Ég hef samúð með Bjarti

 

imageÉg hef samúð með Bjarti á Sumarhúsum og finnst honum oft gert rangt til. Hann var eignalaus maður og langaði til að vera sjálfs sín. Honum býðst kot inni á heiðinni og hann ætlar að standa þar á eigin fótum og sjá fyrir fjölskyldu. Hverra kosta átti hann völ? Í ljósi tímas sem hann lifði á, var ekki margt sem honum stóð til boða. Hann gæti verið áfram vinnumaður eða farið á mölina, eins og það var kallað. Reyndar er fullsnemmt að tala um mölina á tímum Bjarts, þar var litla vinnu að hafa. Og skyldi honum hafa vegnað betur annars staðar en á Sumarhúsum? 

Lífið var erfitt þar, hann missir börn og hann missir tvær konur. Bjarti er lýst sem þumbara með litla innsýn í þarfir annarra en það kemur hvergi fram að hann sé ofbeldismaður,vondur maður.

En skyldi honum og fjölskyldu hans hafa vegnað betur annars staðar? Glæpur Bjart er að vilja vera sjálfstæður maður og eiga fjölskyldu. Kjör eignalauss fólk voru ekki glæsileg á tímum Bjarts og enn á eignalaust fólk í basli.

Líklega er ég ekki hlutlaus í máli Bjarts, ég finn til skyldleika við hann. Þannig er að afi minn Snjólfur Stefánsson og amma mín Ásdís Sigurðardóttir gerðu það sama og Bjartur og Rósa. Þau fengu til ábúðar lítið afskekkt kot og byggðu sér þar bæ. Þetta kot hét Veturhús. Þar eignuðust þau sex börn sem öll komust upp. Móðir mín sá alltaf lífið á Veturhúsu í hillingum og lýsti Veturhusum sem Paradís á jörðu. En hún sagði aldrei að það hefði berið auðvelt. 

Þessar hugleiðingar mínar um Bjart eru ekki nýjar en þær lifnuðu við þegar ég var að horfa á Sjálfstætt fólk í leikhúsinu á sunnudaginn. Mér fannst gaman og mér fannst þetta merkileg uppfærsla. Hún var pólitísk og vísar beint inn í okkar samtíð. Í staðinn fyrir einangrunina sem víðáttan og veðráttan skapaði, er einangrun fólksins sýnd með því að láta söguna gerast inn í ,,bunker' einhvers konar byrgi. Einu efasemdirnar sem ég hafði um uppfærsluna var hvort hún skilaði sér til þeirra sem ekki kunna þessa sögu. En ég vona það. Ég var þakklát leikstjóra og leikkonum fyrir túlkun þeirra á konum Bjarts. Sagan fjallar ekki sérlega mikið um þær og ég var satt best að segja búin að gleyma þvi hvað seinni konan hét. 

Þetta er ekki ritdómur heldur hugleiðing sem kviknaði á leiksyningu. Eiginlega er þetta samanburður á búskap Bjarts í Sumarhúsum og Smjólfs á Veturhúsum sem auðvitað er út í hött því Bjatur var skáldskaparpersona en það var hann Snjólfur afi minn ekki.

Myndinni sem fylgir greininni hnuplaði ég úr grein eftir Leó Kristjánsson um rannsóknir vísindamannsins George Walkers og fleiri. Hún er tekin 1964. Afi og amma fluttu frá Veturhúsum 1946 svo það er greinilegt að bæjarhúsin hafa staðið sig vel. 


Nýr heilsudrykkur sem á eftir að slá í gegn

imageMér var gefið afar gagnlegt og lipurt heimilistæki í jólagjöf. Þetta er blandari til þess ætlaður að búa sér til nærandi og holla drykki. Ég hef verið að þróa ýmsa en nú tel ég að mér hafi tekist að gera drykk sem mun slá í gegn á heimilinu. 

Í honum er:

Hálfur banani

Hálf lárpera 

Hálft epli

Læmsafi

                       Afgangur af ávaxtasafa mogunins

                                         Skvetta af rjóma

                                         Lögg af kók

Þessu er öllu blandað saman í hæfilega þykkan drykk. Lárperan og rjóminn gera drykkinn mjúkan eins og smjör. Það sem mér þótti þó best var að finna út hvernig má nýta kóklöggina sem kókdrykkjufólk skilur stöðugt eftir neðan í kókflöskunum. Þessi ódrukkni dreitill fer mikið í taugarnar á mér sem drekk ekki kók og er jafnframt staðfastlega á móti matvælasóun.  Þessi lögg hentar vel til að sæta drykkinn og mér finnst kókbragðið ekki ógeðfellt þegar það er komið í þennan félagsskap. 

Sjálfsagt er einnig hægt að gera sér óholla drykki með þessu tæki en ég hef enn ekki reynt það.

 


Jólin byrja á bókmenntakynningu hjá MFÍ K

 Í mínum huga hefst undirbúningur jólanna á bókmenntakynningu hjá MFÍK. Þannig hefur þetta verið í mörg ár. Það er því orðin hefð, jólahefð. Rithöfundaflokkurinn í ár var fjölbreyttur. Og skemmtilegur. Höfundarnir
í ár vor:

Kristín Steinsdóttir með Vonarlandið

Úlfhildur Dagsdóttit með Myndasagan

Elísabet Jökulsdóttir með Enginn dans við Ufsaklett

Margrét Marteinsdóttir og Rakel Garðarsdóttir með Vakandi veröld - ástaróður

Guðrún Hannesdóttir með Slitur úr orðabók fugla

Ármann Jakobsson með Síðasti galdrameistarinn

Olga Makelova með Ljóð, birt og óbirt

Það er alveg ótrúlegt hversu miklu skáldin gátu komið til skila á þeim nauma tíma sem þeim var gefinn. Mig langar til að lesa allar þessar bækur og mun gera það. 

Ég vil ekki og get ekki gert upp á milli bókanna sem kynntar voru og þarf þess ekki, því þær voru svo ólíkar. Ég get þó ekki stillt mig um að tala um ljóðin.

Guðrún Hannesdóttir yrkir lágstemmd ljóð en þau eru oft hvöss og nístandi. Þannig eiga ljóð að vera.

Ljóðin hennar Elísabetar voru um nöturlegt tilhugalíf og  við ofbeldismanns.  Það sem gerði þau enn sorglegri var þó að allur salurinn hló þegar nöturleikinn var hvað mestur. 

En ég hef lesið ljóð eftir báðar þessar skáldkonur svo þær komu mér ekki á óvart. Það gerði aftur á móti skáldið Olga Makelova sem er frá Moskvu. Það var gaman að hlusta á hvernig hún gat hugsað sér öðru vísi bernsku, nokkrar tegundir út frá íslenskum veruleika og smellin ljóð hennar ort beint inn í íslenska ljóðahefð. 

En það var samt umgjörðin sem MFÍK konur sköpuðu sem gerðu þetta allt svo notalegt. Og magnað. Nú mega jólin fara að nálgast mín vegna.

 


Veggirnir líta til með þér

image

Ekki veit ég hvort veggirnir hafa eyru en hitt veit ég, að þeir hafa andlit. Í nokkur ár hef ég setið yfir í prófum í Háskóla Íslands. Þetta er árvisst, ef það er hægt að komast þannig að orði um það sem á sér stað tvisvar á ári. Nú eru jólapróf og það er spenna í loftinu. Þetta er skemmtileg vinna sem ger


ir manni gott. Það felst hollusta í því að umgangast ungt fólk, ég tala nú ekki um þegar maður nær að vera með því á mikilvægum augnablikum í lífinu. Og próf eru mikilvæg augnablik í lífinu. 
Þegar ég lít yfir stofuna eftir að allir eru komnir að vinnu fæ ég einhvers konar dèjá vu tilfinningu. Þetta minnir eitt augnablik á rósemdina í fjárhúsunum þegar búið var að gefa á garðann, ærnar höfðu raðað sér að jötunni. Ekkert heyrðist nema maulið í kindunum sem tuggðu tugguna sína.

Í dag hef ég verið í tveimur byggingum, Lögbergi og Öskju. Þegar ég er ekki að horfa á nemendurna horfi ég á veggina. Þeir tala til mín og ég hlusta. Í Lögbergi eru tvær myndir í prófstofunni. Önnur er í björtum litum, hin í dimmum. Sú bjarta er af hóp vopnaðra manna, en á milli þeirra gengur ungt glæsimenni með þríhyrndar hatt. Ég veit ekki hvort hermennirnir eru að gæta hans eða taka hann fastan. Mér dettur strax í hug Jörundur konungur okkar Íslendinga sem kenndur er við hundadaga. Á hinni myndinni, þeirri myrku, er hópur þrekvaxinna karla. Fyrir miðju er gráhærður öldungur og hann er sá eini sem situr. Einn í hópnum les af blaði. Það er drungaleg stemmning, líklega er þetta fundur, Kópavogsfundurinn? Ég veit ekkert um þessar myndir, allt sem ég segi um þær eru getgátur. Þær eru merktar S. A. Ég held að þær séu eftir Snorra Arinbjarnar, það er líka getgáta.

Veggirnir í Lögbergi eru líka serstakir, myndverk á sinn hátt. Steyptu burðarveggirnir eru eins og þeir hafi verið steyptir í bárujárnsmóti. Steypan er látin halda sér eins og hún kemur úr mótinu, hún er gróf og það stirnir á svarta steinmylsnu. Þessir veggir setja svip á bygginguna úti og inni. 

Ég veit ekki hvort nemendurnir höfðu nokkurn áhuga á veggjunum og ég hef heldur ekki hugmynd um hvernig þeim gekk. Vona að þeim hafi gengið vel. Vona alltaf að þeim gangi vel.

Þessir nemendur voru ekki tilvonandi lögfræðingar heldur í allt öðru fagi. Kannski voru þeir í fyrsta skipti í þessari stofu eins og ég. Ef þetta hefðu verið lögfræðingaefni hefði ég getað spurt þá um myndirnar og veggina.

 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Des. 2014
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 187116

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband