Hanaat skilja allir en hvað með hestaat?

Í gær varð ég áheyrandi að samtali stúlkna sem sátu við næsta borð við mig á einskonar kaffihúsi (ég segi viljandi ekki hvar). Þær voru báðar að vinna í tölvum jafnframt spjallinu.  Önnur þeirra var greinilega að reyna að koma saman texta um atburð sem hún vildi auglýsa eða láta vita um. Hún segir við vinkonu sína:,,Ég vildi að ég gæti skrifað þetta á ensku, það er svo létt, það er miklu auðveldara að vera catchy á ensku."

Mér var hugsað til stúlkunnar í dag, þegar ég enn og aftur las um það í Fréttablaðinu að fólk ætlaði að leiða saman hesta sína. Þarna var þó augljóslega átt við fólk sem ætlaði að fara að vinna saman, ekki keppa. Eins og það er oft smellið og myndrænt að nota orðatiltæki, er það klaufalegt og vandræðalegt að nota þau rangt.

Kennarinn í mér fór af stað og velti fyrir sér hvernig mætti kenna fólki betur að tala og skrifa íslensku. Grípandi íslensku, vera catchy. Í staðinn fyrir að benda því á að lesa hinn frábæra kafla í Njálu um þegar Gunnar Hámundarson og Starkaður Barkarson leiddu saman hesta sína, mætti einfaldlega segja þeim, að leiða saman hesta sína er nokkurs konar hanaat, með hestum. Hanaat skilja allir og hafa jafnvel séð það í bíó eða í sjónvarpinu.

Grínlaust. Það er einhver misskilningur í gangi. Það er ekki léttara að skrifa ensku en íslensku, maður þarf bara að kunna málið og geta leikið sér með það. Tengt það eigin tilfinningum.

Að leiða saman hesta sína þýðir að etja saman tveimur graðhestum  og láta þá berjast. Það þýðir ekki að ríða út saman eða spenna tvo hesta fyrir eyki. Þessari skemmtan er afar vel lýst í LIX. kafla Njálu, mjög catchy. Það mætti jafnvel sýna stubb með hanaatssenu.( Nú er eins og mig rámi í að Hrafn Gunnlaugsson hafi gert eða ætlað að kvikmynda hestaat. Man það þó ekki. 

Ég er ekki að skrifa þetta hér, af því ég haldi að vígi íslenskunnar standi eða falli með því hvort fólk kunni að nota akkúrat þessa líkingu. Þaðan af síður til að hneykslast á stúlkunni sem langaði til að tjá sig frekar á ensku. Það sem fyrir mér vakir er, að höfða til annarra og biðja þá um að skoða með mér hvernig við gætum lyft fram íslenskunni, gert hana meira spennandi. Læra að nota hana hér og nú og miðla því maður vill miðla. Það er ekki við ungt fólk að sakast og ekki heldur bara skólana og kennarana. Hér er að verki samfélagið í heild sinni. 

Að lokum þetta. Maður þarf að vera skratti góður í tungumáli til að það þjóni manni eins vel og móðurmálið. Allt annað er blekking.


Egill Skallagrímsson allur

image

Hef rennt í gegnum Egilssögu en fjölmargt er þó enn ekki fullrannsakað af minni hálfu. Fljótlega eftir að ég hóf lesturinn festist ég við spurninguna:Hvað gekk höfundinum eiginlega til? Í fyrstu datt mér í hug, að hann hefði verið trúaður maður og að hann hefði viljað skapa persónu sem væri öðrum víti til varnaðar, fulltrúa dauðasyndanna sjö. Sú kenning gekk upp nema hvað varðaði munúðina. En kannski hefur mér yfirsést. 

Stundum fannst mér höfundurinn væri fyrst og fremst að skemmta sjálfum sér, frásögnin er oft grótesk. Það er ekki beinlínis hetjulegt að æla yfir fólk, krækja út augun eða bíta það á háls. 

Það er sjálfsagt heldur engin tilviljun að réttlætismál Egils,að heimta arf konu sinnar stangast alveg á við ,,réttlætismál" Þórólfs föðurbróður hans að hindra Hildíriðarsyni að frá að fá arfahlut móður sinnar. En í báðum tilvikum var spurning um hvort hjónabandið væri ekta en konurnar höfðu verið brottnumdar án vilja föður. 

Bygging Egissögu er óvenjuleg. Hún rís hæst í byrjun og lesandinn, þ.e.a.s. ég trúi því alveg að voldugir höfðingjar hafi tekist á. Landnámskaflinn er af sama toga. Enn eru höfðingjar á ferð. Kaflinn sem segir frá því þegar þeir bræður, Þórólfur og Egill börðust með Aðalsteini konungi er eins og sjálfstæð saga og mig langaði mest til að hætta lestri Egilssögu og einhenda mér í að lesa um Englandskonunga og stríðssrekstur á miðöldum.

Eftir dvöl Egils á enskri grund dalar sagan. Eftir þetta kom Egill mér fyrir sjónir sem  ævintýramaður á flækingi ef  undan er skilinn skáldskapurinn og hann hef ég ekki enn skoðað nægilega. Ég er ekki læs á dróttkvæði og jafnvel með hjálp skýringanna í fornritaútgáfunni, veitist mér það erfitt. Líklega væri best að lesa Egilssögu á sænsku, þá eru vísurnar mun léttari.

Síðasti hluti sögunnar, þar sem segir frá Agli eftir að hann er hættur siglingum, er furðulegur. Á sænsku myndi maður segja að hann væri påklistrad, klínt við. Þar segir frá Þorsteini syninum, sem Egill elskar lítt. Reyndar er rætt um að hann hafi verið mannasættir og elskur að móður sinni. En það sem á eftir fer ber ekki vott um að hér sé dáðadrengur  á ferð. Hann leggst lágt þegar hann stelst til að nota spariföt pabba síns á Þingvöllunum og það er lítið hetjulegt eða drengilegt við að drepa þræla. Honum er ekki einu sinni treystandi fyrir eigin syni.

Það er mörg matarholan í þessari bók. Ég á eftir að kryfja hana betur. En höfundurinn kann svo sannarlega að enda sögu. Enn spyr fólk sjálft sig, hvað gerðist. 

 


Samtal Davíðs og Geirs er eins og hákarl og vín.

Það er sagt um hákarl og gamalt vín að það batni með árunum. Ég veit ekki hvort þetta er rétt. Mér hefur aldrei auðnast að sannreyna þessa kenningu, hvað varðar vínið. Gamalt eðalvín er ekki í verðflokki, sem hentar mér. En ég hef aftur á móti borðað vel þroskaðan hákarl. 

Þegar ég var að alast upp austur í Breiðdal á sjötta áratugnum, fékk móðir mín fékk sendan hákarl frá Stefáni frænda okkar í Vestmannaeyjum. Eftir að Stefán hafði sent okkur hákarlinn, skall á verkfall og sendingin tafðist. Þegar hákarlinn loksins kom var hann svo þroskaður að það mátti borða hann með skeið. Lyktin var kæfandi.

Ég er ein af þeim sem bíð spennt eftir birtingu símtalsins fræga. Mér finnst vera ólykt af því nú þegar og alveg kominn tími á að framreiða það.


Vonarlandið: Kristín Steinsdóttir skrifar um verkafólk á 19 öld

 

image

Mér fannst gaman að lesa Vonarlandið. Er áhugamaður um söguna og hef oft ergt mig á því að sagan fjallar oftast um valdamikla karmenn ,sem, sem búa við góð efni. Annað fólk sem slæðist inn í frásagnirnar eru brotamenn og um kynlega kvisti (oftast sögur sagðar þeim ti háðungar og til að skemmta fóki). Það gladdi mig mikið þegar ég frétti af því að Kristín ætlaði að hafa endaskipti á hlutunum og skrifa um bók um aðþýðufólk með þvottakonur í forgrunni. Mér fannst þetta djarft og hóf lesturinn örlítið kvíðin. Tekst henni?

Nú hef ég lokið lestrinum. Bókin Vonarlandið fjallar um konur sem eru orðnar uppgefnar á vinnumennsku, og vilja vera sjálfra sín. Þær fara til Reykjavíkur og snapa vinnu við það sem þá var í boði fyrir konur. Um miðja 19. öld var ekki margt en undantekningalaust erfitt. Vinna við saltfiskverkun, kolaburður, vatnsburður og þvottar. Aðalpersóna þessarar sögu, Guðfinna reynir allt þetta en vinnur mest við þvotta. Við kynnumst vinkonum hennar og fólkinu í kringum hana. Þetta er fólk með vonir og drauma. Það hefur skoðanir og gerir að gamni sínu, rétt eins og við. Og gerir mistök. Því þetta eru lifandi manneskjur en ekki andlitslaus alþýða í kringum höfðingjana eins og svo oft er. Og svo er hægt að velta fyrir sér hvað er mistök, svona eftir á að hyggja.

Þetta er saga um örbirgð og stéttamun. Og glæp. Það verður til spenna. Um það ætla ég ekki að fjalla hér, það eiga kannski einhverjir eftir að lesa þessa bók.  Mér fannst hún fjalla um fólk af holdi og blóði og mér fannst eins og það hafi verið þarna. Þó veit ég ekkert um hvort bókin sé alltaf sögulega korrekt.

Ég er Kristínu þakklát fyrir að hafa fært mér þetta fólk. Konurnar í bókinni eru á aldur við langömmur mínar, Jóhönnu, Rósu, Kristborgu og Málfríði. Allt konur sem eru ekki eldri en svo að fólk sem ég þekkti, þekkti þær. Við vitum þó skammarlega lítið um fortíðina. 

Þannig týnist tíminn.

 

 


Í endurnýjun lífdaganna

image

Þetta er búinn að vera góður dagur. Ég hugsaði um það meðan ég var að skokka. Var að hugsa um að hætta við því Veðurstofan sagði að það væri 6 stiga frost. En dreif mig. Veðrið var dásamlegt, sól og mjúkur andblær. 

Hugsaði um hvað lífið er dásamlegt. Ekki hefði mig órað fyrir að það opnuðust fyrir mér nýjar víddir við að hætta launavinnu og fara á eftirlaun. Mér fannst vinnan mín óendanlega skemmtileg og mikilvæg og hafði kannski velt svo mikið fyrir mér hvað gerist við starfslok. Hafði séð fyrir mér konu sem tæki svolítið betur til, snerist í kringum barnabörnin, læsi svolítið. Prjónaði og hekklaði.

Skömmu fyrir starfslok hafði ég slysast til að byrja að stunda Yoga. Ég hafði í raun fordóma gagnvart yogafólkinu, trúði ekki á það en sló til að prófa, fyrir áeggjan vinkonu. Ég ánetjaðist. Nú er yoga mikilvægur þáttur í lífi mínu. Það virkar. Fjórir tímar á viku og svo bætist hugleiðslan við. Hvar endar þetta? Og svo bætast hlaupin við. 

Og ég sem ætlaði að gera svo margt eftir starfslok, eg má næstum ekki vera að því að sinna heimilishaldinu. Og svo les ég nýjar bækur og gamlar bækur, sem þarf að lesa betur.

Veðrið var gott og það er svo léttir að því að vera laus við hálkuna. 7 km, bara fínt.

Og svo hreifst ég af ræðu Ómars í sjónvarpinu í kvöld. Hann er vel að verðlaununum kominn. 

Er ekki hægt að tala um endurnýjun lífdaganna?

 

 

 

 


Óskalistinn: Það sem er dýrmætast í lífinu fæst ekki fyrir peninga

image

Til að henda reiður á veruleikanum þurfum við stöðugt að vera að flokka og raða. Taka til. Þegar ég hóf lestur á bókinni Óskalistinn (Grégoire Delacourt), gekk ég út frá því að hún félli í flokkinn ,,vinsældaskáldsaga",  að hún væri ein af þessum smellnu erlendu skáldsögum sem maður les meðan þær eru í umræðunni og af því þær hafa selst vel í útlöndum. Að vissu leyti er þetta rétt hvað varðar bókina Óskalistinn, hún var vinsæl og hún var vinsæl í útlandinu og hún virðist vera skáldsaga. Kem að því síðar.

Bókin fjallar um lífsuppgjör 47 ára konu í franskri borg. Að vissu leyti virðast aðstæður hennar vera góðar, hún býr við þokkaleg kjör, rekur handavinnubúð og á mann í öruggri vinnu. Börnin tvö eru flutt að heiman og hún er komin í gegnum erfið ár sem hún átti eftir barnsmissi og erfiðleika í hjónabandi. Hún lifir við ást og öryggi en finnur samt fyrir nagandi óánægju innra með sér þegar hún rifjar upp draumana um væntingar sínar í lífinu. 

Bókin er sögð í fyrstu persónu. Konan Jocelyne opnar hug sinn um sína innstu drauma um leið og hún afhjúpar líf sitt fyrir lesandanum og að því er virðist að vissu leyti fyrir sjálfri sér í leiðinni. Hún hefur oft átt í erfiðleikum við að horfast í augu við lífið en þegar hún er að segja frá því opnast smám saman fyrir henni nýr skilningur. 

Vinkonur hennar tvær (tvíburarnir) hafa lengi reynt að fá hana með sér í að spila í happdrætti. Loks eftir að hún hefur keypt sér miða, fer hún að velta fyrir sér hvað hún myndi kaupa sér, ef hún fengi vinning. Hún fór að búa sér til óskalista. Þannig er nafn bókarinnar tilkomið. 

Satt best að segja leiddist mér bókin framan af og hefði trúlega ekki lokið við hana nema af því ég er að lesa hana fyrir bókaklúbbinn. Mér fannst hún grunn og draumar þessarar konu um lífshamingju fremur ómerkilegir. Þqeir gengu einkum út á útlit, holdafar og fegurð. En í heimi Jocelyne virðist holdafar og fegurð tengjast órjúfandi böndum. Ég átti sem sagt erfitt með að spegla mig í lífi Jocelyne. Það var ekki fyrr en hún fór að búa sér til óskalistann sem ég samsamaði mig við þessa konu. Það rann upp fyrir mér ljós, ég hafði verið með bókina í vitlausum flokki. Þetta er ekki venjuleg skáldsaga heldur sjálfshjálparbók. Eftir þetta las ég bókina mér til ánægju. Svona getur flokkun komið að gagni. 

Vandi Jocelyne var var þess eðlis að han var ekki ekki leysanlegur með því sem því sem fæst fyrir peninga. Hann var djúpstæðari. Hún hafði misst móður sína ung og þurft að takast á við lífið án stuðnings. Faðir hennar veiktst líka svo hún varð ein og  sjálf að takast að fullorðnast. Ég fann til samúðar með Jocelyne. Mér fannst gaman að lesa vonlausa óskalista þessarar konu. Bókin er kunnáttusamlega skrifuð en satt best að segja skiluðu fjölmargar vísanir í franska menningu sér ekki til mín enda er ég skammarlega illa að mér á því sviði, þrátt fyrir hetjulegar tilraunir frönkukennara míns í MA fyrir margt löngu. 

Niðurstaða. Mér fannst þetta ekki skemmtileg bók en varð sáttari við hana eftir að ég áttaði mig á að hún var sjálfshjálparbók. Hún á eflaust erindi til sumra. Ég er bara orðin of gömul fyrir sjálfshjálparbækur og hef reyndar alltaf efast um hvort þær séu hjálplegar. 


Honum var margt til lista lagt. Minningarorð um Sigurð V. Kristinsson

 

 image

Síðast liðinn laugardag fylgdi ég mági mínum,  Sigurði V. Kristinssyni til grafar. Hann var jarðsettur í Eydalakirkjugarði. Mig langar til að minnast hans með fáum orðum en það er vandi að minnast nákominna, það er svo margs að minnast.

Sissi eins og Sigurður var kallaður, var fæddur á Djúpavogi (1936) en hann sleit barnsskónum í Merki. Merki stóð innan við bæinn og var einn af bæjunum í Hálsþorpinu, sem þá var. Foreldrar hans voru Sigurborg Sigurðardóttir og Kristinn Jóhannsson. Systkinin í Merki voru fimm. Þau sóttu skóla á Djúpavog, gengu fram og til baka, hvernig sem viðraði. Sissi lauk þar barnaprófi en ekki varð skólaganga hans lengri, ef undan er skilið námskeið hjá Söngmálaskóla  þjóðkirkjunnar. Það gerði hann reyndar eftir að hann hafi um nokkuð skeið sinn starfi orgelleikara í Djúpavogskirkju. Kennarinn í mér veltir stöðugt fyrir sér hvernig fólk læri og menntist. Barnaskóli Djúpavogs hefur greinilega verið góður skóli, a.m.k. nýttist námið úr þeim skóla Sissa vel. Allt sem hann átti eftir að taka sér fyrir hendur á lífsleiðinni fórst honum vel úr hendi.

Trúlega gera fæstir sér grein fyrir hversu stutt er síðan tæknin nam land á Íslandi. Þegar Sissi var að alast upp í Merki var þar ekki sími og ekkert vélknúið farartæki. En tæknivæðingin var á leiðinni og Sissi var einn þeirra manna sem greiddi henni leið. Hann hafði ótrúlegt næmi til að setja sig inn í og skilja flókna hluti. Til hans var leitað með uppsetningu nýrrar tækni og ef eitthvað bilaði, var ekki síður gott að leita til hans til að koma því í lag.

Ég kynntist Sissa fyrst eftir að þau Ásdís systir mín og hann höfðu ákveðið að eigast. Hún var þá ráðskona hjá vegagerðinni og hann var ýtumaður. Mér leist strax vel á unga manninn sem systir mín kynnti fyrir mér í vegavinnubúðunum við Berufjörðinn 1959 og ég átti eftir að sannreyna það.

Ásdís og Sissi bjuggu fyrstu búskaparár sín í Borgargarði á Djúpavogi. Hún vann sem ljósmóðir, hann sá um nýstofnaða mjólkurstöð kaupfélagsins. Á Djúpavogi eignuðust þau drengina sína tvo, Hlíðar og Arnald. Það var í mörgu að snúast, hjónin bæði í krefjandi starfi og ekki gerði það lífið léttara að eldri sonurinn var fatlaður frá fæðingu og þurfti meiri umönnun en önnur börn. Ég bjó oft hjá þeim á þessum tíma og komst nú að því að ýtumaðurinn var ekki síður laginn við að annast börn en að byggja upp vegi. 

Síðar fluttust þau búferlum í Breiðdal og hófu búskap á Hlíðarenda en foreldrar mínir bjuggu þá enn í Þrastahlíð sem stendur í sama túni og er byggt út úr Hlíðarenda. Vélamaðurinn og tónlistarmaðurinn Sissi var nú orðinn bóndi. Kunnáttu hans á tæknisviðinu kom sér vel í búskapnum en það var lítill tími til að sinna gömlum draumum því, ef þú réttir búskap einn fingur, tekur hann alla höndina. Ásdís vann á þessum tíma einnig að hluta til utan heimilis, nú í tengslum við heilsugæsluna á Breiðdalsvík. 

Fljótlega eftir að Ásdís og Sissi hófu búskap í Breiðdal var leitað til þeirra um að taka börn í sveitadvöl. Þessi börn áttu eftir að vera mörg. Sum komu í gegnum opinbera aðila en önnur í gegnum vinatengsl. Þau voru á ólíkum aldri og dvöldu mislengi, sum líka vetrarlangt. Á sama tíma voru börnin mín hjá afa sínum og ömmu í Þrastahlíð, en það var mikill samgangur milli bæjanna. Í lífi allra þessara barna var samvera og samstarf við Sissa hluti af æsku þeirra. Hann var góð fyrirmynd. 

Honum var margt til lista lagt, ekki bara tækninörd (orðið var ekki til þegar hann var upp á sitt besta) heldur hafði hann gott eyra fyrir tónlist og lagði rækt við þann eiginleika um nokkurt skeið. Þegar sjónvarpsútsendingar hófust náði geislinn frá Gagnheiði ekki til Hlíðarenda. Sissi leysti sjálfur málið með því að reisa móttökudisk fyrir ofan bæ og leiða geislann heim í stofu. Þegar tölvur hófu innrás sína opnaðist Sissa nýr heimur. Hann greip þessa tækni feginshendi og gat fljótlega leiðbeint öðrum um nýtingu hennar. Seinna þegar þau hjón hófu búskap varð hann bóndi með áhuga á ræktun og uppbyggingu. Enn síðar eftir að þau höfðu brugðið búi, tóku þau upp á því að byggja upp lítið ferðaþjónustufyrirtæki með heimagistingu og sumrhúsum. Enn koma í ljós ótrúlegir styrkleikar Sissa, hann gat bjargað sér á tungumálum sem enginn vissi til að hann hefði lært. Líklega hefur hann lært það sem hann kunni í gegnum tónlistina og með því að lesa upplýsingar með tækjum sem hann lagaði eða setti upp. Hann hélt líka utan um Bókhaldi fyrirtækisins og sagði mér stoltur frá því í síðasta skipti sem ég hitti hann, í lok janúrar, að hann hefði lokið við skattaskýrslu fyrirtækisins. Þá hafði hann legið rúmfastur síðan í október. 

Þegar ég skrifa þessi fátæklegu orð, finn ég til mikils þakklætis. Ósjálfrátt fer ég að hugsa um, að það er rangt sem haldið er fram í máltækinu: Það kemur maður í manns stað.

Það kemur bara nýtt fólk, allir eru ólíkir en ég mun aldrei hitta neinn sem líkist Sissa. 

 


Stríðin okkar: Strákarnir okkar

Í mínum friðsama heimi gerist fátt fréttnæmt. Það er gott. Ég dvel um þessar mundir í hinni fögru sveit, Breiðdal, þar sem fjöllin eru tignarleg en þó laus við hroka. Lestri Egilssögu miðar hægt. Ég skildi við bræðurna, Þórólf og Egil á Vínheiði. Mér fannst erfitt að átta mig á því, hvað þeir voru að gera þarna. Efast reyndar um að þeir hafi vitað það almennilega sjálfir. Þórólfur er fallinn.

Við lesturinn var ég var undir sterkum áhrifum frá íslenkum íþróttafréttum. Frásögnina af baráttunni á heiðinni rann saman við baráttuna í Quatar. En þar, í íþrottaféttum (og HM stofu) er stöðugt verið að segja fréttir af íslenskum köppum sem eru í þessu eða hinu liðinu og stýra jafnvel liði. Þá á  maður að standa með liðinu sem Íslendingurinn er í eða stýrir. Þórólfur og Egill voru í liði með Aðalsteini. Þess vegna stend ég með honum, þó ég hefði miklu heldur kosið að standa með Ólafi Skotakonungi sem mér finnst skemmtilegri og glæsilegri. 

Í haust var ég í Berlín. Þar fór ég  á áhrifamikla sýningu frá tímum Víkinga. Það var mikið verk lagt í að gera fróðleiks um víkingatimana sem aðgengilegastan, stórt víkingaskip lá við festar fyrir miðju sýningarinnar og þar á bakkanum talaði Haraldur blátönn beint til gesta (kvikmynd). Út frá þessu miðsvæði lá fjöldi sala þar sem lýst var ýmsu háttalagi víkinga og hvað hlaust af  þessum lífsstil. Vopnin voru þung og fyrirferðarmikil, sömuleiðis fatnaðurinn.

Þessum vopnum er vel lýst í frásögninni af orrustunni á Vínheiði. Og þetta hafa þeir þurft að dragast með. Aumingja kallarnir. Það er munur hjá köppumum núna að vera í bol og stuttbuxum og með handbolta en ekki brynþvöru eins og Þórólfur. 

Í mínum friðsama dal fóðra ég hrafnana, hér þykir það góður siður og mér var kennt að hrafninn launi fyrir sig. Þegar Egill kveður um það, að fóðra hrafnana er merkingin önnur.

Frakkar unnu heimsmeitarakeppnina í handbolta. Við áttum engan mann í þeirra liði, reyndar ekki i liði Qatar heldur. Ég stóð samt með Frökkum. Ætli við hefðum staðið með Qatar ef við hefðum átt mann þar?

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Feb. 2015
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 187190

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband