Minningarorð: Herdís Erlingsdóttur frá Gilsá

image

Þeim fækkar stöðugt Breiðdælingunum sem ég þekkti vel. Í dag verður Herdís Erlingsdóttir fyrrum húsfreyja á Gilsá borin til grafar frá Eydalakirkju. Herdís var fædd 4. april 1926. Hún var frá Þorgrímsstöðum, fjórða barn í röð 7 systkina. 

Ég man vel þegar okkur á nágrannabænum Hlíðarenda var sagt frá trúlofun Sigurðar á Gilsá, en það var mikill samgangur á milli bæjanna, bæði þá og síðar. Ég man að mér fannst þetta merkilegt. Ég sé núna, þegar ég reikna árin, að ég hef verið fimm ára. Ungu hjónin á Gilsá voru vel undir búskapinn búin, hann var búfræðingur og hún hafði verið í húsmæðraskóla. 

Dísa á Gilsá var ein af þeim konum sem var svo grandvör til orðs og æðis að hætt er við að fólk taki ekki eftir þeim. Ég heyrði hana aldrei leggja illt til nokkurs manns. Og líklega hefði ég ekki þessar góðu minningar, nema af því að ég var svo heppin að kynnast henni vel. Ég var nefnilega oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sem barn, "lánuð"  að Gilsá til að hjálpa til.  Ég man eftir því hvað ég hafði gaman að horfa á Dísu vinna, allt sem hún gerði, gerði hún vel og snyrtilega. Dísa var snillingur í öllu sem varðaði handavinnu, móðir mín sem kunni þar einnig vel til verka, leitaði gjarnan til hennar með ráð og aðstoð. Ég man vel eftir afar fallegum jólakjólum sem Dísa sneið og saumaði á okkur systur. Mamma lagði til efnið og svo var tekið mál og við vorum látnar máta, ekki bara einu sinni. Allt átti að passa vandlega. Mér þótti ekki gaman að máta en kjólarnir, sem voru rauðir og hvítir, voru undurfallegir.

En það er ekki alltaf nóg að búa sig vel undir lífið til að allt gangi að óskum. Lífið átti eftir að rétta þeim hjónum mörg erfið verkefni og mikla sorg. Sigurður átti við langvarandi heilsuleysi að stríða og reyndar fór Dísa ekki sjálf varhluta af því að takast á við sjúkdóma. Ég hef oft hugsað til fólksins á Gilsá þegar ég velti fyrir mér hversu gæfunni er misskipt. Það er átakanlegt að þurfa láta frá sér börn vegna veikinda þeirra og fötlunar. Hér er ég að tala um drengina þeirra tvo, tvíburana, Þorgeir og Stefán. Þeir voru fyrstu smábörnin sem ég passaði. Ég leit líka eftir Lárusi og Erlu,  eldri börnunum. Þau voru svo svo dugleg og kotroskin að ekki var við hæfi að tala um að passa þegar þau áttu í hlut. Ég veit núna að þau hafa líklega verið þriggja og sex ára. Fjölskyldan á Gilsá þurftu líka að horfa á eftir lítilli stúlku, Sólrúnu, sem lést níu ára eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. 

En Herdís Erlingsdóttir var og er í mínum augum sönn hetja. Þannig minnist ég hennar. Eins og sést á þessum orðum mínum í minningu Dísu, þá spretta fram ótal minningar, góðar og sterkar. Þær tengjast bæði henni og fólkinu á Gilsá. Þegar ég hugsa til baka, geri ég mér grein fyrir,  að það var í þeirra félagsskap sem ég lærði að það er munur á að tala um málefni og verkefni eða um fólk. Þetta var góður félagsskapur, góðir nágrannar eru dýrmætir. Þegar ég flutti úr sveitinni missti ég aldrei alveg sjónar af þeim, frétti af þeim. Ég votta aðstandendum samúð mína.   

Myndin sem fylgir, þessum pistli er brúðkaupsmynd af Sigurði og Herdísi. Hún er sótt í bók Sigurðar Lárussonar manns hennar Minningar og ljóð.  

 


Bloggfærslur 28. maí 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 65
  • Frá upphafi: 187118

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband