Bókasafnið mitt er að verða ónothæft

image

Ég er nú að lesa og hlusta á þrjár bækur sitt á hvað. Eina hlusta ég á í símanum á meðan ég skokka. Það er bókin Go Set a Watchman eftir Harper Lee. Mér gengur hægt með þessa bók af því ég skokka lítið. Nú er ég komin með hana á Kindilinn, þ.e. ég get lesið hana. Þá get ég glöggvað mig á því sem ég er búin að hlusta á og lesið áfram í rólegheitum heima.

En heima er ég að hlusta á, Frammúrskarandi vinkona eftir Elena Ferante. Ég hlusta á hana á streyminu ...í boði Hljóðbókasafnis Íslands.  Það er kvöldlesning.

Loks er ég að lesa þýska bók, Schattengrund. Ég er að reyna að æfa mig í þýsku, viðhalda því sem ég kann og helst komast örlítið lengra. Kannski ætti ég líka að ná í hana upplesna, ég hef nefnilega komist að því að mér gengur betur að hlusta á þýsku en að lesa hana sjálf. Það fannst mér skemmtilegt. 

Ekkert af þessu hefði ég gert nema af því sjónin er að svíkja mig, ég get ekki lengur lesið bækur nema með stækkunargleri. Ég er ein af mörgum sem hlakkaði til elliáranna og gerði plön um að þá skyldi ég lesa og endurlesa bækurnar sem ég (og maður minn) hafði safnað. Kóngur vill sigla en byr ræður. Það fer margt öðru vísi en ætlað er. Nú hjálpa ekki lengur gleraugu og góð birta, ég get ekki lesið venjulegt letur lengur. Þegar ég hafði kyngt þessarri staðreynd komst ég fljótlega í þann gír að hugsa, hvernig geri ég nú. Ég ákvað að horfa á hvað ég gæti frekar en hvað ég gæti ekki. Og það er heil stofnun með allt of löngu nafni, sem er tilbúin að leiðbeina (Þjónustu- og ráðgjafarstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga). 

En af hverju er ég að skrifa þetta? Ég veit að það er margt fólk sem er í svipaðri stöðu og ég og kannski finnst þeim gott að vita hvað er til ráða. En fyrst og fremst er ég að skrifa þetta fyrir sjálfa mig sem syrgi skerpu sjónarinnar til að geta lesið og séð. Og vegna þess að mig langar til það að geta talað opið um þetta eins og hvern annan hlut. Eins og vetrarhálkuna og hvort maður eigi að setja undir nagladekk eða láta harðkornadekk nægja. Mig langar til að það sé eðlilegt að vera fatlaður. 

Þannig hugsa reyndar allir fatlaðir og reyndar gamalt fólk líka. Þeir vilja vera venjulegt fólk sem tekið sé  mark á.

Þetta er kannski að verða einum of alvarleg og íþyngjandi lesning. Mig langar bara til að minna ykkur á, bíða ekki með að lesa bækurnar sem ykkur langar til að lesa. 

Og stundum opnar sjálf "ógæfan" nýjan glugga og við blasa ný tækifæri. Og stundum styrkleikar sem þú hafðir ekki hugmynd um.

 

Myndin er af augnfró, sem er lítið yfirlætislaust haustblóm 

 


Bloggfærslur 7. október 2015

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 186944

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband