Tilbúin sannindi: Vegna orða sem féllu á Bessastöðum 8. febrúar 2016

IMG_0319

IMG_0320

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er í sjálfu sér einfalt að búa til sannindi, það þarf bara að tönglast nógu oft á því sama, á endanum efast enginn um réttmæti fullyrðinganna.

Kveikjan að þessari hugsun núna var ein ræða sem haldin var á Bessastöðum við afhendingu bókmenntaverðlaunanna. Þá nýtti formaður bókaútgefenda aðstöðu sína til að tala í hljóðnemann,til að ausa svívirðingum yfir þá sem unnið hafa að bókaútgáfu fyrir nemendur í grunnskólum landsins. Ég sat agndofa. Ég var fyrst slegin yfir því hvað maðurinn var illa að sér, síðan hugsaði ég, hann veit ekki hvað er viðeigandi á þessum stað við þetta tilefni.

Ég hugsaði þetta svona með sjálfri mér. Þarna var maðurinn að fjalla um málaflokk sem ég þekkti vel til.Vegna starfs míns þurfti ég að hafa yfirsýn. Nú er ég eftirlaunaþega og það eru önnur mál sem eiga hug minn. Ég ætlaði ekki að bregðast við þessu, láta þetta bara renna framhjá eins og hvert annað fleipur. Svo fór ég að hugsa um hvernig „sannleikur“ verður til og fann til ábyrgðar.

Mig langar að segja frá því að ég hef alveg gagnstæða skoðun. Ég hef oft dáðst að því hvað vel hefur tekist til með námsbækur fyrir nemendur á skyldunámsaldri, fyrir það takmarkaða fé sem til þess er veitt. Þetta er sérhæft verkefni og Ísland er lítið málsvæðip og það þarf stöðugt að vera að endurnýja bækur út frá þróun fræðanna og út frá hugmyndum manna um hvernig rétt sé að kenna. Ég hef sérstaklega dáðst að því hvernig jafnan hefur námsefni verið búið til í samvinnu við fræðimenn hverrar greinar og nú á síðari árum hafa listamenn; rithöfundar og teiknarar verið kallaðir til. Ég var slegin yfir þeirri vanvirðu sem kom fram í ræðu þessa manns gagnvart fólkinu sem hefur unnið við að skapa þetta námsefni. Það er þess vegna sem ég ákvað að bregðast við.

Það er reyndar ekkert nýtt að íslenskt námsefni sé talað niður. Að hluta til er það komið til vegna þess að þessar bækur koma inn á hvert heimili og allir hafa skoðun á því hvernig góð kennslubók á að vera. Það er gott og gagnrýni er góð ef til hennar er vandað. Það er líka gott að sem flestir hafi skoðun. En þar sem það er auðveldara að finna að en hrósa (kannski er þetta líka hluti af mannlegu eðli), hafa sumir farið að trúa því að það sé eitthvað sérstakt ástand í þessum málum hér.

Nú vil svo til að ég á lítið safn gamalla kennslubóka. Meðan ég var enn að velta fyrir mér orðunum sem ræðumaðurinn lét falla á Bessastöðum, dró ég þetta safn fram og skoðaði hvernig búið var að nemendum þegar ég var á skólaaldri. Það voru aðhaldssamir tímar og ekki bruðlað með neitt. Bækurnar voru enn betri en mig minnti. Annað sem kom mér á óvart, var hvað ég kunni þær vel. Það hljóta að ver meðmæli með kennslubók.

Reyndar hef ég, eftir að ég eignaðist þetta litla safn blaðað oft í heftunum þrem sem bera nafnið Íslands saga og eru eftir Jónas Jónsson. Þessar bækur urðu kjölfestan í sögulegri þekkingu og söguskoðun Íslendinga. Nú er oft á þær deilt, af því fræðin hafa tekið stakkaskiptum. Jónas var að vísu ekki fræðimaður á þessu sviði en söguskoðunin sem þarna kemur fram brýtur ekki í bága við ríkjandi söguskoðun í fræðunum á þeim tíma. En Jónas kunni að skrifa, ég man enn hvað mér fannst gaman að lesa Íslandssögu.

Nú er ég líklega komin út fyrir efnið sem ég ætlaði að fjalla um. Ég ætlaði að tala um það sem mér fannst óréttmæt gagnrýni á skólabókaútgáfu því ég veit að endurtekin ósannindi eiga það til að öðlast stöðu sannleikans.

En auðvitað veit ég að þessi gagnrýni ræðumannsins er ekki til komin vegna ástar á börnum. Þarna er beinlínis um hagsmunaárekstur að ræða. Bókaútgefendur vilja komast að „kjötkötlunum“ sem þeir halda að námsbókaútgáfa sé. Í augum sumra er öll starfsemi hins opinbera af hinu vonda. Það eru önnur ó-sannindi sem verið er að festa í sessi. Samanber að í dag fer fram umræða um sölu á áfengum drykkjum.

Hættum að þegja og bregðumst við þegar við heyrum eitthvað sem okkur finnst vera rangsannleikur.

Myndin er af nokkrum gömlum námsbókum frá nýliðinni öld


Hershöfðingi dauða hersins

Myndaniðurstaða fyrir ismail kadare 

Nú er nokkuð um liðið síðan ég las bókina, Hershöfðingi dauða hersins eftir Ismail Kadaré. Ég hef dregið þetta af því vissi ekki hvernig ég gæti gert henni skil. En ég ætla að reya, þótt það sé erfitt að ná utan um þetta verkefni.

Nafn bókarinnar er síður en svo aðlaðandi, en mig langar segja þannig frá henni að þið segið "þessa bók verð ég að lesa"!

Titill bókarinnar minnir okkur á annan her og ég hugsaði, er ég að lesa þetta vitlaust og las aftur. Þetta var örugglega það sem höfundurinn ætlaðist til, hann er að hæðast, ekki að mér lesara sínum, heldur að virðingu sem borin er fyrir herjum og hernaði. En hann er er ekki bara að hæðast,hann er að skapa vissa ógn.

Ismail Kadaré (1936) er albanskur rithöfundur, ég held að ég hafi ekki áður lesið bók eftir albanskan rithöfund og þegar ég les mér til um hann fæ ég að vita að hann er virtur rithöfundur sem hefur skrifað mörg verk. Þessi bók kom út í heimalandi hans 1964.

Hún segir frá ítölskum hershöfðingja sem hefur fengið það verkefni að flytja líkamsleifar fallinna hermanna úr síðari heimsstyrjöldinni, heim til Ítalíu. Það hefur verið gert samkomulag um þetta á milli landanna og Þjóðverjar eru líka að sækja sín lík. Sagan segir frá þessu erfiða verki, væntingum hershöfðingjans og viðbrögðum heimamanna í Albaníu sem koma að verkinu. Þetta er hershöfðingi með metnað, hann vill bæði gæta þess að komið sé af virðingu fram við hina föllnu og er stoltur af að geta fært þá heim til ástvina þeirra. En Albanía er fjöllótt land og illt yfirferðar.  

Lesandinn fræðist smám saman um stríðið. Það er merkilegt að fá að fylgjast með hugsunum hershöfðingjans og sjá hvernig hugmyndir hans breytast eftir því sem á líður verkið. Hetjur Ítala eru illmenni Albana. Þannig var  þetta og þannig er það.

Sagan er ísmeygileg, maður trúir henni hálft í hvoru, þótt maður viti að hún hljóti að vera uppspuni frá rótum. Sannleikurinn sem situr eftir er óbeit á öllu stríði, hermennska verður fyrirlitleg. Þannig leið mér að minnsta kosti.

Það er Hrafn E. Jónsson (1942-2003) sem þýðir þessa bók á árunum 1990-1991 og hún var ári síðan lesin sem framhaldssaga í Ríkisútvarpið.

Það er mikill fengur að þessari bók en erfitt að segja frá því sem gerir hana svona frábæra, því það liggur ekki síður í því sem er látið ósagt.

Og þótt bókin sé dimm og köld, langar mig að lesa meira eftir þennan mann og mig langar til að ferðast til þessa lands. Og auðvitað er ég búin að skoða lýsingar frá ferðaskrifstofum og sé að það er ægifagurt.

Mynd af höfundi tók ég traustataki af netinu


Ör: Auður Ava Ólafsdóttir: Hrundir heimar

 

IMG_0284Ég lauk við bók Auðar Övu Ólafsdóttur, daginn áður en hún hún tók við bókmennta verðlaununum á Bessastöðum. Ég get ekki sagt að það kæmi mér á óvart. Þegar ég hóf lesturinn átti ég von á góðri bók og hún var afbragð. En það er erfitt að segja nákvæmlega hvað gerir hana svona frábæra. Þannig er þetta oft, það er erfiðara að festa fingur á hvað gerir bók góða en að finna gallana.

Bókin lætur ekki mikið yfir sér, Auður Ava slær ekki í kringum sig með æsilegum söguþræði, eða átakanlegum mannlegum örlögum. Þó er hvort tveggja til staðar í þessari bók, en klætt í einhvers konar hversdagsbúning, sem færir það nærri okkur, það talar til hjartans.

Aðalpersónan Jónas Ebenesar, býr einn. Í upphafi bókar er hann að heimsækja móður sína, sem er á elliheimili. Hún lifir í eigin heimi og maður veltir því fyrir sér hvort hún hafi ef til alla tíð verið þannig. Jónas er góður og samviskusamur, hann er að miklu leyti horfinn inn í sig og langar að tala við móður sína um að hann sé óhamingjusamur. Hún skammtar honum aðgang að sér.

Konan fór frá honum, hún hafði reyndar um langt skeið skammtað honum aðgang að líkama síum og  um leið og  hún skildi við hann sagði hún honum að hann væri ekki faðir að dóttur þeirra, Vatnalilju, sem hann elskar.

Hann er hjálpsamur og kann að laga það sem þarf lagfæringar við, allt nema eigið líf. Þegar kemur að honum sjálfum er eins og hann sé verkfæralaus maður.

Jónas ætlar sér að taka líf sitt en hikar. Hann er svo tillitssamur að hann getur ekki fundið neina aðferð sem ekki kemur illa  þann sem kemur að líkinu og veldur skelfingu.

Loks tekur hann það til bragðs að ferðast til stríðhrjáðs lands, þar sem hann þekkir engan og þarf því ekki að taka tillit til neins. Eða það heldur hann.

Í landinu sem hann flýr til er allt í rúst, bæði hús og mannlíf. Hann hefur tekið verkfærakassann sinn með því hann ætlar að finna sér stað til að hengja sig. En strax kynnist hann fólki og það kemur í ljós að það er bæði þörf fyrir hann og verkfærin. Fólkið sem hann kynnist hindrar enn að hann komi áformi sínu í framkvæmd, hann vill ekki særa það. Frásögn Auðar Övu af þessu stríðshrjáða landi er í senn hverdagsleg og grípandi. Fólkið sem við höfum heyrt svo mikið um í óteljandi fréttatímum, verður náið. Mig langar innilega til að systkinunum takist að gera upp hótelið og koma því í rekstur. Mig langar líka til að konurnar ljúki viðgerðinni á húsinu, þar sem þær ætla að búa með börnin sín. En ekkert gleður dapran hug Jónasar, fyrr en símtalið kemur. Reyndar flytur þetta símtal honum ekki neinar góðar fréttir.

Þessi bók er um tvenns konar hrunda heima, innri heim og ytri heim. Hún talar lágstemmt til lesandans. Ég sem er einn þeirra er ekki í neinum vafa um að þetta sé góð bók þó ég kunni ekki að skýra það. Reyndar fékk ég strax daginn eftir staðfestingu lærðrar nefndar á því að svo væri.

Það er erfitt að velja sér bók eftir lestur þessarar bókar.

Að lokum verð ég að geta þess að Auður Alva er lúmskt fyndinn höfundur.


Bjargræði: Hermann Stefánsson

IMG_0232Bjargræði

Bók Hermanns Stefánssonar, Bjargræði, er óvenjuleg bók. Ég hef að minnsta kosti aldrei lesið bók sem líkist henni. Ekki svo ég minnist. Bókin er eitt langt samtal Bjargar Einarsdóttur (Látra Bjargar) við smiðinn Tómas. Hann leggur reyndar ekkert til þessa samtals, svo eiginlega er þetta eintal. Hún spyr spurninga og svarar þeim sjálf og slær ýmsu fram en Tómas þessi gerir engar athugasemdir. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hver tengsl þeirra eru, en Tómas hefur mælt sér mót við hana á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur.

Auðvitað veit ég að þetta er hugarburður, Tómas og Björg Einarsdóttir geta ekki hafa hist öðru vísi. Látra- Björg er fædd 1716 og deyr 1784, en sagan gerist núna.

Allt sem lesandinn veit um Tómas þennan er úr þessari bók en Látra – Björgu kannast lesendur við, mismikið þó. Samt veltir lesandinn fyrir sér að ráða í það hvert raunverulegt samband þeirra sé og hvað verði úr því. Það er galdur þessarar bókar.

Björg fræðir okkur jafnframt um hver hún raunverulega var og vill leiðrétta sögusagnir um sig. Sögusagnir sem m.a. Gísli Konráðsson hefur komið af stað. Um leið og hún ræðir um sig og samtíð sína, ber hún hana saman við okkar tíma. Sá samanburður er ekki alltaf nútímanum í hag.   Þessi samanburður er kjarni bókarinnar. Finnst mér.

Líklega hefur þú lesandi minn skynjað, að mér finnst þetta stórgóð bók en það er samt vissara að taka það fram.

Það sem mér finnst best við hana er að Björg miðlar okkur af viðhorfi sínu til lífsins, hvað er einhvers virði og hvað er fánýti. Hún er stóryrt og hún er ekkert að skafa utan af hlutunum. Gildismat hennar er manneskjulegt og hlýtt.

Þessi bók kallar fram notalegheit, yljar manni um hjartaræturnar. Ef hún væri kvikmynd myndi hún flokkast sem feel good mynd.

Ef ég hef skilið bókina rétt, hefur Tómas boðað Björgu til sín á kaffihúsið af því hann á í vanda og hún er kraftaskáld. Hún á að leysa vanda hans með göldrum. En Björg er klók. Hún hefur ekki til einskis upplifað móðuharðindi. Hún vill fá eitthvað fyrir sinn snúð. Björg á líka erfitt, hún á sér leyndarmál sem þjakar hana. Það er ekki

á hennar færi að leysa það en það getur Tómas gert. Það er best að kjafta ekki frá öllu erf einhver á eftir að lesa bókina.

Meðan ég var að lesa, hugsaði ég um að bókin væri svo góð að Hermann yrði örugglega frægur í útlöndum. Um leið hafði ég áhyggjur af því að bókin væri vandþýdd, veruleiki hennar er svo gegníslenskur. Það mætti kannski útskýra í formála eða neðanmáls hvernig ákvæðaskáld unnu, en hvernig á að þýða kveðskap Bjargar á önnur tungumál? Þetta gæti enginn þýtt nema Edduþýðandinn Lars Lönnroth!

Svona lagað lét ég trufla mig. En svo sá ég að vandamálið var hvorki mitt eða á mínu færi að leysa það, svo ég hélt áfram að láta mér líða vel.

Það er mikill munur á Bjargræði og bók Steinars Braga sem ég las næst á undan þessari bók, hún gæti flokkast sem feel bad bók. Þó ég beri sögurnar saman í huga mér er ég ekki að segja að önnur sé betri en hin. Samanburður nýtist mér til að bera saman og greina eiginleika en ekki til að raða í virðingarstiga.

Auk alls þessa er bókin alveg einstaklega falleg. Eitthvað fyrir mig með allan minn bókbandsáhuga. Þótt ég yrði að sætta mig við að hlusta á bókina vegna sjónskerðingar minnar, hafði ég hana hjá mér og handlék hana. Hún er lítil um sig og, mjúk og þægileg að hafa í hendi. En það er bót í máli að bókin er afar vel lesin. Lesari er Ásdís Thoroddsen.

 


Eins og í draumum mínium: Um smásögur Steinars Braga

img_2309.jpg

Eins og draumur

Ég er ósátt við sjálfa mig. Ég stend ekki við mitt eigið loforð, að skrifa um hverja einustu bók sem ég les til að finna út hvað mér finnst og rökstyðja fyrir sjálfri mér. Ég er búin að lesa 3 bækur og fæ mig ekki til að skrifa.

Allt er þetta Steinari Braga að kenna, ég veit ekki hvað mér finnst og kann ekki að færa rök fyrir því. Ég hef sem sagt lokið við smásaganasafnið, ALLT FER, 19 mislangar sögur sem ómögulegt er að finna nokkurn samnefnara fyrir. Eða mér tókst það alla vega ekki. Ég veit heldur ekki hvort mér líka þær, margar eru fráhrindandi, ýmist út frá efni sögunnar eða vegna þess hvernig hún er sögð.

En..., nær allar sögurnar koma við mann og kalla fram viðbrögð og maður trúir þeim. Maður trúir þeim jafnvel svo vel að maður heldur að höfundurinn byggi á eigin reynslu, sé gerandi eða þolandi þess sem gerist. En auðvitað veit ég betur, sumar sögurnar minna á 1001 nótt og eftir lestur einnar sögunnar, Úrræði ríkisstjórnarinnar á fasteignamarkaði, varð mér óglatt. Langaði að æla. Ein sagan, Kólrfur minnti, mig á rússneska þjóðsögu. Hún er afar óhugnanleg.

Margar sögurnar eru eins og draumur, þ.e. fylgja lögmálum draums. Draumar eru oft fullir af ósamræmanlegum hlutum sem virðast eðlilegir í draumnum en ganga ekki upp í heimi vakandi manns. Flestir draumar eru líka óþægilegir, vandræðalegir og jafn vel ógnandi (alla vega mínir draumar). Fáir draumar eru ljúfir. Hugmyndin um ljúfa drauma eru trúlega komin frá dagdraumum. Um allt þetta hugsaði ég meðan ég var að lesa bók Steinars Braga.

Í mörgum sögum er fjallað um náin samskipti karls og konu, hvernig þau tala saman og hugsa. Steinari Braga lætur afar vel að lýsa þessu og enn hugsa ég að hann sé að segja sanna sögu. Og nú spyr ég sjálfa mig: Er það ekki til marks um að sagan sé góð, þegar maður trúir henni, finnst hún vera sönn?

Lokaorð

Ég veit ekki almennilega hvað mér finnst um þessar sögur, en það tók á mig að lesa þær en þær sitja í mér. Ég mun lesa þær aftur. Ef ég tæki sjálfa mig fullkomlega alvarlega, myndi ég skrifa um hverja einustu sögu. Einungis þannig er hægt að skrifa um smásögur.

 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Feb. 2017
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 187119

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 57
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband