Tímaflótti: Egill og dauðasyndirnar sjö

Mér finnst margt mótdrægt í nútímanum og hef því brugðið á það ráð að hverfa aftur til eldri tíma. Vinnst þá annað tveggja. Það sem þá gerðist mótdrægt, snertir mann ekki eis djúpt eða oft kemst maður að raun um að þetta hafi þá verið síst betra . 

Undanfarið hef ég lifað í heimi afkomenda Berðlu Kára, með Úlfi, Grími og Agli. Þetta er ljót lesning, menn ræna, drepa og brenna. Verstur er Egill, sem er ekkert nema græðgin, grimmdin og hortugheitin. Ég var farin að hugsa hlýlega til útrásarvíkinga nútímans, sem mér vitanlega drápu ekki fólk. Við morgunverðarborðið hafði ég orð á þessu við manninn minn (á sunnudögum truflar blaðalestur ekki)  og við ræðum bókmenntir). Er ekki Egilssaga bara svona kristileg allegoría um dauðasyndirnar sjö? Allt í einu gekk allt upp. 

Dauðasyndirnar sjö eru: hroki, öfund, reiði, þunglyndi, ágirnd, ofát og munúðarlíf (sótt á Vísindavefinn). Allt stemmir. Sagan verður önnur. Ég vil taka það fram að ég er enginn sérfræðingur í dauðasyndunum sjö, þær eru trúarleg hugtök og lærða menn hefur greint á um hvernig beri að túlka innihald einstakra synda/lasta. Mér sýnist að Egill hafi vissulega verið fulltrúi allra þessara synda. Reyndar er ég enn ekki búin að finna dæmi um munúðina, enda bara komin í hálfa bók, en munúð stendur líklega fyrir svall og óheft kynlíf. Það leynir sér ekki að að Egill hafi  verið þunglyndur, um það vitnar sagan, þegar hann lagðist í rúmið og ætlaði að svelta sig til dauða. Sjálf á ég erfitt með að sjá þunglyndi sem synd, ég vorkenndi Agli og enda er þunglyndi sjúkdómur í mínum huga. En á ritunartíma sögunnar eru viðhorfin önnur, uppgjöf er að treysta ekki Guði og syndsamlegt í sjálfu sér.

Egilssaga er fyrsta Íslendingasagan sem ég las undir leiðsögn. Hana veitti minn góði kennari Árni Kristjánsson í MA. Ég hef lesið þessa bók oft, en get þó ekki sagt að hún hafi verið í uppáhaldi. Eftir umræðurnar við morgunverðarborðið um Eglu sem kristilegt líkingamál, mun ég lesa það sem eftir er með nýju hugarfari og gaumgæfa. 

En ég mun þó alltaf skáskjóta augunum að nútímanum og skoða útundan mér hverjir eru syndarar dagsins. 


Bloggfærslur 25. janúar 2015

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 187120

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 57
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband