Kör - Hugsað til fortíðar -

IMG_0357

Nú er liðið eitt ár og einn mánuður síðan ég varð ógöngufær. Ég ætla að minnast dagsins til að skrifa um kör – karlægur – vera komin í kör.

Reyndar er alls ekki þannig komið hjá mér, en mér hefur oft verið hugsað til formæðra minna og forfeðra. Hvernig leið þeim? Hver var staða þeirra? Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið rannsakað en finnst trúlegt að atlætið hafi farið eftir efnum og aðstæðum. Þá sem nú.

Það er ekki fullkomlega ljóst hver uppruni orðsins kör er. Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndals eru raktar nokkrar tilgátur. Hann  telur ekki afstöðu til hver þeirra sé sönn.

En hvað sem upprunanum líður er kör og karlæg/ur lifandi mál. Þegar ég hugsað til veikra fyrr á tímum, spyr ég mig: Hvernig var lífið fyrir tíma verkjastillandi lyfja. Ósköp hefur vesalings fólkið þurft að þjáðst. Ekkert Tramól, ekkert Aroxia ekkert Íbúfen.

Í veikindum mínum nýt ég þess að hlusta á tónlist og á góðar hljóðbækur. Ósjálfrátt hugsa ég „vesalings fólkið, mikið hefur því leiðst að geta ekkert gert sér til dægrastyttingar“.

Víða í Íslendingasögunum kemur gamalt fólk við sögu. Þó man ég ekki eftir að beinlínis sé vikið að líðan þess. Í Laxdælu segir frá   Hólmgöngu Bessa. Hann orti þessa skemmtilegu vísu:

 Liggjum báðir
í lamasessi
Haldórr ok ek,
höfum engi þrek ;
veldr elli mér,
en œska þér,
þess batnar þér,
en þeygi mér.

Tilefni vísunnar var að hann lá ósjálfbjarga í rúminu, fólkið var á engjum. Við hlið hans var

barn í vöggu. Vaggan valt og hann gat ekkert að gert. Ekkert nema yrkja þessa vísu, sem enn heldur uppi nafni hans.

Karlæga fólkið okkar í nútímanum er að því leyti betur sett en fólk fyrri alda, að það fær bæði verkjastillandi lyf og aðhlynningu á hjúkrunarheimilum, þegar þar er pláss. Þeir sem ekki fá pláss liggja á legudeildum spítalanna. Oftast, og nær alltaf, heyrum við talað um það vegna þessa. Það er fyrir. Mikið hlýtur að vera leiðinlegt að heyra að maður sé fyrir.

Egill Skallagrímsson var erfitt gamalmenni og hann var líka fyrir. Hann þvældist fyrir fótum eldabuskunnar. Hann var hæddur af vinnufólkinu á Mosfelli en hann gat svarað fyrir sig í bundnu máli. Það hefur verið eins og að taka inn verkjapillu.

Og svo lúrði hann líka á illa fengnu fé. Þórdísi (barnabarni) tókst af telja hann ofan af því að dreifa því yfir þingheim en hann gróf það í jörð. Svo vel að það hefur ekki enn fundist.

Skyldu einhver gamalmenni sem nú „þvælast fyrir“ eiga silfursjóði? Ég veit það ekki en hitt veit ég að það eru margir að safna digrum sjóðum og miklu meiru en þeir geta tekið með sér yfir um. Og það fé er ekki allt vel fengið.

Ég ætlaði að setja punktinn hér en get ekki stillt mig um að rifja upp söguna um Þórólf bægifót, sem var vondur maður hann var afspyrnu erfitt  gamalmenni og gekk svo aftur. Hann varð svo öflug afturganga að við lá að byggð færi í eyði. Skyldi aldrei hvarfla að valdamönnum sem gæta sjóða, til að ausa úr, hvort einhver sem liggur þarna, fyrir öllum, eigi eftir að ganga aftur og hefna? Nei þeir þekkja ekki Eyrbyggju.

 

 

Myndin er af ylpoka fyrir kalda fætur (eigin hönnun). 

Fannst myndin passa, gömlu fólki er oft kalt á fótunum


Vondar og góðar jurtir

IMG_0499

Fyrir nokkrum árum var gott vor og mikil fíflaspretta. Í nágrenni mínu, í útjaðri matjurtagarðanna í Laugardal, uxu gróskulegir túnfíflar, þeir mynduðu gula rönd við jaðar garðlandsins. Ég hafði nýlega fengið uppskrift af fíflahunangi og fannst að hér bera vel í veiði. Ég tíndi gommu af fíflahausum til að gera mér fíflahunang. Hunangið gerði lukku og ég ætlaði að endurtaka þetta að ári. En viti menn. Þá höfðu einhverjir fíflafjendur eitrað og engir fíflar þrifust í nágrenni garðlandsins. 

Síðan hef ég ekkert hunang gert. Ég fór að hugsa um þetta í gær, þegar ég horfði á fallegar fíflabreiður á          blettinum fyrir utan blokkina, þar sem ég bý.

Blóm draga fram  góðar minningar

Í gamla daga, þegar ég var ung, var rótarlauf, en það voru fíflablöð kölluð í mínum heimkynnum, notuð til að leggja við sár og hamla bólgu. Amma mín gerði græðandi smyrsl úr smjöri og rótarlaufi. Það var hið besta meðal.

En hvaða blóm (jurtir) eru vond, eiga sér óvini? Ég sem er mikill blómavinur fæ stundum þá tilfinningu að hér á landi ríki einhvers konar jurtafasismi. Duglegar plöntur sem ráða vel við erfið vaxtarskilyrði, ég tala nú ekki um er þær eru útlendrar ættar, verða sérstaklega fyrir barðinu á þessu.

Margir hamast gegn öspinni, lúpínunni og spánarkerflinum. Ætihvönnin og heimulan, sem eru ekki síðar frekar,eru síður áreittar. Ég veit ekki til að það hafi verið skipulagðar herferðir gegn þeim. Þó hefur hvönnin lagt undir sig stór svæði á Hornströndum og heimulunjólinn leggur víða undir sig stóra skika í þéttbýli. 

Blöð heimulunnar, voru notuð til matar heima hjá mér, enda lostæti. Oft þegar líða tók á  sumar og kartöflurnar annað hvort búnar eða óætar, voru blöðin notuð í jafning. Aldrei man ég til að hvönnin væri nýtt.

Ein er sú jurt sem lítið hefur verið kvartað yfir, mér vitanlega, er hóffífillinn, sem er hið versta illgresi fyrir garðeigendur. Þetta blóm sem nú er gjarnan fyrsta vorblómið hér um slóðir, er gömul lækningajurt erlendis og nefnist Tussilago á latínu. Úr jurtinni vori unnin meðöl við hósta og sjálfsagt fleiru. Hin stóru grænu blöð voru nýtt á ýmsa vegu.  Ekki veit ég til að hún hafi verið nýtt hér.

En hvað er ég að vilja með því að vera að skrifa um þetta? Ekki er ég sérfræðingur í jurtum og ekki á ég land eða garð. Svarið er, að ég er fyrst og fremst að lýsa tilfinningum mínum. Náttúran kemur öllum við.

Mér finnst best að fara varlega í að eitra og útrýma jurtum, þótt stundum sé nauðsynlegt að koma einhverju skipulagi á landsvæði. Nýtum og njótum í stað þess að eitra og höggva. Snyrtum öspina í stað þess að fella hana. Hún á það inni hjá okkur, hún hefur bætt loftslagið umtalsvert, þar sem hennar nýtur við.

Myndin sýnir fífil í varpa og var tekin í gær.

 


Kristín Lafranzdóttir og prjónaskapur

IMG_0408

Nú hef ég lokið þriðju og síðustu bók Sigrid Undset um Kristínu Lavranzdóttur. Hún ber undirtitilinn Krossinn. Ég kveð hana og Noreg 14. aldar með vissum söknuði og er farin að skoða ferðalag með Dovrebanen um Guðbrandsdal til Niðaróss (Þrándheim).

Sagan um Kristínu Lafranzdóttur er í þremur bindum (Kransinn, Húsfrúin og Krossinn) en hún er skipulögð  sem heild og þannig ber að lesa hana. Ósjálfrátt velti ég fyrir  mér hvernig til hefur tekist. 

Það má líkja skrifum rithöfunda við prjónaskap. Fyrst er fitjað upp, síðan er valið munstur og prjónað áfram svo lengi sem þarf. Þá er komið að úrtöku og frágangi á lausum endum. Ef ég skoða bók Sigrid Undset út frá þessari samlíkingu, finnst mér að vel hafi tekist til með að fitja upp og að prjóna grípandi mynstur. Úrtakan er of snubbótt fyrir minn smekk og endarnir eru allt of margir til að það sé viðlit að ganga frá þeim.

En aftur að bókinni, án líkinga. Í Krossinum er Kristín orðin kona með stálpuð börn, syni og Erlendur, stóra ástin í lífi hennar á ekki nema hluta af ást hennar. Það er margt sem togast á í lífi hennar en samt er það framtíð sona hennar sem skiptir hana mestu. Þó lifir enn í glæðum ástarinnar.

Ef ég reyni að henda reiður á hvað fjallað er um í bókunum um Kristínu, þá verður til heill listi. 

1. Ástin í öllum sínum myndum. Ástin til föður og móður, ástin til barna, ástin til Guðs, ástin til maka. 

2. Saga Noregs

3. Náttúran, þó einkum jurtir

4. Hýbýli, klæðnaður og matur til forna

5. Fæðingar, sjúkdómar og dauði 

6. Trú og trúarsiðir kaþólsku kirkjunnar 

Sjálfsagt gæti þessi listi verið enn lengri. Stundum fannst mér höfundur full langorður þegar kom að hinum fjölmörgu myndum ástar en hafði því meira gaman af því sem er neðar á listanum. Eitt hef ég ekki enn talið upp, það er persónusköpun höfundar. Undset leggur mikla vinnu í persónusköpun. Það sem einkennir persónur hennar er að þær eru ekki einfaldar svarthvítar, góðar eða vondar og því oft erfitt að taka afstöðu til þeirra. Þannig er um persónu aðalpersónunnar, Kristínar, ég veit ekki enn hvernig mér fellur hún. Og hinn gullfallegi Erlendur, sem mér finnst lengst af að sé skíthæll, á sínu góðu hliðar.

Bókinni líkur þegar Kristín er sest í klaustur í Þrændalögum og Svarti dauði er við það að leggja landið í auðn. Það,sem annað, virðist vel stutt sögulegri þekkingu. 

Ég mun sakna Kristínar og fólksins hennar. Ég er búin að horfa á kvikmynd (sem Liv Ullman leikstýrði) sem er gerð eftir fyrstu sögunni og mér  finnst auðvitað bókin betri. Enda ekki mögulegt að vera sögunni trúr nema að taka allar bækurnar sem heild. Ég hef heyrt að nú standi til að gera söngleik um Kristínu og hlakka til að frétta meira af því. 


Gömul saga og ný

IMG_0363 

Þá

Þegar ég var við nám í Ósló (1971-1972) varð ég vitni að því í kaffihléi að samnemendur mínir voru allir í þvögu og í hörku samræðum um mynd í Dagbladet (held ég). Myndin var af hjónum á Vesturlandinu og börnum þeirra. Fréttin sem fylgdi, var um að hjónin ættu 10 börn, sem þótti mikið.

Nemendahópurinn sem var að ræða fréttina, hafði skipst í tvennt.

Annar hópurinn sagði að þessi hjón væru dæmalaust óábyrg, þau gætu eflaust ekki séð fyrir þessum barnaskara og samfélagið þyrfti að gjalda fyrir þessa óráðsíu þeirra. Ég hafði grun um að einhver í þessum hópi þekkti til þarna og væri búinn  að segja fréttir úr heimabyggð.

Hinn hópurinn, sem reyndar var bara einn maður og því rangt að tala um hóp, hélt því fram að það ætti að verlauna hjónin. „Sjáið þið ekki, að þau hafa fært okkur skattborgara framtíðarinnar“, sagði hann, „fólkið sem kemur til að sjá fyrir okkur“?

Ég, útlendingurinn, blandaði mér ekki í þessa norsku umræðu en dáðist að kallinum, því þetta var einn af eldri skólabræðrum mínum og ég hafði aldrei tekið eftir því að hann væri  sérstaklega róttækur í skoðunum.

Þetta atvik rifjaðist upp fyrir mér nú nýlega, þegar ég hlustaði á umræðu um framhaldsskólakerfið. Umræðan snerist fyrst og fremst um kostnað,þrúgandi kostnað, við að mennta nemendur. Það var eins og þetta væri þungur baggi á þjóðfélaginu. Góðverk, nánast  gustukaverk stjórnvalda. Það eina sem gæti réttlætt slíkt væri að einkavæða þessa vesalinga, græða á þeim.Þessi armæðutónn er reyndar nálægur þegar kemur að því að ræða um menntun barna sem fullorðinna.

Heima í stofu fyrir framan sjónvarpið, hugsaði ég, „Sér fólkið virkilega ekki, að þetta eru upprennandi skattborgarar og því meiri menntun, því betri skattborgarar?“

Myndin er til skrauts og hefur ekkert með efnið að gera. Hún er af vettlingi sem ég fann á göngu minni.


Kristín Lafranzdóttir: Sigrid Undset: Húsfrúin

IMG_0489

Kristín Lafranzdóttir: Húsfrúin

Í fyrstu bókinni um Kristínu Lafranzdóttur Kransinum, var sagt frá óstýrilátu ástalífi hennar og Erlendar Nikulássonar, sem seinna varð maður hennar. Í þessari bók, Húsfrúnni, segir frá samlífi þeirra hjóna eftir að þau voru komin í vígða sambúð. Í dag myndi maður segja að hjónabandið hafi ekki  staðist væntingar. Kristín var óhamingjusöm, þótt hún elskaði mann sinn staðfastlega.

Það var í mörgu að snúast á nýja heimilinu, Húsabæ. Kristín elur manni sínum 7 drengi og er stjúpmóðir tveggja frillubara hans. Hún kemur skikki á heimilishaldið, sem hafði verið í argasta ólestri. Það eru miklar sviptingar í tilfinningalífi Kristínar og hún hefur mikinn trúarhita. Hinn glæsilegi Erlendur er ónærgætinn og stundum hrottalegur. Í dag myndi maður nota meðvirkni til að lýsa viðbrögðum Kristínar, en með því að tala svo, er ég líklega að svíkja söguna, því þá fer ég út fyrir dramatískan ramma hennar. Kristín grætur mikið.

En bókin er ekki fyrst og fremst um heimilislífið á Húsabæ. Í henni eru rakin pólitísk átök þessa tíma. Og þetta eru ekki nein óljós átök í útjaðri sögunnar, heldur sviptingar sem skipta sköpum um um líf fjölskyldunnar og örlög konungdæmisins Noregs. Erlendur Nikulásson tengist, eða er í forsvari fyrir samsæri, hann vill steypa kónginum,  sem er yfirboðari hans og frændi.

Það sem gerir bækurnar um Kristínu Lafranzdóttur heillandi lesningu er að höfundur dregur upp mynd af lífsháttum þessa tíma. Hún lýsir öllu, mjög nákvæmlega. Segir frá   matarvenjum, klæðnaði, húsakynnum og trúarlífi, sem mótaði líf fólks meira þá en nú. Í þessari bók lýsir hún virðingarstiga lénsveldisins sem var undirstaða ríkisins. Kristín Lafranzdóttir og fjölskylda hennar eru tilbúnar persónur. En  þannig er því ekki varið með allar persónur sögunnar.  Sagan er látin gerast á tímum Magnúsar Eiríkssonar (f. 1316  d. 1374) og fjölmargt sem lýtur að sögu  Noregs er sótt í norrænar sögur. Það er dálítið eins og maður sé komin heim til Sturlungu. Allt líkist nema að sögusviðinu er lýst frá sjónarhorni konu.

Og nú er ég komin að því sem mér finnst skemmtilegast af öllu. Í hvert skipti sem ég les slíkar bækur, leggst ég í aukalestur. Nú las ég allt sem ég gat fundið á netinu um norska kónga.  Magnús Eiríksson varð konungur þriggja ára gamall, móðir hans, Ingibjörg, leit til með honum ásamt Erlingi Víðkunnssyni og sjálfsagt fleirum. (Þessi Erlingur kemur mjög við í sögu í bókinni um Kristínu Lafranzdóttur ). Mé reiknast svo til að Ingibjörg hafi alið Magnús þegar hún var 15 ára. Ég held áfram að lesa um norskt kóngafólk og rekst á, að amma Magnúsar Eiríkssonar,  Eufemia, hafi átt stærst bókasafn síns tíma og að hún hafi þýtt ballöður og aðrar riddarabókmenntir. Af hverju var mér aldri sagt þetta?

En allur þessi lestur minn á netinu um kóngaættir er tilkominn vegna Kristínar Lafranzdóttur svo ég yfirgef netheima og tek aftur til við söguna. Nú er ég tekin til við  þriðju og síðustu bókina, Krossinn.

Það er engin venjuleg koddalesning að lesa bækur Sigrid Undset um Kristínu Lafranzdóttur, það er meira svona eins og prójekt. Þessar bækur væru kjörnar til að fjalla um á námskeiði í miðaldafræðum, það mætti flétta inn umræður um stöðu konunnar. Alls eru þetta þrjár bækur sem eru samtals 1200 blaðsíður. Ég hlusta á þær sem hljóðbækur.  Sagan er fallega  lesin (upplesarinn heitir Ólafía  Ólafsdóttir) og tekur 51 klukkustund og 26 mínútur í hlustun.

Ekki spillir að sagan er á köflum mjög spennandi. Eins og ævinlega þegar ég les góðar bækur flyt ég að hluta inn til sögupersónanna  og dvel meira með þeim en hér í íslenska vorinu.

Líklega getur Kristín Lafransdóttir ekki talist til léttlestrarbóka. En af hverju ætti maður að vera að lesa eitthvert þunnmeti þegar maður á kost á þessari átakamiklu og innihaldsríku bók?

Hún er sannkallað maraþon fyrir heilann.

Næst mun ég segja frá síðustu bókinni, sem heitir Krossinn

Myndin  er er sótt netið. Hún prýðir þar lista um "norska Monarkiet".


Hversu arðbært er krabbamein?

IMG_0463 

Í gamla daga, fyrir mitt minni, tíðkaðist að bændur sendu vinnumenn sína á vertíð. Þeir voru þá ráðnir upp á hlut eins og enn tíðkast, en bóndinn hirti hlut þeirra eftir hverja vertíð. Þetta var hluti af hagkerfi þess tíma.

Ég fór að velta þessu fyrir mér þegar ég hlustaði á forsætisráðherra ræða um hversu sjálfsagt það væri að einkafyrirtæki rækju heilbrigðisstofnanir og innheimtu arð.

Hversu sjálfsagt er það?

Hjá okkur hefur það tíðkast að Heilbrigðisstofnanir eru reknar af ríki fyrir almannafé og hingað til hefur ekki verið afgangur af því fé sem er til þess ætlað.

Ég fór því að hugsa um hugtakið. Í mínum huga er arður=gróði=virðisauki=gildisauki allt eitt og hið sama. Til að glöggva mig á skilgreiningunni kíkti ég eftir hvað google segir um þetta. Útkoman var þessi:

1

fá eigendur framleiðsluauðsins meira gildi upp úr starfsemi verkalýðsins en það, sem þeir gefa fyrir vinnuafl hans. Þannig myndast gildis- eða verðmætisauki, sem legst við framleiðsluauðinn.

gildisauki

Réttur   1931, 110
Aldur: 20f

2

gildisauki: sú verðmætasköpun vinnuseljanda í framleiðsluferlinu sem honum er ekki greidd í kaupgjaldinu.

gildisauki

BBSigFrjáls   , 245
Aldur: 20s

3

Þar sem verkamenn framleiða meira en þeir fá greitt í laun hefur sá ,,gildisauki``, sem þeir hafa framleitt, lent í vasa eiganda framleiðslutækjanna.

gildisauki

WorslFél   , 284
Aldur: 20s

 

Ekki nennti ég þó að eltast frekar við það en tilfinning mín segir mér að það sé eitthvað stórlega bogið við að ríkið afhendi einkaaðilum afmarkaða þætti heilbrigðisþjónustu til að græða á og sitji svo sjálft eftir með þann hlut ábyrgðinni

sem tap er á.

Reyndar finnst  mér eina rétta leiðin vera sú, að  við sjálf, ríkið fyrir hönd almennings í landinu, reki spítalana  og fái til þess þann pening sem þarf.

Ég hef sjálf oftar en ég vil , notið þessarar þjónustu, á henni líf að launa. Ég hef heyrt því fleygt að brjóstnám sé ein af þeim læknisaðgerðum sem boðið sé upp á  að kaupa á hinum frjálsa markaði. Af því er komin titill þessa pistils.

En hvað merkir hinn frjálsi í þessu öllu saman? Eru ekki greiðslurnar meira og minna komnar frá ríkinu, þ.e. okkur. Mér og þér?

Mér finnst ömurlegt hvernig reynt er að rugla fólk í ríminu varðandi einkavæðingu Heilbrigðiskerfisins. Nú stefnir t.d. í að menntað starfsfólk kjósi að ráða sig frekar til einkaaðila,  þeir borga betur. En af hverju borga þeir betur? Hver skaffar þeim fé?   Mér þykir líklegt að meiri hluti af tekjum þeirra komi beint frá ríki. Ef arður verður af, sýnist mér að ríkið hafi greitt um of. Væri ekki nær að okkar ábyrgu ríkisstofnanir fengju aukningu til að geta betur innt af hend sín mýmörgu verkefni?

Það er erfitt að henda reiður á því, hvað þarna er að gerast, það er pukur í gangi. Allt er þetta til komið vegna nýrrar trúarsetningar sem hljóðar upp á það að einkavæðing sé góð í sjálfu sér. Hallelulúja.

Mín skoðun er sú að það séu til margvísleg starfsemi sem ekki á að reka til að skila fjárhagslegum  arði. Það sem slíkar stofnanir gera fyrir fólkið er arður í sjálfu sér. Heilbrigðisstofnanir lækna og líkna, skólar skila til okkar menntuðum og siðuðum einstaklingum. Samgöngukerfið byggir brýr og vegi, Ríkisútvarpið nærir andann og sér okkur fyrir vönduðum fréttaflutningi. Það mætti telja upp enn fleiri stofnanir.  Ég ætla ekki hér að tjá mig um fangelsin, því ég veit ekki hvort þau eru á réttri leið.

Látum ekki blekkjast af fagurgala þessarar nýju trúarsetningar. Það vekur athygli mína að engin list hefur verið samin þeim til dýrðar.

En aftur að til vinnumannsins sem bóndinn sendi á vertíð. Getum við dregið einhvern lærdóm af því?

Kannski ekki. Nú eru stórvirkar starfsmannaleigur sem annast slíkt og eru stórtækar. Nú er það íslenskur verkalýður sem er gert að afhenda laun sín í gegn um skatta. Það er gott. En það er ótækt að stjórnmálamenn taki sér bessaleyfi og braski með þetta eins og um eigið fé sé að ræða.

Myndin er ljósmynd af listaverki albanska listamannsins Samir Strati. Hún tengist ekki hugleiðingum mínum beint en kom óvænt upp í hendurnar á mér

 


Sigrid Undset: Kristín Lafranzdóttir

IMG_0456 

Gömul saga en þó sem ný

Ég hef lokið við að lesa fyrsta bindi af þremur um Kristínu Lafranzdóttur eftir Sigrid Undset (f. 1882 d. 1949). Bækurnar  komu á út árunum 1920-1922 og Sigrid fékk síðan Nóbelsverðlaunin 1928.

Ég hafði lesið bókina áður en man hana svo illa að þetta er eins og lesa nýja bók. Ég veit ekki hvað ég var gömul þegar ég las hana en bókin sem ég minnist er um margt ólík. Þá gerði ég mér ekki grein fyrir að sagan ætti að gerast á miðöldum. Ég tók hana sem hverja aðra sveitsögu frá Noregi og hreyfst af ástarsögunni og sveitalífslífslýsingunum.  

Nú er ég afar upptekin af því að bera söguna saman við það sem ég þekki til lýsinga á lífi fólks úr okkar fortíð og hugsa gjarnan til Sturlungu í því sambandi.

En hvernig er þá sagan?

Fyrsta bindi Kristínar Lafranzdóttur, Kransinn,  segir frá uppvexti höfðingjadótturinnar Kristínar á Jörundargörðum. Sagan er látin hefjast um það leyti sem Kristín litla er farin að muna eftir sér og lýkur þegar hún yfirgefur heimaslóðir, gift kona. Í fyrstu fær lesandinn að fylgjast með frásögninni eins og barnið sér heiminn. Frásagnarmátinn breytist eftir því sem árin líða. Loks verður þetta mögnuð ástarsaga. Líklega passar hér að setja inn frönskuslettuna l´amour fou.

En það er svo margt sérstakt í þessari bók að það er eflaust stöðugt hægt að koma auga á eitthvað merkilegt. Foreldrar Kristínar er strangtrúuð  og á heimi Kristínar tengjast allar ákvarðanir sem máli skipta hugmyndum kirkjunnar um hvað sé Guði þóknanlegt. Barnið og seinna stúlkan hugsar um synd, fyrirgefningu, iðrun og náð, orð sem á þessum tíma höfðu ríkara innihald en nú, trúlega. Ófróðri um kaþólskan  trúarheim,  fannst mér  þetta þetta allt mjög fræðandi. Helgidagahald kirkjunnar rammar inn líf fólksins.

Það er gaman að sjá hvernig þarna er fjallað um líf kvenna á miðöldum frá sjónarhóli kvenna. Það var eins og opinberun að bera þetta saman við sögurnar okkar, þar sem konur eru ævinlega í aukahlutverki.  

Eitt af því sem gerir lesturinn skemmtilegan, er hvernig tekist hefur að firna málfarið án þess að það íþyngi skilningi lesandans. Ekki veit ég hvernig það er á norskunni en í íslensku þýðingunni er oft eins og maður sé að lesa forna bók. Helgi Hjörvar og Arnheiður Sigurðardóttir eru skrifuð fyrir þýðingunni. Bókin mun fyrst hafa verið lesin í útvarp 1941 en var  síðan gefin út á  árunum1955-1957.

Þegar ég skrifa þetta, er ég þegar komin vel af stað með annað bindi sögunnar, Húsfrúin. Þar er sagt frá ungu nýgiftu konunni Kristínu, sem  nú er flutt úr föðurgarði  burt frá frændfólki og vinum. Nú fæ ég að vita hvernig stóru ástinni reiðir af í annríki og hverdagsleika daganna.

Framhald þegar ég hef lokið við Húsfrúna.

Það eru ekki margar konur sem prýða peningaseðla, Sigrid Undset er ein þeirra.

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2017
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 187190

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband