Auðnaróðal: Sverrir Jakobsson

 IMG_0865

Í bókinni Auðnaróðal skoðar Sverrir Jakobsson íslenskt samfélag Sturlungaaldar út frá samtímaheimildum og leitast við að ráða í pólitískar sviptingar þessa tíma. Bókin skiptist í 4 kafla og sýna kaflaheitin að nokkru leyti þá þróun sem er í gangi. 

1. Klerkar breyta samfélagi

2. Samruninn

3. Höfðingjastéttin eyðir sjálfri sér

4. Kóngsins menn

Bókin hefst á því að segja frá pólitískum sviptingum sem verða eftir að kristni hefur verið lögleidd á Íslandi. Þar er ekki verið að tala um uppljómun andans eða auðmjúkt hugarfar. Heldur um nýja valdastétt, tilflutning valds. Kirkjunni var að hluta til stýrt erlendis frá og hafði þörf fyrir eina yfirstjórn. Valdið sem fyrir var í landinu var dreift á goðorðsmenn og var bundið við persónur og var ekki svæðisbundið. Í fyrstu féll vald höfðingja og klerka að miklu leyti saman en síðar var gerð krafa um aðskilnað kirkju og veraldslegs valds. 

Svæðisbundið vald á Íslandi varð fyrst til þegar með sóknum kirkjunnar. Kirkjan átti einnig frumkvæði að því að koma á skattheimtu (tíund). Allar breytingar þessa tíma urðu til við víxlverkan þessara tveggja afla, veraldlegra höfðingja og kirkju. Að lokum fór það þó svo að höfðingjar völdu þann kost að styrkja vald sitt með því að fela Noregskonungi að horfa til með sér. Svæðisbundið ríkisvald varð til og nú fylgdi því framkvæmdavald og dómsvald . Enn var þó togast á um hvar löggjafarvaldið skyldi liggja.

Það er vonlaust verk að ætla að rekja þetta í stuttu máli. Þess vegna bókin. Og maður þarf ekki bara að lesa þessa bók, sem er mikil nafnasúpa og ættarflækjur, maður þarf að hafa talsverða forkunnáttu til að geta meðtekið boðskapinn. Ég var svo heppin að ég hafði lesið Sturlungu en það nýttist þó ekki sem skyldi, því ég hafði ekki lesið hana með réttu hugarfari. Ég las hana sem spennubók, hryllingssögu eða reifara og skautaði yfir ættartengsl og flækjur eins mikið og samhengið leyfði. Það mætti gera margar hryllingsmyndir út frá efni þessarar bókar og heitar ástarsögur. En Sverrir heldur sig við að greina, skilja, draga ályktanir og útskýra. Hann gjörþekkir efnið og virðist ekki eiga í neinum vandræðum við að halda utan um ættir og tengsl ætta. 

Eitt af mörgu sem þessi bók dregur fram, er að á Íslandi ríkja ættir, hér var ættarsamfélag og ríkum ættum fylgja völd. Ósjálfrátt hugsa ég að lítið hafi breyst. Nema mannvígin, þökk sé erlendu valdi, Noregskonungi. Liggur í þessu ábending um að skoða betur hvort vert væri að kanna frekar inngöngu Íslands í Evrópusambandið :)?

Þetta er skemmtileg bók en mér fannst, eins og fyrr sagði, erfitt að henda reiður á persónum og tengslum þeirra. Það er nefnilega mikil hreyfing í þessari bók. Höfðingjar tengjast,  deila, berjast, sættast og gera aftur bandalög sín á milli. Endalaust.

Næst þegar ég les Auðnaróðal, ætla ég að vera búin að prjóna eða hekla dúkkur, í anda helstu persóna sem við sögu koma og stilla þeim upp eins og tindátum til að átta mig betur á framgangi mála. Ég er þegar farin að hlakka til og hef ákveðið að hafa Sighvat í blárri kápu.

Myndin er tekin í göngunum, undir gamla Reykholtsbænum sem liggja að Snorralaug. Þarna er sagt að Snorri hafi verið drepinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nei, hann var ekki drepinn þarna, heldur í kjallaranum sem hringstiginn liggur niður í. Sjá skýrslu um fornleifauppgröft í Reykholti.

Friðrik Erlingsson (IP-tala skráð) 31.12.2016 kl. 01:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 186945

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband