Undarlegir tímar: Guð,kjöt og ráðherra

Líklega hefur heimurinn riðlast þegar flokksblöðin voru aflögð eða því sem næst. Nú er einungis eftir eitt pólitískt málgagn (Morgunblaðið) og blöð sem lifa á auglýsingatekjum, eða því sem næst. Netmiðlarnir blómstra, umræðan er svo fjölbreytt að það er stundum erfitt átta sig á henni. 

Í morgun hef ég lesið um þrjú málefni og reynt að átta mig um hvaðan vindurinn blæs. Þau eru:Sala á kindakjöti, sjúkdómar vegna neyslu erlendra kjötafurða og niðurskurður Rúv á guðsorði. 

Í net umræðunni blandaðist þetta allt saman og inn í þetta blandaðist möguleg hætta sem getur stafað af köttum, væntanlega íslenskum. Það er skemmtilegt að fá umræðuna svona til sín úr öllum áttum. 

Nú vill svo til að mér finnst á vissan hátt að  guðsorði sé haldið að okkur og kindakjöti frá okkur. Ég vil skýra þetta nánar. 

Varðandi guðsorðið:Ég hef ekki þekkt neinn síðan amma mín dó, sem hefur haft reglu á því að hlusta á guðsorð í útvarpi. Hún var fædd 1884. Það var bara eitt útvarp á heimilinu og þegar kom að sunnudagsmessunni, settist hún við það og vildi hafa næði í kringum sig. Þetta er notalegt í minningunni. Hún var líka með það á hreinu að það bæri að halda hvíldardaginn heilagan. Það mátti ekki fella dýr og ekki vinna að heyskap nema til að bjarga heyi. Það gekk alveg fram af henni þegar barnakennari sveitarinnar gekk til rjúpna á sunnudegi. Var slíkum manni treystandi fyrir börnum?  Það eru breyttir tímar og sjálf er ég gengin af trúnni, ef hún var þá einhver. Mér finnst gott að losna við bænahald úr útvarpinu en finnst miður ef fólk tekur það nærri sér. 

Kindakjötsmálið er flóknara. Ég held að fólk kunni ekki almennilega á að matreiða þessa afurð og alls ekki að markaðssetja hana. Í búðunum sem ég kaupi mína vöru í hefur verið erfitt að finna lambakjöt annars staðar en í frysti, poka með súpukjöti, heil læri og heila hryggi. Ekki beinlínis fyrir tveggja manna fjölskyldu. Það er brýnt að laga þetta og svo þarf að gera rispu (ég er að sneiða hjá orðinu herferð) í að kenna fólki að matreiða kindakjöt. Ég nota viljandi orðið kindakjöt ekki lambakjöt sem er bara ein tegund af kindakjöti sem er svo fjölbreytt. Lambakjöt er alls ekki best. Kjöt af fullorðnu er bragðmest og best fyrir þá sem unna kindakjöti og sauðakjöt er eðalvara. Ég sakna þess að fá ekki almennilegt ærhakk, sem fékkst einu sinni, því langbestu kjötbollurnar eru úr blöndu af nauta- og kindahakki. 

Þriðja málið sem ég hef verið að lesa um í morgun, sem margir tjá sig um eru ummæli forsætisráðherra afgreiði ég sem bull. En ég veit ekki hvernig á að afgreiða bull sem kemur frá svo háttsettum manni. Á ég að vorkenna honum eins og hverjum öðrum heimskingja eða á ég að reiðast. Ef satt skal segja verð ég hrædd. Mér finnst voðinn vís að sitja uppi með þennan mann og kumpána hans.

 


Bloggfærslur 15. ágúst 2014

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 61
  • Frá upphafi: 187121

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 58
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband