Er hvítasunnan orðin þunnur þrettándi?

image

Margir velta því fyrir sér hvað verði um frídagana sem byggja á helgum dögum kirkjunnar, nú þegar kristin trú hefur að vissu leyti úrhólkast (ætla ekki að fara nánar út í það). Fólk er fríinu fegið og hefur fundið dögunum nýjan tilgang, þótt í flestum tilvikum fari lítið fyrir helgihaldinu. Ég er utan trúfélaga og fylgi straumnum. Reyndar þarf ég ekki á frídögum að halda, því ég er komin í "langa fríið", ég get hagað hverjum degi að eigin geðþótta. 

En hvernig var þetta hugsað allt, á sínum tíma, meðan fólk tók helgidagahald alvarlega, klæddi sig í spariföt, var andaktugt og hugsaði um andleg málefni? Maður  tók mest eftir hvað var bannað. Það var náttúrlega bannað að vinna og þess vegna var ekki hægt að kaupa sér neitt, hvorki vöru eða þjónustu. Og svo var að sjálfsögðu bannað að skemmta sér. 

Mér finnst siðvenjur merkilegar og mig langar til að skilja þær, þannig öðlast ég skilning á fólkinu í kringum mig og þannig öðlast ég skilning á mér. Mér fannst alltaf gaman í gamla daga þegar fólk fór í sparifötin og amma setti upp viðhafnarsvipinn um leið og hún setti á sig sparisvuntuna utan yfir peysufatasvuntuna. En auðvita lagðist ekki af nein vinna, kýrnar voru mjólkaðar, fénaður fékk tugguna sína og svo þurfti heimilisfólkið sitt. Hvítasunnan var á vissan hátt alltaf til vandræða, því oftar en ekki truflaði hún sauðburð, mesta annatíma til sveita, sem er á vissan hátt heilagur í sjálfu sér.

Enn er það svo, ég átta mig illa á hvitasunnuhelginni. Ef maður hugsar um þrískiptingu guðdómsins er þá ekki hægt að hugsa þetta svona? 

Jólin eru hátíð Föðurins, hann gaf fólkinu Soninn

Páskarnir eru hátíð Sonarins, hann gaf fólkinu sjálfan sig

Hvítasunnan er hátíð Heilags anda, hann kom til lærisveinanna með miklum dyn

Reyndar ætti ég ekki að vera að ræða um helgidagahald, trúlaus manneskjan. Finnst sjálfsagt mörgum. En það er merkileg þverstæða að meðan kirkjan hefur einhvers konar einkarétt á því að ræða trú og andleg málefni, hafa braskararnir (þeir hinir sömu og Kristur hamaðist gegn í Musterinu) tekið forystu í að gæða gamla helgidaga merkingu og hinn svokallaði frjálsi markaður hefur tekið við hlutverki heilags anda. 

En hvað er manneskjan að fara, kann einhver að spyrja? Það er eðlilegt, umræða utanað- komandi, ég meina trúleysingja um andleg málefni er gjarnan tekin sem karp. Hvernig væri að gefa þjóðkirkjunni frí svo allir sitja við sama borð. 

Er þetta ekki bara í fínu lagi?

Ég minnist tímabils þar sem fréttir um ævintýraleg tjaldferðalög ungmenna út í guðs græna náttúruna (sem oftast var grá) voru stórfrétt Ríkisútvarpsins. Unga fólkið tók sig saman og engin gat vitað fyrirfram hvar það lenti.

Þegar þessar fréttir voru fluttar, hugsaði ég. Þetta er leitandi fólk.

Vegir Guðs eru órannsakanlegir.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Málið snýst kannski meira um það hversu mikið kirkjan sé í náðinni hjá fjölmiðlum landsins; rúv og Mogga?

Hvort hafa þeir meiri áhuga á andlegum málum sem að leiða til framþróunnar  eða að leita uppi ógæfu-atburði og dreifa caos-fréttum?

Jón Þórhallsson, 17.5.2016 kl. 08:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 73
  • Frá upphafi: 187187

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 59
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband