Ó- sögur um djöfulskap Carl Jóhan Jensen

image 

Ég hef nú lokið við bók Carl Jóhan Jensen Ó- sögur um djöfulskap. Ég hlustaði á hana sem hljóðbók og hún tók u.b. 40 tíma í afspilun. Ég var spennt fyrir þessari bók, hún kom út á íslensku 2013 (Færeyjum 2005) en hljóðbókin kom ekki fyrr en í  apríl 2016. Það er þýðandinn Ingunn Ásdísardóttir sem les og það gerir hún frábærlega vel.

Þetta er mikil saga, ég hef ekki ráðist í stærra verkefni síðan ég las Biblíuna. Það er reyndar ekki svo fjarri lagi að hugsa til þeirrar bókar, bæði er hún lík henni um margt  og svo er ósjaldan vitnað til ritningarinnar í Ó- sögum um djöfulskap. Það er erfitt að lýsa þessari bók. Í reynd er hér á ferðinni margar mislangar sögur, sem margar eru þannig gerðar að þær gætu staðið einar sem smásögur. Í sögunum er sagt frá færeysku fólki en frásagan er ekki í tímaröð svo lesandinn er allan tímann að púsla, til að fá heillega mynd. Til að rugla lesandann enn frekar er oft skotið inn löngum neðanmálsgreinum til að rengja frásögn sögumannsins. Auk þess gerir kennslukonan fröken Flor af og til athugasemdir inni í frásögninni. Þetta verður þó hvort tveggja til að gera söguna enn trúverðugri.

Það er frásagnarmátinn, stíll og innihald sem hrífur mann mest. Allar lýsingar eru ofurnákvæmar. Stundum er eins og maður sé að horfa á mynd. Mynd með lykt, bragði og snertingu.  En tungumálið getur gert það sem pensill og myndavél geta ekki. Með orðum er hægt að lýsa innri veruleika, litrófi tilfinninganna.  

Í raun er ekki hægt að lýsa þessari bók en ég reyni af því ég er sjálf að reyna að átta  mig á henni og hvað mér finnst um hana. Það eina sem ég veit, er að mér finnst hún góð. Engu lík. Það væri þó synd að segja að það sé bjart yfir lífi fólksins sem kemur við sögu. Hér er ekki verið að lýsa gleði og þaðan af síður rómantík. Fólkið virðist vera á valdi tilfinninga sem það ræður ekki við og losta. En stundum minnti frásögnin mig á sögu góðs sögumanns sem vill fræða þann sem er nýfluttur í sveitina um sögulegan fröðleik bygðarlagsins. Þessi saga speglar svo margt. 

En þetta gerir höfundur öðru vísi en nokkur annar sem ég hef lesið, frásagan er afar holdleg, tilfinningar fólks eru í líkamlegar og andlegar í senn.  

Mér gekk illa að ná utan um söguþráðinn og hef á tilfinningunni að best væri að lesa þessa bók undir leiðsögn. Ef það væri boðið upp á námskeið í Ó- sögum um djöfulskap, væri ég fyrsta manneskja til að skrá mig. 

Þegar ég lít yfir það sem ég hef sagt um þessa bók, er er það kannski ekki hvatning fyrir aðra til að lesa hana. Ég geri mikið úr erfiðleikunum. En í hreinskilni sagt er bókin erfiðisins virði og ég veit að ég mun lesa hana aftur Æog kannski enn aftur. Hún er heillandi, hún virkjar öll skilningarvitin.

Það er ekki hægt að skilja við þessa bók án þess að minnast á þýðandann. Bókin er á lifandi, litríkri og leiftrandi íslensku. Hún hlýtur að vera vel þýdd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 187116

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband