Bókin um Baltimorefjölskyluna: Joël Dicker

Joel Dicker

Mikið er ég fegin að vera búin með þessa bók, ég hefði líklega aldrei lokið við hana, ef hún hefði ekki verið ákveðin af bókaklúbbnum. Rökin fyrir valinu voru m.a. að höfundurinn er metsöluhöfundur. Og svo er hún þýdd af Friðriki Rafnssyni og vinkonur mínar sögðu að það væri óbeinn gæðastimpill. Það er slæmt að lenda á bókum sem manni leiðast og enn verra að nú finnst mér ég þurfi verja  tilfinningaleg viðbrögð mín. Rökstyðja.

Ég las bókina með jákvæðu hugarfari (það er satt). Ég beið og beið eftir því að upplifa töfra góðrar bókar. Bókar sem flytur mann til í tíma og rúmi og lætur mann kynnast nýju fólki. Færir manni nýja sneið af heiminum. En galdurinn lét standa á sér. 

Sögumaðurinn, Marcus Goldman, er ungur framgangsríkur rithöfundur. Hann er upptekinn af frændfólki sínu í Baltimore sem hann hafði heillast af sem barn og unglingur. Fjölskyldu sem hann dvaldi hjá í skólafríum og á stórhátíðum. Hans eigin fjölskylda í New Jersey fellur í skuggann.

Hjá Baltimore fjölskyldunni er allt að gerast. Þar kynnist hann jafnaldra frænda sínum Hillel og Woody, dreng sem fjölskyldan hefur tekið að sér. Hann kynnist líka veika drengnum Scott, sem er með slímseigjusótt og systur hans Alexöndru. Hillel er langt á undan sínum jafnöldrum. Hann kemur sér í vandræði af því hann er svo upptekinn af jafnrétti og  réttlæti. Roody er afburðaíþróttamaður en Scott langar fyrst og fremst til að vera eins og önnur börn en sjúkdómurinn kemur í veg fyrir að hann geti leikið sér og stundað íþróttir. 

Mér gengur illa að henda reiður á söguþræðinum. Höfundurinn flakkar fram og til baka í tíma.  Stöðugt er klifað á að þetta eða hitt hafi gerst fyrir eða eftir harmleikinn.

Í bókinni fléttast saman þrír þræðir. Í fyrsta lagi er sagt frá uppvexti drengjanna, í öðru lagi er saga fjölskyldunnar rakin og í þriðja fáum við að fylgjast með lífi rithöfundarins. Tilraunir hans til að endurheimta Alexöndru, æskuástina, virðist þó yfirskyggja ritstörfin.    

Baltimorefjölskyldan sem hann dáir, hefur orðið fyrir áföllum og er ekki söm á eftir. Veldi hennar er hrunið. Ungi rithöfundurinn reynir  að átta sig á hvað gerðist í raun og veru. Síðast og ekki síst glímir hann við að skilja sjálfan sig.

Líklega spilar inn í lesturinn að ég þekki lítið til bandarískra lífshátta og þaðan af síður þekki ég bandarískt umhverfi (nema úr bókum og kvikmyndum).

Í bókinni er allt stórt í sniðum, ríka fólkið er moldríkt og fræga fólkið er heimsfrægt. Ég læt það fara í taugarnar á mér, hversu höfundurinn er ómeðvitaður. Það örlar ekki á gagnrýnum viðhorfum og það er eins og peningarnir verði til á skrifstofum sem höndla með verðbréf. Ungi rithöfundurinn, aðalpersóna bókarinnar, flengist á milli dvalarstaða á Austurströndinni allt frá New York til Flórída og virðist aldrei hafa heyrt um umhverfismál, ungur maðurinn. Ég gafst upp á að að henda reiður á öllum húsunum sem hann ýmist átti eða hafði aðgang að.  

Annað veifið var eins og bókin ætti að vera svona dæmigerð menntaskóla/háskólasaga, þar sem lífið snýst um körfubolta eða ruðningsbolta. Ástin laut í lægra haldi fyrir vinskap drengjanna. Það er engu líkara en að ástinni sé skeytt inn í þegar hraðspólað er í gegnum söguna um fræga rithöfundinn sem var ástfanginn af frægu söng- og tónlistarkonunni, sem nú er í sambandi við frægan tennisleikara.

Ringluð í kollinum af því að rifja upp landafræðina, varð ég sífellt meira pirruð yfir að þessi höfundur skyldi ekki geta tjaslað saman sögu, sem væri nokkurn veginn trúverðug. 

Ég fór að lesa mér til um hann. Joël Dicker er frægur og margverðlaunaður. Bókin hans Sannleikurinn um mál Harry Quebert seldist upp úr öllu valdi. Og svo er hann ekki einu sinni bandarískur.

Hann er frönskumælandi Svisslendingur. Ég verð að játa það, að ég gladdist, þegar ég fann á Wikipediu að hann hafði verið sakaður um ritstuld í Frakklandi. Sagt var að atvik, persónur og umhverfi bókarinnar um Harry, væri grunsamlega lík, eins og fengin að láni, úr bók Philips Roth, The Human Stain.  En það sannaðist ekki. Reyndar gildir sama um bókina sem ég var að lesa, hún liggur líka undir grun. Drengurinn sem Baltimorefjölskyldan tók að sér er að sögn óþægilega líkur dreng úr annarri sögu. En hvað veit ég?

Mig langar til að segja að bókin sé ekki bara væmin sápa heldur froða. Eða á ég að láta mér nægja að segja að bókin sé ekki fyrir mig.

Það er einkennilega holur hljómur í þessari bók.  

Til að kóróna vandræði mín, gerðist þetta:

Í miðjum hugleiðingum mínum hringdi síminn. Það var góð vinkona mín. „Mig langaði bara að segja þér frá svo afskaplega góðri bók“ sagði hún. „Hún er eftir Joël Dicker og heitir, Sannleikurinn um mál Harry Quebert"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er hjartanlega sammála þér,hún er ruglingsleg og ég hef það á tilfiningunni að Friðriki hafi fundist það líka :)

Guðrún Egilsdóttir (IP-tala skráð) 29.3.2017 kl. 19:02

2 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

Sæl Bergþóra, ég get glatt þit með því að "Sannleikurinn um mál Harry Quebert" er frábær bók. Er að lesa síðustu kaflana í henni núna. Joel Dicker skrifar ekki bók í "réttri tímaröð" - þessi bók er byggð upp á óhefðbundinn hátt. En ef þú getur ekki lesið ástarsögu án þess að hún sé skrifuð í tímaröð frá 9-5, þá kannski missir þú af miklu. En ég á auðvitað eftir að lesa um Baltimore-fjölskylduna.

Ég er að lesa enska þýðingu á Harry Quebert bókinni. Ég finn aldrei fyrir því að ég sé að lesa þýðingu úr frönsku. Dicker skrifar jú á frönsku, en það á ekki að dæma hann fyrir það. En ég hef stundum lesið erlendar bækur sem hafa verið þýddar á íslensku, og það er oft hræðileg lesning. Sem sagt illa þýtt. Mér hugnast best að lesa bækur á frummálinu og les aðallega krimma sem eru skrifaðir á ensku. Bestu leskveðjur, Inga

Ingibjörg Magnúsdóttir, 30.3.2017 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 186944

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband