Utan þjónustusvæðis: Ásdís Thoroddsen

Ásdís Thoroddsen

Um leið og Ásdís Thoroddsen var búin að segja frá bók sinni Utan þjónustusvæðis í Kiljunni var ég búin að ákveða mig. Þessa bók verð ég að lesa. Þó varð dráttur á.

Það er betra að hafa athyglina í lagi

Í fyrstu gekk mér erfiðlega að henda reiður á atburðarásinni, ég tók ekki nógu vel eftir venslum og ætterni persónanna. Það hvarflaði að mér að búa mér til ættar- og tengslatöflur, eins og ég geri við lestur Íslendingasagnanna. En til þess kom ekki, það nægði að taka vel eftir hver tengdist hverjum.

Þessi kvíði minn um ættartölustagl, var óþarfur.  En hugmyndin varð  til þess að kveikja á því, að ég fór að bera frásagnarmátann saman við Íslendingasögurnar.

Mannleg samskipti minntu óneitanlega á Sturlungu (kannski væri réttara að tala um kar-lmannleg samskipti). Menn útkljá mál með ofbeldi og safna liði ef með þarf.Undirskriftalistinn er liðsöfnun nútímans. Drifkraftur framvindunnar er reyndar ekki auður og völd, heldur slúður. Einkum kvenna. Það leiddi hugann að annarri góðri bók, Njálu. Samtal tveggja kvenna á kennarastofunni, sem sú þriðja heyrir óvart, verður kveikja að báli, Minnir á Gísla sögu Súrssonar.   

En það er best að snúa sér að efninu. Aðalpersóna sögunnar er tvímælalaust Heiður kennari. Hún er reyndar ekki með kennarapróf, hún er leiðbeinandi og sambýliskona skólastjórans, Kristjáns. Henni gengur vel að kenna. Þar að auki stýrir hún kórnum. Í gegnum sönginn hefur hún náð að láta litla stúlku, sem býr við erfiðar aðstæður, blómstra. Heiður hefur auk þess tekið ábyrgð á unglingsstúlku, Þórunni, að sunnan, sem Barnaverndarnefnd þurfti að koma burt úr spillingunni. 

En fólkið í sveitinni kann ekki að meta Heiði. Í fyrsta lagi heldur hún við mætan bónda, í öðru lagi er hún afskiptasöm, vesenast í því sem henni kemur ekki við og í þriðja lagi er hún stórskrýtin. Klæðir sig afkáralega og er með hænur. 

Þótt sagan gerist í fámennri, afskekktri sveit, vantar ekki frásagnarefni. Unglingsstúlkan, fósturbarn Heiðar, er sérstök,hún er líka í uppreisn og reið við allt og alla. Við stærsta fyrirtæki sveitarinnar vinna Pólverjar. Þeir búa sér í húsi sem vinnuveitandinn hefur skaffað þeim og blandast ekki fólkinu. Enda ekki til þess ætlast, þeirra hlutverk er að vinna.  En hver segir að Pólverjum henti best að búa saman út af fyrir sig? Ungi geðþekki maðurinn Pavel er dauðhræddur við Jarosav og ekki að ástæðulausu. Fortíðin á eftir að vitja Jarosavs. Framtíðin bíður Pavels. Örlög fólks geta ráðist í byggðarlagi, þótt það sé utan þjónustusvæðis. Þetta er bók um örlög.

Ég sé að það skilar sér ekki, að tala um persónur og rekja atburði tekna  úr samhengi, í þessari bók. Hún er þéttriðið net, fortíðin skiptir ekki minna máli en hér og nú.

Að endingu finnst sveitungunum að Heiður hafi gengið of langt, henni er sagt upp við skólann. Og lyddan, Kristján skólastjóri, lætur það viðgangast. Sambúðin var fyrir löngu farin að trosna, hún elskar annan og hann er búinn að kynnast nýrri.

Nei, það gengur ekki að endursegja þessa sögu. Mér finnst hún sönn af því að höfundi tekst að segja sögu um fólk sem ekki hefur verið sögð áður. Ég er kröfuhörð og ég þekki vel  þennan vettvang. Líf mitt hefur snúist um skólamál, bæði í þéttbýli og í hinum dreifðu byggðum. Ég var ekki alveg viss um að krónólógían væri rétt. Átti Heiður að tala við fulltrúa  Menntamálaráðuneytis eða sveitastjórann, þegar allt var komið í óefni? Grunnskólinn fluttist til sveitarfélaganna 1996.  „Smámygli“ aðvara ég sjálfa mig, „skiptir ekki máli“.

Mér líkar vel við þessa bók. Allar persónurnar eru vel dregnar og hún speglar raunveruleika, sem alltof lítið hefur veið fjallað um, vanmátt einstaklings þegar almenningsálitið kveður upp sína illa ígrunduðu dóma. En hún er full af hlýju.

Sagan gerist í afskekktri sveit og þannig las ég hana. En hver segir að sagan vísi ekki út fyrir sig. Kannski er afskekkta sveitin Ísland? Þegar ég máta skúrkana inn í þessa hugmynd, verður sagan enn kröftugri.

Eftirmáli

Að lestri loknum fann ég til söknuðar. Mig langaði til að dvelja lengur í heimi bókarinnar. Ég held ég hafi loksins uppgötvað hver er munurinn á góðum og vondum bókum. Ef bókin er góð, vill maður helst að hún taki engan endi, ef hún er slæm, bíður maður óþolinmóður eftir að henni ljúki. Ég var einmitt að klára eina slíka. Meira um það í næsta pistli.  

Fyrst langaði  mig í framhald. Svo rann það upp fyrir mér, að mig langar frekar í bók um fortíð þessara persóna.

Af hverju tók ekki hin hæfileikaríka Heiður kennarapróf?

Af hverju brotnaði vasinn sem minnti Heiði á svik Kristjáns?

Af hverju var unglingurinn Þórunn svona hræðilega reið?

Og hvað var eiginlega í gangi á Króki?

Það var Ásdís sjálf sem las bókina (en ég þarf hljóðbækur vegna sjónarinnar). Hún les prýðisvel.

Mitt fyrsta verk eftir að hafa kvatt heim Utan þjónustusvæðis, var að hringja í systur mína, dreifbýliskonuna, til að segja henni, að þessa bók yrði hún að lesa.

Mér finnst bókin ekki hafa hafa fengið verðskuldaða umfjöllun fjölmiðla.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Bergþóra. Ég er sammála þér um að vera lítt hrifin af Jo Nesbö. En ég bendi þér á annan norskan krimmahöfund, Jörn Lier Horst, sem er fyrrv. lögreglumaður og byggir bækur sínar á störfum sínum, fáeinar hafa verið þýddar. Mér finnst hann mjög góður, og aðallöggan hans er maður sem ég hefði viljað hitta! Þó nokkrar af bókum hans fást sem hljóðbækur á norsku í bókasafni Norræna hússins. Og sjálfsægt eru þar miklu fleiri norskar hljóðbækur. Ég nota ekki slíkt, ég les þær á pappír, en ég fletti þessu upp. Maður þarf að kaupa sér sérstakan aðgang að því bókasafni, og þar er enginn afsláttur út á aldurinn.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 26.3.2017 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 187116

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband