Svo tjöllum við okkur í rallið: Guðmundur Andri Thorssson

OgSvoTjollumVidOkkurIRallid-500x523 

 

 

 

Þrátt fyrir að ég þekki vel til Guðmundar Andra Thorssonar, sem er margverðlaunaður rithöfundur, kom bókin mér þægilega á óvart. Ég veit ekki við hverju ég bjóst.. Líklega einhverju fræðandi um Skáldið og menningarvininn Thor Vilhjálmsson með ívafi saknaðar sonar.

Ég nota hljóðbækur í stað prentaðra bóka, sem í þessu tilviki er verra en ella, því bókin  byggir á myndum. Hún er 47 kaflar og hver kafli er spunninn í kringum mynd. Það er höfundur sjálfur sem les og hann gerir það af mikilli nærgætni og hefur lestur hvers kafla með því að lýsa myndinni sem er kveikja að minningunni sem spunnið er úr.

Ég sem lesandi

Alltaf þegar ég hef lestur á bók, nálgast ég hana út frá einhverjum væntingum sem ég hef ómeðvitað búið búið mér til. Þessar væntingar hafa áhrif á upplifun mína, hvern hvernig ég skil og hvað mér finnst. Lengi vissi ég þetta ekki

En nú þegar ég veit um þessar lúmsku tilfinningar reyni ég, í hvert skipti sem ég les eða hlusta, að núllstilla mig. Mér finnst það mikilvæg forsenda þess að njóta.

Í tilviki Guðmundar Andra er þetta óvenju erfitt. Í huga mér fylgir Guðmundi svo mikill „farangur“. Í fyrsta lagi er hann sonur Thors Vilhjálmssonar og Margrétar Indriðadóttur, sem bæði eru þekkt, í öðru lagi er hann tónlistarmaður sem slær á létta strengi með Spöðunum og í þriðja lagi, ég held að það vegi þyngst, skrifar hann greinar í Fréttablaðið. Ég held að þetta síðast talda skipti mestu máli. Hann, skáldið, notar ritsnilld sína til að taka þátt í hverdagsumræðu og hefur skoðanir á málefnum sem þrasað er um. Ég tek eftir því að þetta kveikir ósjálfráð viðbrögð, sem minna á það sem gerist þegar gamanleikari tekst á við að leika alvarlegt hlutverk. Get ég treyst honum? Þess vegna hreinsa ég hugann rækilega áður en ég hlusta. Ég tæmi hugann gæti þess að fókusinn sé rétt stilltur.

Það er ekki erfitt að móttaka þessa bók, hún hreif mig strax. Frásögnin færði mér lifandi mynd af manninum Thor, af samskiptum hans og drengsins, seinna mannsins sem var sonur hans. Sagan færði mér ekki síður lifandi mynd af móður hans og fjölskyldunni allri í Karfavogi. Bókin er hlý og ef einhvern tíma passar að nota orðið ljúfsár, þá er það um þessa bók.

Mig langar til að telja upp nokkur atriði til að styrkja mál mitt hvílík afbragðsbók Svo tjöllum við okkur í rallið er.

Fyrst var ég upptekin af því, sem líklega mætti kalla, almennan fróðleik. Hverjir voru eiginlega þessir Thorsarar og af hverju leit Thor á sig sem Þingeying? Mér fannst gott að hafa þetta alveg á hreinu. Því næst beindist athygli mín að fjölskyldunni, mér fannst merkilegt að lesa um konu skáldsins, hvernig hún hélt sínu striki, þrátt fyrir að það leynir sér ekki að Thor var plássfrekur maður. En það sem mér fannst þó best og mest gefandi við þessa bók var, þegar Guðmundur Andri lýsti því, hvernig orð og athafnir pabba hans kveiktu hjá honum hugsanir. Hjálpuðu honum til að hugsa og skilja heiminn. Ég fann hvernig þetta gerðist líka hjá mér, frásögn Guðmundar Andra færðu mér nýjan sannleik. Það er líklega einmitt sú tilfinning sem maður fær þegar maður les góðar bækur. Maður finnur að maður hefur fengið verkfæri til að skilja sjálfan sig betur og heiminn.

Að lokum langar mig að segja frá einum hlut sem ég kinkaði kolli við  bóklestrinum. Ég orða þetta svona, vegna þess að þarna er um feimnismál að ræða og  best að segja sem minnst. Þetta var um afstöðu Thors til Listar. Hann veltist ekki í vafa um að list var eitthvað alveg sérstakt, ekki bara annar endinn á einhvers konar rófi. Ég veit að þetta er umdeilt og álíka erfitt að ræða það eins og um tilvist Guðs. En nú hef ég sagt það, sem ég hef ekki sagt áður. Ég hugsa stundum eins og Thor.

Lokaorð

Til að koma í veg fyrir allan misskilning, langar mig til að segja að ég dáist að  greinaskrifum Guðmundar Andra. Mér finnst aðdáunarvert hvernig honum tekst oft að fjalla um málefni sem tekist er á um eins og í reiptogi. Hann lyftir þeim upp og flytur þau yfir á umræðuhæft plan. Mér finnst líka gaman að hlusta á hann syngja.  


Bloggfærslur 10. apríl 2017

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 64
  • Frá upphafi: 187117

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 61
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband