Kvennakakan

IMG_0370

Í fyrsta skipti í mörg ár fór ég ekki af bæ til að taka þátt í baráttudegi kvenna, sat heima og hugðist njóta dagsins með því að horfa á sjónvarpið (allra landsmanna). Birtist þá ekki á skjánum mynd af gleiðbrosandi karlmönnum í jakkafötum. Einn þeirra var með köku. 

Það kom ekki til af góðu að ég valdi að sitja heima. Eiginlega var það ekkert val. Ég er illa ferðafær, a.m.k.  á samkomur þar sem ég er ekki örugg um tryggt sæti. Ég staulast um með tvær hækjur og svona er ástandið búið að vera síðan í apríl í fyrra. Framundan er viðtal við lækni (17. mars). Ég pantaði það í október þegar búið var að mynda mjaðmasvæðið. Ég vonast til að hann geti sagt mér hvort eitthvað sé hægt að gera. Vonast til að hann setji mig á biðlista fyrir aðgerð. Það sem hefur gert veikindi mín enn sárari, er að ég veit að það finnst hjálp, henni er bara haldið frá mér með því að svelta heilbrigðiskerfið. Þó eru nógir peningar í landinu. Það eru uppgangstímar. 

Róttækar konur hafa síðan 1910 notað 8. mars, til að koma saman og berjast gegn óréttlæti. Ég segi óréttlæti því róttækar konur láta oft ekki við það sitja, að berjast fyrir hagsmunum kvenna, þær berjast einnig fyrir hagsmunum barna og gegn stríði. Mesta óréttlæti allra tíma. 

Í fyrstu voru það nær eingöngu róttækar konur sem héldu þessum degi á lofti en allra síðustu ár hafa stöðugt fleiri slegist í hópinn. 

Það var Clara Zetkin (1857-1933)þýskur kommúnisti, sem átti hugmyndina að því að gera 8. mars að baráttudegi kvenna. En hún var auðvitað ekki ein á ferð. Það er samtakamátturinn sem gildir þegar ráðist er gegn kúgun og óréttlæti. 

En aftur að manninum með kökuna. Hann var enginn annar en forsætisráðherrann okkar. Hann hafði verið fenginn til að mæta á fund UN Women, sjálfsagt til að leggja eitthvað að mörkum í þágu kvenfrelsisbaráttu. Og hann valdi köku.

Það er í sjálfu sér ágætis val, því kökur eru gjarna notaðar táknrænt, t.d. þegar tekjum ríkisins er skipt milli opinberra verkefna.Það má líka hugsa sér kökurit í bláu og bleiku, sem sýnir tekjumun karla og kvenna.

Þarna sat hann brosandi með „þjóðarkökuna“ og hún var bleik. 

Ekki veit ég hvers vegna forsætisráðherra okkar var valinn í þetta samsæti, ekki frekar en ég skil hvernig samkoman átti að stuðla að jafnrétti í heiminum. Þar sem ég sat fyrir framan sjónvarpið, var ég enn að hugsa um kökuritið, um útdeilingu ríkistekna. Af hverju fór ekki stærri sneið til heilbrigðismála, svo ég og annað biðlistafólk gæti aftur orðið virkir þátttakendur í samfélaginu?

En aftur að baráttudegi kvenna. Clara Zetkin dó í Sovétríkjunum 1933 sama árið og hún flúði Þýskaland, vegna uppgangs nasismans.Hún þurfti því aldrei að horfa upp á hvernig konurnar voru sviknar. Í Sovétríkjunum var því haldið fram að það væri ekki þörf fyrir kvennabaráttu, frekar en verkalýðsbaráttu. Kerfið sá um að tryggja jöfnuð. Í Sovétríkjunum var 8. mars samt í heiðri hafður. Var nokkurskonar mæðradagur, þar sem konur fengu blóm og karlar sáu um húsverkin. Kannski hafa sumir bakað köku.

Hvernig á ég að enda þennan pistil, sem ég hóf að skrifa vegna geðshræringar sem ég komst í við að sitja fyrir framan sjónvarpið og horfa á forsætisráðherrann okkar með köku og sárinda vegna þess að vera sett til hliðar, fá ekki þá læknisþjónustu sem ég nauðsynlega þarf. Ég ætla að enda þetta  með því að trúa ykkur, sem hafið lesið alla leið hingað „þetta jafnréttiskjaftæði“ fyrir persónulegu leyndarmáli.

Ég er svo vel upp alin að ég reiðist ekki, mér sárnar. Og þegar mér er verulega misboðið fer ég að gráta. Þess vegna segi ég við ykkur og við sjálfa mig í leiðinni.Breytum sárindum í reiði og virkjum reiðina. Breytum gráti í öskur.   

Það er hægt að skipta þjóðarkökunni réttlátar. Konur hér á landi og um allan heim eru hlunnfarnar. Það þarf að berjast fyrir réttlátari tekjuskiptingu. Það er hægt að sigrast á óréttlæti. Ekki láta blekkjast og halda að hér ríki jöfnuður. Ekki láta telja ykkur trú um að kvenréttindabaráttan sé óþörf.  

 

 Laun eftir launþegahópi, starfsstétt og kyni 2015

 grunnlaun

 

 

 

 

 

 

 

heildarlaun


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 187162

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband