Ódámurinn Felix Krull

IMG_0389

Ódámurinn Felix Krull

Í bókinni Felix Krull segir Tomas Mann frá samnefndri persónu. Hann er látinn segja sjálfur frá. Fyrst greinir hann frá því að hann sitji í fangelsi og síðar segir hann frá barnæsku sinni og uppvexti. Faðir hans er  vínframleiðandi en fer á hausinn og styttir sér síðan aldur. Fjölskyldan hafði lifað við góð efni en nú breytist hagur hennar. Móðir Krull fer að vinna en hann sjálfur ætti með réttu að ganga í herinn en kemur sér undan því með því að leika fávita. Velgerðarmaður hans leggur á ráðin við hann og leggur til að hann finni sér starfa á hóteli. Það gengur eftir.  Krull fær vinnu á lægsta þrepi en vinnur sig upp. Hann lætur sér það ekki nægja, heldur bætir kjör sín sjálfur með prettum.

En hugur hans stefnir enn hærra. Hann dreymir um að tilheyra efnaðri yfirstétt og lifa í vellystingum. Og það merkilega gerist, hann fær ósk sína uppfyllta. Fyrrverandi viðskiptavinur af hótelinu kemur til hans og biður hann um að skipta við sig á hlutskipti, hann taki við þjónsstarfinu og Krull verði tímabundið aðalsmaður.

Krull á að taka að sér að fara í heimsreisu og skrifa foreldrum herramannsins og rekja ferðasöguna. Allt gengur að óskum framan af og svo endar sagan. Lesandinn fær aldrei að vita framhaldið og hvers vegna Krull situr inni.  Mann náði ekki að ljúka verkinu, bókin kom út 1954 (Það sem hann var búinn með) en hann lést 1955.

Ég syrgi það ekki þótt Mann lyki aldrei bókinni um Felix Krull. Ég hef sjaldan eða aldrei kynnst eins leiðinlegri persónu. Hann er sjálfumglaður montrass, óheiðarlegur og sjálfselskur í þokkabót.

En hvers vegna skrifaði Mann þessa bók. Ég á erfitt með að ímynda mér það. Sagt er að Mann hafi fylgt þekkti bókmenntahefð, að skrifa skúrkabók. Einnig er sagt að hann hefi jafnvel verið að skopast að þekktum persónum. Það er sjálfsagt rétt, en ég trúi því ekki að maður eins og hann hafi skrifað bók nema honum lægi eitthvað á hjarta.

Og af hverju var hún valin til þýðingar á íslensku af einum okkar besta þýðanda, Kristjáni Árnasyni. Bókin kom út hér 1982. Hefði ekki verið nær að þýða Töfrafjallið?

Ég kann ekki svör við þessu en hef lesið mér til um að Tómas Mann hafi byrjað á þessari bók þegar 1910,  þótt hann lyki henni ekki fyrr enn 1954.

Mér detta einungis í hug tvær skýringar. Sú fyrri er, að ég skilji einfaldlega ekki bókina. Síðari skýringin er sú, bókin sé að einhverju leiti úrelt. Að Tómas Mann hafði ætlað með bókinni að fjalla um mikilvæga hluti, sem tengdust stéttaskiptingu en hafa á okkar tíma tekið á sig aðra mynd, því stéttaskipting er vissulega ekki úr sögunni. Þessu tengist ef til vill að bókin fjallar að hluta til um nautnalíf, ekki síst forboðið nautnalíf. Að vissu leyti fjallar bókin einnig um að njóta lista og fagurra hluta. Heldra fólk átti vissulega meiri möguleika til að hafa aðgang að öllu því sem hugurinn girntist, ekkert hindraði það í að njóta nema e.t.v. ríkjandi siðferðiskröfur og einstök tabú. Svo er vissulega enn,  en öll umgjörð um þennan veruleika er breytt, þess vegna er bókin úrelt.

Allt sem ég hef skrifað um lestur minn á Felis Krull hér, ber þess merki að mér leiddist bókin og skildi hana ekki. Við það verður að una, ég myndi ekki lesa hana aftur nema fyrir háa borgun.

Myndin sem fylgir er af mosavegg í þyskri bókabúð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það eru 30 ár síðan ég las Felix Krull. Um svipað leyti og Tóníó Kröger. Krull er vissulega ekki sterkur karakter, þrjótur og uppskafningur. Ég hef alltaf séð hann sem andstæðu Kröger fyrst og fremst og ég held að bókin sé að mörgu leyti ákveðinn lykill að verkum og lífssýn Thomasar Mann. En ég svo sannarlega sammála þér um að meira vit hefði verið í að þýða Töfrafjallið á sínum tíma en Krull.

Þorsteinn Siglaugsson, 18.12.2016 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 65
  • Frá upphafi: 187118

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband