Kona hugsar jákvætt um Hrunið

image

Af því ég þarf svo mikið á því að halda að hughreysta sjálfa mig, settist ég niður með þann ásetning í huga að finna eitthvað jákvætt við Hrunið.

Það fyrsta sem mér datt í hug var Rannsóknarskýrslan. Hún kom út í átta bindum og gerðu svo vel grín fyrir hvernig allt gerðist. Hún var lesin í heild sinni af sviði í Borgarleikhúsinu. Ég fór tvisvar til að hlusta. Það var áhrifamikið. En, nú er neikvæð hugsun strax komin af stað í huga mér. Hún var svo lítið notuð, við lærðum svo lítið af henni. 

Ákveðin í að hugsa jákvætt, hugsa ég. Íslenskan eignaðist svo mörg ný orð og gömul orð  öðluðust nýja merkingu. Reyndar man ég í augnablikinu aðeins eftir tveimur:Vafningur og skortsala. Orðið Vafning skildi ég vel (man ekki betur en Bjarni Benediktsson útskýrði það sjálfur, en man ekki hvers vegna). Ágætis orð, mér sýnist að vafningalaus, hafi fengið dýpri merkingu. Skortsölu skildi ég aldrei, fannst orðið ljótt og það vísað á ótilhlýðilegan hátt í neyð eða örbirgð. Það hljóta  að hafa verið fleiri orð.

Kostnaðarvitund varð allt í einu afar gagnlegt orð. Man þegar maður fór í Bónus fyrst eftir Hrunið full kostnaðarvitundar, ákveðin í að fá sem mest fyrir lítinn pening. Maður vissi nú ekkert hvernig þessu lyki. Nú heyrir maður þetta meira í sambandi við KOSTNAÐARVITUND SJÚKLINGA. Kannski gagnlegt fyrir stjórnvöld,ekki fyrir sjúklingana. 

Lengi var það allra, allra besta, sem ég hugsaði um Hrunið:Gott, við lærum af þessu. En það reyndist blekking. Það eina sem allt of margir hafa lært, er að treysta ekki stjórnvöldum og meira  en það, treysta engum. 

En við verðum að treysta, því á því byggist líf okkar. Ég er sem betur fer ekki ein af þeim sem held að "það sé sami rassinn undir þeim öllum", ég veit alveg hverja ég kýs ekki. En nú er ég komin inn á pólitík en þessi pistill átti að vera um jákvæðar afleiðingar Hrunsins og nýjan orðaforða.

Ég man eftir orðatiltækinu"að stíga til hliðar" eftir Hrunið og þá aðallega um að aðrir ættu að stíga til hliðar. En nú var merkingin einhvern veginn ný. Það þýddi til dæmis alls ekki að taka feilspor, gera misÞaðtök. Það þýddi að lýsa því  yfir að nú væri kominn tími á það að hætta, alls ekki að menn hefðu tekið hliðarspor, gert mistök ,eins og þegar talað er kurteislega um gamalt framhjáhald. Líklega man ég þó best eftir þessu orði í biðleik í aðsteðjandi Hruni. Nýja Hrunsins okkar. Takið eftir okkar

Það sem er jákvætt við Hrunið er að nú kunnum við þetta og getum endurtekið það. Ég er fullviss um að nýtt Hrun verður betra en síðasta Hrun.

Eftirskrift:Hvernig gat ég gleymt orðinu AFLANDSFÉLAG? Það andar til manns suðrænum blæ með þyti í pálmagreinum, ég sé fyrir mér bláar öldur og endalaust haf. Rísandi sól við hafsbrún.Það er jákvætt.

Myndin er af fyrstu fjórum eintökum Rannsóknarskýrslunnar. Ég keypti þær hjá Bókinni og ætlaði að binda hana alla inn. Vantar enn fjögur bindi.


Vinkona mín Anika Bengtzon: Járnblóð: Liza Marklund

image

Ef maður á góðan vin verður maður að rækta vinskapinn, ef maður sofnar á verðinum, það fæðast ný börn, það er jafnvel kominn nýr eiginmaður til sögunnar og sá fyrrverandi hefur breytt um karakter ef ekki eitthvað enn verra. 

Þessar hugsanir kviknuðu þegat ég las nýjústu bók Lizu Marklund en ég hafði vanrækt um nokkurt skeið, misst úr a.m.k. tvær bækur þegar ég reyndi að skera niður glæpasagnalesturinn í heild sinni, sem aldrei skyldi verið hafa. 

Í bókinni Járnblóð virðist blaðakonan vera komin í trygga höfn, hún er komin með traustan eiginmann og börnin hans tvö orðin hluti af fjölskyldunni. Það er komið jafnvægi áeftir rót skilnaðar, sem ég hef misst af vegna þess að ég vanrækti þennan vin út af einhverjum dintim hjá sjálfri mér. En Anika finnur til nagandi óöryggis og köfnunartilfinningar. Hún brýtur odaf oflæti sínu og leitar ísér hjálpar, fer í viðtöl til sælftæðings. Nú, eins og alltaf, heyir hún baráttu á mörgum vígstöðvum. Hún grefur í fortíð sinni, til að komast fyrir rót eigin vanda. Það á að fara að leggja niður blaðið sem hún hefur unnið hjá til fjölda ára. Auk þessa hún hefur áhyggjur af systur sinni sem er týnd.  Auðvitað dregst hún inn í miðbik gamals glæpamáls, sem tekur sig upp að nýju. Það er eins gott að það er allt í lagi á heimavígstöðunum. 

Þetta er framúrskarandi bók, spennuþrungun glæpasaga eins og alltaf hjá Liszu, en nú bætist  við einkar vel gert uppgjör hennar sjáfrar við sína eigin fortíðog framúrskarandi umfjöllun um vanda blaðamanna á túmum hraðra breytinga. Það ættu allir fréttamenn að lesa þessa bók.

Það eina sem mér finnst neikvætt hjá vinkonu minni Lizu Marklund, er hvað hún lætr glæpina vera sóðalega, það hálfa væri nóg. Til að réttlæta þetta í huganum, fer ég að hugsa um Íslendingasögurnar. En það hjálpar lítið. Vígin, morðin og limlestirngarnar taka oftast fljótt af. Ég man í augnabkijinu einungis eftir einni pyntingarsenu, hún er í Hrafnkelssögu, þegar Sámur hengdi Hrafnkek og menn hann upp á löppunum mep því að stingaí gegnum hásynarnar þetta og hengja þá upp. En sjálfsagt eru þær fleiri. Morðin á berserkjunum voru nú ansi sóðaleg. 

Þetta verður síðasta bókin um Aniku Bengtzon, þær eru orðnar 11 með þessari, held ég. En ég er ákveðin að fylla í skarðið sem kom þegar ég var í glæpasagnabindindi. Ég hlakka til að lesa bælurnar sem mig vantar inn í.

Myndin tengist ekki efninu en er af sænsku vorblómi 

 

 

 


Síðasta ásrarjátningin: Dagur Hjartarson

image

Það er fátt ánægjulegra en að heillast af bók eftir höfund sem maður þekkir ekki til áður. Maður hefur lesturinn hikandi og veit ekki á hverju maður á von. Alveg undir það búin að verða skúffaður, falla ekki bókin. Ég er vandlát á bækur og reyni fyrirfram að sneiða hjá bókum sem ég held að séu ekki fyrir mig. 

Ég var að ljúka við bók Dags Hjartarsonar og gleðst yfir enn einum nýjum höfundi sem ég veit núna að er fyrir mig.

 

 

 

Þetta er innihaldsríkt bók. Hún fjallar um:

Ástina (stóri stafurinn er ekki prentvilla)

Vináttu

Að ráða lífsgátuna

Að vera ungur og leitandi

Um leitina að sjálfum sér

Um að hafa skoðanir

Um hvort og þá hvernig listin endurspeglar Lífið 

Og heimspekilegar pælingar um þetta og fleira og fleira.

Það sem ræður þó úrslitum um að ég heillast, er að stíllinn. Knappur, ljóðrænn texti, kannski væri best að lesa þetta sem langt ljóð.Ekki spillir að bókin er spennandi því maður vill vita hvernig þetta fer með Ástina. Hvernig reiðir Ástinni af? Og hvað verður um unga manninn ef Ástin deyr. Lifir hann af?

Það er erfitt að lýsa Ástinni. Ég veit einungis um fá dæmi þess að það hafi tekist og þetta er eitt af þeim. Textinn er stundum upphafinn eins og Ástin sjálf og ég sem þoli ekki skrif sem eru í áttina að vera væmin. En þetta sleppur. Ástin er væmið fyrirbæri fyrir þá sem fylgjast með henni utanfrá. 

Ég er sátt og kem nú með að leita uppi fyrri bækur höfundar því auðvitað er hann enginn byrjandi þótt hann sé nýr fyrir mér. 

 

 

 

 


Að lesa Ævintýri góða dátans Svejks: Sagan er alltaf eins og ný

image

INNGANGUR 

Þessi lestur minn á bók Jaroslavs Hasek (1883-1923) um Góða dátann bar að fyrir tilviljun eða mistök. Ég var að lesa Veröld sem var, eftir Stefn Zweig (sem hljóðbók) og langaði til að hafa við höndina prentað eintak. Bókin var ekki inni og ég legg inn pöntun. Nokkru síðar var hringt til mín og mér sagt að bókin biði mín á safninu. Góð þjónusta. Þegar ég kom á staðinn beið mín bók sem ég kannaðist ekki við að ég hefði nokkurn tíma pantað. Fyrst varð ég dálítið ringluð en svo skildi ég ruglinginn og tók bókina og reyndar Veröld sem var líka, sem nú var inni. Með þetta hjólaði ég heim. Ég var löngu búin með Veröld sem var og í miðjum klíðum að lesa Jón Kalman en ég fletti nýfengnu bókinni og skoðaði myndirnar, rétt sí sona. 

Nú, þetta er í þriðja sinn sem ég les þessa bók auk þess hef ég séð Góða dátann í leikhúsuppfærslu. Hún er aldrei eins. Fyrst las ég hana sem unglingur og við vorum fleiri á bænum, sem lásum hana og skiptumst á bröndurum. Næst las ég hana sem fullþroska kona, hélt ég. Ég var óþolinmóð og fannst hún langdregin. Þá velti ég alvarlega fyrir mér hvers vegna þessi bók þætti svo góð sem raun ber vitni. Þetta þorði ég þó ekki að tala um við nokkurn mann. 

NÚNA

Það setur bókina óneitanlega í sérstakt samhengi að lesa um Góða dátann Svejk í framhaldi af Veröld sem var. Sagan kemur meira við mig. Núna veit ég ekki hvort ég á að lesa hana sem safn af óteljandi aulabröndurum, ádeilu eða langdregna harmsögu. Í þetta sinn er það þó harmsagan sem yfirskyggir. Og það er ekki bara út af Veröld sem var heldur  líka út af öllum heimsins styrjöldum, gömlum og nýjum. Stríð umlykja okkur og þó eru þau svo undarlega fjarri. 

LOKAORÐ

Ég ætla ekki einu sinni að gera tilraun til að rekja efni þessarar sögu, hún kom út í áföngum á árunum 1920 til 1923. Höfundurinn lést frá frá bókinni ólokinni. Það er sagt að hún hafi átt að verða 6 binda verk en bókin sem við þekkjum samsvarar þremur bindum. Svejk er enn á leið á vígvöllinn. Bókin er grimm háðsádeila á stríð og er því miður enn mjög þörf. Ekki spillir það vinsældum verksins að hún er með myndum sem auka enn á fáránleikatilfinninguna sem fylgir því að lesa um þessa sérstöku hetju. Myndirnar eru eftir Josef Lada, sem var verðlaunaður teiknari í heimalandi sínu.

Mér finnst þetta góð bók, þó veit ég fyrir víst að það er ekki á færi Íslendinga að skilja stríð, sem betur fer. Við höfum aldrei upplifað stríð, bara grætt á þeim, nú erum við í hernaðarbandalagi sem gætir okkar og okkur kemur ekki við hvað það gerir.

Bókin kom fyrst út á Íslandi (1943-1944). Hún er þýdd af Karli Ísfeld og er á kjarngóðri íslensku. Ekki veit ég úr hvaða tungumáli, né hversu þýðingin er trú frumtextanum. En þetta er frábær lesning. 

Myndin er af Góða dátanum Svejk á leið í að láta skrá sig í stríðið 


Þrír sneru aftur: Guðbergur Bergsson

image

Nú hef ég lokið við bókina, Þrír sneru aftur, en þó? Ég er enn að velta því fyrir mér, hvað Guðbergur er eiginlega að meina, bókin sækir á hug minn aftur og aftur. Bók sem þannig hagar sér hlýtur að vera góð, hún vill mér eitthvað. 

Í fyrstu las ég bókina eins og klassískt ævintýri. Tvær stúlkur og einn drengur alast upp hjá gömlum hjónum á afskekktum bæ. Þar býr líka sonur hjónanna, Sonurinn. Þetta er fátækt fólk sem lifir af því sem landið gefur. Fljótlega fær lesandinn að vita að drengurinn er þarna í sveit eins og það var kallað en stúlkurnar hafa alfarið alist þarna upp því þær eru afa- og ömmubörn gömlu hjónanna, en þó ekki systur.

Eftir því sem sögunni vindur fram stækkar heimurinn og fleira fólk bætist við. Mæður stelpnanna búa í Chicagó en móðir drengsins er á spítala og nýja konan í lífi föður han kærir sig ekkert um að flækja líf sitt með því að taka bólugrafinn ungling inn á heimilið. 

En sagan snýst ekki einungis um heimilisfólkið,gesti ber að garði. Fyrst koma tveir Bretar í heimsókn. Svona ljómandi huggulegir menn sem líka eru búnir að læra íslensku. Þangað kemur líka Þjóðverji, hjálpsamur maður sem vill bara fá að vera einn og í friði. Hann fær að koma sér fyrir í helli og stelpurnar færa honum mat sem gamla konan eldar. Í staðinn hjálpar hann bóndanum að setja upp vindrellu og leggja rafmagn í bæinn. 

Stelpurnar dreymir um að komast í burtu en fyrst verða þær að fermast. Gamla konan fær leyfi til að kenna þeim heima. Stákurinn er í raun hændur að bænum og fólkinu og tengist syninum sem er ónytjungur. Eitt af því sem tengir þá, er bókin Þrír snúa aftur. Hún fjallar um lífsbaráttu skipreika manna á fleka út á reginhafi. Sú barátta er hörð.

Nú hef ég fallið í þá gryfju að endursegja bók sem mig langar til að kynna svo fleiri lesi, en það er við hæfi og því stoppa ég hér. En þó langar mig til að vitna í minn kæra Megas í Ég á mig sjálf:"og svo kom stríð/og svo kom her/ og svo kom friður/og ennmeiri her".

Þegar þessu litla ævintýri er lokið er Guðbergur búinn að segja sögu þjóðar og heillar heimsstyrjaldar. Þetta er svikul þjóð sem selur allt sem henni er heilagt og stríð er næstum eins og náttúrulögmál. En einhverjir græða þó og það hafa orðið framfarir. Í lok bókarinnar hefur drengurinn fundið sér konu og þau reka saman ferðaþjónustu á býlinu. Sá kafli var óborganlega fyndinn eða sorglegur. Ég veit ekki hvort. 

Ég þarf oft að taka mér tak til að leggja í að lesa Guðberg, hann gengur svo nærri mér. Mér finnst stundum að honum þyki ekki vænt um persónurnar sínar, fólkið sitt. Hann gerir gys að því, dregur það sundur og saman. Mig grunar að honum þyki ekki vænt um þjóðina sína, hún er fölsk og ómerkileg. En auðvitað dái ég hann og nú bíð ég spennt eftir því hvað frændur okkar á Norðurlöndum segja um hann. En við, þessi spillta þjóð  eigum Guðberg.

Myndin tengist ekki textanum nema óbeint. Hún er frá Alhambra á Spáni  en ég veit að þangað hefur Guðbergur dótt mikla næringu 

 


Elsku, elsku, elsku: Jón Kalman Stefánssom

image

Ég hef það fyrir sið að gera upp hug minn um bækur sem ég les og setja niðurstöðuna á netið. Í þetta skipti langar mig til að fara nýja leið og láta sem ég sé að skrifa höfundinum bréf. 

Kæri Jón Kalman

Ég var að ljúka við bækurnar þínar, Fiskarnir hafa enga fætur og Eitthvað á stærð við umheiminn með undirtitlinum, ættarsaga. Nú ég geri eins og Margrét amma Ara gerði í sögunni þinni. Ég skrifa rithöfundi. Ég ætla þó ekki að biðja þig um neitt, heldur einungis þakka þér fyrir bækurnar þínar. Ég hef lesið þær flestar held ég, en það kom gloppa í lesturinn þegar augun fóru að svíkja mig. Ég gat ekki almennilega sætt mig við að hlusta í staðinn, þótt slíkur kostur sé í boði. Sem betur fer hef ég aðgang að Hljóðabókasafni Íslands, en það er er annað að hlusta en lesa.

Mig langar til að þakka þér sérstaklega fyrir þessar tvær síðustu Þetta eru fyrstu bækurnar eftir þig sem ég les síðan ég hætti að hafa milliliðslausan aðgang að textanum, túlka hann sjálf, skapa sjálf persónurnar, sjá fyrir mér landslagið með mínum augum. Nú  hlusta ég. Ég þarf að njóta bóka gegnum millilið, mér finnst ég ekki vera eins náin höfundinum. Sá sem les, skapar líka. 

Bréfið átti ekki að vera um lestrarmátann, mig langar til að segja þér af hverju ég gleðst yfir þessum tveimur síðustu bókum. Ég vona að mér takist að koma orðum að því þó að ég viti það ekki almennilega sjálf.

Mér finnst þessar bækur vera um mig og fólkið mitt og mér finnst svo mikilvægt að við fáum rödd. Rödd til að skilja okkur sjálf, rödd til að muna. Rödd til að vita hvernig þetta var og er. Bækur um okkur öll. Það er að vísu sárt hvernig þú klórar ofan af sárum sem ég hélt að væru gróin. En um leið finn ég að bækur þínar eru eins og græðandi smyrsl. En það er sárt. 

Það hafa margir rithöfundar skrifað góðar bækur um alþýðu þessa lands og meðan ég var að lesa hugsaði ég, hvað er það sem gerir þessar bækur svo sérstakar? Ég held að ég viti það. Persónurnar eru lifandi fólk, ekki táknrænir karakterar. Þær eru lifandi og margslungnar. 

Ég ætla að hlusta á þessar bækur aftur og kynnast fólkinu hans Ara betur. Og innst inni vona ég að fá enn eina bók, meira um hann. Og ég vona svo að þetta verði allt í lagi hjá honum. Mér finnst einhvern veginn að stjúpa hans (sú fyrri) sakni hans.

Kærar þakkir fyrir þessar bækur 

Kveðja frá lesanda.

 

 


Forgarður helvítis

image

Enn les ég. Og nú hittist þannig á, að bókin sem ég er að lesa talar beint inn í atburðarás stjórnmála dagsins í dag. Bókin er: Eitthvað á stærð við alheiminn, áður hafði ég lesið Fiskarnir hafa enga fætur.  Þetta eru bækur eftir Jón Kalman Stefánsson, þær bera millititilinn Ættarsaga, og taka til þriggja kynslóða. Hefjast á Austfjörðum við upphaf 20. aldar en aðalsögusviðið er Keflavík og Sandgerði. Þetta eru hrífandi bækur. Ég ætla í þessum pistli einungis að fjalla um eitt atriði sem felur í sér umfjöllum um gömul sannindi. 

Ari, sem er aðalpersóna sögunnar er ættaður í föðurætt sína að austan. Tryggvi ömmubróðir hans er áhugasamur um bókmenntir, hann hefur lesið Dante og endursegir söguna fyrir sjómennina á aflaskipinu Sleipni á vertíð á Hornafirði. Skipstjóranum, afa Ara,  er ekki um þetta gefið, mennirnir þurfa að hvílast, segir hann. Það hefur samt eitthvað setið eftir, því hvað eftir annað er vitnað til þessarar bókar í því sem síðar gerist.  

Ég er illa að mér um skipulag eilífðarmálanna, hvernig háttar til í dánarheiminum, úr því þarf ég að bæta. Ég vissi reyndar að menn eru dæmdir af verkum sínum, góðum og vondum. Það sem kom mér á óvart var að þeir sem eru allra verst settir, eru ekki menn vondra verka. Verst eru þeir staddir sem gerðu ekkert þegar þeir höfðu tækifæri til, stóðu álengdar og létu hjá líða að gera það sem þeim bar. Það eru þeir sem í raun hljóta eilífa útskúfun. Þeir fá ekki einu sinni vist í helvíti. 

Af því að ég hafði lesið þessar góðu bækur, hlustaði ég á orð fjármálaráðherra og mannsins sem hefur verið tilnefndur í forsætisráðherrastöðuna í nýju ljósi þegar þeir komu niður stigann í Alþingishúsinu. Báðir lögðu þeir áherslu á að vera dæmdir af sínum góðu verkum en ég hugsaði. Hvernig væri í staðinn að dæma þá af því sem þeir hafa ekki gert. Það er langur listi.

Ég ætla hér einungis að nefna nokkur atriði.

Þeir hafa ekki séð til þess að til þess stýra þjóðmálunum á þann veg að almenningur í landinu njóti góðs af góðærinu sem þó er.

Veikt fólk fær ekki nauðsynlega þjónustu.

Stofnanir í eigu okkar allra eru látnar grotna niður.  

Þeir hafa ekki komið skipulagi á hvernig standa skuli að uppbyggingu ferðamála þannig að tryggt sé að dýrmætar náttúruperlur bíði ekki skaða af.

Þeir hafa ekki komið skipulagi á húsnæðikerfið, svo fjöldi fólks býr nú við erfiðar félagslegar aðstæður.

Menn sem standa hjá og gera ekkert þegar þeim er í lófa lagið að bjarga málum fá hvorki vist í Himnaríki eða Helvíti, það vill enginn hafa þá. Þeir eiga auðvitað ekki að vera ráðherrar né sitja á Alþingi. Þeira bíður útskúfun.

Mikið var ég heppin að vera að lesa þessa bók Jóns Kalmans núna, hann orðar svo vel hugsanir mínar. Og tilfinningar.

P.s. Bókin sem Tryggvi las (á dönsku) var Gleðileikurinn dásamlegi eftir Dante. Hún er reyndar nú til í ágætri þýðingu Erlings E. Halldórssonar. Ég náði ekki að lesa hana áður en sjónin versnaði og það er því miður ekki búið að lesa hana inn hjá Hljóðbókasafni Íslands.

 

 


Ljós augna minna: Trabant eða Benz

image

Í dag tók ég mér frí frá pólitísku vafstri og fór í bókaðan tíma á Augndeild Landsspítalans til að fara í augnsprautur, nú í bæði augun samtímis. Ég hef verið þarna fastagestur í nokkur ár, alveg síðan að minn góði augnlæknir greindi hjá mér illvígan sjúkdóm, hrörnun í augnbotnum. Hann er ólæknandi en það er hægt að halda honum niðri, hægja á honum, með lyfjagjöf. Mér líður vel á Augndeildinni, andrúmsloftið er notalegt, meðan ég bíð eftir að deyfingin virki, hlusta ég á umhyggjuna í rödd kvennanna sem eru að tala við hina sjúklingana. 

Ég bíð og einset mér að nota það sem ég hef lært hjá yogakennaranum mínum, hugleiða, dvelja í núvitund, til að minnka kvíðann fyrir stungunni. Það gengur þokkalega, ég einbeiti mér að því að anda djúpt, kyrra hugann með því að hugsa ekki. Í stað þess að staðnæmast í hugsun, á maður að gæta sín á að fara ekki inn í hana, ekki að kryfja neitt, ekki plana, ekki spyrja sjálfan sig, ekki svara, ekki plana neitt. Í stað þess á maður að leyfa hugsununum að renna í gegn, maður á að taka eftir þeim og klappa þeim á kollinn, kannast við þær og segja. Þarna ertu sorg, þarna ertu reiði, ég kannast við ykkur. Óþolinmæði, kvíði, gleði, fyndni, ég þekki ykkur líka, ég ætla ekki að sinna ykkur núna, ég er að hugleiða. Þetta er gaman.

Hugleiðslan á Augndeildinni, gekk vel, sömuleiðis sprauturnar. Á heimleiðinni hugsaði ég bæði reið og sorgmædd til þess að enn hefur ekki fengist samþykkt fyrir besta lyfinu fyrir augun mín. Ég er á biðlista fyrir þetta lyf og mér finnst ég hafa beðið of lengi.

Þegar augnlæknirinn minn greindi mér frá því að hann hygðist sækja um þetta lyf og ég spurði hann, hvort hann gæti sagt mér hver munurinn væri á því og því sem ég fæ núna. Hann sagði:

" Þetta er svona nokkurn veginn eins og munurinn á Trabant og Benz. Ég er vanur að útskýra þetta svona, því þá skilur fólk mig". Ég brosti innan i mér og ákvað að hugsa ekki upphátt. Ég hef nefnilega mikla reynslu af Trabant en Benz þekki ég ekki. Kannski verða það örlög mín að fá aldrei að vita það, ekki einu sinni með lyfjagjöf.

Reyndar hafði ég ágæta reynslu af Trabant, hann var góður til síns brúks. En ég hefði viljað fá Benz fyrir augun mín.  

 


Það er ekki nóg að fórna peði!

image

Strax og það var ljóst að það stæði til að munstra hinn tiltölulega póliskt óreynda formann Framsóknarflokksins í stöðu forsætisráðherra vissi ég að þarna var í gangi pólitískt spil sem allir myndu tapa á. Samstarfsflokkurinn, sem hafði í raun meira fylgi á bak við sig, sá sér leik á borði að nýta tækifærið og vinna að hagsmunamáli sínu, að þjóna umbjóðendum sínum. Þeir láta að því liggja að þeir leggi áherslu á að byggja upp og styrkja atvinulífið en eru í raun að fyrst og fremst að tryggja hag fjármagnseigenda. Og þetta gerir ríkisstjórn öll í skjóli manns, sem er raun peð en veit ekki af því.

Fjármálaráðherra  hefur orðið vís að því að hygla frændgarði sínum og hann er líka á listanum fræga um fólk sem er að hlaupast undan merkjum sem ábyrgir þegnar. Það er í mínum huga smærra mál en vanræksla hans í starfi. Þar á ég við beint niðurrif á mikilvægum stofnunum sem þjóna hagsmunum almennings. Það er í hans verkefni að afla fjár til að reka þetta þjóðfélag fyrir fólkið í landinu. 

En skákin er ekki búin. Ég kann ekki mikið í skák, lærði þó mannganginn á unga alri.  Mig minnir að peð sem kemst alla leið upp í borð mótkeppanda verði drottning. Voldugasti maður taflsins.

Staða þessa undarlega máls nú er sú, að nýju peði hefur verið teflt fram og það er kominn alveg upp í borð andstæðingsins, sem ég held að sé þjóðin. Staðan peninga-greifanna styrkist. 

Það er greinilega þörf á fleiri stórum mótmælafundum.

Myndin er af babúsku sem felur inn í sér leiðtogana í stóru landi.

 


Svívirt í beinni: Skilum skömminni

image

Ég varð eiginlega sjálf undrandi þegar ég gerði mér grein fyriri því á mótmælafundi á Austurvelli í dag að ég var með grátinn í hálsinum. Ég hef ekki tölu á öllum þeim mótmælafundum sem ég hef tekið  þátt í. Og nú lá mér við gráti meðan ég var að hlusta á ræðu Illuga Jökulssonar. Hann var að tala um skömm. Ég fann til þessarar skammar fyrst í gærkvöldi þegar ég var að horfa á Kastljós. 

Meðan ég var að hlusta á Illuga skildi ég allt í einu hvað var á seyði. Tilfinning mín var af sama meiði og konurnar lýsa efti að þeim hefur verið nauðgað. Þær skammast sín og þó vita þær að sökin er ekki þeirra. Mig langaði að finna öxl til að gráta við. 

Meðan ég hlustaði á Illuga gerði ég mér grein fyrir að mér leið eins og  konunum, stúlkunum, strákunum, líður eftir að hafa verið nauðgað. Forsætisráðherra svívirti þjóð sína í beinni útsendingu í gærkvöldi og ég er hluti af þessari þjóð. Ég er svo náin þessari þjóð.  Ég skammaðist mín en þó vissi ég að þetta var ekki mér að kenna. Þannig vinnur skömmin og þess vegna tala konurnar um að skila skömminni. Eftir ræðu Illuga fann ég að þetta gekk allt upp. Gerandinnn hafði misnotað traust. Hann sá ekki brot sitt og han trúði því meira að segja sjálfur að han hefði gert þetta fyrir þolandann. Hann ætti að vera þakklátur. 

Ég er fegin að ég fór á mótmælafundinn á Austurvelli í dag, það er gott að finna til samstöðu þegar maður hefur verið svívirtur. Kærar þakkir Illugi og þið öll.  

Skilum skömminni.

Myndin er tekin í strætó, eftir mótmælafundinn á leiðinni heim


Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2016
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 65
  • Frá upphafi: 187118

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband