heimspekinginn Boethíus (477 -524) og skrif hans um vilja Guðs, frjálsan vilja mannsins og tilviljanir sem hann ræður engu um.  Hann tekur dæmi af veraldarhjólinu sem gyðjan Fortuna  snýr og Guð veit um, en skiptir  sér ekki af.

Lokaorð

Það var gaman að lesa þessa bók, ekki síst viðaukann um veraldlegan kveðskap Jóns Arasonar. En þetta er fræðileg bók, full af tilvitnunum  og það er vandi að koma slíku efni til skila í upplestri svo vel sé. Ég hefði kosið að sleppa  við að hlusta á tilvitnanir  inni í texta og fá í staðinn greinargerð um helstu heimildir.

Eftirþanki

Það er góð tilfinning að vita að Seðlabankinn skuli vera í höndum manns sem þekkir vel til sögu lands og þjóðar.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2021
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 190966

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband