Hin helgu vé

IMG_0465Þverstæður og helgir dómar

Þegar ég flutti til baka til Reykjavíkur eftir að hafa búið úti á landi (eins og kallað er) í 15 ár, valdi ég (og maðurinn minn líka) að setjast að í Álfheimum, sem liggur við Laugardalinn austanverðan. Það var ekki síst hann, sem réði ákvörðun okkar. Fegurðin, friðsældin og blómskrúðið. Hér er gott að búa. Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt út undan mér umræður um að það þurfi að koma meira lífi í Laugardalinn. Ég reyni að halda mér utan við þessa umræðu, því ég skil hana ekki. Ég skil hana ekki því hér iðar allt af lífi. En friðsælt er nú þannig í eðli sínu að það fer ekki endilega mikið fyrir henni. 

Fjölskyldu - og húsdýragarðurinn er skemmtilega passlegur, það er hægt að skoða allt og komast í allt í einni ferð og börnin kvabba um að fara þangað aftur og aftur. Grasagarðurinn er endalaus uppspretta nýrra upplifana, vetur sumar vor og haust. Á litlum hól til hliðar við garðlandiðið, hefur hópur manna fengið aðstöðu til að spila frisbí. Þetta er notalegt

Fólk sem sér garðinn allt öðrum augum en ég og vill koma lífi í garðinn, talar um að það ætti að nota hann meira til skemmtanahalds. Já og stundum heyrist manni að fólk sé að skemmta sér,eða skemmta börnum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Meðan það stendur yfir forðast ég að fara út á svalirnar heima hjá mér. Hafa börnin gaman af þessum gauragangi og asnalegu bröndurum. Hugsa ég. Þetta stendur yfirleitt stutt. Einstaka sinnum heyri ég hanagal. 

Einu sinni á ári, um sólstöðuleytið, hefur verið haldin tónlistarhátíð, Solstice. Hún er umfangsmeiri en það sem fyrr er upptalið og það eru deildar meiningar um hvort að hún sé við hæfi. Aðallega er spurt um hvort hún sé fólki til ama, haldi fyrir því vöku.

Fólk skiptist í andstæðar fylkingar. Sumir segjast flýja bæinn, aðrir segja að þetta sé í besta lagi. Ég sit uppi með tilfinningu um að það sé fyrirfram búið að stimpla mig sem leiðindaskjóðu, ef ég segi eins og er: Mér finnst að það hefði aldrei átt að leyfa þetta, því það stangast á við Gildi Laugardalsins. Friðsældina. 

Ég oft velt fyrir mér þessari undarlegu þverstæðu. Fólk sem langar til að skemmta sér, sletta úr klaufunum og hafa hátt, vill helst af öllu gera það í fögru og friðsælu umhverfi.

Hefðin er löng. Ég hef persónulega reynslu af útihátíðum. Framsóknarmenn helguðu sér Atlavík Sjálfstæðismenn helguðu sér rjóður í Egilsstaðaskógi en ég veit ekki hvaða Guð var dýrkaður á Húsafelli. Ég fann mig ekkiá þessum samkomum og nú hafa þær lagst af.   

Mér verður hugsað til frásagnarinnar af Þórólfi Mostraskeggi í Eyrbyggju. Einn var staður í landi hans  sem svo mikil helgi hvíldi á, að þangað mátti enginn óþveginn líta. Það var Helgafell. Á Þórsnesinu, þar sem öndvegissúlur Þórólfs  höfðu rekið á land, var ekki síður heilagt.

Þar sem Þór hafði á land komið á tanganum nessins, lét hann hafa dóma alla og setti þar héraðsþing. Þar var og svo mikill helgistaður að hann vildi með engu móti láta saurga völlinn, hvorki í heiftarblóði og eigi skyldi þar álfrek ganga og var haft til þess sker eitt er Dritsker var kallað.“

Óvildarmenn Þórsnesinga Kjallakkar, vildu ekki sæta þessu og saurguðu þingstaðinn. Óþokkarnir. Þau eru mörg átökin um helga dóma í mannkynssögunni. 

Það er eitthvað ótrúlega merkilegt við það sem við köllum helgun. Vanhelgun snertir innstu hjartarætur. Það þarf t.d. að endurhelga kirkjur sem hafa orðið fyrir vanhelgun. Það hefur orðið rof. 

„Trúlausir“ eiga sér ekki síður  helga dóma en þeir sem játa einhverja trú.

Laugardalurinn, náttúran í borginni er minn helgi reitur.

Höldum grið. Virðum hvert annað. Virðum helgidóma annarra,þó við skiljum þá ekki.  Brennum hvorki Biblíur eða Kórana. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 186944

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband