Balzac og kínverska saumastúlkan:

 

Saumavél mömmu

Balzac og kínverska saumastúlkan

Um leið og ég frétti af þýðingu Sigurjóns Björnssonar á ævisögu Balzacs, vissi ég að þessa bók yrði ég að lesa. Við Sigurjón þekkjumst úr bókbandin (Nánari skýring: Við Sigurjón vorum,eilífðarnemendur í bókbandi. Ég er hætt, Sigurjón er enn að).

Við leit mína að bókinni í Hljóðbókasafninu, kom upp bókin Balzac og kínverska saumastúlkan og af einskærri forvitni, ákvað ég að lesa hana fyrst. Af þessu sést að bókaval mitt ræðst ekki af tilviljunum.  

 Bókin er eftir Dai Sijie og gerist á dögum menningarbyltingarinnar. Hún kom út á íslensku 2002. Þessi bók hafði alveg farið fram hjá mér, enda tími minn til að lesa, minni þá en nú. Ég hef reyndar lesið nokkrar bækur um þessa sérkennilegu menntatilraun og langaði til að fræðast enn frekar. Í því samhengi langar mig að nefna Fjall andanna (Andarnas berg en ég las bókina á sænsku) eftir nóbelsverðlaunahafann (2000) Gaó Xingjian. Dásamleg bók.  Hún hefur ekki verið íslenskuð. Merkilegt hvað er þýtt og hvað ekki.

Í bókinni, Balzac og saumastúlkan, er sögð saga tveggja ungra manna, nánast drengja, sem eru dæmdir til hætta námi, sem reyndar var í skötulíki og flytja út á land. Þeir áttu að kynnast kjörum fólksins. Í lýsingu höfundar á viðbrögðum piltanna gagnvart þessu nýja umhverfi, er greinilegt að þá vantar auðmýktina sem Maó hefur líklega gert ráð fyrir, þeim ofbýður sóðaskapurinn og finnst alþýðan þröngsýn og einföld. Mér varð allt í einu hugsað til íslensku borgardrengjanna sem voru teknir úr fótboltanum og sendir í sveit á sumrin. Hvernig leið þeim? En það er önnur saga.

Borgardrengirnir, Sögumaður og vinir hans Lúó, voru sendir í afskekkt fjallaþorp og vissulega kynntust þeir lífi sem var þeim framandi en þeir lærðu líklega annað en til var ætlast. Það sem heillaði þá þó mest var tvennt. Annað var undurfögur saumastúlka, dóttir skraddarans, hitt var heimurinn sem, laukst upp fyrir þeim við að lesa Balzac og fleiri forboðna höfunda. Ástæðan fyrir því að bækurnar voru í farangri þeirra í sveitina, var að móðir Lúós hafði beðið hann fyrir tösku með forboðnum bókum, til að bjarga þeim frá bókabrennu.

Þótt meginefni sögunnar fjalli um pólitík, er þetta í hina röndina þroskasaga.Í gegnum Balzac uppgötva vinirnir ástina og dásemdir einstaklingshyggjunnar.Hin fagra dóttir skraddarans heillar þá og þó sérstaklega Lúó. Hún er þó ekki nógu fáguð að hans mati og hann vill mennta hana. Það tókst honum en niðurstaðan var önnur en þegar Higgins menntaði Elísu í My Fair Lady.

Ég ætla ekki að rekja þessa sögu frekar hér, hún er stutt og þeir sem vilja eru fljótir að kynna sér hana. En mér fannst bókin skemmtileg,þrátt fyrir alvarleika málsins er hún prakkaraleg og fyndin.Mér fannst líka gaman að lesa um hagi sveitafólksins.

Ég hef lesið mér til um höfundinn og veit núna að sagan byggir á reynslu hans. Hann var sjálfur fórnarlamb menningar- byltingarinnar. Seinna lauk hann menntun sinni og gerðist kennari. Hann yfirgaf Kína 1984 og settist að í Frakklandi, landi Balzacs og hefur dvalið þar og starfað bæði sem rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður.

Bókina þýðir Friðrik Rafnsson,úr frönsku.

Myndin er af saumavél móður minnar, kínverska saumastúlkan var með fótstigna.

Næst skrifa ég um Ævisögu Bazacs


Bloggfærslur 15. apríl 2017

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 187190

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband