Hverjum klukkan glymur (1940): Ernest Hemingway

image

Ég vinn að endurmenntun minni. Les bækur sem  ég hefði átt að lesa fyrir löngu. Og endurles enn aðrar. Það eru til bækur sem allir tala um en kannski ekki allir lesið. Þær eru eins og vörður og eru eins og vörður sem við rekjum okkur eftir á  villusamri leið okkar til menningar. Höldum við. 

Ég hafði aldrei lesið, Hverjum klukkan glymur. Sneiddi viljandi hjá Hemingway, líkaði ekki við ímynd hans eins og hún birtist mér í umfjöllun þess tíma. Maður karlmennsku, stríðs og veiðiskapar var ekki fyrir mig. 

Nú reyni ég að vinda ofan af fordómum mínum. Las fyrst Veislu í farangrinum og var á báðum áttum. Einum of mikið um sögur að frægu fólki og stundum á þeirra kostnað. Minnti mig um sumt á Veröld sem var, eftir Stefan Zweig, en meðan Zweig lýsir því sem er að hverfa með trega, er greinilegt að Hemingway er maður nýrra tíma. Mér fannst ekki mikið til um þessa bók en þar gæti verið um að kenna, sérviskulegri þýðingu. Það er skrýtið að hugsa sem svo, því það er sjálft Nóbelsskáldið okkar sem þýðir. En mig grunar þetta. 

Hverjum klukkan glymur er mun merkilegri bók, saga sem sest að og verðu næstum eins og raunverulegur hluti af lífi þínu. Þessi grimma, en um leið angurværa saga, er um fólk sem ætlaði að breyta heiminum. Það snerist til varnar fyrir nýstofnað lýðveldi, sem Falangistar réðust gegn. En stríð þeirra var jafn grimmt og hinna. Stríð er stríð og alltaf jafn miskunnarlaust og mannfjandsamlegt. Mér hefur verið hugsað til Tyrklands. Þar var fólk farið að horfa björtum augum til framtíðar, eygja von, þegar verðandi einræðisherra kæfði þessa von með því að snúast gegn sínu eigin fólki. Mér hefur líka verið hugsað til Sýrlands. Margt er líkt, glundroðinn, innblöndun stórveldanna, miskunnarleysið. Tilgangsleysið.

Þetta er vel sögð saga, saga þriggja sólarhringa í lífi lítils skæruliðahóps í fjöllum Spánar. Þýðandinn er Stefán Bjarman og líklega er það ekki síst stíll hans sem gerir bókina að þvi listaverki sem hún er. Hún gengur nærri manni og ég var fegin þegar ég var búin með hana. Og nú losna ég ekki við hana, hún á eftir að fylgja mér. Þannig eru góðar bækur. 

Eftirmáli

Þessi bók heitir reyndar ekki, Hverjum klukkan glymur, eins og ég hafði haldið. Hún heitir á íslensku, Klukkan kallar. Þýðandinn hafði ætlað að láta hana heita, Hverjum klukkan glymur en þá var búið að gera kvikmynd og útgefandi vildi að myndin héti eins. Bókin kom út á íslensku 1951. 

Myndin er frá Spáni, en er að vísu ekki úr fjöllunum


Bloggfærslur 30. ágúst 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband