Guð sé oss næstur: Arto Paasilinna

 

 250px-Kerimäki_churchGuð almáttugur er ekki bara farinn að þreytast, hann er gjörsamlega kulnaður í starfi og vill taka sér ársleyfi. Hann veit að það þarf að vanda valið á staðgengli og setur af stað vinnu við að leita að góðum Guði í sinn stað. Sankti Pétur  og Gabríel erkiengill taka að sér að finna staðgengil. Þeir búa til lista. En Guð er óþolinmóður og virðist bera litla virðingu fyrir faglegheitunum og tekur geðþóttaákvörðun um að velja finnskan kranamann til starfans. Síðan tekur við frásagan af því hvernig til tókst. 

Kranamaðurinn Pirjeri Ryymänen  er fullur bjartsýni og hefur ákveðnar hugmyndir um úrbætur. Margt er hreinlega gamaldags. Hann vill innleiða  nútímalegri vinnubrögð, tölvuvæða, forgangsraða verkefnum og gera kerfið skilvirkara. Auk þess flytur hann Himnaríki til Finnlands en það hafði verið í Búlgaríu.  

En ekki fer allt sem ætlað er, Skrattinn eyðileggur tölvukerfið, notar vírusa (Það kom mér ekki á óvart)og máltækið, það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja, sannaðist á englunum. Hann stofnaði himnaríki fyrir dýrin.

Ég hef áður lesið nokkrar bækur eftir þennan galgopalega náunga og haft gaman af. En nú var eitthvað sem ekki gekk upp, mér fannst bókin ekki nógu fyndin og fannst illa farið með gott efni. Hélt í fyrstu að e.t.v.væri heilsuleysi mínu um að kenna. Verkir eru nefnilega ótrúlega húmorhamlandi.En svo las ég mér til og tók bókina í sátt.

Arto Paassilinna fékk alvarlega heilablæðingu 2009 og skrifar ekki meir. Það hafa komið út yfir 40 bækur. Þessi bók kom út 1989. Svona er húmor viðkvæmt fyrirbæri, það má engu muna.

Ég vildi óska að forlagið hefði verið nákvæmara varðandi útkomuár, það hefði sparað mér að endurspóla í huganum í gegnum alla bókina til að hlæja á réttum stöðum.

Sem biblíufróð áhugakona um andleg málefni, er ég vandlát og kröfuhörð varðandi leikaraskap með Biblíuna. Þetta var í lagi. Mér finnst rétt hjá Guði að banna Pirjeri Ryymänen  að fikta í sköpunarverkinu meðan hann tók sér frí. En ég sakna þess að heilög María fái ekki stærra hlutverk. Og ef ég á að vera alveg hreinskilin, fannst mér það nú í fyrsta skipti, skera í augun, hvað konur eru valdalitlar á himnum. En eiginlega hafði ég samt mest gaman að lesa um vinnuna með biðlistann. Hann minnir mig nefnilega á nokkuð alveg sérstakt.  

Myndin er af kirkjunni í Kerimäki.Þar er himnaríki bókarinnar.

 


Sænskur réttarhalda krimmi: Malin Persson Giolito

IMG_0574

Ég vissi fyrir löngu  að það væri hægt að fá hljóðbækur lánaðar í Norræna húsinu en ég bara er nýlega farin að nýta mér þessa þjónustu. Það kemur sér vel af því ég get ekki nýtt lengur venjulegar bækur. Ég var stórtæk, fékk lánaðar þrjár sænskar bækur og eina norska. Ég þekkti alla höfundana frá því áður nema einn og hann kom mér sannarlega á óvart. 

Þetta var Malin Persson Gioloto en ég þekki vel til föður hennar, Leif G. W. Persson, sem er afbrotafræðingur, rithöfundur og heimsfrægur í sínu heimalandi. Bókin heitir, Störst av allt og  er réttarhaldsdrama. Kornung stúlka, 18 ára, dvelur í einangrun í fangelsi meðan verið er að rannsaka hver er aðild hennar að harmleik sem átti sér stað í menntaskóla. Lesandinn  fær vitneskju um það sem gerðist í gegnum ruglingslega upprifjun hennar. 

Hún er full af angist og vanlíðan en um leið hörð óg ásakandi, svo það er erfitt að hafa samúð með henni. Réttarhöldunum og dvölinni í fangelsinu er lýst frá degi til dags, það er satt að segja afar fróðlegt. Þetta er yfirstéttarstúlka og skólinn þar sem atburðirnir áttu sér yfirstéttarskóli. Ég fæ það á tilfinninguna að höfundurinn sé hér að lýsa eigin umhverfi (álykta svo út frá ævisögu pabba hennar). Fjölmiðlar og almenningur þar með, hefur litla samúð með þessar forréttindastelpu og hefur þegar dæmt hana seka. Eini ljósi punkturinn í lífi stúlkunnar er lögfræðingurinn sem ver hana. Hún treystir honum. 

Sagan er frábærlega vel skrifuð. Lesandinn fær mynd af lífi barnsins og seinna táningsins og uppvexti í heimi þar sem peningar eru látnir leysa allt. Þetta er þroskasaga, ef það er hægt að nota það orð um ferli unglings sem villist af leið. Hægt og hægt fer lesandinn að finna til með stúlkunni og verður um leið hugsað til allra hinna sem eru í þessari aðstöðu. Bíða dóms.

Ég ætla ekki að rekja þessa sögu frekar en mæli með henni, þetta er toppbók. Sjálf ætla ég að verða mér út um hinar bækurnar sem Malin Persson Giolito hefur skrifað: Dubbla slag og Bara ett barn. 

Höfundurinn er fædd 1969 og starfar sem lögfræðingur í Brussel.

Eftirmáli: Bókin hefur komið út á íslensku og heiti hér Kviksyndi. 


Herman Melville: Ég kýs það síður

IMG_4079

Bókin Bartleby skrifari eftir Herman Melville lætur ekki mikið fyrir sér fara. Það var ein ástæðan fyrir að ég valdi hana þegar ég rakst á hana í Hljóðbókasafninu. Ein ástæðan var að hún er lesin af Guðmundi S. Brynjólfssyni. Allt sem hann les lifnar við. Hún tekur 2 tíma og 40 mínútur í afspilun. Bókin kom út 1853 og ekki spillti að komast að því að hún er eftir heimsfrægan rithöfund. Flest fólk kannast við söguna um Moby Dick, ef ekki sem bók, þá sem kvikmynd. Ég sem er skammarlega illa að mér um bandarískar bókmenntir hafði ekki kveikt á nafninu.

Í sögunni segir af samskiptum lögmanns á lögmannsskrifstofu í Wall Sreet við skrifara sinn. Á þessum tíma, fyrir daga ritvéla og tölva, voru ritarar afar mikilvægir. Það er lögmaðurinn sem er sögumaður og hann gefur sér góðan tíma til að koma sér að efninu. Hann lýsir lífinu á lögmannsskrifstofunni og segir frá hinum riturunum. Nú hafa umsvif aukist svo að hann þarf að bæta við ritara. Hann velur hann sjálfur og í fyrstu gengur allt vel. Ritarinn kann vel til verka. Svo fer að bera á því að ritarinn gerir ekki það sem honum er falið og svarar fyrirmælum með "Ég kýs það síður." Á endanum gerir hann alls ekki neitt og lögmaðurinn kemst að því að hann býr á skrifstofunni. Lögmaðurinn sem lýsir sjálfum sér sem góðum og vel meinandi. Hann veit að ef hann segir honum upp, endar hann á götunni. Hann býður honum ýmsa álitlega kosti, en fær stöðugt sama svarið,"Ég kýs það síður." 

Að lokum tekur hann þó rögg á sig og lætur hann fara, mest fyrir ytri þrýsting. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu lengra en kjarni hennar eru innri átök lögmannsins, þegar hann þarf að horfast í augu við vanmátt sinn.

Þessi bók skilur mann eftir með ótal spurningar. Lesandinn verður engu nær um hvers konar maður Bartleby er eða hvað lögmaðurinn hefði getað gert í stöðunni. Það styrkir mig í afstöðu minni um að bækur eru til að kveikja spurningar en ekki til að svara þeim. Þessi bók er hrein perla. Og það sem merkilegt er, er að hún gæti alveg eins átt við daginn í dag. Það er enn jafn erfitt að hafa fátæktina inn á sér og horfa upp á að geta engu breytt. Eða er það svo? Þarf maður e.t.v. að breyta einhverju hjá sjálfum sér? 

Er það tilviljun að sögunni er fundinn staður í Wall Street, þar sem peningahjarta kapítalismans slær? Nei, ég held að það sé ekki tilviljun, allt í þessari bók er þrauthugsað. Þetta er bók sem maður getur lesið aftur og aftur, ekki vegna þess að maður hafi gleymt, heldur vegna þess að maður finnur stöðugt eitthvað nýtt. Ef ekki í bókinni, þá í sínum eigin viðbrögðum. 

Bókin er þýdd af Rúnari Helga Vignissyni og óþarft að taka það fram að þar er vandað til verka. Auk þess skrifar Rúnar Helgi eftirmála um þýðinguna, ábendingar til lesanda og stingur upp á rilistarverkefnum fyrir þá sem vilja spreyta sig á þeim vettvangi. Þetta er bók sem lifir, af því hún fær mann til að leita svara við spurningum, sem aldrei verður svarað til fulls.


Hin helgu vé

IMG_0465Þverstæður og helgir dómar

Þegar ég flutti til baka til Reykjavíkur eftir að hafa búið úti á landi (eins og kallað er) í 15 ár, valdi ég (og maðurinn minn líka) að setjast að í Álfheimum, sem liggur við Laugardalinn austanverðan. Það var ekki síst hann, sem réði ákvörðun okkar. Fegurðin, friðsældin og blómskrúðið. Hér er gott að búa. Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt út undan mér umræður um að það þurfi að koma meira lífi í Laugardalinn. Ég reyni að halda mér utan við þessa umræðu, því ég skil hana ekki. Ég skil hana ekki því hér iðar allt af lífi. En friðsælt er nú þannig í eðli sínu að það fer ekki endilega mikið fyrir henni. 

Fjölskyldu - og húsdýragarðurinn er skemmtilega passlegur, það er hægt að skoða allt og komast í allt í einni ferð og börnin kvabba um að fara þangað aftur og aftur. Grasagarðurinn er endalaus uppspretta nýrra upplifana, vetur sumar vor og haust. Á litlum hól til hliðar við garðlandiðið, hefur hópur manna fengið aðstöðu til að spila frisbí. Þetta er notalegt

Fólk sem sér garðinn allt öðrum augum en ég og vill koma lífi í garðinn, talar um að það ætti að nota hann meira til skemmtanahalds. Já og stundum heyrist manni að fólk sé að skemmta sér,eða skemmta börnum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Meðan það stendur yfir forðast ég að fara út á svalirnar heima hjá mér. Hafa börnin gaman af þessum gauragangi og asnalegu bröndurum. Hugsa ég. Þetta stendur yfirleitt stutt. Einstaka sinnum heyri ég hanagal. 

Einu sinni á ári, um sólstöðuleytið, hefur verið haldin tónlistarhátíð, Solstice. Hún er umfangsmeiri en það sem fyrr er upptalið og það eru deildar meiningar um hvort að hún sé við hæfi. Aðallega er spurt um hvort hún sé fólki til ama, haldi fyrir því vöku.

Fólk skiptist í andstæðar fylkingar. Sumir segjast flýja bæinn, aðrir segja að þetta sé í besta lagi. Ég sit uppi með tilfinningu um að það sé fyrirfram búið að stimpla mig sem leiðindaskjóðu, ef ég segi eins og er: Mér finnst að það hefði aldrei átt að leyfa þetta, því það stangast á við Gildi Laugardalsins. Friðsældina. 

Ég oft velt fyrir mér þessari undarlegu þverstæðu. Fólk sem langar til að skemmta sér, sletta úr klaufunum og hafa hátt, vill helst af öllu gera það í fögru og friðsælu umhverfi.

Hefðin er löng. Ég hef persónulega reynslu af útihátíðum. Framsóknarmenn helguðu sér Atlavík Sjálfstæðismenn helguðu sér rjóður í Egilsstaðaskógi en ég veit ekki hvaða Guð var dýrkaður á Húsafelli. Ég fann mig ekkiá þessum samkomum og nú hafa þær lagst af.   

Mér verður hugsað til frásagnarinnar af Þórólfi Mostraskeggi í Eyrbyggju. Einn var staður í landi hans  sem svo mikil helgi hvíldi á, að þangað mátti enginn óþveginn líta. Það var Helgafell. Á Þórsnesinu, þar sem öndvegissúlur Þórólfs  höfðu rekið á land, var ekki síður heilagt.

Þar sem Þór hafði á land komið á tanganum nessins, lét hann hafa dóma alla og setti þar héraðsþing. Þar var og svo mikill helgistaður að hann vildi með engu móti láta saurga völlinn, hvorki í heiftarblóði og eigi skyldi þar álfrek ganga og var haft til þess sker eitt er Dritsker var kallað.“

Óvildarmenn Þórsnesinga Kjallakkar, vildu ekki sæta þessu og saurguðu þingstaðinn. Óþokkarnir. Þau eru mörg átökin um helga dóma í mannkynssögunni. 

Það er eitthvað ótrúlega merkilegt við það sem við köllum helgun. Vanhelgun snertir innstu hjartarætur. Það þarf t.d. að endurhelga kirkjur sem hafa orðið fyrir vanhelgun. Það hefur orðið rof. 

„Trúlausir“ eiga sér ekki síður  helga dóma en þeir sem játa einhverja trú.

Laugardalurinn, náttúran í borginni er minn helgi reitur.

Höldum grið. Virðum hvert annað. Virðum helgidóma annarra,þó við skiljum þá ekki.  Brennum hvorki Biblíur eða Kórana. 

 

 


Kristinn trúleysingi ígrundar

 

IMG_0527Hvítasunna

Ég er svo vel upp alin að mér finnst að mér beri að ígrunda til hvers helgidagar eru fyrir trúaða og hvernig við hin, sem ekki eru trúuð, eigum að nýta þá. Þetta eru nú einu sinni frídagar. Ég er það gömul að ég náði í skottið á því að fólk leitaðist við að gefa helgidögum trúarlegt innihald.  Að minnsta kosti einhvers konar trúarlega  ásýnd. Fólk klæddi sig upp á, stillti á útvarpsmessuna og sussaði á okkur börnin.

 Seinna, allmiklu seinna, varð hvítasunnan að nokkurs konar hátíð unga fólksins. Það þyrptist út í náttúru, tjaldaði og var frjálst. Enginn vissi fyrir fram hvaða staður myndi verða fyrir valinu.

Fjölmiðlar voru fullar af fréttum af unga fólkinu.  Það var erfitt að segja hvort var varð ofan á, áhyggjur eða hneykslan.

Eftir að þessum hátíðahöldum úti í guðsgrænni náttúrunni lauk, hefur hvítasunnan einungis verið löng helgi.

Trúleysinginn, ég, ígrundaði og las mér til.

Hvítasunnan er haldin hátíðleg til að minnast þess að þá kom heilagur andi yfir lærisveinana og fleira fólk. Það talaði tungum. Allir skildu hvers annars mál. Það sem gerðist var í raun alveg öfugt við það sem átti sér stað þegar Guð sundraði fólki til að refsa því fyrir hroka sinn og byggingu Babelsturnsins. Hann, þ.e. Guð, sundraði málum heimsins.

Á hinni fyrstu hvítasunnu er sagt að allt að 3000 manns hafi látið skírast til kristinnar trúar enda er oft litið svo á að til þessa dags megi rekja upphaf kristinnar kirkju.

Auðvitað má rekja tímasetningu hátíðarinnar til  í gyðinglegrar hátíðar, þannig er um flestar kristnar hátíðir en ég er því miður allt of ófróð um það.  Þó las ég mér til um að eitt af því sem er  fagnað  hátíð gyðinga,  er að þá gaf Guð gaf þeim boðorðin 10.  Þau hafa kristnir menn tekið í arf eins og margt fleira. Þetta er svo sannarlega eitthvað til að halda upp á. Það mætti t.d. velja út boðorð og fagna þeim sérstaklega og þakka fyrir þau.  Væri ekki full þörf að hnykkja á tíunda boðorðinu sem varar við/bannar græðgi.

Frásagan af því sem gerðist á hinni fyrstu hvítasunnuhátíð er örstutt. Þegar ég les hana sé ég að undrið sem átti sér stað fjallar frekar um að hlusta en tala. Þennan dag var margt fólk frá „öllum   löndum undir himninum“  í Jerúsalem. Þegar undrið varð segir: „Þeim brá mjög við því hver og einn heyrði þá mæla á eigin tungu.“ Líklega táknar þessi saga að kristnin ætta að verða sameiginlegt tungumál allra manna.

Fyrsta fréttin sem ég heyrði í morgun var um voðaverkin í London. Það vantar svo sannarlega mikið á að þjóðir heimsins skilji hver aðra. Væri ekki ráð að hlusta betur?

Já það er svo sannarlega þess virði að nota rauðu dagana á almanakinu til að ígrunda.

Myndin er af Babelsturninum eftir Pieter Brugel eldri (f.1525). 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júní 2017
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 187104

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 54
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband