Lífið að leysa: Alice Munro

Ég hafði heyrt um þessa konu löngu áður en til stóð að orða hana við Nóbelsverðlaunin. Ég á nefnilega góða að þegar kemur að kanadískum bókmenntum. En ég hafði ekki lesið eftir hana staf og ég veit hvers vegna. Og nú ætla ég að reyna að útskýra það. 

Mér finnst svo erfitt að lesa smásögur, þær reyna svo á mig. Því betri sem þær eru, því meir reyna þær á mig. Mér finnst að ég þurfi að vera vel upplögð og hafa gott næði og tíma til að hugsa um þær í næði eftir á. Það versta sem eg geri er að tala um þær á eftir. Og nú er ég að tala um bókina hennar Alice Munro, Lífið að leysa. 

Það var bókaklúbburinn sem valdi þessa bók og ég er þakklát. Þetta er góð bók, hver saga er heill heimur og mér fannst eins og ég mætti ekki blikka auga, þá missti ég af einhverju og þá hryndi hann. En það er ekki erfitt að halda sig að lestrinum, því einhvern veginn tekst höfundi að gera þessa kyrrlátu veröld svo spennandi að hvað eftir annað tók ég eftir því að ég hélt niðri í öndinni. 

Alice Munro er fædd 1931 í Kanada. Hún elst upp í sveit og flestar þessar sögur hennar spegla tíma eftirstríðsáranna. Þetta eru ekki sögur mikilla átaka, að minnsta kosti ekki á yfirborðinu. Hver um sig lýsir þó heilli ævi. Allar þessar sögur hreyfa við tilfinningum og sumar láta mann ekki í friði löngu eftir að maður er búin að lesa þær. Þær búa með manni og vitja manns jafnvel í draumum manns. 

En ég er fegin að ég skuli vera búin að lesa þessa bók. Hún er þýdd af Silju Aðalsteinsdóttur og ég er viss um að það er vel gert úr því textinn hafði slík áhrif á mig. Silja Skrifar líka stuttan eftirmála þar sem hún segir frá höfundinum. Ég vildi óska að ég hefði lesið þetta á undan sögunum. Og þó, kannski truflar umhugsun um höfundinn bara  textann sem hann lætur frá sér.

Á meðan ég las velti ég fyrir mér undarlegri afstöðu minni til smásagna. Því miður hefur hún ekki breyst.


Dalalíf: Guðrún frá Lundi: Okkar eiginn Dallas

Hef lokið við að hlusta á 1. bókina af fimm af Dalalífi. Bókaklúbburinn, sem einu sinni hét bílskúrsklúbburinn, ákvað þetta. Það hafði komið fram tillaga um að lesa eitthvað ,,ramm" íslenskt og þetta varð niðurstaðan. Bókin var ekki á lausu í bókasafninu nema sem hljóðbók og ég sló til. Níu og hálfur tími sagði bókabörðurinn um leið og hann rétti mér diskinn. Það hefur trúlega komið einhver tortryggnisvipur á mig þvi hann bætti við:,,Hún les mjög hægt".

Ég hafði að vísu lesið þessa bók áður, því þær voru allar til hjá Lestrarfélagi Breiðdæla. Fyrst barst þó orðrómurinn. Hún Valborg í Tungufelli er búin að lesa fyrstu tvær bækurnar og nú bíður hún spennt eftir hinum þrem sem eru hjá Valborgu á Randversstöðum. Það er aldeilis að þær hafa tíma. Þegar bækurnar komu til okkar í Þrastahlíð, voru þær greinilega búnar að koma við á mörgum bæjum, því þær voru svo illa farnar að þær höfðu verið settar í kjötpoka (grisju), til að hindra að þær færu alveg í sundur og til að ekki týndust úr þeim blöð. Mér finnst í minningunni að það sem eftir var af bandinu hafi verið grænt. 

Ég hellti mér í lesturinn og allir sem á annað borð lásu bækur, lásu Dalalíf. Þegar menn svo hittust í heimilum eða á mannamótum töluðu menn um Dalalíf. Allir áttu sér sínar uppáhaldspersónur og svo greindi menn á um aðalpersónuna Jón á Nautaflötum. Ég hef líklega verið 10 ára gömul og ekki komin með þroska til að skynja ómótstæðilegan þokka draumaprinsa, því mér fannst óskiljanlegt hvernig stúlkurnar í sveitinni létu hann fara með sig. 

Seinna, eftir að ég var flutt að heiman og heimsótti sveitina mína á tímum Dallasseríunnar, hlustaði ég á samtöl sem voru alveg í sama anda. J. R. og Jón á Nautaflötum voru líkir um margt!

En til dagsins í dag og Dalalífs á diski. Ég setti diskinn í diskaspilarann í eldhúsinu og nú hófst lesturinn. Fyrst var lesinn örstuttur inngangur svo tók kvenrödd við og kynnti okkur fyrir sveitinni fólkinu á Nautaflötum. Mikið afskaplega les þessi stúlka vel hugsaði ég og vissulega les hún hægt. En það hæfir efninu. Það var enginn asi á fólki á þessum tíma. Konan sem les, heitir Þórunn Hjartardóttir.  

Ég hlustaði einungis á söguna í eldhúsinu og aldrei nema að ég væri að gera húsverk. Þetta er eins góður mælikvarði eins og hvað annað á hvernig þú verð tímanum, hugsaði ég.

Það kom mér mest á óvart hvað ég mundi söguna. Persónur, bæjarnöfn og atburðarás var ljóslifandi eins og ég hefði búið þarna. Í þetta skipti tók ég þó trúlega meira eftir tungutaki höfundar og efnistökum. Guðrún er afburðagóður sögumaður og hún kann sína íslensku. Ég lagði við eyrun og dáðist að því hversu vel henni tókst til við að lýsa störfum, sem nú eru framandi. Ég sá fólkið fyrir mér og hugsaði, mikið er nú gott að þessi vitneskja týnist ekki alveg. 

Nú er ég sem sagt búin með 1. bindi og komin heim með bindi tvö. Það er verst að ég man það allt of vel.

Líklega passar 2. bindið ágætlega fyrir jólaundirbúninginn. Ég hef aldrei tekið tímann á honum, en er ekki 16 klukkutimar og 50 mínútur nærri lagi?


Nóvembermyrkur: Þórðarsaga hreðu: Afsögn ráðherra

Hef setið við lestur Þórðarsögu hreðu í dimmum nóvembermánuði og fylgst með framvindu lekamálsins svokallaða. Þetta mál sem verður prófsteinn á hvort við búum í lýðræðissamfélagi með heilbrigða stjórnsýslu. 

Ástæðan fyrir því að ég datt inn í Þórðarsögu hreðu, var að ég hafði hlustað á fyrirlestur hjá Elisabeth Ida Ward, þar sem hún skoðar Þórðarsögu hreðu með tilliti til kenninga (Place versus space) hvernig menn sáu landið fyrir tíma landakorta. Elisabeth er hrífandi fyrirlesari. Þórðarsaga hreðu er ekki ofarlega í virðingarstiga Íslendingasagna. Hún fjallar um kappann Þórð hreðu sem kemur tiltölulega seint út til Íslands eftir að bróðir hans Klyppur hafði unnið sér það til óhelgis að vega Sigurð slefu Gunnhildarson og verið veginn sjálfur í kjölfarið.

Þórður kemur skipi sínu í Miðfjörð, en þar stendur veldi Miðfjarðar-Skeggja. Land er þá fullnumið. 

Þessi saga er skrýtin. Þórður er ofurhetja, hann ber af öðrum mönnum og fer létt með að kljúfa menn í herðar niður eða í tvenn eftir því sem við á.  Hann tjáir sig með dróttkvæðum vísum og er famúrskarandi húsa- og skipasmiður. Höfundur sögunnar segir þó lítið frá smíðum hans en fjallar því ýtarlegar um bardagana, sem eru margir. Þórður er syndur sem selur og er hetjuskap hans best líst þegar hann bjargar fólki fólki úr ísköldum sjó innan um klakahröngl. Það er reyndar lítið sagt frá lífi og búskaparháttum Þórðar sem ekki tengjast bardögum. Veröldin er merkilega tóm, rétt eins og veröldin í ofurhetjaleikjaheimi barnanna. Það eru einungis dróttkvæðu vísurnar sem ekki passa inn miðað við daginn í dag. 

Meðan á lestrinum stóð dundu á mér fréttir af öðruvísi bardögum, þar sem tekist er á með orðum en ekki með vopnum. Stundum er orðræðan beitt ekki síður en vopnin.  Mikið er ég nú fegin að að vera ekki stödd á söguöld eða í heimi ofurhetja. Reyndar kemur fyrir eitt merkilegt minni í Þórðarsögu hreðu, sem gæti haft tilvísun inn í nútímann. Þar er sagt frá vopninu Sköfnungi (eign Miðfjarðar-Skeggja). Sköfnun segur er þeirrar náttúru, að sé honum brugðið (þ.e. tekið úr slíðrinu) verður ekki aftur snúið, það þarf að  höggva. Stundum held ég að sambærilegir hlutir eigi sér stað í orðræðu. 

Lærdomurinn sem draga má af Þórðarsögu er því þessi. Það ber að hyggja vel að því hvenær beitt vopn eru dregin úr slíðrum, en það getur vissulega verið nauðsynlegt. 

Þórðarsaga hreðu er  áhugaverð lesning, ég tapaði mér í heimi ofurhetja og gleymdi að skoða hana með tilliti til kenninga Elisabeth Idu Ward um kortlausa landnámsmenn. Svona getur lífið verið villugjarnt. Þar gilda engin kort,enn að minnsta kosti.


Árni Magnússon frá Geitastekk: Ferðasaga 1753 -1797

Maðurinn minn hafði stungið bók Árna Magnússonar frá Geitastekk niður í tösku hjá sér fyrir Berlínarferð okkar. Þetta varð lesning mín í Berlín þessa viku. Ég hafði aldrei heyrt á bókina minnst og varð forvitin. Ætlaði fyrst bara að sjá hvað hér væri ferðinni en varð furðu lostin. Þvílík ævintýrabók. 

Bókin kom út á Íslandi (Bókaútgáfa Heimdallar) 1945 en hafði áður komið út í Danmörku 1918, í þýðingu Páls Eggerts Ólasonar. En, takið nú eftir, sagan er skrifuð af Árna sjálfum þegar hann er kominn á áttræðisaldur en hann er fæddur 1726 ( að því talið er). Þetta er ekki æfisaga og margt er óljóst um þennan mann.  Björn K. Þórólfsson skrifar formála að bókinni og setur m.a. fram n.k. tímatal út frá heimildum sem hann hefur aflað sér.

Þetta er sem sagt ferðasaga, sem virðist mestmegnis vera skráð eftir minni. Og þetta var nú ekki neitt smáferðalag. 

Ungur bóndi og tveggja barna faðir tekur sig upp frá bústörfum og siglir til Kapmannahafnar (með viðkomu í Noregi). Eftir að hafa, eftir því sem mér skildist verið í byggingarvinnu í Danmörku fer hann til þriggja ára dvalar á Grænlandi. Hann segir frá ferðum til fjarlægra landa og lýsir bæði hverdagslegum og ævintýralegum hlutum. Hann segir frá vinnu sinni og hernaði og rekur jafnvel í smáatriðum hvernig norsk húsmóðir eldar mjólkurgraut. Það merkilega við þessa bók er, að ég lesandinn þekki ekki þennan mann og veit ekki hvað honum gekk til að fara í þetta ferðalag. Ég vonast til að þetta skýrist við lesturinn og les áfram í gegnum þennan undarlega, oft illskiljanlega texta. Og svo hættir textinn allt í einu þar sem hann er að ségja frá brúðkaupi. 

En mér tókst ekki að finna út af hverju Árni lagði í þetta ferðalag, þó er hann opinskár um sjálfan sig. Hann ræðir reyndar hvað eftir annað um að hann búi yfir sorg og að  viðkvæmnis- og samviskumál íþyngi huga hans en hann vill það engum segja. Nú magnast forvitnin enn. Björn Karel segir í formála að hann hafi skömmu fyrir för eignast hórbarn en hann veit ekki hvort kona Árna er lífs eða liðin. Litla stúlkan, hórbarnið, lifði skammt og yngra barni sínu kemur hann fyrir hjá skyldfólki. Ef ég væri glæpasöguhöfundur myndi ég leita að glæp í þessari sögu. 

Gamli maðurinn sem skráði söguna fyrir fólkið sitt vestur í Dölum hafði frá mörgu að segja og hann vissi það tæpast sjálfur hversu merkileg ævintýri hans voru. 

Það voru trúlega ekki margir Íslendingarnir sem höfðu bæði verið mynstraðir i her Danakonungs og her Katrínar miklu. Og líklega hafði enginn Íslendingur áður farið til Kína. 

Formálahöfundur er líka að reyna að ráða í ástæður þessa flækings á manninum og getur sér þess til að hann hafi verið í leit að hamingu eða í leit að sjálfum sér. Björn segir jafnframt að hann hafi aldrei verið nær þessum markmiðum en þegar hann var barnakennari á Jótlandi í 17 ár. 

Já þessi bók er spennandi ráðgáta. Af hverju hafði enginn sagt mér frá henni? 

 


Er ekki múrinn allsstaðar?

Það var vel þegin framlenging á Berlínarferðinni að hlusta á viðtal Sigurlaugar Jónasdóttur við Ágúst Þór Árnason í Rúv í morgun. Ég hafði verið í Berlín í  viku og þar fór mikið fyrir umræðu um tíma Múrsins. 

Þegar spyrjandi Rúv spurði viðmælanda sinn "Er ekki Múrinn allstaðar", var ég næsta viss um að nú stæði til að draga lærdóm af þessari merkilegu reynslu. Leggja út af því hvnig múrar eru notaðir til að verja óréttlátt samfélag og og beita kúgun. Ég hélt að viðmælandi myndi grípa spurninguna á lofti og ræða um múrana í Ísrael.

Fyrsta fréttin sem ég heyrði þegar ég kom heim til Íslands var um, að Ísrel hefði ekki verið dæmt fyrir morð á 9 tyrkneskum aðgerðasinnum (einkennielegt orð) um borð í skipinu Mavi Marmara 2010 sem ætluðu færa fólkinu á Gaza nauðþurftir og rjúfa með því herkví Ísrelsmanna. Fatou Bensouda aðalsaksóknara stríðsglæpadómstólsins fannst þetta mál of smátt mál til að dæma í því. Ég velti því ósjálfrátt fyrir mér hvort sama hefði gilt ef aðgerðarsinnarnir hefðu verið t.d. Norðmenn eða Frakkar. 

Alþjóðasamfélagið sem svo oft er talað um hefur verið alveg ótrúlega þolinmótt þegar kemur að háttalagi (lesist, glæpum) Ísraeelsmanna. Annað var uppi á teningnum þegar kom að Múrnum í Berlín, enda hefur vöktun alþjóðasamfélagsins eflaust flýtt fyrir falli hans. Það er gott. Nú get ég ekkert sagt um hvort þessi niðurstaða saksóknarans sé eðlileg eður ei en ég fæ alltof oft á tilfinninguna að það sé ekki lögfræðin sem ráði niðurstöðum dóma heldur eitthvað allt annað

En aftur að viðtalinu um fall Múrsins sem fjallað var um í morgunútvarpinu. Viðtalið var í sjálfu sér gott, það var bara ég sem hleypti af stað væntingum um annað og öðruvísi viðtal. Líklega voru þessar væntingar tilkomnar vegna áhrifa frá Berlín og hugleiðingum sem hófust þar. Ég hugsaði stöðugt stöðugt, gætum við ekki lært eitthvað af þessu?

 

 

 


Stúlkan sem át brauðið mitt

Við hjónin brugðum okkur til Berlínar en við höfum ekki farið út fyrir landsteinana um nokkurt skeið.  Maðurinn minn hefur ekki verið ferðafær, beið eftir viðgerð á hné. Nú er hann stálsleginn (bókstaflega) og við höldum upp á það. 

Í gær skoðuðum við Berliner Dom og gengum upp marga stiga til að komst út á kirkjuþakið til að geta séð yfir þessa glæsilegu borg. Eftir að hafa gengið jafn margar tröppur niður fengum við okkur kaffi á torginu fyrir utan kirkjuna. 

Í Berlín, þessari ríku borg, er fátæktin miklu nær okkur en á Íslandi. Sólin skein. Mikið er af betlurum á þessu svæði og þeir fara ólíkar leiðir til að höfða til gjafmildis vegfarenda. Stúlka, sem gaf sig út fyrir að vera heyrnarlaus og kannski var hún það, hafði verið að snöltra í kringum mig. Kannski fann hún á sér að ég var fyrrverandi sérkennari. Ég var búin að gefa henni smápening, smánarpening, en nú kom hún allt í einu hrifsaði til sín það sem var eftir af vöfflunni á disknum mínum. Ég sá að hún var svöng. Ég hafði reyndar ætlað að leyfa þessu. Ég fann til með þessari stúlku. 

Nú er það ekki svo að mér finnist ég bera ábyrgð á óréttlæti heimsins en það kemur illa við mig að sjá það nakið og nærri mér. Heima á Íslandi er það fjarlægara þrátt fyrir að blaðamenn og þáttastjórnendur taki viðtöl við fólk sem lýsir reynslu sinni.

Á Íslandi hefur aldrei neinn fátæklingur borðað matinn af diskinum fyrir framan mig. Á íslandi borða þeir ríku af diskum fátæklinganna og við látum þá  komast upp með það. 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2014
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 64
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband