Rattenkinder; B.C. Schiller: Ein leið til að læra tungumál þó seint sé

IMG_0672Rattenkinder

Ég er ekki bara að lesa Karl Ove Knausgård, til hliðar við þann lestur, vinn ég að því að bæta menntaskólaþýskuna mína með því að hlusta á hljóðbækur á þýsku. Ég les krimma. Í þetta skiptið vað bókin Rattenkinder fyrir valinu. Hún er eftir austurríska rithöfundaparið B.C. Schiller. Þetta er ekki fyrsta bókin sem ég  les eftir þau, svo ég veit að hverju ég geng. Þar á undan las ég Toten ist ganz einfach og Totes Sommermädchen. Í öllum þessum bókum er rannsóknarmaðurinn Tony Braun í  Linz í aðalhlutverki.

Ég ætla hér að segja aðeins frá bókinni um rottubörnin, þó án þess að segja of mikið og eyðileggja þar með spennuna fyrir þeim vilja lesa.

Bókin hefst á því að segja frá dularfullum dauðsföllum sem tengjast á einhvern hátt sjúklingi, Viktor Maly, sem er í meðhöndlun á geðsjúkrahúsi, lokaðri deild. Hann hefur misst minnið. Það vaknar grunur um raðmorð, fórnarlömbin eru konur, morðinginn skilur eftir  rottuhauskúpu hjá líkunum. Fljótlega kemur í ljós að morðin tengjast Romafólki (sígaunum). Börn hafa horfið.

Sagan er blóðug og full af ofbeldi. Það var erfiðast fyrir mig er að Tony Braun er að alltaf,  þegar á reynir,  að gaufast einn, sem hann á auðvitað ekki að gera, og lendir í lífshættu. Sama gerir samstarfskona hans Franka og má heppin heita að sleppa lifandi.

Nú er ég kannski búin að segja of mikið. Þar sem ég er óvön að hlusta á þýsku, þarf ég að hafa mig alla við að ná samhengi. Mér fannst erfiðast að fylgja þræði þegar mest gekk á. Það var auðvitað bagalegt en eftir að haf spólað nokkrum sinnum til baka, náði ég söguþræðinum. Eða það held ég.

Ég á í erfiðleikum með að meta bækur B. C.  Schiller af því að ég þarf svo mikið að hafa fyrir því að skilja tungumálið. Reyndar eykur óvissan um hvort rétt sé skilið enn á spennuna. En þetta er óneitanlega spennandi lesning.

Það er líka spennandi að velja nýja bók á þýsku en nóg er úrvalið.

En hefur mér farið fram? Það held ég og ef ekki þá kemur þetta á endanum.

Og svo held ég náttúrlega áfram með Knausgård vin minn.


Min kamp: Barátta mín Karl Ove Knausgård

IMG_0576 

Barátta mín Min Kamp

Hvað ætla ég að eyða miklu af því sem eftir er af lífi mínu með Karl Ove Knausgård? Er nema von að ég velti þessu fyrir mér, því lífið styttist hratt. Ef ég nota bjartsýnistölfræði á ég svona 10 ár eftir ólifuð. Ég hef verið að lesa (hlusta á) Min kamp, barátta mín. Er u.þ.b. hálfnuð með bók 2 af 6. Hún tekur 20 klukkustundir og 35 mínútur í afspilun. Ef ég hlusta á þær allar tekur þetta mig nokkrar vikur. Ég sé ekki eftir tímanum, heldur því, að ég les ekki annað á meðan. Og það er svo mikið til af  góðum bókum og mig langar að lesa þær allar.

Kannski væri nær að snúa spurningunni við og spyrja: Hvað ætlar Karl Ove Knausgård að gefa mér mikið af sínu lífi?

Fordómar

Ég hélt að bókin væri allt öðru vísi. Ég hélt að hún væri grimm. Um ungan mann segir frá uppvexti sínum, kenndi öðrum um það sem miður fór. Ég hélt að hann væri harkalegur í uppgjöri sínu við samtímamenn sína. Grófur og stóryrtur. Mig langaði ekkert til að lesa þessa bók þótt hún væri margverðlaunuð. Þessi mynd varð til við að hlusta álengdar á umfjöllun um bókina. Ég kynnti mér þetta ekki nánar.

Opinn hugur

Reyndin er allt önnur. Bókin er mjúk og lágstemmd eins og lækur sem fellur í lygnum straumi í mýrlendi. Engar flúðir, engir fossar. Þegar sagt er frá átökum í lífi höfundar, koma hyljir í stað flúða. Stundum er rétt svo að ég heyri í honum.

Bókin er afbragðsvel lesin af Anders Ribu, mér finnst ég heyri rödd Knausgård á bak við röddina hans. Á netinu fræðist ég um að Ribu sé eftirsóttur lesari. Bækurnar barátta mín komu út í Noregi á árunum 2009 til 2011 og hafa nú verið þýddar á fjölda tungumála. Mér finnst það vera forrétti að geta notið hennar á norsku.

En um hvað er bókin?

 Rithöfundurinn rekur ævi sína frá því að hann er lítill hnokki í Trömöya. Hann segir frá því sem gerðist eins og hann sé sjálfur að reyna að átta sig á því. Frásögnin er ekki í sagnfræðilegri tímaröð, hún liðast fram og til baka í tíma, eitt kallar á annað. Það er þó engan veginn erfitt að raða henni saman í heillega mynd. Af hverju þarf allt að vera í tímaröð? Mikið  af því sem bókin fjallar um er hvort sem er tímalaust, hugsanir, tilfinningar og líðan. Lífsspeki? Ég sé Knausgård fyrir mér, þennan stóra mann, hann er ofurviðkvæmur og er stöðugt að verja sig fyrir  áreitni lífsins. Ég hef áhyggjur af honum, hann reykir of mikið og dettur í það. Þegar hann verður ástfanginn, hellist ástin yfir hann og er óviðráðanleg. Reyndar held ég að þannig sé það með ástina yfirleitt. Það gleður mig að það kemur fram að hann les mikið, hann gleypir í sig bækur. Kannski hefur hann lesið Sigrid Undset.  

Ég er líka svolítið óróleg yfir því hvernig saga hans snertir aðra. Hvernig kemur þetta við hans nánustu. Og Noregur er lítið land, kannski þekkja ekki allir alla, en elítan er ekki stór.

Í augnablikinu er  Karl Ove kominn með fastan sess í lífi mínu og sambúðin er góð.

Myndin er af blómi og er aðeins til skrauts


Ástin, frelsið og listin í tímans rás

23161014

Þegar ég hafði lokið við að lesa (hlusta á) Kristínu Lafransdóttur, eftir Sigrid Unset ákvað ég að lesa Jenny, bókina sem Sigrid sló í gegn með. Ég fékk hana sem hljóðbók á norsku auðvitað í Norræna húsinu. Fyrstu viðbrögð mín var ánægja yfir því að hvað mér veittist létt að skilja norskuna, það er langt síðan ég dvaldi í Noregi. Þegar Jenny var búin fannst mér liggja beint við að lesa Min Kamp eftir Karl Ove Knausgård.  Svona leiðir eitt af öðru. Þetta var inngangur, til að koma sér að efninu.

Ég er ekki búin með 1. bókina (af 7) en nógu langt komin til að bera þau saman í huganum, Undset og Knausgård.

Sigrid Undset var fædd 1882 og Knausgård er fæddur 1968 Það fer ekki hjá því að ég beri þau saman. Ég er þó ekki fyrst og fremst að bera þau saman sem rithöfunda, mig langar frekar að vita hvernig þau sjá sig, tilgang sinn í lífinu. Eða á maður að segja tilgang lífsins.

Sagan um Jenny hefst í Róm. Þangað er Jenny komin til að þroska sig sem listamann, málara og vera frjáls. En þó að ásetningurinn sé þessi, langar hana fyrst og fremst að kynnast ástinni og í hennar huga er ástin eitthvað óumræðanlega stórt, sönn, hrein og göfug. Hún er 28 ára gömul  og hefur fram að þessu búið heima og verið hjálparhella móður sinnar. Lífið í Róm er auðugt af fegurð og hugsjónum. Og þegar hinn ferkantaði Gunnar Gran stúdent biður hennar, blekkir hún sjálfa sig til að trúa því að þarna sé ástin komin.

Ég ætla ekki að rekja efni bókarinnar en í staðinn tala um það sem mér finnst einkenna hana. Hún gæti alveg eins verið málverk. Knausgård er að lýsa sjálfum sér í sinni bók og það er mjög líklegt að það sé Sigrid einnig að gera í Jenny, því margt er líkt með myndlistakonunni Jenny og rithöfundinum Sigrid Undset. Sigrid fer einnig til Rómar 28 ára gömul og hún er að byggja sig upp sem rithöfund. Þess vegna les ég bók Sigrid ekki síður sem ævisögu en bók Klausgårds, í báðum bókunum er ung manneskja að leita að því hver hún er og hver hún vill vera.

 

Min kampÞau eru í raun ekkert svo ólík. Bæði jafn getulaus til að hafa áhrif á framvindu eigin lífs. Þau væflast. Reyndar er Knausgård miklu yngri svo samanburðurinn er ekki sanngjarn. En þau eru bæði að leita að ástinni en ástin er einhvern veginn öðru vísií laginu. Jenny hugsar um hvað hún hafi að gefa, Knausgård um hvað hann geti fengið. Ást  Jennyar er andleg, næstum ekki af þessum heimi en ást Knausgård er líkamleg og nálæg.

Það fer ekki hjá því, þegar maður les svona bækur um ástina að maður hugsi til sinnar eigin fortíðar. Hvernig  var ástin mín?

Ég veit það alveg en ég ætla ekki að skrifa um það hér.  En þarna er ég komin að veigamiklu atriði um ástæðuna fyrir því hvers vegna maður les bækur. Maður er ekki fyrst og fremst að fræðast um fólkið í bókunum, maður er að spegla sig í því. Ég á auðveldara með að spegla mig í Jenny. Unglingurinn Knausgård er allt of upptekin af því að komast á réttan stað í metorðastiganum eða á maður að segja goggunarröðinni. Ég var búin að finna minn þegar ég hleypti heimdraganum, ég var til hliðar við þessa röð og sættimig við það.

Auðvitað finnur Jenny ekki ástina sem hún er að leita að og þegar hún finnur huggun hjá manni sem hún elskaði ekki  rétt, finnst henni hún hafa svikið ástina. Reyndar held ég að þetta hefði verið allt auðveldara ef það hefðu verið komnar getnaðarvarnir.

Ég er sem sagt búin með Jenny og langt komin með fyrstu bók Knausgårds af sjö ef ég les þær allar. Sigrid Undset fékk Nóbelsverðlaun 1928 eftir að hafa skrifað Kristínu Lafransdóttur, kannski fær Knaugård þau líka. Nobelsnefndin hefur verið örlát við Norðmenn, þrenn verðlaun hvorki meira né minna.

Þegar ég lít yfir það sem ég hef skrifað hér, sé ég að ég er undir áhrifum frá Knausgård, ég skrifa beint út það sem ég er að hugsa, reyni ekki að leggja mat á það hvort það sé mikilvægt, frásögnin er flöt, engir toppar engin niðurstaða. Hvernig verð ég þegar ég hef lesið allar bækurnar um baráttu hans?

Myndirnar eru af tveimur bókum eftir þau Undset og Knausgård. Teknar af netinu og valdar af handahófi.


Kapítóla: Villta vestrið í kvenlegum búningi

EDEN_Southworth_c1860-crop

Kapítóla: Villta vestrið í kvenlegum búningi

Það eru um það bil sextíu ár síðan að ég var fengin að lesa fyrir gamla konu, Guðlaugu Helgu Þorgrímsdóttur. Hún var lasin og sonur hennar, kennari minn, bað mig um þetta. Bókin sem hún valdi var Kapítóla. Ég náði engu sambandi við bókina, líklega vegna þess að ég hafði þá komið mér upp bókasmekk (fordómum) að ég hefði ekki gaman af ástarsögum. Ég var 14 ára.

Ég fékk reyndar ekkert samhengi í söguna því við vorum fleiri sem skiptumst á að lesa.

Þegar ég sá að búið var að  lesa Kapítólu inn hjá Hljóðbókasafninu ákvað ég að sannreyna hverslags bók Kapítóla væri. Bókin er lesin af Silju Aðalsteinsdóttur, listavel.

Ég þurfti ekki að hlusta lengi, til að komast að því, hve rangt ég hafði haft fyrir mér. Þetta er ævintýraleg prakkarasaga þar sem aðalhlutverkið er í höndum hinnar strákslegu Kapítólu. Sögusviði er Villta Vestrið, nánar til tekið afskekkt stórbýli í hrikalegu fjallahéraði í Virgíníu.

Hinn uppstökki og orðljóti stórbóndi og fyrrverandi major, Fellibylur, er kallaður út um miðja nótt, til deyjandi konu. Óveðrið  hvín í fjallaskörðunum. Hún trúir honum fyrir leyndarmáli og miklu óréttlæti. Fellibylur sækir götubarnið Kapítólu til New York, þar sem hún hefur dulbúið sig sem strák. Það er auðveldar að vera strákur en stelpa þegar maður þarf að bjarga sér.

Þessi saga er ævintýraleg frásögn, þar sem við sögu koma ræningjar, misindismenn og skúrkar annars vegar en hins vegar fátækar einstæðar mæður og höfðinglegir og ríkir stórbændur.

Í þessari sögu er fólk annaðhvort fallegt og gott eða ljótt og vont. Nema svarti Donald sem er í raun góður maður á villigötum.

Sagan er æsispennandi og ekki spillir að öllum aðstæðum er lýst á þann veg að maður verður forvitin um þetta framandi umhverfi. Svarta þjónustufólkið (þrælarnir) sefur á dýnu á gólfinu inni hjá húsbændum sínum  til  að geta þjónað þeim sem best.

 

Ég las mér til um höfundinn. Bókin er eftir konu, E.D.E.N. Southworth sem er fædd 1819. Sagan kom fyrst sem framhaldssaga í blaðinu New York Ledger 1859. Og síðan 1868 og loks 1883. Hún kom loks út sem bók 1888 og sló í gegn. Þessi útgáfusaga er eins og fjölmargra annarra bóka frá frá þessum tíma.

E.D.E. N. Southworth var menntuð róttæk kona sem skrifaði til að drýgja tekjurnar eftir að maðurinn stakk af frá henni og tveimur börnum (til að leita að gulli). Hún þarf því ekki langt að leita eftir fyrirmynd að frómum sívinnandi einstæðum mæðrum.

Þetta er á tímum íslensku vesturfaranna og að einhverju leyti sá veruleiki sem mætir þeim. Það var líka þannig sem þessi bók rataði til okkar. Mér hefur ekki tekist að púsla saman  útgáfusögu þessarar bókar á íslensku en sýnist að hún hafi fyrst komið út sem framhaldssaga í Heimskringlu (Winnipeg) 1897, Kapitola: Upp komast svik um síðir. Ekki er getið þýðanda bókarinnar sem ég hef undir höndum en í bók frá  1905 (varðveitt á Borgarbókasafni , aðalbókasafn) er Eggert Jóhannsson skráður sem þýðandi og Jóhann Jóhannesson sem útgefandi og kostnaðarmaður.   Sú bók átti eftir að fá á sig gagnrýni frá Jónasi frá Hriflu, sem er vafasöm.

Eins sjá má tapaði ég mér alveg í að skoða mannlífið sem þessi bók hafnaði í, allt vegna þess að mig langaði til að skilja heim Guðlaugar H. Þorgrímsdóttur en hún var á aldur við ömmur mínar sem voru fæddar 1884. Þetta hafa þær verið að lesa. Ævintýralega spennusögu með ástarívafi, þar sem söguhetjan er  grallaralegur stelpukrakki. Mest hafði ég þó gaman að því að sjá  hvernig kvenréttindakonan E.D.E. N. Southworth laumar inn gagnlegum fróðleik eins og t.d. að það ætti engin stúlka að gifta sig fyrir 20 ára aldur, því barneignir á ungaaldri og þrældómur sem því fylgdi gæti verið dæmalaust heilsuspillandi.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2017
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 187116

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband