Heiður: Elif Shafak. Að fræðast og nærast

Bækur eru búnar a.m.k. tvenns konar eiginleikum. Þær fræða mig um mig eða þær fræða mig um heiminn. Bókin sem ég var að ljúka við að lesa fræddi mig mikið um heim sem er mér framandi en mér fannst hún því miður ekki ná því að dýpka skilning minn á sjálfri mér. Kannski tala ég ekki nógu skýrt, en þegar ég get samsamað mig persónunum, finnst mér ég læra eitthvað um mig sjálfa. Oft fer þetta, að fræða og næra, saman. 

Bókin Heiður segir sögu fjölskyldu. Sögusviðið er fyrst afskekkt kúrdískt þorp, síðan Istanbúl og loks London. Pembe, sem er Kúrdi flyst með manni sínum og börnum til London. Börnin, tveir drengir og ein stúlka, ganga í enskan skóla og maðurinn fær vinnu. En maðurinn eyðir peningum sem hann vinnur sér inn í fjárhættuspil, hann verður ástfanginn af vafasömum kvenmanni og flyst að heiman. Konan fær vinnu á hárgreiðslustofu og kynnist vænum manni. En hlutirnir ganga ekki fyrir sér eins og hjá hverjum og einum Lundúnabúum. Fjölskyldan er fjötruð af siðum heimalandsins og það er ólíðandi að gift kona vinni utan heimilis og umgangist karlmann. Það varðar heiður fjölskyldunnar og fyrir það skal henni refsað. Í þessu tilviki tekur eldri sonurinn að sér hlutverk ,,böðulsins".

Höfundurinn, Elif Shafak, er mikill sögumaður, hún minnir mig helst á Einar Kárason. Saga er full af litlum sögum og hver og ein þeirra er full af smáatriðum sem skipta máli og í hún er held spennandi. Þrátt fyrir það var hún fyrst og fremst fræðandi, ég fann mig ekki í fólkinu í þessari bók. Það er ekki vegna þess að það lifir í framandi heimi, ég fann til með Önnu Kareninu og ég fann til með öllum Karamasóvbræðrunum. Ég fann meira að segja til með karlgaurnum, pabba þeirra en hann var óféti. Þetta fólk er þó allt fjarlægt mér í tíma og rúmi svo ég tali ekki um menningarlega.

Hvað um það, ég er ánægð með að hafa lesið þessa bók, hún er lipurlega skrifuð og fræðandi og það var gaman að ræða hana við stöllur mínar í bókaklúbbnum. Þær voru allar mjög ánægðar með hana.  En ég skil bækur með mínu hjarta en ekki annarra.

En til þess að enginn misskilningur verði af þessum skrifum mínum vil ég taka fram, úr því að ég dró Einar Kárason í þetta, þá vil ég upplýsa að ég hef oft fengið kökk í hálsinn þegar ég les bækurnar hans og fellt tár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 187180

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband