Er þjóðkirkjan verktaki?

image

Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég pistil sem átti fyrst að fjalla um umburðarlyndi.  En varð að hugleiðingu um hvar markalínan liggur milli þess sem á að umbera og þess sem á ekki að líða neinum.

Að mínu mati liggja mörkin þar sem hegðun eins meiðir eða særir annan eða aðra. Mig langaði í raun til þess að ég gæti sagt að við ættum að sýna Þjóðkirkjunni umburðarlyndi varðandi hegðun presta, sem neita að gefa saman fólk af sama kyni. En eftir að hafa hugsað málið betur, sá ég að þetta átti ekki að umbera, því með því særðu þeir tilfinningar þeirra sem til þeirra leituðu og fjölda annarra. Þeim ætti ekki að líðast þetta. 

Þar sem ég er trúleysingi lít ég þannig á þetta mál að Þjóðkirkjan sé nokkurs konar verktaki hjá ríkinu, sem hefur tekið að sér að sjá um margs konar þjónust fyrir ríkið og eitt af því sé að gefa fólk saman í hjónaband. Ef ekki er staðið við slíkan samning, þýðir það í verktakasamningum rof á samningi, held ég. Oftast leiðir þó slíkt rof til að leitað er lausna. Reyndar finnst mér ekki rétt að skoða höfnun prestanna á að gefa fólk saman eina og sér, heldur hitt að þarna gera þeir upp á milli sóknarbarna sinna, blessun þeirra nær ekki til allra. Hvað gerist þegar kemur því að veita sálusorgun?

Mér finnst þetta vera leiðindamál. Þótt ég sé trúleysingi þekki ég fjölda fólks sem er trúað og er annt um kirkjuna. Mér sýnist að kirkjan sé að grafa sér sína eigin gröf. Það er alvarlegt mál miðað við alla þá ábyrgð sem henni er ætlað að hafa.

Engir hafa meiri áhuga á að ræða kirkjuleg málefnien trúleysingjar. Ég er þar í góðum félagsskap. Enda ekki sveitungi Helga Hósessonar fyrir ekki neitt. 

Myndin er af Marteini Lúther, tekin úr prógrammi Berliner Dom, sem lá þar frammi í fyrra.


Ein besta bók sem ég hef lengi lesið: Ef að vetrarnóttu feraðalangur, Italo Calvino

Ég var tortryggin á bókina sem við í bókaklúbbnum settum okkur fyrir að lesa. Mér fannst nafnið fráhrindandi, Ef að vetrarnóttu ferðalangur. Mér fannst líka undarlegt að svo gömul bók (kom út 1979)eftir látinn höfund (f. 1923 d. 1985) skyldi vera að koma út á Íslandi 2015.

Ég hóf lestur af skyldurækni við stöllur mínar en með neikvæðu hugarfari gagnvart bókinni. Best að ljúka þessu af. Það kom því vel á vondan þegar höfundur byrjar bók sína með að ávarpa lesandann beint með fræðandi inngangi um hversu mikilvægt það sé að lesandinn setji sig í réttar stellingar þegar hann hefur lestur á nýrri bók. Og í staðinn fyrir að fara í fýlu við áminningarlesturinn, sá var ég sammála hverju orði og gerði nákvæmlega það sem hann var að segja. Gaf mig alla í lesturinn og gætti þess að athyglin væri á sögunni og engu öðru. 

Reyndar er full þörf á að fylgjast vel með, bókin er engri bók lík og lengi vel áttaði ég mig ekki á því hvert rithöfundurinn var fara með mig. Sagan er skáldskapur um skáldskap, um höfundinn, lesandann og tungumálið og miklu meira. En það er ekki gott að segja frá efni þessarar bókar en ég mæli með henni. Og þá er best gera eins og höfundurinn segir, koma sér vel fyrir, loka hurðinni og hafa öll skilningarvit í gangi. Njóta.

Ég get ekki dæmt um þýðinguna svo vel sé, ég kann ekki ítölsku,nema að þetta er góður texti, svo góður að stundum var eins og maður væri að lesa ljóð. Þýðandinn er Brynja Cortes Andrésdóttir. 

Ég á eftir að lesa þessa bók aftur. 


Sunnudagshugleiðing trúleysingja

Ég man eftir umræðu frá því að ég var barn, um fólk sem var"svo sem ágætis fólk en það borðaði ekki slátur". Mér fannst þetta skrítið. Ekki man ég af hverju þetta barst í tal. Síðar þegar ég var 12 ára gömul, kynntist ég stelpu sem tilheyrði þessu "skrítna fólki", sem ekki borðaði slátur. Við, ég og hún, vorum saman á sundnámskeiði á Fáskrúðsfirði. Í tvær vikur var hún besta vinkona mín. Ég vissi hverra manna hún var en slátur barst aldrei í tal á milli okkar. Mér fannst hún ekkert skrítin og saknaði hennar þegar námskeiðið var á enda. Við vorum úr sitt hvoru byggðarlaginu. Á þessum tíma var samfélagið á Íslandi enn einsleitara en það er nú. 

Síðar (í menntaskóla) voru nemendur með mér í skóla, sem mættu ekki í skólann á laugardögum. Þetta þótti okkur sérviskulegt. Nú er hætt að kenna á laugardögum og það er reyndar ekkert tiltökumál lengur að nemendur sleppi skóla dag og dag. Tímarnir breytast. En eitt hefur þó ekki breyst. Við erum enn jafn óörugg gagnvart trúarsetningum fólks, þ.e.a.s. þegar þær stinga í stúf við okkar eigin.

Ástæðan fyrir því að ég fór að grufla í þessu, er afstaða presta sem vilja ekki gifta samkynhneigt fólk. Þeir túlka trúarbrögð sín á þann veg að samkynheigð sé synd. Það er þeirra trúarsetning. Þetta var í mínum huga fyrst svipað "vandamál" og að sumt fólk borðar ekki slátur, eða svínakjöt.  

Mér finnst, eins og flestum, að við eigum að sýna fólki með siðvenjum ólíkum  okkar umburðarlyndi, svo fremi sem það er ekki að troða á réLttindum annarra. Í fljótu bragði fannst mér að þetta gilti um höfnun prestanna. Þetta væri léttvægt, prestarnir ættu einfaldlega að leysa málið og fá staðgengil.

Þetta var minn misskilningur. Málið er ekki léttvægt. Þarna eru á ferðinni átök innan kirkjunnar. Þjóðkirkjan (hún heitir svo) er ekki búin að gera upp við sig í hvorn fótinn hún á að stíga í mannréttindamálum. Ætti ekki biskup sem höfuð kirkjunnar að láta til sín taka? Í mínum huga væri það nær lagi en að setja lög. Það er ekki hægt að setja lög um samvisku fólks. 

Það skýtur skökku við að ég, guðleysinginn, skuli vera að velta þessu fyrir mér. En ég tilheyri nú þessari þjóð þó ég sé utan Þjóðlirkju. Ég leitast við að láta samvisku mína styðjast við sannfæringu. Það verða trúleysingjar að gera og mér finnst það eðlilegt. Margir halda því fram að trú og sannfæring sé eitt og hið sama.  Ég er því ósammála og gruna hvern þann, sem slíkt segir um hugsanaleti. Í báðum tilvikum, hver svo sem rökstuðningurinn er, er samviskan stjórntæki einstaklingsins. Það sem allt ræðst af. Trúað fólk syndgar, við trúleysingjar gerum mistök. 

Höfnun prestanna á að vinna embættisverk sín er alvarlegt mál, ef þeir hafa með því sært tilfinningar fólks sem til þeirra leitar.  Það ætti að vera á ábyrgð yfirmanns þeirra að bregðast við því.

Þetta mál snýst ekki um svínakjöt, búrkur, slátur eða um tímasetningu hvíldardagsins. 

Þetta er mannréttindamál svo lengi sem rétturinn til að gifta er í höndum trúfélaga og lífsskoðunarhópa. 

Giftum okkur hjá dómara. Ég hef aldrei heyrt um að samviskan veltist fyrir þeim. 

 


Einar Benediktsson allur: Lifir hann enn?

 

image

Það hefur verið stórvirki að skrifa ævisögu Einars Benediktssonar. Hún er í þremur bindum og ekkert þeirra er stutt. Mér finnst það ærið verk að meðtaka þessa sögu og takk Guðjón Friðriksson, þótt seint sé. En ég held að það hafi verið réttur tími fyrir mig að lesa þessa bók einmitt núna. Í ljósi þess sem gerst hefur, finnst mér ég sjá þjóðina mína í nýju ljósi. Sagan um Einar Benediktsson er að vissu leyti saga síns tíma en ég velti fyrir mér hvort eitthvað hafi breyst.

Ég hef aldrei skilið hvernig fólk á þeim tíma gat gert hetju úr úr þessum manni, sem blekkti og sveik vini og vandamenn en þó sérstaklega útlendinga. Og í raun gekk honum ekki annað annað til en að lifa í vellystingum. Og hver haldið þið lesendur góðir hafi borgað reikninginn. Honum var ekki bara fyrirgefið, heldur líka jarðaður á kostnað þjóðarinnar í sérstökum heiðursgrafreit. Hann hafði það að vísu fram yfir svikarana okkar í dag að hann gat ort, það geta þeir ekki. Það geta lögfræðingarnir þeirra ekki heldur svo ég viti.

Þótt undarlegt sé, kveð ég Einar og hans fólk með vissum söknuði. Einar er búinn að vera hluti af lífi mínu svo vikum skiptir og það sem á daga hans dreif var rætt við morgunverðarborðið hér í Álfheimunum til jafns við fréttir dagsins. Ég var meira að segja farin að hafa samúð með kallkvölinni, eftir að hann varð ósjálfbjarga erfitt gamalmenni. Lítill í sér en fullur af hroka og kvenfyrirlitningu. Aumingja Hlín. Hún fékk að vísu jörð til að hokra á. Ef einhver á heiður skilið þá er það Hlín. Gott að það skyldi ekki vera búið að finna upp orðið meðvirkni. Í framhaldi af þeirri hugsun, fór ég að velta fyrir mér hvort hluti að íslenskri þjóð væri haldinn af meðvirkni með glæsilegum þjófum.  

Margt í þessari bók kom mér á óvart. Mér fannst ótrúlegt hversu mikið er til af heimildum varðandi viðskipti Einars og reyndar samskipti hans við fólk í heild sinni. Mér finnst Grænlansmálið merkilegt, sérstaklega með tilliti til hvað stutt er síðan að Íslendingar áttu sér þennan draum um að eignast nýlendu. Reyndar ætlaði Einar að hagnast á því og selja nýlenduna eða leigja hæstbjóðanda um leið og málið væri í höfn. Skemmtilegasta sagan var þó af skáldinu og sýslumanninum, ríðandi í kvensöðli. Einar hafði meitt sig og vildi líklega ýkja meiðslin sér til ávinnings. Þannig hafði ég ekki séð hann fyrir mér þegar ég var að læra Fáka.

Myndin sem fylgir pistlinum er af kvensöðli.  

 

 

 

 


Gamlar konur:Að slá gegn

imageSjálfsagt hafa lesendur mínir tekið eftir því að gamalt fólk á Íslandi hefur verið látið mæta afgangi þegar kemur að kjaramálum. Ellilífeyririnn hækkar ekki í takt laun á vinnumarkaði. Ekki hefur þessi umræða slegið í gegn. Mér liggur við að segja að þessi umræða hafi verið hunsuð.

En ég ætla ekki í þessum pistli að tala um kjarabaráttu öryrkja og aldraðra. Ég ætla líka að segja frá þremur höfundum sem ég hef kynnst í sumar. 

 

Ég hef nefnilega byrjað að hlusta á bækur meðan ég skokka eða hjóla. Ég er að æfa mig. Það er ekki tilviljun að hlustun á bækur hefur aukist hjá mér, það er vegna þess að sjónin hefur daprast. Það var í þessu andrúmslofti fjandsamlegrar þagnar sem ég kynntist þessum útlendu konum.

Fyrst ég kynntist Jane Gardam (fædd 1928).  Hún er breskur rithöfundur og hefur skrifað bækur í mörg ár. En allt í einu slær hún í gegn 2004 með bókinni, Old Filth (skýring: FILTH= failed in London tray Hon Kong). Síðar komu út tvær bækur um sama fólkið og sagt er frá í fyrstu bókinni. Fyrst, The man in the Wooden hat og svo, Last Friends. Í öllum tilvikum kynnumst við gömlu fólki sem rifjar upp líf sitt. Þetta eru fyrrverandi munaðarleysingjar heimsveldisins, Raj orphans, nú gamalmenni fyrrverandi heimsveldis. Börn fólks sem starfaði í nýlendum Breta voru send heim til gamla landsins á heimavistarskóla, barnung. Sögurnar þrjár eru sagðar frá þrem ólíkum sjónarhornum. 

Hin gamla konan (ég ég er enn að lesa hana) er Harper Lee (1926). Eina bókin sem hún hafði skrifað, To kill a Mockingbird kom út 1960. En öllum til mikillar undrunar var tilkynnt 2014, að það væri að koma ný bók, Go Set the Watchman. Þá bók er ég nú að reyna að meðtaka á hlaupum (brandari). Reyndar er ekki alls kostar rétt að bókin sé ný, það hafði fundist gamalt handrit. Meira um þessa bók að loknum lestri.

Mig langar að bæta þriðju konunni við, Edith Wharton (f. 1862 d. 1937) þó hún passi ekki alveg inn í kategóríuna, gamlar konur.  Bækurnar sem ég hef  lesið eftir hana fjalla um gamla tíma, 19. öldina. Sjálf var hún 43 ára þegar bókin The House of Mirth kom út og 58 ára þegar The Age of Innocence kom út. Eftir að hafa lesið þessar bækur dettur mér eingöngu í hug, "af hverju var þetta ekki sagt mér". Og af hverju hafa bækur þessarar konu ekki verið þýddar. Algjörlega sígildar. 

Auðvitað kemur þessi lesning umræðunni um kjör gamla fólksins á Íslandi lítið við nema,  að þegar ég gerði hlé á lestrinum (þ.e. alltaf sem ég er ekki að skokka)  æpir á mig andrúmsloft þöggunar varðandi kjör gamals fólks og öryrkja. Ég velti fyrir mér af hverju öll þessi skrif "gamlingja" og góður rökstuðningur hefur ekki slegið í gegn, náð eyrum stjórnvalda. Nú er ég ekki að tala um bækurnar.

Ég er sjálf gömul kona. Ég get nú fagnað því að gangnagerðarmenn hafa slegið í gegn í Norðfjarðargöngunum (bókstaflega, nú skil ég loksins þetta orðatiltæki). Ég fagna því vissulega,  enda Austfirðingur í hjarta mér. Auðvitað eiga þessi göng eftir að nýtast okkur öllum. 

Eina skýringin sem sem ég get hugsað mér á því, hversu eldra fólk og öryrkjar þurfa stöðugt að hamra á sínum málum, án þess að slá í gegn, er að kannski hefur enginn mátt vera að því að reikna út  hvað það kostar stjórnvöld lítið að bæta kjör þessara hópa. 

 

 

Myndin er af Jane  Gardam 


Náttúran í okkur og við í náttúrunni

Í tilefni imageaf degi náttúrunnar langar mig til að hugsa og skrifa um náttúruna. Mér finnst það svolítið skrýtið, því alla jafna er ég ekki mikið að hugsa um náttúruna, því ég lít svo á að hún sé í okkur, við í henni. Við erum náttúra. Það er talað um að karlar missi náttúruna og það er vont. En það er ekki sú náttúra sem þessi dagur er helgaður. Konur missa ekki náttúruna, a.m.k. er aldrei talað um það. Þær verða kaldar. En auðvitað veit ég hvað er átt við með degi náttúrunnar. 

Og að öllu gamni slepptu er ekki útilokað að kynin hafi ólíka sýn á náttúruna. Ég fór að velta einmitt þessu fyrir mér af því ég er á kafi í að lesa Ævisögu Einars Benediktssonar. Hann er hreinn snillingur í að sækja sér líkingar í náttúruna. Þær eru reyndar margar kaldar og hrjúfar. Karlmannlegar? En það er kannski eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að nefna nafn Einars Benediktssonar á degi helgaðan náttúrunnii. Nafn fossasalans, sem var tilbúinn að pranga með hana og selja hæst bjóðanda. En lesið Öldulíf, dásamlegar líkingar. 

Ekki alls fyrir löngu var ég viðstödd opnun á myndlistarsýningu Arngunnar Ýrar, myndlistarkonu. Hún býr í Ameríku en vinnur hér heima á sumrinn sem leiðsögumaður við að sýna útlendingum Ísland. 

Myndirnar á sýningunni voru nær allar unnar eftir á. Þær voru skínandi bjartar, íslensk fjöll í öllu sínu veldi. Íslensk náttúra. Við opnun sýningarinnar hélt Elísabet Jökulsdóttir ræðu. Þetta var nefnilega ekki bara opnun myndlistarsýningar, þetta var líka útgáfuteiti. Það var að koma út bók, Vitni, um náttúruna þar sem Arngunnur var höfundur mynda en Elísabet var höfundur texta. Í ræðu sinni velti Elísabet fyrir sér sambandi manns og náttúru og hvernig við hugsum um hana í dag. Í orðræðu dýrkum við náttúru en hún getur verið svo margt, t.d. creepy. 

Ég er í augnablikinu mikið að hugsa um að náttúran sé nálægt okkur og hún getur verið hvunndagsleg. Fegurð náttúrunnar er fólgin í því hvernig við hugsum, datt mér í hug fyrir nokkru síðan. Ég var að horfa á drullupoll og fannst hann svo fallegur. Meira að segja trén spegluðu sig i honum.

En til að enginn misskilji mig langar, mig til að segja þetta:

Stöndum vörð um náttúruna og munum að hún er bæði í hinu smáa og hinu stóra. Hún er í okkur, hjá okkur og hún er allur heimurinn.

 

 

 


Hrói og Gói í Þjóðleikhúsinu

Leihúsárið byrjaði hjá mér í fyrradag. Við hjónin erum í áskrift að fjórum sýningum í Þjóðleikhúsinu og í fyrradag var Hrói höttur á fjölunum. Ég vissi að þetta myndu verða Hróiloftfimleikar af því Vesturport var þarna á ferð, en velti fyrir mér hvort áherslan yrði lögð  á ástarsöguna eða á byltingarmennina í skóginum. Svona undirbýr maður sig í huganum fyrir leikhús. 

Strax og ég sá sviðið, leikmyndina, vissi ég að þessi leikhúsferð yrði heppnuð. Rjóðrið í Skírisskógi er undurfagurt og bjartir seiðandi tónar í anda sólargeislanna  sem hríslast milli trjágreinanna lýstu upp rjóðrið og flæddu um sviðið. Sagan af Hróa og félögum var sjálfri sér lík. Það eru til mörg afbrigði af þessari þjóðsögu og líklega er sagan okkar Íslendinga um Höllu og Eyvind, lituð af henni. 

Í þessari útgáfu var ástarsögunni og baráttu hinna góðu fyrir réttlæti þægilega blandað saman. Vonda fólkið alveg hræðilega vont, svo það var var lítið hik á áheyrendum að það ætti hið versta skilið. 

Það var svo margt gott og frábært við þessa sýningu að erfitt er upp að telja. Framsögnin var góð. Þessu tek ég eftir, mér hefur fundist að framsögn hafi hrakað í leikhúsum upp á síðkastið. Svo var ekki hjá Hróa, Mariönnu og félögum. Söngur, tónlist, leikur og hreyfingar mynduðu eina heild svo oft fannst mér ég væri að horfa á dans frekar en leikrit.

Það er einhver sérstakur blær yfir þessari sýningu. Í fyrstu fannst mér hún bera keim af kvikmyndum og myndasögum en fannst þó að það var eitthvað við þá hugmynd sem ekki passaði. Og allt í einu sá ég það.

Þessi Hrói er eins og tölvuleikur. Ég tek það fram að þann heim þekki ég einungis útundan mér í gegnum barnabörnin. Ég hef átt erfitt með að skilja hrifningu þeirra en allt í einu opnaðist fyrir mér að kannski sæju þau eitthvað allt annað en ég, þegar þau sitja við skjáinn. Kannski sjá þau í tölvuleikjunum það sem ég sé núna á sýningu Þjóðleikhússins.

Það var gaman á Hróa hetti, jafnvel þótt Hrói væri e.t.v ekki aðalkallinn. Kvenhetjan er ekki síður öflug. Reyndar má einnig segja að illmennið eigi sér kvenkeppinaut í illmennsku en það er engin önnur en Henríetta, systir Maríönnu. En öflugust er heildin sem skapast á sviðinu, það er hún sem gerir trykkið. 

Áhorfendur skemmtu sér, líka börnin en það voru mörg börn meðal áhorfenda. 

Minn maður í þessu verki var Gói, sem sló svo rækilega í gegn í leikritinu sem Pierre, að ég yrði ekki hissa ef ég frétti að hann hefði nú verið settur yfir í Skírisskógi.

  


Einar Ben: Vandinn við að vera góð manneskja

image

Það skýtur e.t.v. skökku við að vera að lesa bækur Guðjóns Friðrikssonar um Einar Benediktsson núna 15-18  árum eftir að þær komu út. En þegar ég var búin að lesa bækur Edith Wharton um 19. aldar yfirstétt New York borgar, fannst mér ég þurfa að fá eitthvað mótvægi. 

Hugmyndaheimur Einars er í algjörri mótsögn við hugmyndaheiminn sem birtist í bókum Wharton (The Age of Innocence og The House of Mirth). Heimur Wharton þrengir að manni, lífið snýst um hegðun og siðvenjur, hvað má og hvað ekki. Heimur Einars Benediktssonar er víður og þar takast á menn stórra hugmynda, sem ætla að breyta þessum heimi. Þar má allt. 

En, bæta menn stórra hugmynda heiminn? Ég er sjálfsagt ekki ein um, að stundum kemur illa við mig hvað menn stórra hugmyndaleiga það til að vera ósamkvæmir sjálfum sér. Sama gildir um listamenn, ósjálfrátt gerir maður ráð fyrir  að fegurðin og göfgin sem þeir tjá í list sinni speglist í gerðum þeirra. Oft forðast ég í lengstu lög að lesa mér til um persónuna á bak við listina. Var ekki Hamsum, sem skrifaði þessar dásamlegu bækur, nasisti og Þórbergur sem hugsaði háleitari hugsanir en flestir samtímamenn, svo til ófær um að sjá um sig sjálfur? Persónan sem lýst var í kvikmyndinni um Turner var ekki líkleg til að gera undurfagrar og dulúðugar myndir. Þessi dæmi eru gripin af handahófi. Segir ekki sagan að Rousseau hafi látið vista börn sín á munaðarleysingjahæli?

Ég er fegin að þegar ég var látin læra Fáka utanbókar, vissi ég ekkert um skáldið nema að hann var mikill hestamaður. Nú grunar mig að ég hefði ekki fallið kylliflöt fyrir ljóðum hans ef ég hefði vitað hvað hann var ómerkilegur. Mikið er ég búin að vorkenna konu hans og börnum og fólkinu sem treysti honum. En ljóðin bliva og þau svíkja ekki. 

Það sem hrífur mig mest við ljóð Einars, er hvernig hann tekst á við að orða flókin sannindi og tengja saman sem anda og efni. Hann vill koma  þessu í orð og tekst það oft. Skítt með að ég sé ekki sammála honum. Hann segir reyndar hreint út í kvæðinu um Dettifoss að okkur beri að fórna náttúrunni fyrir veraldleg gæði. Sumt er þetta bölvað bögl en svo koma þessar dásamlegu setningar inn á milli. Þá gleymir maður hinu.

Enn er Einar (ég er stödd II. bindi ) aðeins liðlega fertugur og rétt kominn af stað með sínar djörfustu hugmyndir og á mikið eftir óort. 

Niðurstaða. Skáld, listamenn og menn stórra hugmynda eru jafn breiskir og aðrir menn. Það sem villir um fyrir okkur er að ósjálfrátt gerum við meiri kröfur til þeirra og  svo hafa þeir nú oft fleiri tækifæri en við sem teljum okkur venjulegt fólk, til að vera breiskir. 

 

 


Hver á skáldin?

image

Ég er svo heppin (eða óheppin) að ég hef aðgang að Blindrabókasafninu. Undanfarið hef ég verið að hlusta á Ævisögu Einars Benediktssonar eftir Guðjón Friðriksson. Í dag hlustaði ég á bókina  í staðinn fyrir að hlusta á setningu Alþingis meðan ég tók til í eldhúsinu.  Ég er stödd í bindi II. Ég hef lengi komið mér hjá því að lesa þessa bók, líklega vegna þess að ég er svo leið á þjóðsagnapersónunni Einari Benediktssyni, sögunum um glæsimennið og athafnaskáldið, sem fyrstur manna skildi að Íslendingar yrðu að ná í erlent fjármagn ef þeir ætluðu einhverntíma að komast úr moldarkofunum. En ég hef alltaf kunnað meta ljóðin hans. Alveg síðan ég var látin læra Fáka utanbókar. 

Þegar ég var í barnaskóla spurði ég kennarann minn, Birgi Einarsson, hvað skáld væri besta skáld á Íslandi. Birgir svaraði því til, að það væri ekki hægt að svara svona spurningu. Mér fannst það lélegt enda var ég nýbúin að læra um hver væri önnur mesta hetja okkar Íslendinga til forna. Ég gekk því eftir svarinu og spurði hvað honum fyndist sjálfum. Birgir tók sér langan umhugsunarfrest og svaraði svo: Mér finnst Einar Benediktsson bestur. Ég hef alltaf verið Birgi þakklát fyrir að kenna mér strax þá á stundum á samanburður ekki við og enn síður goggunarröð. 

En til baka í bók Guðjóns. Það er frábærlega gaman og spennandi að ferðast með Einari Benediktssyni í gegnum lífið. Þar er sko engin lognmolla. Bókin er ekki síst skemmtileg vegna þess að höfundi tekst að draga upp mynd af aldarhætti. Það gerir hann m.a. með því að draga upp lifandi myndir af samferðafólki hans.

Þegar ég les mér til (en netið er mér ómissandi liður í að njóta bókar) um Einar Benediktsson, sá ég að víða lágu þræðir til hans frá hægri mönnum. Eina ljóðabókin sem ég á eftir Einar, Sýnisbók, er með formála eftir Bjarna Benediktsson (eldri auðvitað). Þetta kemur mér svo sem ekkert á óvart, þannig voru tímar kalda stríðsins. Skáldunum var skipt upp á milli ólíkra fylkinga. Kannski er þetta enn i gidi en skáldin okkar eiga það ekki skilið. 

En ég er enn ekki hálfnuð með bókina og ég veit hvernig hún fer. Þannig eru ævisögur um frægt fólk. Við erum alla bókina að leita skýringa af hverju fór sem fór. 

Ég hef þegar lýst því yfir að ég hef miklar mætur á skáldinu Einari Benediktssyni. En ég hef aldrei verið sannfærðari um mikilvægi þess að rugla ekki saman manni og skáldi. 

En það er vitleysa sem Einar klifar stöðugt á og margir hafa vitnað til: að peningarnir séu afl þeirra hluta sem gera skal og að það eigi að láta peningana vinna til að auðgast. 

Það er fólkið sem vinnur sem skapar auð.


Er fótbolti hættulegur?

Ég held að þjóðin hafi horft of mikið á fótbolta. Ekki kann ég neina aðra skýringu á því að fólk tapar ser í að draga líkingar úr heimi fótboltans inn í umræðu um stjórnmál og lýðræði. Ef fótboltalið  stendur sig illa er þjálfaranum sagt upp og ef flokkur stendur illa í skoðanakönnun er eina ráðið að segja upp formanninum. 

Frá mínum bæjardyrum séð leiðir þessi líking villur vega.

Fótbolti fylgir sýnum lögmálum, reglum og ég veit ekki hvort það sé hægt að tala um að þær séu ólíkar þeim reglum sem við höfum sett okkur um lýðræðislega pólitík. Á fótboltavellinum keppast liðin um að vinna boltann til að skora mörk. Óháður dómari gætir þess að farið sé að reglum. 

Í pólitík velur þjóðin sér lið á fjögurra ára fresti til að vera með marga bolta á lofti. Þetta lið fær síðan að vera eitt inn á vellinum og skora eins mörg mörk og það hefur getu til. Því fleiri því betra. Eða hvað? Það er enginn utanaðkomandi dómari, nema ef til vill þjóðin sjálf í kosningum. Stjórnarandstaðan er ekki til að koma í veg fyrir markaskorun. Í því liggur villan sem þessi líking leiðir til. 

En samlíkingar ganga nú oftast ekki upp.

Ég veit að ég er hér að hættusvæði. Ríki karlmannanna í sófunum þar sem þeim líður svo undur- vel. Enda eru það fyrst og fremst þeir sem fá að stýra umræðunni þegar kemur að því lýsa og draga ályktanir af því sem er að gerast á stjórnmálavellinum. 

Stjórnmál snúast um markmið en ekki markaskorun.

 


Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Sept. 2015
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 187114

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 64
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband