Hverjum klukkan glymur (1940): Ernest Hemingway

image

Ég vinn að endurmenntun minni. Les bækur sem  ég hefði átt að lesa fyrir löngu. Og endurles enn aðrar. Það eru til bækur sem allir tala um en kannski ekki allir lesið. Þær eru eins og vörður og eru eins og vörður sem við rekjum okkur eftir á  villusamri leið okkar til menningar. Höldum við. 

Ég hafði aldrei lesið, Hverjum klukkan glymur. Sneiddi viljandi hjá Hemingway, líkaði ekki við ímynd hans eins og hún birtist mér í umfjöllun þess tíma. Maður karlmennsku, stríðs og veiðiskapar var ekki fyrir mig. 

Nú reyni ég að vinda ofan af fordómum mínum. Las fyrst Veislu í farangrinum og var á báðum áttum. Einum of mikið um sögur að frægu fólki og stundum á þeirra kostnað. Minnti mig um sumt á Veröld sem var, eftir Stefan Zweig, en meðan Zweig lýsir því sem er að hverfa með trega, er greinilegt að Hemingway er maður nýrra tíma. Mér fannst ekki mikið til um þessa bók en þar gæti verið um að kenna, sérviskulegri þýðingu. Það er skrýtið að hugsa sem svo, því það er sjálft Nóbelsskáldið okkar sem þýðir. En mig grunar þetta. 

Hverjum klukkan glymur er mun merkilegri bók, saga sem sest að og verðu næstum eins og raunverulegur hluti af lífi þínu. Þessi grimma, en um leið angurværa saga, er um fólk sem ætlaði að breyta heiminum. Það snerist til varnar fyrir nýstofnað lýðveldi, sem Falangistar réðust gegn. En stríð þeirra var jafn grimmt og hinna. Stríð er stríð og alltaf jafn miskunnarlaust og mannfjandsamlegt. Mér hefur verið hugsað til Tyrklands. Þar var fólk farið að horfa björtum augum til framtíðar, eygja von, þegar verðandi einræðisherra kæfði þessa von með því að snúast gegn sínu eigin fólki. Mér hefur líka verið hugsað til Sýrlands. Margt er líkt, glundroðinn, innblöndun stórveldanna, miskunnarleysið. Tilgangsleysið.

Þetta er vel sögð saga, saga þriggja sólarhringa í lífi lítils skæruliðahóps í fjöllum Spánar. Þýðandinn er Stefán Bjarman og líklega er það ekki síst stíll hans sem gerir bókina að þvi listaverki sem hún er. Hún gengur nærri manni og ég var fegin þegar ég var búin með hana. Og nú losna ég ekki við hana, hún á eftir að fylgja mér. Þannig eru góðar bækur. 

Eftirmáli

Þessi bók heitir reyndar ekki, Hverjum klukkan glymur, eins og ég hafði haldið. Hún heitir á íslensku, Klukkan kallar. Þýðandinn hafði ætlað að láta hana heita, Hverjum klukkan glymur en þá var búið að gera kvikmynd og útgefandi vildi að myndin héti eins. Bókin kom út á íslensku 1951. 

Myndin er frá Spáni, en er að vísu ekki úr fjöllunum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Árnason

Góður piltill hjá þér.  Ég er sammála þér um Hverjum klukkan glymur, ég á hana undir því nafni.  Mál og menning úgáfa frá 1980. Þessi þrjú meistarastikki frá Hemingway. Hverjum klukkan glymur, Vopnin kvödd og Gamli maðutinn og hafið eru með því besta sem við eigum.

Haukur Árnason, 30.8.2016 kl. 17:08

2 identicon

Þegar við vorum ung, Bergþóra, og skólafélagar í M.A. umgengumst við ekki mikið. Það var ekki fyrr en í lokin og eftir menntaskólaárin sem samskipti/vinátta okkar hófst enda varstu besta vinkona konu minnar, Hönnu Siggu.

Þess vegna vissir þú ekki (eða leiddir hjá þér) að á þessum menntaskólaárum var starfandi kaffihúsaklíka (Rögnvaldur, Einar Oddur, Gunnar Rafn, Davíð Þjóðleifsson, Tómas Ingi, ég sjálfur og stundum Arnar Jónsson; alls ekki bestu, prúðustu nemendurnir), sem sátum á KEA eða hjá Jörgen veitingamanni (sem hafði frátekið sal fyrir okkur, aðeins fyrir meðlimi "Limbóklúbbsins"). Stundum hétum við Letifélagið eða (og þess vegna er ég að senda þér þetta tilskrif) við gerðumst óbundnir félagar í Æskulýðsfylkingunni; út á það fengum við hentugt húsnæði og kölluðum til okkar andans jöfra á Akureyri: Kristján frá Djúpalæk (um skáldskap), Jón Hafstein sem lagði út af Marxisma og einn gestur okkar var Stefán Bjarman sem hafði þýtt bók Ernests Hemingway sem þú hefur nú lesið.

Við vorum leitandi undir menn, fórum hver sína leið. En þessi einlæga frásögn Stefáns frá baráttu sína við þýðinguna kenndi okkur margt - og er mér minnistæð enn i dag, hálfri öld síðar.

Brynjar Viborg (IP-tala skráð) 30.8.2016 kl. 18:50

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Las mikið í foreldrahúsum, þar enda þar mikið bókasafn, en Hverjum klukkan glymur las ég þegar ég var að byggja hús og við hjónin vorum að smíða börn og þar með þarf ég að lesa þá bók aftur , svosem margar aðrar.

Gamla manninn og hafið las ég hinsvegar hér í stólnum sem börnin mín gáfu mer þá ég varð eldri og hann er ljóslega að verða eldri eins og ég því að smellurinn nú um daginn sagði mér gömlum vélvirkja að það hefði brottnað gormur og það skýrir hversvegna ég sit skakkur.

Hrólfur Þ Hraundal, 31.8.2016 kl. 10:27

4 identicon

Kærar þakkir fyrir skrifin. Ég dæmi ekki bækur, er fyrst og fremst að segja frá lesupplifun, sem er að sjálfsögðu háð stund og stað.

Brynjar: Ég var virkur þátttakandi ungliðahreyfingunni, sem þú kallar Æskulýðsfylkingu. Man ekki hvað hún hét í raum. Ég var á fyrirlestrunum sem pþú nefnir, þar sem Kristján frá Djúpalæk, Jón Hafstein og Stefán Bjarman töluðu. Man líka eftir Arnóri Hannibalssyni, sem gerði upp við Sovétríkin.Þú manst bara ekki eftir mér. Já, við vorum að reyna að mennta okkur.

Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 3.9.2016 kl. 21:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 186944

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband